Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 október 2004

George W. Bush lyftir upp fjórum fingrum - four more years!Bush vs. Kerry > 5 dagar
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, í jöfnum og tvísýnum slag um valdamesta embætti heims, nú á lokaspretti kosningabaráttunnar um forsetaembætti landsins. Stefnir allt í að úrslitin muni ráðast í aðeins 6-7 fylkjum þar sem staðan er svo jöfn að ómögulegt er að spá um það hvor frambjóðandinn hljóti kjörmenn þeirra. Ekki er marktækur munur á frambjóðendunum heldur á landsvísu þegar fimm sólarhringar eru í að kjörstaðir opni. Óttast helstu spekingar í Bandaríkjunum reyndar það mest af öllu að úrslitin verði jafnvel með þeim hætti að báðir frambjóðendur hljóti 269 kjörmenn og þeir endi í pattstöðu með jafntefli. Ef til þess kæmi að báðir frambjóðendur hefðu jafnmarga kjörmenn í kjörmannasamkundunni verður það hlutskipti fulltrúadeildarinnar að kjósa forsetann og öldungadeildarinnar að velja varaforsetann. Fáir efast um að repúblikanar hafa þar forystustöðu og yrði Bush því væntanlega kjörinn forseti ef til þessa ferlis kæmi. Hinsvegar er óvíst með valdahlutföll í öldungadeildinni og því gæti allt eins farið svo að Bush myndi þurfa að sætta sig við John Edwards varaforsetaefni Kerrys, sem varaforseta landsins. Ef til þess kæmi myndi skella á stjórnarfarsleg kreppa í landinu og viðeigandi átök í réttarsölum um lögmæti kosninga í fylkjum, enda ólíklegt að þessir tveir menn hefðu áhuga á nánu samstarfi. Líklegast er að slík málaferli myndu beinast að úrslitum í Flórída og Ohio, en nokkuð öruggt er að úrslit í þessum tveim fylkjum muni ráða úrslitum að lokum. Allir vita um áhrifamátt Flórída árið 2000, þegar Bush tryggði sér sigurinn endanlega með útkomu í dómssal Hæstaréttar í Washington. Eru margir hræddir um að slíkt endurtaki sig og eru vangaveltur manna með þeim hætti að staðan í Ohio gefi tilefni til þess að svo hnífjafnt sé að lagaflækjur muni einkenna niðurstöðu mála þar eftir kjördag. Orrahríðin milli forsetaefna flokkanna stóru í bandarískum stjórnmálum jafnast á við það sem gerðist í kosningunum 2000 og 1960 þegar allt stefndi í jafnan og tvísýnan lokasprett og ekki mátti á milli svo hvor stæði með pálmann í höndunum við marklínuna. Einkennist baráttan af því nú með viðeigandi persónuárásum og skítkasti.

John KerrySamhliða forsetakosningunum á þriðjudag verður kosið um fjölda sæta í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings, og um ríkisstjóra í nokkrum fylkjum. Er mismikil spenna hvað varðar þingkosningahlutann. Ólíklegt er að demókrötum takist að fella meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, sem verið hefur við völd frá nóvember 1994 er demókratar og Bill Clinton þáverandi forseti, biðu táknrænan ósigur, enda höfðu demókratar haft meirihluta í deildinni í nokkra áratugi. Öllu meiri líkur eru á því að demókratar nái að fella nauman meirihluta repúblikana í öldungadeildinni. Repúblikanar náðu að fella meirihluta demókrata í deildinni í þingkosningunum 2002 og ná með því völdum í báðum deildum þings. Nokkrir þingmenn sækjast eftir endurkjöri og eru örlög þeirra misjafnlega örugg. Flestir eru taldir líklegir um að hljóta endurkjör en ljóst er þó að staða Tom Daschle leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, er veikust. Hann er langt í frá öruggur um endurkjör í S-Dakóta þar sem hann á í höggi við John Thune sem var valinn til framboðs þar af stuðningsmannasveit forsetans, til að losna við Daschle úr forystu demókrata. Ljóst er að stefnt getur í spennandi kosninganótt hvað varðar nokkrar kosningar um öldungadeildarþingsætin, einkum í S-Dakóta. Þegar svo stutt er til forsetakosninga sem raun ber vitni er hvert skref frambjóðandanna vandlega skipulagt, allt frá framkomu við ræðumennsku til allra smáaatriða, hvert sé farið og hvað er sagt á kosningafundum. Best sést þetta í vali frambjóðenda á fötum. Algengast hefur þótt á undanförnum árum að hinn týpíski frambjóðandi sé í dökkbláum jakkafötum, hvítri skyrtu og með rautt eða blátt bindi. Er löng hefð fyrir þessari samsetningu. Blátt bendir til trausts yfirbragðs en rautt gefur í skyn djörfung og áræðni. Baráttan er hörð nú undir lokin og stefnir allt í æsispennandi lokasprett. Í dag verður Kerry á ferð um Ohio, Wisconsin og endar í kvöld í Flórída á kosningafundi. Forsetinn verður á faraldsfæti á sömu slóðum í dag og í gær, hann verður á ferð um lykilfylkin Pennsylvaníu, Ohio og Michigan. Allt er lagt í sölurnar nú undir lokin til að ná til kjósendanna í baráttufylkjunum.

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Yasser Arafat forseti Palestínu, hefur undanfarnar vikur legið á sjúkrabeði og vangaveltur höfðu aukist eftir því sem á leið hvers eðlis veikindi hans væru. Lengi vel neituðu talsmenn hans og nánustu samverkamenn í Ramallah að hann væri alvarlega veikur og nefndu að veikindi hans væru minniháttar og hann væri á batavegi. Málið tók nýja stefnu seinnipartinn í gær þegar Arafat hné niður í höfuðstöðvum sínum á Vesturbakkanum og missti meðvitund um tíma. Eftir það tjáðu talsmenn hans og forystumenn palestínskra stjórnmála sig loks af hreinskilni og viðurkennt var að veikindi forsetans væru slíks eðlis að heilsa hans væri mjög brothætt og liti illa út. Misvísandi fregnir hafa verið að undanförnu um hvers eðlis veikindi hans eru, lengst af var sagt að hann væri aðeins með flensu og eða gallstein, sem eru vel læknanlegir kvillar og ekki lífshættulegs eðlis. Þær sögusagnir að forsetinn væri haldinn banvænum sjúkdómi: líklegast krabbameini, blóðveiru eða lífshættulegri sýkingu fengu því byr undir báða vængi þegar fréttist að heilsu hans hefði hrakað snögglega. Læknar fengu leyfi til að koma í Ramallah og skoða forsetann í gærkvöldi og fylgjast náið með ástandi hans nú. Eiginkona Arafats, Suha, kom seinnipartinn í dag til Vesturbakkans, en hún býr í Frakklandi. Koma hennar til Ramallah staðfestir það að ástand Arafats er mjög brothætt. Arafat tók þátt í morgunbænum í höfuðstöðvum sínum og mun að sögn viðstaddra vera mjög veikburða og frekar illa haldinn. Lítill vafi leikur á að ástand hans er alvarlegt, það að talsmenn hans viðurkenni að fullu veikindi hans og útskýri þau með þeim hætti sem var í gær staðfestir þann grun að hann sé langt leiddur af ólæknanlegum sjúkdómi. Arafat er 75 ára gamall, hann hefur verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í tæplega 40 ár. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og hefur setið sem formaður þess frá 1969 og leitt baráttu landsins fyrir sjálfstæði sínu. Hann var kjörinn forseti landsins fyrir áratug og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels, sem féll fyrir morðingjahendi í nóvember 1995, og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels, vegna hins sögulega Oslóar-friðarsamnings 1993, sem batt tímabundið enda á átök ríkjanna.

Arafat á sjúkrabeðiUndir kvöld var svo tilkynnt formlega að forsetinn yrði fluttur til Parísar og gengist þar undir rannsóknir vegna veikinda sinna. Jafnframt voru birtar myndir, sem sýna hann brosandi en greinilega mikið veikan. Það er engin furða að reynt var að fara með heilsu og ástand forsetans sem trúnaðarlegt leyndarmál innan veggja stjórnarbygginganna, eins lengi og mögulegt var. Stjórnmálaleg staða Palestínu og forystu landsins er með þeim hætti að fullyrða má að veikindi forsetans eða snögglegt andlát hans muni leiða til glundroða í stjórnmálalífi landsins og leiða til valdabaráttu án sjáanlegra endaloka. Líklegast er að nánustu samstarfsmenn forsetans, Ahmed Qurie, Mahmoud Abbas og Salim al-Zaanoun, standi sterkast að vígi sem mögulegir eftirmenn hans á forsetastóli. Allir eru þeir fulltrúar í stjórnmálasamtökum Arafats, Fatah, sem hefur leitt stjórn landsins undanfarin ár. Það er þó langt í frá sjálfgefið að aðrar fylkingar í palestínskri pólitík, t.d. hinar herskáu Hamas og Jihad, sætti sig við að forsetastóllinn færist sjálfkrafa til annarra aðila í samtökum Arafats. Samstaða hefur verið um að Arafat leiddi stjórn landsins og verður engin valdabarátta beint til staðar meðan hans nýtur við. Að Arafat látnum er hætt við að allt sjóði uppúr og erfitt verði að ná samstöðu um stjórn landsins og valdaröð þar. Það er því alls óvíst að næsti forseti landsins yrði úr Fatah. Greinilegt er á öllu málinu að staða Arafats sem leiðtoga landsins er sterk. Það að hann missi heilsuna snögglega eða hverfi af sjónarsviðinu vegna veikinda munu reyna verulega á þolrif stjórnmálanna í landi hans og hver framtíð þess verður. Það hefur löngum verið talinn veikleiki sterkra leiðtoga að dreifa ekki völdum og tryggja ekki stjórnmálalega forystu ef til breytinga kemur. Það má segja um Arafat, hann hefur aldrei hleypt neinum það nálægt sér að hann deili forystulegu sviðsljósi og kann það að leiða til afdrifaríkrar atburðarásar hverfi hann af sjónarsviðinu nú.

Og VodafoneÓhætt er að fullyrða að þau tíðindi hafi komið mjög á óvart í morgun að Og Vodafone hafi keypt 90% hlutabréfa í Norðurljósum og stefni að því að kaupa öll hlutabréf í fyrirtækinu á næstunni. Munu kaupin nema tæpum 4 milljörðum króna. Er um skipti milli hægri og vinstri handar Baugs að ræða, enda fyrirtækin bæði í eigu þeirrar viðskiptablokkar. Miklar skipulagsbreytingar fylgja samhliða þessu. Sigurður G. Guðjónsson sem verið hefur forstjóri Norðurljósa, allt frá uppgjörinu mikla milli Jóns Ólafssonar og Hreggviðs Jónssonar árið 2002, lætur nú af störfum og víkur á braut. Honum var ekki tryggður áframhaldandi sess hjá fyrirtækinu, sem hlýtur eflaust að verða mikið áfall fyrir þá sem stóðu næst honum í forsetabústaðnum og fleiri stöðum, t.d. í stjórnarandstöðunni í tengslum við fjölmiðlamálið fyrr á árinu og vörðu stöðu hans og fyrirtækisins í gegnum það. Samfylkingin hefur jú virkað eins og stjórnmálaarmur Norðurljósa að undanförnu. Gunnar Smári Egilsson stjórnarmaður í Norðurljósum og fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins, fær stöðuhækkun svo um munar og verður yfirmaður Norðurljósa í stað Sigurðar. Páll Magnússon aðalfréttaþulur Stöðvar 2 og yfirmaður dagskrársviðs þess, verður sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, samhliða þessu. Auk Sigurðar víkja Marínó Guðmundsson fjármálastjóri, og Karl Garðarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og fyrrum fréttastjóri Stöðvar 2, á braut. Kári Jónasson tekur samhliða þessu við ritstjórastöðu Gunnars Smára hjá Fréttablaðinu á mánudag. Eru þessi kaup mjög athyglisverð í ljósi ummæla Skarphéðins Bergs Steinarssonar stjórnarformanns Norðurljósa og ennfremur Og Vodafone, um kaup Símans í Skjá einum, og undrun hans á því að símafyrirtæki keypti fjölmiðil. Hætt er við því að hann og hirðin í kringum sé að éta hattinn sinn með þessum kaupum og með því að henda fjármálastjóra forsetaframboðs sitjandi forseta Íslands út á guð og gaddinn. Spurt er nú einfaldrar spurningar: mun Samkeppnisstofnun heimila markaðsráðandi aðila á matvörumarkaði, sem á ráðandi eignarhald í fyrirtæki sem á stærsta dagblað landsins, stærstu sjónvarpsblokk landsins, stærstu útvarpsstöð landsins ásamt fleiru að eiga þetta allt saman?

Dagurinn í dag
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - var gjöf Frakka
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástand sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í málinu í 13 daga
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug

Snjallyrði dagsins
There is no such thing as society. There are individual men and women, and there are families.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands