Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 júlí 2004

RíkisstjórnHeitast í umræðunni
Þung undiralda virðist nú vera innan Framsóknarflokksins í þá átt að draga eigi fjölmiðlafrumvarpið til baka og bíða með málið þar til í haust, eftir uppstokkun í ríkisstjórninni. Ef sú krafa kemur upp er með öllu ómögulegt að spá til um endalok þess máls. Ég hef talið eðlilegt að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum og hef litið á nýtt frumvarp sem útrétta sáttarhönd til aðila málsins og hægt verði jafnvel að vinna frumvarpið lengur eftir samþykkt þess og t.d. taka þætti þess upp fyrir gildistöku árið 2007 og ræða málið enn betur í fjölmiðlanefnd með þá aðkomu stjórnarandstöðunnar, en allt vinnsluferli málsins hefur algjörlega skort efnislega umræðu af hennar hálfu og er svo enn. Ég hef sjálfur nefnt málefni Ríkisútvarpsins t.d. sem einn þátt sem verði að koma á hreint samhliða fjölmiðlalögum og lagt áherslu á að taka rekstur þess fyrir, enda með öllu óeðlilegt að undanskilja ríkisfjölmiðilinn í fjölmiðlalögum. Framsóknarmenn hafa á undanförnum mánuðum reynst nokkur ólíkindatól í samstarfinu, skemmst er að minnast þess að þeir lögðust gegn því að lagðar yrðu fram formlegar skattatillögur fyrir þinglok í vor. Vel má vera að reyni nú á stjórnarsamstarfið, en vonandi næst lausn sem kemur sér vel fyrir báða flokka. Þetta mun ráðast á næstu dögum, enda skilar allsherjarnefnd brátt af sér áliti sínu fyrir aðra umræðu fjölmiðlafrumvarps.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og formaður EvrópunefndarinnarDavíð Oddsson forsætisráðherra, skipaði í gær nefnd um Evrópumál. Helsta hlutverk hennar verður að kanna framkvæmd EES-samningsins, hvort og þá hverskonar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru helstu kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka á Alþingi en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, er formaður nefndarinnar. Auk hans er Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi flokksins. Þingmennirnir Hjálmar Árnason og Jónína Bjartmarz sitja í nefndinni af hálfu Framsóknarflokksins, Össur Skarphéðinsson og Bryndís Hlöðversdóttir eru fulltrúar Samfylkingarinnar, Ragnar Arnalds formaður Heimssýnar og fyrrum ráðherra, og Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eru fulltrúar VG og Brynjar Sindri Sigurðsson er fulltrúi Frjálslynda flokksins. Jákvætt skref er að þverpólitísk nefnd ræði þessi mál og fari yfir helstu álitamál þessu tengd. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að Íslendingar eigi ekki að ganga í ESB, og hef verið í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, allt frá stofnun sumarið 2002 og tek þátt í starfinu þar. Ég tel þó nauðsynlegt að málin verði rædd og fagna því að forsætisráðherra hafi skipað nefndina og fagna málefnalegri umræðu um kosti og galla ESB-aðildar.

JFKPólitískt bíó - JFK
Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Um þetta mikla hitamál var fjallað í kvikmyndinni JFK árið 1991. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli. Er fátt meira viðeigandi nú í miðri kosningabaráttunni um valdamesta embætti stjórnmálaheimsins, forsetaembættinu í Bandaríkjunum, en kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Umfjöllun um álit sérfræðinga á fjölmiðlafrumvarpi - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Hvað sögðu stjórnarandstæðingar um frumvarp í maí - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Innskot í ritdeilu framsóknarmanna og vinstrigrænna - pistill Hafsteins Þórs
Fólk sem ekki er sjálfstæðisfólk er ekki fólk - pistill Benedikts Jóhannessonar
Umdeildur pistill Árna Þórs Sigurðssonar borgarfulltrúa, um sveitarstjórnarmál
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ræðst að Kerry á kosningaferðalagi
Dóttir Bush forseta á kosningaferðalagi - dætur forsetans ræða við fjölmiðla
Umfjöllun í allsherjarnefnd að ljúka - búist við litlum breytingum á frumvarpi
Butler skellir ekki skuldinni á Blair vegna Íraksmálsins - Tony Blair þó rúinn trausti
Engin skólagjöld í grunnnámi, líklegt að setja skólagjöld á nemendur í framhaldsnámi
José Manuel Barroso verðandi forseti ESB, gagnrýnir harðlega Bandaríkjastjórn
Aukakosningar verða í tveim einmenningskjördæmum í Bretlandi á morgun
Hillary Rodham Clinton ekki boðið að ávarpa flokksþing demókrata í Boston
Marta Sahagun forsetafrú Mexíkó, fórnar stjórnmálaframa fyrir eiginmann sinn
Þjóðaratkvæðagreiðsla verður í Frakklandi um fyrirhugaða stjórnarskrá ESB
Með þér - sungið af Ragga Bjarna / Lifi ljósið - frábært lag úr söngleiknum Hárinu
Akureyringurinn Sveinn Heiðar byggir á Reyðarfirði - gleðiefni hversu vel gengur þar
Breskar konur hafa merkilegan smekk ef marka má þennan skondna vinsældalista
Bandarískir kjósendur telja Bush ákveðinn leiðtoga en að Kerry sé útsmoginn
Repúblikanar hættir að borða Heinz tómatsósu - borða núna í staðinn W tómatsósu

Dagurinn í dag
1953 Fjöldamorðinginn John Reginald Christie tekinn af lífi - seinasta aftakan í Bretlandi
1959 Jazzsöngkonan Billie Holliday lést í New York, 44 ára að aldri - þessi einstaka söngkona vann hug og hjörtu tónlistarheimsins á fjórða áratugnum, hún lést þó slypp og snauð
1964 Barry Goldwater öldungadeildarþingmaður útnefndur forsetaefni repúblikanaflokksins
1997 Ítalski tískukóngurinn Gianni Versace myrtur við heimili sitt í Miami í Flórída
1999 Nýja Bláa lónið í Svartsengi, formlega tekið í notkun - glæsileg heilsulind

Snjallyrði dagsins
Og ekki verður það af Ólafi Ragnari Grímssyni skafið að hann var atvinnumaður í pólitískum áróðursbrögðum og hikaði aldrei við að snúa staðreyndum á haus, ef það mætti verða til framdráttar röngum málstað.
Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra (í ævisögu Jóns, Tilhugalífi - 2002)