Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 nóvember 2004

RáðhúsiðHeitast í umræðunni
Örlög Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, munu að öllum líkindum ráðast á næstu dögum. Fyrir liggur að afstaða vinstri grænna hefur ekkert breyst eftir vörn borgarstjórans í fjölmiðlum seinustu daga. Sömu staðreyndir og áður lágu fyrir eru enn í fullu gildi, afsakanir Þórólfs hafa engu breytt nema sýna enn betur fram á vandræðaganginn í málflutningi hans og hvað varðar það ráðleysi sem einkennir forystu borgarstjórnarmeirihlutans sem enga stjórn hefur á sínum innri málum, hvað þá hefur lengur heildarsýn yfir borgarmálin. Allur tími borgarfulltrúanna þessa dagana fer í það að leita að eftirmanni Þórólfs eða semja sín á milli um næstu skref og hvernig reyna eigi með góðu að losa sig við hann. Vandinn felst í því að engin samstaða er um eftirmann né næstu skref. Þess vegna og aðeins á þeim forsendum situr Þórólfur enn sem borgarstjóri. Taka verður þó brátt af skarið. Sýnt er að vinstri grænir hafa félagsfund annað kvöld þar sem afstaða þeirra kemur endanlega fram. Um helgina hafa Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, og tveir þingmenn Samfylkingarinnar, Guðmundur Árni Stefánsson og Mörður Árnason, lýst yfir stuðningi við Þórólf. Í viðtali við fréttamann Sjónvarps talaði Mörður um að rétt væri að fyrirgefa borgarstjóranum hans þátt. Ber að skilja orð hans þannig að það eigi að fyrirgefa öllum þeim sem komu að samráðinu, eða bara sumum, það er að segja þeim sem sitja í nafni Samfylkingarinnar á valdastólum? Það er hlægilegt að fylgjast með ummælum Marðar og siðferðinu á Samfylkingarbænum. Ef sjálfstæðismaður hefði verið borgarstjóri og málið allt annars með sama brag, haldið þið þá að Mörður Árnason hefði komið í sjónvarp til að hvetja fólk til að fyrirgefa honum? Ekki er það líklegt. Hverslags siðferði er í Samfylkingunni spyr maður bara. Þetta er ótrúlegur tvískinnungur í Samfylkingunni. Við erum að tala um að borgarstjórinn í Reykjavík hafi verið beinn þátttakandi í einu stærsta fjársvikamáli sem átt hefur sér stað hérlendis. Sannar þetta mál og siðleysi þingmanna flokksins að þeir sem hrópa hæst um bætt siðferði á ýmsum stöðum, er greinilega alveg sama um siðferðið á eigin slóðum. Ekki er þetta trúverðugt. Samfylkingin afhjúpar sig með ummælum þessara þingmanna sinna. Málið á greinilega að humma fram af sér vegna þess að það tengist flokknum og fulltrúa hans á borgarstjórastóli. Þvílíkur aumingjaskapur.

OlíufélöginMikil umræða hefur verið um stöðu olíufélaganna og stjórnun þeirra allt frá því að skýrsla Samkeppnisstofnunar var kynnt fyrir rúmri viku. Er enginn vafi á því að mikil reiði er í samfélaginu almennt vegna málsins, enda afhjúpast í skýrslunni víðtæk og ótrúleg vinnubrögð af hálfu olíufélaganna um að taka vísvitandi þátt í samsæri gegn almenningi: samsæri sem var til þess að halda uppi bensínverði, ólöglegum vinnubrögðum samkvæmt samkeppnislögum. Nú hafa öll olíufélögin sem fjallað er um í skýrslunni, sent frá sér afsökunarbeiðni vegna samráðsins, hvert með sínum hætti þó. OLÍS varð fyrst til að senda frá sér yfirlýsingu seinnipartinn í gær og voru landsmenn í henni beðnir afsökunar á því sem miður hafi farið í starfsemi félagsins. Í yfirlýsingunni gerir félagið um leið alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Samkeppnisstofnunar og sakar starfsmenn stofnunarinnar um að þeir dragi vísvitandi rangar ályktanir. Afsökunarbeiðnin er því undarleg og á sama tíma ásakanir til þeirra sem uppljóstruðu um glæpinn sem um ræðir. Er ekki annað hægt að segja en að þessi afsökunarbeiðni líti því illa út. Olíufélagið birtir í morgun svo heilsíðuauglýsingu í dagblöðunum með afsökunarbeiðni og er annar tónn þar, engar ásakanir í aðrar áttir. Brosandi starfsfólk ESSO er þar áberandi og fyrirsögnin: Ný sjónarmið, til marks um breyttar áherslur. Í morgun sendi síðan Skeljungur frá sér yfirlýsingu þar sem bæði viðskiptavinir og starfsfólk Skeljungs eru beðin afsökunar á því sem miður fór vegna samráðsins. Segir þar að starfshættir fortíðarinnar heyri sögunni til. Það er því greinilegt að fyrirtækin eru að reyna að klóra í bakkann og fegra ímynd sína. Eftir stendur að þessi fyrirtæki eru rúin öllu trausti og eiga erfitt verkefni framundan við að reyna að hysja upp um sig buxurnar eftir þá glæpi gegn neytendum sem þau gerðust sek um.

AkureyriNiðurstöður íbúaþings á Akureyri
Eins og ég hef oft sagt frá hér á vefnum var haldið fjölmennt íbúaþing laugardaginn 18. september sl, undir heitinu Akureyri í öndvegi. Nú hafa niðurstöður þingsins verið birtar í ítarlegri greinargerð. Margt athyglisvert má lesa þar, meðal annars kemur þetta fram í ágripi helstu niðurstaðna: "Á þinginu kom glöggt fram að Akureyringum rennur til rifja hve mjög miðbænum hefur hnignað á undanförnum árum. Verslunum hefur fækkað og almennt þykir miðbærinn fremur óaðlaðandi, skuggsæll og vindasamur. Sú skoðun var ríkjandi að þessari þróun mætti snúa við með því að fjölga íbúðum í miðbænum og hafa þar matvöruverslun auk þess að gera hann grænni, skjólmeiri og litríkari. Þannig myndi þjónusta og mannlíf eflast og autt verslunar- og þjónustuhúsnæði fyllast á ný. Undanfarið hefur nokkur umræða spunnist á Akureyri um byggingu háhýsa. Á þinginu voru skiptar skoðanir um ásættanlega hæð húsa en þó voru þeir töluvert fleiri sem töldu rétt að fara varlega í það að raska einstakri bæjarmynd Akureyrar með miklu hærri húsum en þeim sem fyrir eru. Ljóst er að Akureyringar telja Oddeyrartanga fýsilegan kost fyrir bryggjuhverfi. Þannig myndi Strandgatan tengjast miðbænum frekar, ekki síst eftir að fyrirhugað Menningarhús verður risið." Ég hvet alla til að kynna sér tillögurnar sem koma fram á vef íbúaþingsins. Er greinilegt að þessi dagur í Íþróttahöllinni var mjög gagnlegur og tillögurnar koma vel að gagni er miðbærinn okkar verður mótaður til framtíðar.

Dagurinn í dag
1864 Abraham Lincoln endurkjörinn forseti Bandaríkjanna - hann var myrtur 15. apríl 1865
1987 Ólafur Ragnar Grímsson kjörinn formaður Alþýðubandalagsins - hann sigraði Sigrúnu Stefánsdóttur í formannskjöri. Hann hlaut 60% atkvæða í kosningunni. Ólafur var fjármálaráðherra 1988-1991. Hann var formaður Alþýðubandalagsins í 8 ár og varð svo forseti Íslands, árið 1996
1990 Mary Robinson kjörin forseti Írlands, fyrst kvenna - Robinson sat á forsetastóli til ársins 1997
2000 George W. Bush kjörinn forseti Bandaríkjanna - deilt var um sigur hans, enda munaði litlu á honum og keppinaut hans, Al Gore, í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Ljóst var orðið að sigurvegari fylkisins yrði forseti. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Að lokum fór svo að Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi ósigur sinn um miðjan desember, 36 dögum eftir kjörið
2002 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, samþykkir ályktun 1441, þess efnis að afvopna verði Írak og Saddam Hussein forseta landsins - ályktunin leiddi svo til þess að ráðist var inn í Írak í mars 2003

Snjallyrði dagsins
Þegar ég var ráðinn sem borgarstjóri, þá vissi ég ekkert um þetta samráð. Þó að ég hafi starfað að samráðinu, þá er nú ekki þar með sagt að ég hafi vitað af því. Sjáðu til, þetta var bara mín vinna og það er ekki það sama og starf. Þó maður vinni við eitthvað er ekki þar með sagt að maður viti við hvað maður starfar.
Sigurður Sigurjónsson leikari (í hlutverki borgarstjóra í bráðfyndnum þætti á laugardag)