Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 júlí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Hlægilegt hefur verið að fylgjast með stjórnarandstöðunni undanfarna daga. Við málsmeðferð fjölmiðlafrumvarpsins í vor kvörtuðu forystumenn stjórnarandstöðunnar undan því að of skammur tími væri gefinn til að afgreiða málið. Nú þegar sama mál er til umræðu í allsherjarnefnd kvartar stjórnarandstaðan undan því að málið sé í rólegum farvegi og vill að því sé hraðað í gegnum þingið. Eins og ég hef oft bent á, hér á þessum vettvangi, er þessi skoðun stjórnarandstöðunnar helguð af því að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna vilja ekki ræða efnisatriði málsins eða vilja eyða tíma í að taka umræðuna beint um efni lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum. Eins og fram hefur komið hafa breytingar á frumvarpinu gengið mjög nærri því sem forystumenn tveggja af þrem stjórnarandstöðuflokkunum höfðu rætt um, og er því andstaða þeirra við nýtt frumvarp stórundarleg og helgast af tækifærismennsku. Á öll þessi atriði hef ég minnst áður og tel rétt að benda á þetta enn einu sinni, enda verður þetta sífellt greinilegra. Stjórnarandstaðan hefur nú um helgina verið í fýlu yfir því að stjórnarflokkarnir nái vænlegri lausn í fjölmiðlamálinu og hafa ásamt vissum fjölmiðlum reynt að magna upp umræðu um ágreining um málið innan stjórnarmeirihlutans. Í dag ræddu formenn stjórnarflokkanna saman og ljóst að niðurstaða þeirra verður kynnt á morgun og liggur þá fyrir hver næstu skref ríkisstjórnarinnar í málinu verða.

Íslenski fáninnÍ dag eru tvö ár liðin frá því að samningar voru undirritaðir um álver við Reyðarfjörð og virkjun við Kárahnjúka. Um er að ræða mikinn hátíðisdag fyrir Austfirðinga, en sú breyting varð þó á vinnsluferlinu frá þeim tíma að Norsk Hydro dró sig út úr málinu og Alcoa kom í staðinn og mun álver á þeirra vegum verða að veruleika við Reyðarfjörð árið 2007. Í dag hvatti Náttúruvaktin landsmenn til að flagga í hálfa stöng, bæði til að lýsa andstöðu við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og minna á það að þennan dag árið 1998 flaggaði Guðmundur Páll Ólafsson rithöfundur og náttúrufræðingur, í hálfa stöng til að mótmæla því að Fögruhverum væri sökkt. Allt frá því hafa landverðir og skálaverðir á hálendinu haft þennan hátt á og mótmæla stefnu stjórnvalda í umhverfismálum. Er ástæða til að mótmæla þessari hvatningu og þess í stað hvetja alla landsmenn til að flagga í heila stöng í dag, til að minnast þeirra miklu tímamóta þegar endanlega varð ljóst að álver myndi rísa við Reyðarfjörð, landsmönnum og einkum íbúum Norðausturkjördæmis alls til heilla. Þessi dagur er hátíðisdagur Austfirðinga jafnt sem okkar allra í kjördæminu. Ég gef lítið fyrir niðurrifsraddir þeirra sem eru andvígir framkvæmdum fyrir austan og samfagna Austfirðingum með stöðu mála, þeir eiga svo sannarlega skilið þann uppgang sem þar er.

ShrekKvikmyndaumfjöllun - Shrek 2
Græna tröllið Shrek snýr nú aftur á hvíta tjaldið, hress og glaður að vanda. Hann kætti alla kvikmyndaunnendur árið 2001 í drepfyndinni tölvuteiknimynd, sem sló hressilega í gegn. Framhaldsmyndin er stórfengleg að öllu leyti og gefur þeirri fyrri ekkert eftir. Í upphafi er Fiona prinsessa staðráðin í því að fara nú heim til foreldra sinna eftir að hafa verið bjargað úr prísundinni af Shrek og vinum hans í fyrri myndinni. Shrek er ekki alltof hrifinn af því að fara og hitta tengdaforeldra sína en lætur það eftir ástinni sinni. Faðir Fionu vill ekki sjá Shrek sem tengdason og sættir sig enn síður við að fallega dóttirin sé orðin að skessu. Ekki bætir það svo úr skák að fláráð Álfadís hefur hreðjatak á konunginum og hafði gert samkomulag við hann um að Fiona giftist Draumaprinsinum, syni sínum. Kóngurinn bregður því á það ráð að fá leigumorðingja, Stígvélaða köttinn, til þess að koma Shrek fyrir kattarnef. Málin þróast þó í óvæntar áttir og ekki fer allt eins og stefnt er að. Mike Myers fer sem fyrr á kostum í hlutverki Shrek, Eddie Murphy er kostulegur sem asninn og Cameron Diaz heillandi sem Fiona. En það er ekki á neinn hallað þó ég fullyrði að Antonio Banderas steli senunni í hlutverki Stígavélakattarins. Julie Andrews og John Cleese eru stórfengleg í hlutverkum konungshjónanna. Þetta er einstaklega góð mynd, viðeigandi fyrir alla fjölskylduna og þá sem unna góðum húmor og vandaðri kvikmyndagerð. Brandararnir ættu að hitta á réttar nótur hjá kvikmyndaáhorfendum, enda alveg einstaklega vel heppnaðir. Þeirra sem sjá Shrek 2 bíður heillandi og skemmtileg kvöldskemmtun. Ég mæli með henni við alla þá sem hafa góðan húmor og vilja skemmta sér vel á góðu kvöldi.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Helgarpistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra - 18. júlí 2004
Orðrómurinn um árásir á Eirík og flaggað á hálendinu - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Um ESB og tollana og ráðvillta stjórnarandstöðu - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Vændisumræða og frjálslyndi í Bretlandi - pistill Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur
Athugasemdir við athugasemdir á ungkratavefnum politik.is - pistill á frelsi.is
Tekið úr einum vasanum... - pistill Egils Heiðars Bragasonar á Íslendingi
Niðurstaða verður kynnt í fjölmiðlamálinu á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið
Allt í upplausnarástandi á Gaza - Arafat bakkar í valdastríði á Vesturbakkanum
Flokksþing Demókrataflokksins hefst í Boston í Massachusetts í næstu viku
Kosningabaráttan í Bandaríkjunum harðnar - ný og beinskeytt auglýsing frá Bush
Hillary Rodham Clinton mun kynna eiginmann sinn á flokksþinginu í Boston
Dick Cheney segist ekki vera að hætta í stjórnmálum - hvar er Rumsfeld?
Gerhard Schröder lofar þá sem reyndu að ráða Hitler af dögum fyrir 60 árum
Öryggisskjöl breskra stjórnvalda hverfa sporlaust - rannsókn fyrirskipuð á málinu
Drudge Report gerir grín að hrukkunum á John Kerry forsetaframbjóðanda
Bandarísku forsetaframbjóðendurnir berjast um að safna sem mestum peningum
Nelson Mandela heldur upp á 86 ára afmælið í Qunu með lágstemmdum hætti
Enski boltinn rúllar á Skjá einum í ágúst - kurr í sumum / Singer leikstýrir Superman
Joe Carnahan hættir við að leikstýra Mission: Impossible 3 - leitað nú að öðrum
Hrafn Jökulsson blaðamaður, selur allt bókasafnið sitt fyrir mjög góðan málstað
Óvíst hvar Wayne Rooney mun spila - sögusagnir um sölu á honum háværar

Dagurinn í dag
1813 Gengið á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk á Öræfajökli, í fyrsta skipti
1953 Minnismerki um Stephan G. Stephansson skáld, vígt á Vatnsskarði í Skagafirði
1989 Bygging þyrlupalls í Kolbeinsey hófst - Kolbeinsey er nú að mestu horfin í sæ
2001 Árni Johnsen tilkynnir að hann muni segja af sér þingmennsku vegna hneykslismáls
2001 Davíð Oddsson hafði á þessum degi gegnt embætti forsætisráðherra lengur en nokkur annar Íslendingur: í 10 ár, 2 mánuði og 20 daga. Áætlað er að Davíð muni láta af embætti forsætisráðherra 15. september nk. Þá hefur hann setið í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga

Snjallyrði dagsins
Do what you feel in your heart to be right - for you'll be criticized anyway. You'll be damned if you do, and damned if you don't.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)