Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 nóvember 2004

Tony Blair og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, hittust á vinnufundi í Hvíta húsinu í Washington DC í gær. Er Blair fyrsti þjóðarleiðtoginn sem sækir Bush forseta, heim frá því að hann var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í kosningunum 2. nóvember sl. Í spjalli þeirra var að mestu leyti farið yfir Íraksmálið og málefni M-Austurlanda, en þáttaskil eru framundan þar í kjölfar andláts Yasser Arafat forseta Palestínu, sem lést á fimmtudag og var borinn til hinstu hvílu í Ramallah í gær að viðstöddum þúsundum syrgjandi Palestínumönnum sem kvöddu leiðtoga sinn til rúmlega fjögurra áratuga. Voru leiðtogarnir á einu máli um að dauði Arafats opnaði möguleika á friði milli Palestínu og Ísraels og vonarneisti hefði kviknað um að friðarferlið færi af stað að nýju. Sagði Bush forseti, að góður möguleiki væri á stofnun palestínsks ríkis og hann ætlaði að verja seinna kjörtímabili sínu í að eyða pólitískri inneign Bandaríkjanna í slíkt ríki. Það væri í þágu alls heimsins að frjálst ríki þróist í Palestínu.

Bush sagði ennfremur að til þess að friður kæmist á yrðu allir að vinna saman: Palestínumenn, Ísraelar og alþjóðasamfélagið. Tók Blair undir þetta mat og sagði að mikilvægt væri að stefna að því koma friðarferlinu af stað á nýjan leik og leysa úr ófriðnum á svæðinu. Er mikið ánægjuefni að heyra þessi ummæli leiðtoganna. Segja má með sanni að þetta sé mikilvægasta niðurstaða vel heppnaðs fundar Bush og Blair. Greinilegt er að samskipti Bandaríkjanna og Bretlands eru með hinu allra besta móti og gott trúnaðarsamband hefur skapast milli leiðtoganna. Er slíkt vissulega nauðsynlegt þegar Bandaríkin og Bretland eiga í hlut enda kraftmiklar þjóðir í forystu í heimsmálunum. Það er góðs viti að leiðtogar landanna eigi með sér gott samstarf. Er engu líkara nema svo gott sé á milli leiðtoganna að trúnaðarsamband þeirra sé jafnvel jafnnáið og var á milli Ronald Reagan sem forseta Bandaríkjanna, og Margaret Thatcher sem forsætisráðherra Bretlands, á níunda áratugnum.

Matthías JochumssonÞað hefur verið mat mitt og skoðun til fjölda ára að við Íslendingar eigum fallegasta þjóðsöng í heimi: Lofsöng eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson við undurfallegt ljóð sr. Matthíasar Jochumssonar, sem var prestur hér á Akureyri í einn og hálfan áratug, undir lok prestsferils síns. Eftir honum er nefnd kirkja okkar Akureyringa, minningarkirkja sálmaskáldsins og prestsins. Skammt frá stendur Sigurhæðir, þar bjó hann frá því húsið var byggt árið 1903 allt til dánardags árið 1920. Þannig er mál með vexti að ég er mikill unnandi kveðskapar Matthíasar og vann eitt sumar á Sigurhæðum, þar sem er minningarsafn um skáldið og prestinn okkar sem er enn þann dag í dag eitt virtasta skáld sem búið hefur í bænum. Þannig að ég þekki vel til skáldsins og verka hans. Að mínu mati er þjóðsöngurinn okkar tákn alls þess sem virðulegast er, tákn um virðingu okkar fyrir landinu og þeirri trú sem við flest aðhyllumst. Þegar ég var í kór var það bæði ögrun og skemmtun að syngja hann og kunna enn betur að meta lagið.

Ég er algjörlega á móti því að skipta um þjóðsöng. Tel það jafnast á við guðlast að tala um að henda honum og skipta um. Vissulega eigum við mörg falleg ættjarðarlög sem gaman er að syngja á tyllidögum og tignum stundum í sögu þjóðarinnar. En ekkert þeirra jafnast á við þjóðsönginn. Það er því bæði undrun og hneykslan sem vaknar í hugskoti mínu þegar ég heyri fréttir af því að varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson, sem sitja nú á þingi í fjarveru þingmanna okkar í kjördæminu, hafi ekkert þarfara að gera í störfum sínum og mikilvægara fram að færa þann skamma tíma sem þau sitja á þingi en að leggja til að skipta um þjóðsöng og taka upp nýjan. Ég er algjörlega ósammála mati þeirra í þingsályktunartillögu sem þau hafa lagt fram um þjóðsönginn og tengd málefni. Það er ekki nema von að spurt sé, er þetta það mikilvægasta sem þörf er á að fjalla um eða benda á, á stuttum tíma sínum á þingi? Ég vil halda í þjóðsönginn, svo einfalt er það. Því er þessi tillaga að mínu mati alveg út í hött!

Yasser Arafat (1929-2004)Yasser Arafat (1929-2004)
Yasser Arafat forseti Palestínu, lést á fimmtudag, eftir mikil veikindi. Flogið var með lík Arafats til Kaíró í Egyptalandi á fimmtudag. Þar var formleg jarðarför Arafats og viðhafnarkveðjuathöfn hans haldin í gær. Að því loknu var lík Arafats flutt til Ramallah. Mikil ringulreið skapaðist þegar þyrla lenti með kistu Arafats á Vesturbakkanum. Þúsundir manna ruddust að lendingarpallinum og öryggislögreglumenn skutu úr byssum upp í loftið til að reyna að dreifa mannfjöldanum. Greftrun Arafats var flýtt og í stað þess að kistan væri á viðhafnarbörum í nokkrar klukkustundir og hún væri jörðuð við sólsetur var hún grafin strax við höfuðstöðvar heimastjórnarinnar. Mikil sorg er á Vesturbakkanum vegna andláts Arafats, og hefur verið lýst yfir 40 daga þjóðarsorg. Arafat lætur eftir sig eiginkonu, Suhu Tawil, sem hann giftist árið 1990, og níu ára dóttur, Zöwhu Ammar. Suha hefur lengi verið umdeild meðal Palestínumanna. Hún er kristin og aðeins 41 árs gömul og því rúmum 30 árum yngri en Arafat.

Skarð Arafats í palestínskum stjórnmálum er bæði stórt og mjög vandfyllt. Hann hafði haft bæði tögl og hagldir í palestínsku heimastjórninni og í stjórnmálaheimi landsins í vel yfir fjóra áratugi. Enginn afgerandi og óumdeildur eftirmaður og leiðtogi er í sjónmáli og hætt er við að mikil valdabarátta skelli á, nú þegar kjósa þarf nýjan forseta í heimastjórninni. Mahmoud Abbas fyrrum forsætisráðherra Palestínu, hefur tekið við hlutverki Arafats sem leiðtogi PLO og Rawhi Fattouh hefur tekið við forsetaembætti palestínsku heimastjórnarinnar til bráðabirgða. Segja má með sanni að saga Yasser Arafat sé órjúfanlega samofin sögu palestínsku þjóðarinnar og frelsisbaráttu landsins seinustu áratugina. Hann hefur leitt baráttu landsins fyrir frelsi og sjálfstæði af krafti. Sú von er í brjósti allra að andlát Arafats megi verða til þess að auka líkur á friðarsamkomulagi á næstunni og tryggja megi frið í M-Austurlöndum. Vonandi er að nýjar og bjartar leiðir hafi opnast til nýs friðarferlis milli Ísraels og Palestínu. Arafat náði ekki að lifa þann dag að frjálst ríki Palestínu liti dagsins ljós. Vonandi mun þegnum hans auðnast að sjá slíkt ríki koma til sögunnar á næstu árum.

Yasser Arafat - pistill minn um ævi og feril leiðtoga Palestínumanna

Dagurinn í dag
1939 Þýska flutningaskipinu Parana var sökkt út af Patreksfirði. Áhöfnin yfirgaf skipið daginn eftir og var tekin til fanga af breska herskipinu Newcastle - var fyrsta skipið sem sökk hér í seinna stríðinu
1946 Vestmannaeyjaflugvöllur formlega tekinn í notkun - þá eitt mesta mannvirki sinnar tegundar
1963 Þriggja alda afmælis Árna Magnússonar handritasafnara, minnst - nýbygging við Háskóla Íslands nefnd eftir honum í tilefni dagsins. Þar eru geymd handrit Íslendinga, sem Danir afhentu okkur
1973 Samningur við Breta um lausn landhelgisdeilunnar (varðandi 50 mílur) var samþykktur á þingi
2002 Írak samþykkir að hlíta ályktun 1441 - ályktunin leiddi til þess að ráðist var í Írak í mars 2003

Snjallyrði dagsins
I tell you, first John Ashcroft retires, now Yasser Arafat dies. This has not been a good week for religious radicals.

Yasser Arafat died last night. And this time it looks pretty permanent. How many times did he die this week? Like five? Six? He was turning into Kenny on South Park.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi