Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 júlí 2004

Teresa Heinz KerryHeitast í umræðunni
Á öðrum degi flokksþings Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts, snerist allt um að kynna forsetaframbjóðandann John Kerry, kosti hans sem persónu og stefnumál fyrir kjósendum. Það hefur sannast á flokksþinginu að helsti tilgangur þess er að kynna upp frambjóðendur, um er að ræða gríðarlega vel skipulagða fjölmiðlasamkundu þar sem fram kemur nær einvörðungu einhliða málflutningur um frambjóðendur og stefnuna sem mörkuð hefur. Engin málefnavinna fer fram á þinginu, ákveðin stefna er lögð fram og hún er ákveðin án afskipta þingfulltrúanna. Eini tilgangur þeirra er að kjósa beint frambjóðendurna, en allir vita hvernig sú kosning fer, enda var aðeins Kerry eftir í framboði þegar í mars, og samkeppnin því lítil. Í gær ávarpaði eiginkona frambjóðandans, Teresa Heinz Kerry, flokksþingið og kynnti persónu hans fyrir þingfulltrúum og leitaðist við að fara yfir jákvæðustu kosti hans, í þeim tilgangi að veita viðkvæmari og ljúfari útgáfu af honum, en hann hefur almennt verið talinn frekar ópersónulegur og fjarlægur. Í gærkvöldi fluttu einnig ávörp mótframbjóðendur Kerrys fyrr á árinu, Dick Gephardt og Howard Dean, ennfremur samstarfsmaður hans í öldungadeildinni, Edward M. Kennedy og að lokum blökkumaðurinn Barack Obama, sem er í framboði til öldungadeildarinnar fyrir flokkinn í Illinois. Sló hann í gegn og flutti að flestra mati bestu ræðu dagsins og er nú talinn ein af helstu vonarstjörnum flokksins á næstu árum.

John EdwardsKvöldið nú á þriðja degi flokksþingsins í Boston, mun verða stund John Edwards varaforsetaefnis flokksins. Hann mun formlega þiggja útnefningu flokksins og boð Kerrys um að leiða framboðið með honum í ítarlegri ræðu, þar mun hann kynna helstu stefnumál sín og framtíðarsýn þá sem hann hefur fyrir framboðið og Bandaríkin á næsta kjörtímabili, verði hann og Kerry kjörnir til forystu í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Edwards er lítt reyndur stjórnmálamaður, hann var kjörinn í öldungadeildina árið 1998. Er kjörtímabili hans þar að ljúka, en hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs, mun einbeita sér að framboðinu með Kerry, ólíkt Joe Lieberman sem var í kjöri til öldungadeildarinnar árið 2000, samhliða framboði sínu með Al Gore. Hvað svo sem segja má um reynsluleysi Edwards, deilir enginn um að hann er hörkuduglegur og fylginn sér og hefur víðtækan stuðning demókrata. Helstu veikleikar hans eru utanríkismál, en hann mun í ræðu sinni í kvöld eflaust fjalla sérstaklega um þann málaflokk. Allt frá því að Kerry náði útnefningu sem forsetaefni, þótti líklegast að hann myndi velja Edwards sér við hlið, enda eru þeir að ýmsu leyti heppilegar andstæður. Annar Norðurríkjamaður, nokkuð hátíðlegur, farinn að reskjast og með reynslu af utanríkis- og hermálum. Hinn Suðurríkjamaður, telst alþýðlegur og fjörug týpa, nokkuð unglegur og að auki sérfróður um efnahags- og félagsmál. Framboð þeirra er því talið sterkt og ljóst að Edwards mun nota ræðuna til að vekja athygli á hversu vel þeir nái saman.

West Side StoryMeistaraverk - West Side Story
Klassísk og marglofuð kvikmynd sem enn í dag er jafn óaðfinnanlega góð og vel heppnuð og hún var, er hún var frumsýnd árið 1961. Í henni er sagan af Rómeó og Júlíu færð til nútímans frá Verónu á Ítalíu til Manhattan á New York. Við kynnumst hér elskendunum Tony og Maríu sem tilheyra hvort sinni unglingaklíkunni þar, þegar hópunum lýstur loks saman fer allt alveg gersamlega úr böndunum. Foringi annarrar klíkunnar er drepinn fyrir slysni og Tony fellir banamann hans sem er bróðir Maríu, í hefndarskyni. Ástarsaga Tony og Maríu hlýtur harmsöguleg endalok í þessari stórkostlegu, einstöku og ógleymanlegu kvikmynd. West Side Story hlaut 10 óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1961, fyrir leikstjórn snillinganna Jerome Robbins og Robert Wise, ennfremur fyrir leikkonu og leikara í aukahlutverki, stórkostlega kvikmyndatöku, gullfallega búninga, og eftirminnilega tónlist meistarans Leonard Bernstein. Natalie Wood og Richard Beymer eru heillandi í hlutverkum elskendanna og Rita Moreno og George Chakiris hlutu óskarinn fyrir tilþrifamikinn leik. Þeim sem ekki hafa séð þessa gullaldarklassík kvikmyndasögunnar ráðlegg ég að drífa í því sem fyrst.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Um stefnu vinstriflokkanna í fjölmiðlamálinu - pistill Kristins Más Ársælssonar
Fréttaumfjöllun Fréttablaðsins um fjölmiðlamálið - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Umfjöllun um nýlega bók Ómars Ragnarssonar - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Teresa Heinz Kerry fangar athyglina og kynnir eiginmann sinn á flokksþinginu
Ræður á flokksþinginu: Teresa Heinz Kerry - Ted Kennedy - Barack Obama
John Kerry formlega útnefndur forsetaefni demókrata í Boston í dag
John Edwards flytur mikilvægustu ræðu stjórnmálaferils síns í kvöld
Flokksþing Demókrataflokksins í myndum - John Edwards undirbýr sig
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Teresa hefur lært lexíuna að það þarf að slípast til að verða forsetafrú
Breska eðalgamanmyndin Whisky Galore! verður endurgerð árið 2005
Michael Moore styður Kerry, sem studdi stríðið í Írak: nokkur húmor í því
Maður vill skipta á áritaðri ævisögu Clintons forseta og sæti á flokksþinginu

Dagurinn í dag
1662 Erfðahyllingin í Kópavogi (Kópavogsfundurinn) - helstu forystumenn þjóðarinnar undirrituðu þá formlega skjal er markaði upphaf fulls einveldis Danakonungs á Íslandi
1750 Eitt þekktasta tónskáld sögunnar, Johann Sebastian Bach deyr, 65 ára að aldri
1960 Norðurlandaráðsþing haldið á Íslandi í fyrsta skipti - það var stofnað 1952
1988 Paddy Ashdown kjörinn leiðtogi Frjálslyndra demókrata í Bretlandi - í 11 ára leiðtogatíð hans stækkaði flokkurinn um meira en helming - hann hætti afskiptum af stjórnmálum 2001
1990 Alberto Fujimori kjörinn forseti Perú - hneykslismál tengd honum voru algeng í stjórnartíð hans. Hann neyddist til að segja af sér embætti vegna slíkra mála árið 2000 og fór í útlegð til Japans, þar sem hann hefur dvalið síðan - hann er eftirlýstur af Interpol, t.d. fyrir fjármálamisferli, skjalafals og morðákærur. Fari hann frá Japan verður hann handtekinn

Snjallyrði dagsins
The enemies of freedom do not argue; they shout and they shoot.
William R. Inge rithöfundur (1860-1954)