Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 júní 2004

Ronald Reagan forseti (1911-2004)Ronald Reagan (1911-2004)
Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, var jarðsunginn í þjóðardómkirkjunni í Washington í dag. Á fjórða þúsund manns vottaði forsetanum virðingu sína við athöfnina sem var stórglæsileg og var á allan hátt svo viðeigandi þegar kvaddur er hinsta sinni maður sem hefur sett jafn jákvætt mark á líf svo margra eins og Reagan forseti gerði. Fjórir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna: Bill Clinton, George Bush, Jimmy Carter og Gerald Ford vottuðu Reagan virðingu sína ásamt eiginkonum sínum. Ennfremur voru viðstaddir embættismenn ríkisstjórna Reagans og samverkamenn á vettvangi stjórnmála og leiklistar í gegnum tíðina. Minningarorð fluttu George W. Bush forseti Bandaríkjanna, George Bush varaforseti Reagan stjórnarinnar og eftirmaður hans á forsetastóli, Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, og Brian Mulroney fyrrum forsætisráðherra Kanada. Í tignarlegum ræðum sínum lýstu þau öll vel mannkostum Reagans og kraftmikilli forystu hans, hvort sem um var að ræða á vettvangi stjórnmála og eða leiklistar. Að athöfninni lokinni var kista forsetans flutt til Andrews herflugvallarins, sem er skammt frá Washington. Þaðan flaug forsetaflugvélin, Air Force One, með kistuna til Kaliforníu. Hinsta för Reagans mun ljúka í kvöld við forsetabókasafn hans í Simi-dalnum, þar mun hann verða jarðsettur við sólsetur. Grafreiturinn hefur útsýni yfir Kyrrahafið, valdi Reagan staðinn sjálfur á níunda áratugnum. Merkum og glæsilegum kafla í sögu Bandaríkjanna er nú lokið. Leiðtoginn hefur kvatt hinsta sinni og verður hans minnst alla tíð. Aldrei mun fenna í fótspor mikilmennis, var eitt sinn sagt. Þau merku orð eiga vel við þennan glæsilega leiðtoga hægrimanna á vettvangi alþjóðastjórnmála, á kveðjustund.

Ronald Reagan forseti (1911-2004)Í ítarlegum pistli mínum á frelsi.is í dag, fjalla ég um ævi og stjórnmálaferil Ronalds Reagans fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem var kvaddur hinstu kveðju í dag. Við hæfi er að við sem aðhyllumst frelsi og hægristefnu í stjórnmálum kveðjum þennan mikla leiðtoga okkar stefnu og forystumann hugsjóna okkar í utanríkismálum með þeirri virðingu sem hann á skilið. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gegn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum Reagans forseta. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Minnst er nú heilsteypts og trausts manns sem hafði mikil áhrif á sögu seinni hluta 20. aldarinnar. Hann leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Hægrimenn um allan heim kveðja hinstu kveðju einn fremsta leiðtoga sinn á 20. öld með mikilli virðingu. Minningin um manninn sem sigraði kommúnismann mun ávallt lifa.

Áhugavert á Netinu
Jarðarför Ronalds Reagans forseta - 11. júní 2004
Ronald Reagan forseti, kvaddur - pistill Stefáns Friðriks Stefánssonar
Ronald Reagan kvaddur hinsta sinni við tignarlega athöfn í Washington og Kaliforníu
Eftirminnilegustu ræður Ronalds Reagans á forsetastóli 1981-1989
Minningarræða George W. Bush forseta Bandaríkjanna, til heiðurs Ronald Reagan
Ronald Reagan varð að tákni Bandaríkjanna - umfjöllun um ræðu Bush forseta
Minningarræða Margaret Thatcher til heiðurs Ronald Reagan forseta
Minningarræða George H. W. Bush forseta, um Ronald Reagan forseta
Minningarræða Brian Mulroney um Ronald Wilson Reagan forseta
Um Herdísi, nefndarmenn og kennara - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Ástþór vill að forsetakosningum verði frestað - kærir RÚV fyrir ritskoðun
Verkamannaflokkurinn geldur afhroð í byggðakosningum í Bretlandi
Hversu slæm eru úrslit kosninganna fyrir Tony Blair forsætisráðherra?
Bankastjórn Seðlabankans gerir ráð fyrir vaxtahækkunum á næstunni
Dvínandi áhugi fyrir Evrópusambandsaðild í Noregi, skv. skoðanakönnun
Reykjanesbær fagnar 10 ára afmæli sínu - afmælishátíð bæjarins
Tónlistarmaðurinn Ray Charles látinn, 73 ára að aldri - Ray Charles minnst
Andy Serkis mun túlka King Kong, en hann gerði Gollum ódauðlegan í LOTR
Leikkonan Meryl Streep heiðruð fyrir glæsilegan leikferil sinn
Fótboltaveislan að hefjast - EM í knattspyrnu hefst í Portúgal á morgun

Dagurinn í dag
1928 Fyrsta áætlunarflugið milli Akureyrar og Reykjavíkur - flogið fyrst með sjóflugvélinni Súlunni, en hún tók fimm farþega. Var þá ekki annað hægt en að lenda á sjófletinum við bæinn. Flugvöllur reis við Akureyri loks árið 1952. Nú, 76 árum síðar, er flogið á milli Akureyrar og Reykjavíkur 7 sinnum á dag og sætaframboðið er mun ríflegra nú en árið 1928
1935 Auður Auðuns lauk lögfræðiprófi fyrst íslenskra kvenna - Auður varð fyrst kvenna borgarstjóri í Reykjavík og ráðherra, að auki var hún forseti borgarstjórnar Reykjavíkur
1987 Margaret Thatcher leiðir breska Íhaldsflokkinn til þriðja kosningasigurs síns í þingkosningum í Bretlandi - hún var eini stjórnmálamaður Bretlands á 20. öld sem afrekaði að vinna þrjár kosningar í röð og sá eini til þessa í sögu landsins - Thatcher sat á valdastóli til 28. nóvember 1990 og Íhaldsflokkurinn vann fjórðu kosningarnar 1992, leiddi stjórn til 1997
2001 Timothy McVeigh tekinn af lífi í alríkisfangelsinu í Terre Haute í Indiana - hann var dæmdur til dauða fyrir sprengjutilræðið við stjórnsýslubygginguna í Oklahoma í apríl 1995
2004 Ronald Reagan 40. forseti Bandaríkjanna, jarðsunginn í dómkirkjunni í Washington og jarðsettur við sólsetur við forsetabókasafn sitt í Simi-dalnum í Kaliforníu

Morgundagurinn
1935 Huey Long öldungadeildarþingmaður, flytur lengstu ræðu í sögu þingsins - stóð í 15 tíma
1987 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og skorar á Mikhail Gorbachev Sovétleiðtoga, að fella múrinn - hann féll loks 9. nóvember 1989
1991 Boris Yeltsin kjörinn forseti Rússlands - var umdeildur þjóðarleiðtogi en náði þó að ávinna sér virðingu vestrænna þjóðarleiðtoga. Yeltsin sagði af sér 31. desember 1999 til að tryggja vænlega stöðu valins eftirmanns síns, Vladimir Putin sem tók við forsetaembættinu
1994 Nicole Brown Simpson og Ron Goldman myrt við heimili hennar í Los Angeles. Fyrrum eiginmaður Nicole, O.J. Simpson, var sakaður um morðin og réttað yfir honum í beinni útsendingu sjónvarpsstöðva - umdeilt þótti mjög er hann var sýknaður í október 1995
2003 Óskarsverðlaunaleikarinn Gregory Peck deyr á heimili sínu í Los Angeles, 87 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
We will always remember. We will always be proud. We will always be prepared, so we may always be free.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)