Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 júlí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Halldór Blöndal forseti Alþingis, úrskurðaði í upphafi þingfundar í morgun að nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald á fjölmiðlum væri þinglegt. Höfðu formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar farið fram á þennan úrskurð. Hófst fyrsta umræða um frumvarpið að lokinni umræðu um fundarstjórn forseta þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar réðust harkalega að ríkisstjórninni. Voru harkaleg átök á þingi og tækifærismennska stjórnarandstöðunnar heldur áfram, af enn meiri krafti en áður, og þótti þó mörgum nóg um áður. Í gærkvöldi ræddu Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, og Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, þetta mál. Minnti Siggi Kári á ræðu Steingríms á þingi frá 3. maí sl. þar sem hann minnist á að málið myndi líta allt öðruvísi út ef um væri að ræða að hámarkseignarhluti markaðsráðandi fyrirtækja í fjölmiðlafyrirtæki yrði hækkaður úr 5% í 10% og kosningar færu fram fyrir gildistöku laganna. Þessum kröfum hefur eins og kunnugt er, verið mætt nú í nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Samt hamast Steingrímur gegn þessum tillögum og lætur eins og óður maður sé. Framkoma Steingríms vekur athygli, enda sást vel í fyrrnefndu viðtali að hann fór undan í flæmingi við að svara Sigga og reyndi að eyða talinu. Trúverðugleiki Steingríms sem stjórnmálamanns hefur dalað mjög seinustu mánuði, má í raun segja að hann hafi gengið gegn öllu sem hann hefur sagt og opinberast hefur að hann hefur litla stjórn á sér. Það er skondið að formaður róttækra vinstrimanna á Íslandi sé orðinn talsmaður auðvaldsins eða nokkurra stóreignarmanna í þessu fjölmiðlamáli. Já, það er margt skondið í henni veröld.

Thomas Klestil (1932-2004)Thomas Klestil forseti Austurríkis, lést í gærkvöldi, 71 árs að aldri. Hann var fluttur á sjúkrahús í Vín á mánudagsmorgun eftir að hafa fengið hjartaáfall á heimili sínu í Vín. Fljótt varð ljóst að hann lægi banaleguna, enda tilkynntu læknar að mikilvæg líffæri forsetans væru að gefa sig. Hann komst aldrei til meðvitundar eftir hjartaáfallið. Wolfgang Schüssel kanslari, tók við forsetaembættinu af Klestil á mánudagsmorgun og gegndi embættinu þar til Klestil lést. Forseti austurríska þingsins mun gegna embættinu til hádegis á morgun er Heinz Fischer, er kjörinn var forseti Austurríkis í apríl, mun taka formlega við embættinu. Thomas Klestil forseti, fæddist í Vín, 4. nóvember 1932. Hann var hagfræðimenntaður og gegndi störfum í utanríkisþjónustunni til fjölda ára, var t.d. sendiherra Austurríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann var kjörinn forseti Austurríkis í apríl 1992 og tók við embætti 8. júlí 1992. Austurríska forsetaembættið er valdalítið að eðlisfari, en áhrifamikið. Forseti landsins er oftast tengdur stjórnmálaflokkunum, semsagt pólitísk kosning, og forsetinn hefur oft verið fyrrum stjórnmálamaður, en hefð er fyrir því að forsetinn blandi sér ekki í málefni þingsins eða þjóðmál með beinum hætti. Klestil var alla tíð mjög hægrisinnaður og fulltrúi hægriafla í forsetakosningunum 1992 og 1998, sem hann sigraði í. Hann fór þó ekki leynt með andúð sína á stjórnarmyndun hins hægrisinnaða Þjóðarflokks (sem hann tilheyrði) og Frelsisflokks Jörg Haider, árið 2000. Telja má líklegt að afstaða hans hafi leitt til þess að Haider varð ekki ráðherra í stjórninni. Klestil átti að láta af embætti á morgun, hann bauð sig ekki fram í forsetakjöri í apríl, enda má forseti Austurríkis í mesta lagi sitja tvö sex ára kjörtímabil. Þjóðarsorg er í Austurríki vegna fráfalls forsetans.

A Streetcar Named DesireMeistaraverk - A Streetcar Named Desire
A Streetcar Named Desire eftir Tennessee Williams er ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann kvikmynd eftir sögunni. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu, varð einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Eitt af gullaldarmeistaraverkum Hollywood, að mínu mati besta kvikmyndin með snillingnum Marlon Brando, sem lést í síðustu viku.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Ekkert bólar á tillögum stjórnarandstöðunnar? - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar - pistill Jóns Hákons Halldórssonar
Rætt við Davíð Oddsson um leiðtogafundinn - umfjöllun um fund Davíðs og Bush
Blaðamannafundur Bush og Davíðs - gagnlegur umræðufundur í Hvíta húsinu
Halldór Ásgrímsson ræðir um varnarmálin og leiðtogafundinn í Washington
Halldór Blöndal forseti Alþingis, úrskurðar að fjölmiðlafrumvarpið sé þinglegt
Fjörugar umræður um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar á Alþingi í morgun
Ef forseti skrifar ekki undir nú vakir eitthvað annað fyrir en áður - Geir Haarde
Thomas Klestil forseti Austurríkis, látinn, 71 árs að aldri - æviágrip Klestil
Kosningabarátta Kerry-Edwards hefst formlega - halda í kosningaferðalag
John Kerry gagnrýndur fyrir að hafa valið nær óreyndan stjórnmálamann
John Kerry og John Edwards hitta fréttamenn - 4 mánuðir í forsetakosningar
John Kerry tilkynnir formlega val sitt á varaforsetaefni - viðbrögð við því
Fischler ítrekar að engar undanþágur fáist frá sjávarútvegsstefnu ESB
Nýdönsk með tónleika með Sinfóníunni, en án Daníels Ágústs Haraldssonar
Michael Moore íhugar að gera 'heimildarmynd' um Tony Blair á næstunni
Bandaríski söngleikurinn Hárið, frumsýndur í Austurbæ í kvöld - á alltaf vel við
Real Madrid býður í Milan Baros, tékkneska knattspyrnumanninn hjá Liverpool
Ralf Schumacher skrifar undir þriggja ára samning við Toyota - fer frá Williams
Lík Brando brennt eftir kveðjuathöfn þar sem nánustu ættingjar komu saman

Dagurinn í dag
1917 Ríkisstjórn kommúnista mynduð í Rússlandi, eftir að keisaranum var steypt
1954 Lag með Elvis Presley spilað í fyrsta skipti í útvarpi - tónlist Elvis markaði þáttaskil
1967 Óskarsverðlaunaleikkonan Vivien Leigh deyr í London, 53 ára að aldri. Á 30 ára leikferli sínum hlaut hún tvisvar óskarsverðlaun: fyrir túlkun sína á Scarlett O'Hara í Gone with the Wind og Blanche í A Streetcar Named Desire. Var um tíma gift leikaranum Sir Laurence Olivier
1983 Ray Charles, konungur soultónlistarinnar, hélt tónleika á Íslandi - hann lést 2004
1996 Vesturfarasetrið opnað á Hofsósi - safn um vesturferðir Íslendinga á 19. öld

Snjallyrði dagsins
Television has proved that people will look at anything rather than each other.
Ann Landers bandarískur pistlahöfundur (1918-2002)