
Fyrir nokkrum dögum tjáði ég á þessum vef skoðanir mínar á þingsályktunartillögu varaþingmanna Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þess efnis að skipta um þjóðsöng og taka upp nýjan. Kom þar fram algjör andstaða mín, undrun og hneykslan við þeirri tillögu. Eins og vel hefur komið fram bæði þá og oft áður er ég algjörlega andvígur öllum tillögum í þá átt að hrófla við Lofsöng, eftir heiðursborgara Akureyrarbæjar, sr. Matthías Jochumsson. Kom þessi skoðun vel fram hér á laugardag og í sunnudagspistli mínum um helgina. Mjög ánægjulegt var að ég fékk mikil viðbrögð við þessum skrifum og fjöldamarga tölvupósta. Öll voru þau á eina lund, þar kom fram ennfremur algjör andstaða við þessa tillögu og það sem fram kemur í mati þessara varaþingmanna. Ég fæ í fljótu bragði ekki séð hvernig þessi tillaga getur verið til vinsælda fallin allavega t.d. hér í heimabæ skáldsins, þar sem hann var prestur og varð heiðursborgari hans.
Þessi skoðun kom fram jafnt af minni hálfu sem áhugamanns um kveðskap Matthíasar, Akureyrings, og síðast en ekki síst sem formanns sjálfstæðisfélags í stærsta sveitarfélagi Norðausturkjördæmis. Það má vel vera að varaþingmennirnir hafi skoðanir og sannfæringu í þá átt að best sé að henda þjóðsöngnum til hliðar. Gott og blessað svosem með það. En það má þá alveg jafnljóst vera að hún verður ekki til vinsælda fallin hér í heimabæ skáldsins, sem er stærsti byggðakjarni kjördæmisins. Ég get fúslega viðurkennt að það kemur aldrei til greina af minni hálfu að styðja hugmyndir í þessa átt og mun berjast gegn þeim með öllu sem tiltækt er af minni hálfu, hvar sem þær koma og hvaðan sem þær koma. Það er alveg einfalt mál af minni hálfu. Þær raddir hafa heyrst í þessari þingsályktunartillögu og á fleiri stöðum að þjóðsöngurinn sé erfiður til söngs og ekki hentugur til að raula. Það má svosem alveg taka undir það, það er ögrun og það skemmtileg ögrun að ná því að syngja hann. Síðast þegar ég vissi var þessi söngur valinn til þess að hljóta sess sinn vegna þess að hann er fallegur og hann er tákn um virðingu. Það er lykilástæða þess að hann hefur verið táknmynd landsins eins lengi og raun ber vitni.


Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í níunda skipti. Það var árið 1996 sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn mestu meistara íslenskrar bókmenntasögu. Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land. Í dag var deginum fagnað sérstaklega með athöfn í Safnahúsinu á Ísafirði. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Silju Aðalsteinsdóttur rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2004. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: "Silja hefur lengi sinnt íslenskri tungu og menningu af dugnaði, metnaði og alúð. Árið 1981 kom út eftir hana íslensk barnabókmenntasaga, sú eina sem skrifuð hefur verið hér á landi og mikið brautryðjendaverk, en þar er fjallað um íslenskar barnabækur 1780-1979. Silja vakti mikla athygli ungs fólks fyrir bók sína um Bubba árið 1990 en eitt merkasta rit hennar er án efa ævisaga Guðmundar Böðvarssonar, en fyrir þá bók hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1994." Silja er vel að verðlaununum komin. Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.
Dagurinn í dag
1907 Stytta af Jónasi Hallgrímssyni afhjúpuð í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Styttan var eftir Einar Jónsson. Fyrst sett upp við Amtmannsstíg en síðar flutt í Hljómskálagarðinn
1946 Jarðneskar leifar Jónasar Hallgrímssonar skálds, voru lagðar í moldu í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, á afmælisdegi hans. Jarðneskar leifar Jónasar lágu í kirkjugarði í Danmörku frá 1845
1957 Nonnahús á Akureyri opnað sem safn er 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sveinssonar, Nonna. Fór ungur til útlanda til náms og kom tvisvar eftir það heim, 1894 og 1930. Hann lést 1945
1996 Dagur íslenskrar tungu var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur, efnt var til málræktarþings og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent fyrsta sinni, þau hlaut þá Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur
2000 Bill Clinton forseti Bandaríkjanna, fór í opinbera heimsókn til Víetnam, fyrstur forseta landsins
Snjallyrði dagsins
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er yndislegt um vor,
í björtu veðri er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor
Er sólin heit í heiði
baðar haf og dali og fjöll.
Í háum hamraborgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll
Um háreist hamraskörðin
hoppa lömb í frið og spekt.
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er óviðjafnanlegt.
Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður (Að sigla inn Eyjafjörðinn)
<< Heim