Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 maí 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Ítarleg umfjöllun er í Tímariti Morgunblaðsins í dag um átta ára forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Er þar fjallað einkum um aðdragandann að forsetaframboði Ólafs við forsetakosningarnar 1996, er hann var kjörinn eftirmaður Vigdísar Finnbogadóttur, embættisferil hans og deilur um ýmis störf hans. Árni Þórarinsson blaðamaður á Mogganum tekur saman og er um fyrri hluta að ræða, hefur gríðarlega mikil vinna verið lögð í þessa umfjöllun og er farið víða yfir og margt nýtt kemur fram í viðtölum. Það sem er athyglisverðast í fyrri hlutanum er án nokkurs vafa sú uppljóstrun eins af forsvarsmönnum framboðsins, um að hugmyndin að framboði Ólafs Ragnars hafi verið pólitísk tilraun, sem myndi leiða til annarrar niðurstöðu en til var stofnað. Er Ólafur tilkynnti um framboð sitt, 28. mars 1996, reiknuðu hvorki hörðustu stuðningsmenn hans né andstæðingar með því að hann myndi ná kjöri til embættisins. Framboðið var því öðru fremur ætlað sem pólitískt baráttutæki fyrir hans hönd, sameiningarmálstaðar vinstri manna og áframhaldandi þátttöku hans í landsmálapólitík. Með því hafi hann ætlað að tryggja sig í sessi sem forystumann vinstri manna í þingkosningunum 1999 og leiða fyrstur manna, Samfylkingu vinstri manna sem var í burðarliðnum. Hvet ég alla til að lesa þessa vönduðu umfjöllun. Sem fyrr stendur Mogginn sig vel í vandaðri blaðamennsku.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ helgarpistli sínum að þessu sinni fjallar Björn um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar, fjölmiðlafrumvarpið og samþykkt útlendingafrumvarps í vikunni. Mjög góðir punktar koma fram hjá Birni í umfjöllun um fjölmiðlamálið er hann fer yfir hvernig Samfylkingin hefur snúist í málinu á skömmum tíma, eins og hennar er von og vísa. Orðrétt segir í pistlinum um t.d. um samþykkt útlendingafrumvarpsins: Ég tel mikils virði, að alþingi samþykkti frumvarpið óbreytt. Orðalagi á einstökum greinum var breytt lítillega við meðferð í nefnd, eins og venjulegt er um mál, þótt þau séu ekki jafnmikið undir smásjánni og þetta. Við framkvæmd laganna mun best koma í ljós, hve fráleit gagnrýni á þau hefur verið. Lögin verða ekki til þess að þrengja að neinum, sem hefur allt sitt á hreinu. Þau auðvelda hins vegar yfirvöldum að grípa til ráðstafana gegn þeim, sem eru að stunda blekkingar, til dæmis með málamyndahjúskap. Að túlka lögin sem aðför að útlendingum eða ungu, ástföngnu fólki er til marks um málefnafátækt og viðleitni til að breiða yfir skortinn með því að höfða til tilfinninga." Góður pistill, venju samkvæmt.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um eignarhald fjölmiðla og vísa þar ennfremur til hringferða Samfylkingarinnar í þessum málum og greini frá afstöðu minni til ýmissa mála tengdu frumvarpinu. Fjölmiðill sem hið fjórða vald er nú sem ávallt fyrr gríðarlega mikilvægt afl og standa verður vörð um eðlilega fjölmiðlun og koma í veg fyrir fákeppni þar, að mínu mati. Sannfæring mín segir mér að taka verði á þessum málum og feta sömu slóð og nágrannaþjóðir okkar og hafa leikreglur á þessu sviði mjög skýrar. Það jákvæðasta við frumvarpið er að það leiðir til þess að mikilvæg uppstokkun getur farið fram á RÚV, en ég hef oft tjáð þá skoðun mína að sú stofnun sé með öllu óþörf og að afskipti ríkisins af fjölmiðlun sé með öllu óþörf. Fyrst þetta skref er tímabært er varla hægt að þverskallast lengur við því að hætta ríkisfjölmiðlun. Er mikilvægt að unnið verði nú af krafti að því að stokka upp rekstur RÚV og færa hann til framtíðar. Ennfremur fjalla ég um 13 ára forsætisráðherraferil Davíðs Oddssonar og undarleg skrif fjölmiðlamanns um hann í tilefni þessa afmælis. Að lokum fjalla ég um útlendingalögin, en þau voru samþykkt á Alþingi sl. föstudag.

Gísli MarteinnGott laugardagskvöld
Horfðum eftir fréttirnar á Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Virkilega fínn þáttur núna hjá Gísla. Aðalgesturinn var Þorsteinn J. Vilhjálmsson sjónvarpsmaður. Ræddu þeir Gísli um fjölmiðlaferil Þorsteins sem hefur starfað bæði í útvarpi og sjónvarpi seinustu tvo áratugi, en er eflaust best þekktur fyrir að hafa um fjögurra ára skeið stjórnað þættinum Viltu vinna milljón? Ennfremur voru Halldóra Geirharðsdóttir leikkona og Viðar Eggertsson leikstjóri, gestir í þættinum. Fínt spjall. Gaman var að sjá gamla klippu þar sem var fjallað um leikverkið Ofvita sem Halldóra lék í árið 1979, en þar voru mörg fræg andlit. Litum á lokaþátt Spaugstofunnar þennan veturinn því næst. Litu nokkrir vinir í heimsókn og við fengum okkur pizzu og ræddum saman helstu málin. Eftir það var haldið út og litið á stemmninguna í bænum. Fínt kvöld.

Dagurinn í dag
1945 Sovétmenn hernema Berlín, tveim dögum eftir dauða Hitlers - stríðið að mestu á enda
1970 Búrfellsvirkjun, stærsta vatnsorkuver Íslendinga, vígt við hátíðlega athöfn
1972 Vinstrisinnaðir mótmælendur reyna að meina William Rogers utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðgang að Árnastofnun og Bessastöðum vegna Víetnamstríðsins
1992 Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, undirritar EES samninginn af hálfu Íslands, í Oporto í Portúgal - samningurinn var alls um 20.000 blaðsíður og tók hann gildi 1. janúar 1994
1997 18 ára valdatíð hægrimanna á Bretlandi lýkur - Tony Blair verður forsætisráðherra Bretlands eftir stórsigur Verkamannaflokksins í þingkosningum daginn áður

Snjallyrði dagsins
Líf, frelsi og eignir eru ekki afleiðingar lagasetningar, heldur eru lögin sett þeim til varnar.
Frederic Bastiat