Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 ágúst 2004

Siv FriðleifsdóttirHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur verið boðaður til fundar á morgun þar sem formaður flokksins mun leggja fram tillögu að ráðherraskipan eftir 15. september. Sífellt ljósara er að verða sú staðreynd að staða Sivjar Friðleifsdóttur er einna veikust af framsóknarráðherrunum sex, og því líklegast að það verði hún sem víki af ráðherrastóli samhliða ráðherrahrókeringunum sem fylgja því að formaður Framsóknarflokksins taki við forsætisráðuneytinu, eftir 28 daga. Óneitanlega er undarlegt að sá þingmanna flokksins sem hefur flest atkvæði á bakvið sig, sé leiðtogi flokksins í stærsta kjördæminu, ein af forystukonum flokksins í rúman áratug og sem er einna nútímalegust, sé við það að missa ráðherrasæti sitt. Greinilegt er að margfræg auglýsing framsóknarkvenna er sett fram til að reyna að verja stöðu Sivjar, minna á kynjastaðla og efla aðrar konur til starfa í flokknum. Ég tel að þessi auglýsing kvennanna í flokknum, eins vel og hún er eflaust ætluð til að styrkja eina af öflugustu forystukonum þeirra, muni hafa þveröfug áhrif. Ég verð að taka undir þau orð Dagnýjar Jónsdóttur að þessi auglýsing stefnir í vitlausa átt. Frekar á að beina kröftunum að því að velja á milli fólks á forsendum hæfileika og getu í stað kynferðis. Það eru úrelt sjónarmið að mínu mati. Mun skynsamlegra hefði verið af konunum að reyna að verja stöðu Sivjar með því að minna á að hún er einmitt jafnhæf eða jafnvel hæfari en margir karlkyns ráðherrar flokksins og hefur fleiri atkvæði á bakvið sig. Vitanlega skiptir máli að bæði kyn séu virk í stjórnmálastarfi, en hæfileikar og geta til starfa á að lokum hafa áhrif á hverjir sitja í valdastöðum, ekki aðrir þættir. Í raun er mér nokkurn veginn sama um framsóknarmenn, en ég tel þó að þeir muni gera mikið glappaskot ef þeir taka Siv út og það muni enda með miklu stríði innan flokksins og geta haft margvíslegar afleiðingar í ýmsar áttir. Það er því spurning hvað formaður flokksins gerir á morgun í þeirri stöðu sem uppi er, hvort hann kemur með fléttu í stöðunni til að friða konurnar eða lætur vaða í þá átt, sem allt stefnir í að verði, að taka Siv úr stjórninni.

Tony BlairMiklar deilur hafa staðið undanfarna daga um sumarleyfi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sem hefur verið að sóla sig við Miðjarðarhafið ásamt eiginkonu sinni og börnum. Á sama tíma og fjöldi breskra hermanna falla í stríðsátökum, skyndiflóð skellur á íbúum Cornwall og átök eiga sér stað um heilbrigðiskerfi Bretlands, sólar Blair sig og dvelur í lúxusvillum þekkts fólks, stuðningsmanna eða samherja sinna. Mikil læti urðu í vinstriarmi Verkamannaflokksins þegar fréttist af því að forsætisráðherrann breski mynda gista á eyjunni Sardiníu, í sumarhúsi Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, eftir sumarleyfi sitt á Barbados, þar sem þeir myndu funda um Íraksmálið og fleiri heimsmál. Skjálfti varð svo í innsta hring flokksins þegar myndir birtust í gær í breskum fjölmiðlum sem sýna forsætisráðherrahjónin bresku ganga léttklædd ásamt ítalska forsætisráðherranum um götur á eyjunni og sóla sig svo saman við sumarhúsið. Kurr er innan flokksins vegna þessa máls, en óánægjan með að forsætisráðherrann skyldi hluta sumarfrísins dvelja í sumarhúsi söngvarans Bob Geldof þóttu mörgum nógu slæmt, þótt ekki myndi viðbætast að hann myndi dvelja hjá Berlusconi í skemmtiferð, þegar úr nægum úrlausnarefnum er að velja heima fyrir. Voru sprengjur aftengdar skammt frá bústaðnum, og því greinilegt að í hyggju var að ráðast að leiðtogunum á Sardiníu. Blair hefur ákveðið að stytta ekki frí sitt vegna flóðanna í Cornwall og er ekki væntanlegur til London að nýju fyrr en um eða eftir næstu mánaðarmót. Staða Blairs innan eigin flokks hefur klárlega veikst mjög undanfarið ár og má búast við að í bakherbergjum í London séu kratar jafnt gáttaðir á hegðan Blairs í fríinu og farnir að upphugsa plott um að stokka upp forystusveit flokksins eða endurhanna baráttutaktík, en almennt er talið að þingkosningar fari fram í landinu í maí á næsta ári.

ÓlympíumerkiðÓlympíuleikarnir í Grikklandi
Ólympíuleikarnir hófust í Aþenu í Grikklandi á föstudagskvöld. Setningarhátíð leikanna var tilkomumikil en mátulega langdregin venju samkvæmt. Hápunktur hinnar glæsilegu hátíðar var óneitanlega þegar Björk Guðmundsdóttir steig á svið og söng lag sitt, Oceania, við ljóð Sjón, sem mun koma út á væntanlegri plötu söngkonunnar, Medullu, sem er væntanleg 30. ágúst nk. Þó að við Íslendingar eigum sennilega litla sem enga von á að ná medalíum að þessu sinni, sló þjóðarhjartað óneitanlega nokkuð örar þegar Björk steig á svið og söng og fangaði athygli heimsbyggðarinnar með söng sínum. Frammistaða íslensku þátttakendanna hefur óneitanlega valdið vonbrigðum, ef frá er skilinn góður árangur Rúnars Alexanderssonar. Sundfólkinu hefur ekki vegnað vel og meiðsli Arnar Arnarssonar eru slæm og vonbrigði að hann nái ekki að sýna sitt besta að þessu sinni. Árangur handboltalandsliðsins hefur verið brokkgengur, sigur vannst í dag gegn Slóvenum en tap gegn Króötum og Spánverjum var frekar slæmt, en vonandi gengur vel í næstu leikjum. Árangur Völu Flosadóttur er okkur enn í fersku minni, en hún vann bronsið árið 2000 í stangarstökki. Það augnablik er Vala fór á verðlaunapall gleymist ekki, en það var aðeins í þriðja skipti sem sá Íslendingur náði slíkum árangri: Vilhjálmur Einarsson vann silfur árið 1956 í Ástralíu og Bjarni Friðriksson brons í Bandaríkjunum árið 1984. Annars eru Ólympíuleikarnir alltaf augnayndi og gaman að fylgjast með þeim. Allur umbúnaður leikanna er Grikkjum til sóma og þeir hafa staðið sig vel við undirbúning þeirra, en óneitanlega hefur skuggi ólánsfréttanna af grísku spretthlaupurunum sett skugga á annars glæsilega Ólympíuleika, að þessu sinni.

Áhugavert á Netinu
Afstaða Dagnýjar Jónsdóttur vel skiljanleg - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Davíð Oddssyni sendar kveðjur frá erlendum þjóðarleiðtogum
Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton væntanleg til landsins
Ráðherradeila í Framsóknarflokknum verður leyst á morgun
Halldór Ásgrímsson kemur með undarlegt sjónarhorn á Evrópumálin
Flestir þingmenn Framsóknar vilja Siv Friðleifsdóttur úr stjórninni
Tilræði skipulagt gegn Tony Blair og Silvio Berlusconi á Sardiníu
Bush forseti tilkynnir um niðurskurð í hermálum - Kerry mótmælir
Bush forseti á kosningaferðalagi í Wisconsin - Kerry staddur í Ohio
Skyndiflóð veldur eyðileggingu og skekur íbúa smábæjar í Cornwall
Ríkisstjóri í New Jersey segir af sér vegna samkynhneigðar sinnar
Íslendingar munu ekkert græða á aðild að ESB - Andrew Rosindell
Skrautlegt sumarfrí Blair hjónanna við Miðjarðarhafið og á Sardiníu
Akureyri í öndvegi - opið íbúaþing á Akureyri, 18. september nk.
Spammarar sækja í sig veðrið með hreint óþolandi ruslpóstsendingum
Gamla Landssímahúsið í Reykjavík rifið - byggt ráðuneytishús í staðinn
Landsleikur Ítala og Íslendinga í kvöld - Birkir í markinu í kveðjuleik sínum
Grísku spretthlaupararnir ákveða að taka ekki þátt á Ólympíuleikunum

Dagurinn í dag
1786 Reykjavík, Eskifjörður og Grindavík fengu kaupstaðarréttindi - landsmenn voru þá 38.000
1964 S-Afríku úthýst af Ólympíuleikunum vegna aðskilnaðarstefnu landsins - landið fékk aftur inngöngu að leikunum árið 1992 eftir að aðskilnaðarsstefnunni hafði verið úthýst og Nelson Mandela hafði verið sleppt úr varðhaldi yfirvalda eftir tæplega þriggja áratuga fangelsisvist á Robben-eyju
1986 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar minnst með veglegum hátíðarhöldum - 70-80.000 manns voru í miðborginni og borðuðu m.a. stærstu tertu sem bökuð hafði verið hérlendis, 200 metra langa
1990 Listaverkið Sólfar eftir Jón Gunnar Árnason, afhjúpað við Sæbraut í Reykjavík
1996 Menningarnótt haldin í fyrsta skipti í Reykjavík, á 210 ára afmæli Reykjavíkurborgar

Snjallyrði dagsins
For to be free is not merely to cast off one's chains, but to live in a way that respects and enhances the freedom of others.
Nelson Mandela fyrrum forseti S-Afríku