Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 október 2004

George W. Bush á kosningafundi í OhioBush vs. Kerry > 3 dagar
Rúmum þrem sólarhringum áður en bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu og ákveða hvort að George W. Bush eða John Kerry sitji á forsetastóli í Bandaríkjunum næsta kjörtímabilið, snerist kastljós bandarískra fjölmiðla að hryðjuverkamanninum Osama Bin Laden sem sneri úr skjóli sínu til að minna á sig og ávarpa beint bandarísku þjóðina á lokaspretti kosningabaráttunnar. Var þetta í fyrsta skipti í rúmt ár sem bin Laden birtist opinberlega í sjónvarpsupptöku hjá sjónvarpsstöðinni. Í gærkvöldi sýndi arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera nokkurra mínútna myndband þar sem bin Laden kom í fyrsta skipti með afdráttarlausu yfirlýsingu þess efnis að hann hefði staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Sagðist hann reyndar geta útlistað bestu leiðina fyrir Bandaríkin til að "forðast annað Manhattan". Orðrétt sagði bin Laden: "Við ákváðum að eyðileggja háhýsi í Bandaríkjunum" og leit samstundis yfirvegaður og glottandi í linsu upptökuvélarinnar. Sagði hann að ríkisstjórn Bush væri ekki hótinu skárri en spilltar ríkisstjórnir í Arabalöndum. Bin Laden sagði að árásin á Bandaríkin hefði verið nauðsynleg til að endurheimta frelsi og kenna bandaríkjamönnum lexíu, hann hefði unnið að henni allt frá 1982. Sagði hann í ávarpinu að besta leiðin til að halda stöðunni góðri sé að reita ekki Araba til reiði. Má túlka skilaboð hryðjuverkaleiðtogans hiklaust sem óbeina stuðningsyfirlýsingu við Kerry og árás að Bush forseta. Frambjóðendurnir brugðust við yfirlýsingu hryðjuverkamannsins með ávörpum á ferðalögum sínum um Bandaríkin. Forsetinn var ákveðinn og yfirvegaður þegar hann flutti ávarp sitt á Toledo-flugvelli í Swanton í Ohio. Hann sagði orðrétt: "Let me make this very clear to the terrorists! Americans will not be intimidated or influenced by an enemy of our country. I'm sure Senator Kerry agrees with this." Sagðist hann treysta því að bandarískir kjósendur létu hótanir hryðjuverkamanns ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Kerry flutti ávarp skömmu síðar á flugvellinum í West Palm Beach á Flórída og var ákveðinn í garð Bin Laden og sagði: "Let me just make it crystal clear, as Americans we are absolutely united in our determination to hunt down and destroy Osama bin Laden and the terrorists. They are barbarians. I will stop at absolutely nothing to hunt down, capture and kill the terrorists wherever they are and whatever it takes". Er ástæða til að taka undir orð beggja forsetaefnanna, vonandi er að kjósendur láti ekki hótanir glæpamanns hafa áhrif á sig, þegar tekið er afstöðu til frambjóðendanna.

John Kerry á kosningafundi í FlórídaFrambjóðendurnir voru báðir eins og fyrr segir staddir á flugvöllum þegar þeir tjáðu sig um myndbandið með bin Laden. Þeir voru í gær á fleygiferð um lykilfylki kosningabaráttunnar og notuðu stund milli stríða áður en haldið var í flug milli fylkjanna til að tjá sig í beinum útsendingum fréttastöðvanna um málið, sem varð óvænt í gær helsta fréttaskot dagsins í stað kosningafunda forsetaefnanna með stjörnum prýddum gestum og stuðningsmönnum í fylkjunum. Bush forseti, var með stærsta kosningafund gærdagsins í borginni Columbus í lykilfylkinu Ohio, og var Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu, þar sérstakur gestur forsetahjónanna. Flutti ríkisstjórinn þar gott ávarp til stuðnings forsetanum og verkum hans og hvatti íbúa fylkisins og landsmenn alla til að fylkja sér um forsetann í kosningunum og standa vörð um verk stjórnar hans. Var ríkisstjóranum og forsetahjónunum ákaft fagnað þegar þau stigu á sviðið. Á sama tíma var Kerry með fjöldafund í Miami í Flórída ásamt Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna. Var mikið um húrrahróp og gleði á fundinum er Kerry-hjónin og Clinton mættu á staðinn. Rokkgoðið Bruce Springsteen sem fylgt hefur Kerry seinustu daga á kosningaferðalagi hans, söng í Miami og hefur nú komið fram á alls fjórum stórfundum Kerrys. Umfangsmikill lokasprettur er framundan á næstu dögum hjá forsetaefnunum í kosningaferðalögum sínum um lykilfylkin nú þegar kosningabaráttunni er að ljúka og margir sem leggja lið. Til dæmis eru Caroline Kennedy Schlossberg og föðurbróðir hennar, Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, á ferð um Pennsylvaníu og New Jersey til styrktar Kerry og Al Gore og Alexandra, dóttir frambjóðandans, eru á Hawaii til að efla stöðu hans þar en Kerry hefur misst forystuna í könnunum í þessu gamalgróna vígi demókrata. Clinton-hjónin verða næstu þrjá daga á ferð um Nevada, Nýju-Mexíkó, fyrrum heimafylki sitt Arkansas, þar sem forsetinn fyrrverandi var ríkisstjóri til fjölda ára, og enda í New York á mánudag. Fyrir Bush forseta, eru foreldrar hans á ferð um Nýju-Mexíkó og Nevada, ennfremur er Rudolph Giuliani á ferðalagi um Pennsylvaníu og New Jersey. Varaforsetaefnin eru svo á fleygiferð um landið í baráttunni, Cheney hefur fókuserað á suðurríkin seinustu daga en Edwards á norðurríkin. Stefnir í gríðarlega spennandi lokametra í kosningabaráttunni. Í dag fókusera forsetaefnin á miðríkin. Kerry-hjónin verða á ferðalagi um Wisconsin, Iowa og Ohio. Forsetahjónin verða á faraldsfæti í Michigan, Wisconsin, Minnesota og halda í kvöld til Flórída. Samkvæmt nýjustu könnunum heldur forsetinn enn 2-4% forskoti á Kerry. Spennan magnast!

SjálfstæðisflokkurinnKjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins verður haldinn að Skjólbrekku við Mývatn í dag og á morgun. Fundurinn hefst formlega kl. 13:30 með því að Gunnar Ragnars formaður kjördæmisráðsins, flytur skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Jafnframt verða reikningar lagðir fram og skýrðir. Að því loknu verða umræður um skýrsluna og reikninga kjördæmisráðs. Kl. 14:15 mun Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ávarpa þingfulltrúa. Að ræðu hans lokinni mun Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og varaformaður þingflokksins, flytja ávarp. Að lokinni ræðu þingmanna kjördæmisins mun sérstakur gestur fundarins, Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar, ávarpa kjördæmisráðið og ræða orkumál og orkunýtingu. Að loknu stuttu kaffihléi mun Bjarni Jónasson framkvæmdastjóri og varabæjarfulltrúi á Akureyri, stjórna pallborðsumræðum. Þar sitja fyrir svörum auk Friðriks og Arnbjargar, þau Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Friðfinnur Hermannsson bæjarfulltrúi á Húsavík, og Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar á Héraði. Um fimmleytið verður fundi svo frestað. Þá munu þingfulltrúar halda í rútu að hveraböðunum í Bjarnarflagi. Um áttaleytið hefst svo kvöldverður fyrir fulltrúa í kjördæmisráði. Verður, ef ég þekki sjálfstæðismenn í kjördæminu rétt, mikil gleði þar og góð skemmtun. Fundahald heldur svo áfram að morgni sunnudags. Þar verða reikningar kjördæmisráðsins bornir upp til samþykktar. Að því loknu kynnir formaður uppstillingarnefndar tillögur nefndarinnar um stjórn og aðrar trúnaðarstöður, sem kjósa skal um. Fer því næst fram kosning í stjórn ráðsins, kjörnefndarmanna, fulltrúa í flokksráð, svo fátt eitt sé nefnt. Er gert ráð fyrir fundarlokum um hádegi á sunnudeginum. Ég mun sitja þingið, enda einn af formönnum aðildarfélaga í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins. Verður ánægjulegt að fara í Mývatnssveit, hitta félaga sína í flokknum og skemmta sér vel saman þar.

Dagurinn í dag
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út árið eftir. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - var valin bók 20. aldarinnar árið 1999
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því þeir höfðu neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknarinnar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð og síðar komu í dómsmálum loks fram upptökurnar sem sönnuðu að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið að lokum til afsagnar Nixons
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitilinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, þungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga þeirra í Kinshasa í Zaire
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila 1993

Snjallyrði dagsins
On the tape, bin Laden says that neither Kerry nor Bush can keep us safe. Boy, just what we need, another undecided voter.
Bill Maher grínisti