Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 júlí 2004

John Edwards og John KerryHeitast í umræðunni
Flokksþing Demókrataflokksins hefst í Fleet Centre íþróttahöllinni í Boston í kvöld. Meiri öryggisráðstafanir, en áður hafa sést, verða gerðar vegna flokksþingsins, en um er að ræða fyrstu stóru flokkssamkomuna í Bandaríkjunum, frá hryðjuverkunum í New York og Washington, 11. september 2001. Rúmlega 60 ræðumenn munu taka til máls á flokksþinginu, þ.á.m. fyrrverandi forsetar flokksins, allir frambjóðendur í forkosningum fyrr á árinu, þingmenn og forystumenn flokksins í stórborgum, eiginkonur og börn frambjóðenda flokksins nú og að lokum John Kerry forsetaframbjóðandi flokksins og John Edwards varaforsetaefni hans, en þeir verða formlega útnefndir í lok þingsins á fimmtudag. Í kvöld verður megináhersla lögð á að kynna stefnu flokksins í efnahagsmálum og verða aðalræðumenn þar fyrrum forsetarnir Bill Clinton og Jimmy Carter auk Al Gore fyrrum varaforseta, sem var forsetaefni flokksins árið 2000. Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, mun flytja ræðu og ennfremur kynna eiginmann sinn formlega. Öll koma þau fyrsta daginn til að skyggja ekki á frambjóðandann og hans fólk, síðar í vikunni. Á morgun verður stefna Kerrys í mennta- og heilbrigðismálum kynnt með ítarlegum hætti og munu m.a. Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður og Teresa Heinz Kerry eiginkona frambjóðandans, flytja ræður þá. Á miðvikudag verður áherslan lögð á öryggis- og varnarmál og mun Elizabeth Edwards þá kynna eiginmann sinn, sem þiggur þá formlega útnefningu sína.

John KerryÁ fimmtudag er komið að stóru stundinni hjá demókrötum. Þá mun allt snúast um að kynna Kerry. Vinir og fjölskylda munu tala um persónu Kerry, hver hann er og hvaða reynsla það er sem skapað hefur manninn sem nú sækist eftir forsetaembættinu. Það er yfirlýst markmið flokksþingsins að kynna John Kerry og John Edwards fyrir bandarísku þjóðinni. Þrátt fyrir mikla fjölmiðlaumfjöllun í forkosningunum er stór hópur kjósenda sem telur sig vita lítið um frambjóðendurna og enn minna um stefnu þeirra í þjóðmálum. Óttinn við hryðjuverk hefur orðið til þess að öryggisráðstafanir verða meiri en nokkru sinni fyrr á flokksþingi í Bandaríkjunum. Hundruðum öryggismyndavéla hefur verið komið fyrir í íþróttahöllinni og þúsundir lögreglumanna munu gæta öryggis þingfulltrúa og fjölda fréttamanna sem þar verður. Í lok flokksþingsins er alveg ljóst að Kerry mun mælast með mun meira fylgi en forsetinn, það kemur alltaf fylgissveifla eftir flokksþing. Verði sveiflan undir 10% má ljóst telja að forsetinn nær vopnum sínum aftur, enda er flokksþing repúblikana í lok ágúst og það mun gefa forsetanum bæði tækifæri til að vinna það fylgi sem nú tapast og jafnvel mun meira til. Framundan er kraftmikil kosningabarátta næstu 100 dagana.

SiglufjörðurSíldarhátíð á Siglufirði
Að morgni laugardags fór ég til Siglufjarðar ásamt fleira fólki og tókum við þar þátt í 100 ára afmælishátíð Síldarævintýris Íslendinga. Enginn staður á Íslandi hentar betur til að fagna þessu merkisafmæli en Siglufjörður, enda var hann miðstöð síldarlífsins á Íslandi meðan síldarævintýrið stóð sem hæst. Alltaf er gaman að koma til Siglufjarðar, enda á maður ættir sínar að hluta að rekja þangað. Afi er Siglfirðingur og öll hans föðurætt kemur þaðan og enn búa þar nokkrir af ættingjum mínum og alltaf gaman að líta í heimsókn. Stemmningin á staðnum var virkilega góð. Í hádeginu var síldarsöltun, bryggjuball og harmonikkuleikur við Síldarminjasafnið, sem er rómað og allir verða að skoða sem eiga þar leið um. Um eittleytið voru sjósettir við smábátahöfnina tveir norskir bátar, Vetvik og Kyrabaten. Ávörp og skemmtun var um tvöleytið við Gránupallinn við safnið, þar fluttu ráðherrar og forseti Íslands ræður. Að því loknu skemmti danshljómsveit Siglufjarðar ásamt Helenu Eyjólfs og Gretti Björnssyni. Var þar slegið upp balli að gömlum sið og var virkilega gaman að taka þátt í því. Seinnipartinn, þegar formlegri dagskrá var lokið leit ég í heimsókn til fólks sem ég þekki þar og leit t.d. til Grétu frænku minnar, en hún er alltaf hress og óneitanlega er gaman að ræða þjóðmálin við hana. Fylgist hún jafnan vel með og hefur gaman af pólitískum pælingum. Um kvöldið fór ég í kvöldverð vegna hátíðarinnar, í bátahúsinu við safnið og var það virkilega skemmtileg stund og ekta síldarstemmning sveif yfir vötnum. Dagurinn var í alla staði mjög vel heppnaður.

Áhugavert á Netinu
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fer yfir 10 ára sögu heimasíðu sinnar
Farið yfir fjölmiðamálið og ýmsar hliðar þess - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Ég, vinstrimaður - pistill Ragnars Jónassonar (skrifaður í anda I, Robot)
Pælingar um ýmisleg málefni á hásumri - pistill Benedikts Jóhannessonar
Flokksþing demókrata hefst í dag - flokksmenn flykkjast til Boston
Clinton-hjónin, Carter og Gore flytja opnunarræður á flokksþinginu í Boston
Saddam Hussein les, ræktar blómagarð og étur bandarískt góðgæti í fangelsinu
Teresa Heinz Kerry reiðist fréttamanni - John Kerry ver eiginkonu sína
Bill Clinton mun opna flokksþing demókrata í Boston með langri ræðu
Hillary Clinton segir að þau hjónin muni ekki skyggja á Kerry á flokksþinginu
Tony Blair stappar stálinu í flokksmenn - sögulegur sigur náist vinni allir saman
Sean Penn og Jude Law leika í endurgerð kvikmyndarinnar All the King's Men
Sir Laurence Olivier leikur í mynd, 15 árum eftir dauðann - hljómar undarlega

Dagurinn í dag
1945 Verkamannaflokkurinn vinnur öllum að óvörum þingkosningar á Bretlandi - stríðshetjan Winston Churchill missir forsætisráðherrastólinn mjög óvænt til Clement Attlee leiðtoga stjórnarandstöðunnar - Churchill varð aftur forsætisráðherra Bretlands sex árum síðar
1952 Eva Peron forsetafrú Argentínu, deyr úr krabbameini, 33 ára að aldri
1956 Stjórnvöld í Egyptalandi ríkisvæða Súez-skurðinn - því mótmælt um allan heim
1963 Þúsundir manna farast eða slasast alvarlega í jarðskjálfta í Skopje í Júgóslavíu
2000 George W. Bush velur Dick Cheney sem varaforsetaefni sitt - unnu naumlega

Snjallyrði dagsins
Without tenderness, a man is uninteresting.
Marlene Dietrich (1901-1992)