Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 október 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um ræðu forseta Alþingis við setningu þingsins á föstudag, en ummæli þingforseta um stöðu þingsins eftir atburði sumarsins vegna synjunar forseta lýðveldisins á lögum frá þinginu leiddu til þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar gengu úr salnum. Má segja með sanni að slíkur heilagahjúpur sé yfir persónu Ólafs Ragnars Grímssonar í hugum stjórnarandstöðuþingmanna að ekki megi setja fram skoðanir sínar á verkum hans eða beina orðum að ákvörðunum hans sem breyttu stöðu Alþingis verulega. Ástæða er til að hafa enn meiri áhyggjur af stöðu þingsins en ella, fyrst forystumenn annarra flokka una því ekki að forseti þingsins segi skoðanir sínar við þingsetningu. Það er kostulegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar gangi úr salnum því þeir þoli ekki að hann hafi skoðanir og tjái þær opinberlega. Þegar þingmennirnir sem gengu út eru spurðir hversvegna þeir hafi gengið út kemur oftast það svar að forsetinn hafi misboðið þeim með því að tjá sig um málefni sumarsins. Hvað gerðist í sumar? Forseti Íslands gekk gegn ákvörðunum þingsins og verklagi þess. Er það ekki einmitt ástæða til að ræða við þingsetningu. Um er að ræða fordæmalausan atburð í 60 ára sögu íslensks lýðveldis. Hvað er mikilvægara umræðuefni á þessari stundu að mati þingmannanna? Á að líta framhjá gjörðum forseta lýðveldisins sem hefur fetað af þeim stíg sem markaður var af forverum hans, að forseti eigi að vera ópólitískur og hafinn yfir pólitískt dægurþras. Svo segja þeir þingmenn sem gengu út að forseti Alþingis hafi verið ókurteis. Þetta er allt með eins miklum ólíkindum og mögulegt má vera. Það er greinilegt að þessir einstaklingar, sem þoldu ekki skoðanir þingforsetans og málsvörn hans til handa þinginu, eru ekki miklir bógar ef þeir þola ekki að sitja undir og heyra skoðun pólitísks kjörins forseta þingsins. George W. Bush og John Kerry mættust í fyrsta skipti í kappræðum fyrir forsetakosningarnar 2. nóvember nk í vikunni. 30 dagar eru nú til kosninganna og verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif kappræðurnar muni hafa á fylgi forsetaefnanna. Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður dómari við Hæstarétt Íslands á miðvikudag, lýsi ég yfir ánægju með þá ákvörðun ráðherra að velja hann til starfans.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraPistill Björns
Í pistli sínum í dag fjallar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, um ræðu þingforseta á föstudag og segir t.d. eftirfarandi: "Sunnudaginn 3. október má lesa í Fréttablaðinu , að Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur segi í grein á póstlistanum Gammabrekku, að synjunarvald konungs hafi vissulega verið tengt guði. Öðru máli gegni um synjunarvald þjóðkjörins forseta sem leyst hafi konung af hólmi, þökk sé þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. „Við höfnuðum guðkjörnum konungi og stofnuðum lýðveldi,“ segi hann. Árni Daníel segi auk þess, að með því að tengja vald forseta við guð sé Halldór Blöndal að svíkja grundvöll lýðveldisins: "Hann lýgur því að stjórnarskrá Íslands sé tengd við guð. Þær lygar verða ekki samþykktar af þjóðinni. Þjóðfrelsisbaráttan var ekki til einskis, lygarar fá ekki að sitja í sæti forseta Alþingis. Niður með Halldór Blöndal.“ Segir Fréttablaðið jafnframt, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor svari Árna Daníel á sama vettvangi og segi, að Halldór Blöndal hafi „sögulega rétt fyrir sér“. Prófessorinn segi, að synjunarvaldið hefði verið orðinn dauður bókstafur við lýðveldisstofnun 1944, enda hefðu fræðimenn þá aðeins gert ráð fyrir því að því yrði beitt við mjög óvenjulegar aðstæður svo sem stríðsástandi eða annarri ógn. "Núverandi forseti kaus hins vegar að beita því þegar í hlut átti fyrirtæki, sem var nátengt honum en kosningastjóri hans er forstjóri þess." Segi Hannes að hafi Árni Daníel viljað vera trúr sögulegri hefð Íslendinga hefði hann átt að segja: „Niður með Bessastaðavaldið!“ Þessi frásögn Fréttablaðsins sýnir, að forseti alþingis snerti viðkvæma strengi með ræðu sinni."

Dagurinn í dag
1542 Gissur Einarsson var vígður í embætti Skálholtsbiskups - hann varð sá fyrsti í lútherskum sið
1903 Konungur úrskurðaði að skjaldarmerki Íslands yrði fálki á bláum grunni - var notað til 1918
1967 Þjóðlagasöngvarinn Woody Guthrie, lést, 55 ára að aldri - hafði mikil áhrif á aðra tónlistarmenn
1990 A-Þýskaland heyrir sögunni til - sameinist formlega V-Þýskalandi í sameinað ríki Þýskalands
1995 O.J. Simpson sýknaður af ákæru um að hafa myrt fyrrum konu sína, eftir löng réttarhöld

Snjallyrði dagsins
When I think of angels
I think of you.

Gods speed to you angel
where ever you go
although you have left
I want you to know
My heart's full of sorrow
I won't let it show

I´ll see you again
when it's my time to go.
KK (I think of Angels)