Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 september 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðuna um Hæstarétt í tilefni þess að framundan er að skipa nýjan dómara í Hæstarétt. Deilt er um álit dómara á umsækjendum en það að skipa þeim í hæfnisröð hefur leitt til átaka um hæfni umsækjenda og hvort dómarar líti á þá pólitískt frekar en faglega. Tel ég mikilvægt að minna á afstöðu mína til að breyta lögum um réttinn, að dómarar velji ekki eftirmenn sína eða vinnufélaga. Finnst mér vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda. Að mínu mati eiga dómarar aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í 4. grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum. Nýleg hæfnisröð dómara við skipan í þessa lausu stöðu við réttinn vekur upp margar spurningar óneitanlega. Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Verkfall grunnskólakennara hefur staðið í viku, fjalla ég um það og afleiðingar þess. Fimm vikur eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum, fjalla ég um slaginn nú þegar kappræðurnar eru að hefjast. Ég var kjörinn formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, í vikunni. Ég fjalla um markmið mín í starfinu í lok pistilsins.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Guðjón Davíð Karlsson í HárinuEinstök upplifun í Höllinni
Andi friðar og ástar sveif yfir Akureyri á föstudagskvöld. Söngleikurinn Hárið var þá sýndur tvisvar sama kvöldið fyrir fullu húsi í Íþróttahöllinni hér í bænum. Samtals sáu rúmlega 3000 manns sýningarnar tvær, þá fyrri kl. 20:00 og hina seinni kl. 23:00. Mikill kraftur fer í eina sýningu af hálfu leikaranna og hvað þá tvær sama kvöldið. Það voru líka þreyttir en einstaklega hamingjusamir aðstandendur sýningarinnar sem voru hylltir á báðum sýningunum. Hárið er einstaklega góður söngleikur, með frábærum lögum og er vel skrifaður. Boðskapur Hársins á alltaf vel við. Í okkur öllum blundar hippinn, frelsi einstaklingsins til eigin lífsbaráttu og tjáningar á lífi sínu blundar í okkur öllum. Hver vill lifa án frelsis og þeirra tækifæra sem fylgja því? Friðarboðskapurinn er einnig sterkur í grunninn og öll viljum við friðvænlegan og góðan heim, öll viljum við lifa lífinu í sönnum friði og í sátt og samlyndi við alla. Söngleikurinn er því jafnsígildur nú og þegar hann var fyrst sýndur í Bandaríkjunum í lok sjöunda áratugarins. Þetta er klassískt efni, klassískur boðskapur og klassísk túlkun á veruleikanum. Ég fór á fyrri sýninguna, það var hreint einstök stemmning ríkjandi. Þvílík stemmning, segi ég bara. Krafturinn og orkan var slík að þetta var einstök upplifun. Þakið ætlaði að rifna af höllinni við fagnaðarlætin í lokin, sándið var magnað í lögunum. Ég fór á sýninguna í Austurbæ í sumar og fannst það alveg einstaklega gaman. En það var enn skemmtilegra á sýningunni hér en þar. Meiri kraftur, meira líf og meiri power bara. Frábær sýning og allt tókst vel upp. Var virkilega gaman að fá hið kraftmikla og lífsglaða Hárfólk hingað norður! Takk kærlega fyrir mig. Svo má ekki gleyma að ég fór á Egó í Sjallanum í gær, magnaðir tónleikar. Frábært, í einu orði sagt!

Dagurinn í dag
1915 Styttan af Kristjáni 9. Danakonungi, eftir Einar Jónsson, var afhjúpuð við Stjórnarráðið
1960 Rúmlega 60 milljón Bandaríkjamanna fylgjast með fyrstu sjónvarpskappræðum bandarískra forsetaefna. John F. Kennedy öldungadeildarþingmaður og Richard M. Nixon varaforseti, tókust á í einvíginu. Almennt var talið að Kennedy hefði haft betur í þessu fyrsta einvígi og framkoma hans þar haft mikið að segja um að hann sigraði í kosningunum. Kennedy var myrtur í Dallas 22. nóvember 1963 og Nixon var kjörinn forseti árið 1968 en sagði af sér embætti fyrstur forseta, árið 1974
1961 Söngvarinn Bob Dylan hélt sína fyrstu tónleika - hann varð einn vinsælasti söngvari aldarinnar
1984 Bretland og Kína semja um að Kína taki við fullum yfirráðum á Hong Kong 1. júlí 1997
1988 Kanadíski spretthlauparinn Ben Johnson sviptur gullverðlaunum í 100 m. hlaupi á Ólympíuleikunum í Seoul í S-Kóreu eftir að kom í ljós í lyfjaprófi að hann hafði notað ólögleg efni.

Snjallyrði dagsins
A true friend is the greatest of all blessings, and that which we take the least care of all to acquire.
Francois de La Rochefoucauld rithöfundur (1613-1680)