
Líklegt er að valdabarátta sé framundan innan R-listans um að finna nýjan borgarstjóra, eftirmann Þórólfs Árnasonar fráfarandi borgarstjóra, sem sagði af sér embætti í gær vegna aðildar sinnar að olíusamráðinu, og mun láta af embætti þann 30. nóvember nk. Tillaga mun hafa verið lögð fram í gær á fundi innan borgarstjórnarflokks R-listans um að Dagur B. Eggertsson óháður borgarfulltrúi, yrði borgarstjóri. Hafa framsóknarmenn alfarið hafnað henni og munu ekki styðja hann til embættisins. Ekki kemur heldur til greina að fyrrum borgarstjóri eða leiðtogar flokkanna innan listans taki við embættinu. Er það mat framsóknarmanna að borgarstjórinn eigi ekki að koma úr hópi kjörinna borgarfulltrúa, kristallast þessi skoðun í ályktun stjórnar framsóknarfélags í Reykjavík norður í gærkvöldi. Í viðtali í gærkvöldi sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, að ólíklegt væri að nýr borgarstjóri yrði utanaðkomandi aðili.
Fulltrúar innan R-listans tala því í margar áttir um það hver eigi að vera næsti borgarstjóri og taka við embættinu eftir þrjár vikur. Það virðist engin samstaða um næstu skref og það lítur þannig út að menn séu að reyna að kaupa sér frest með því að geyma borgarstjóraskiptin til mánaðarmóta. Eini borgarfulltrúinn sem mögulegt er að samstaða náist um er Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Annars er fróðlegt að heyra það í yfirlýsingu fráfarandi borgarstjóra að hann hafi tekið sjálfur ákvörðun um að hætta. Enginn vafi leikur á að hann var neyddur til að segja af sér, eða hafði ekkert annað í stöðunni, enda hafði félagsfundur VG verið boðaður og þar blasti við að vantraust yrði samþykkt á hann af hálfu flokksins. Það er því einkennilegt að heyra hann tala um að þetta hafi verið sín ákvörðun, þegar við blasti að pólitískt bakland hans var brostið. Það þarf því varla að tala um afsögn hans sem hetjudáð, sé mið tekið af þeirri vonlausu stöðu sem hann var í. Hann gat á blaðamannafundi í gær ekki svarað því hvort hann telji sig hafa getað varið heiður sinn né hverjir standi að skoðanakönnunum sem gerðar voru um stöðu hans. Né heldur af hverju hann segir af sér núna, sé mið tekið af því að hann hafði sagt áður að það væri ekki á færi hans eins að ákveða framhaldið. Þetta er því allt eins fyndið og mögulegt má vera og orðatiktúrur sem enginn skilur í. En meirihlutinn greinilega hristist nú til og frá.

Það að Ingibjörg kannaði ekki málið né heldur ræddi það við samherja sína, sýnir vel hversu þunnir þræðir tengja flokkana saman. Að auki var fróðlegt að heyra þá skoðun Ingibjargar að innan R-listans gætu allir talað saman og hreinlyndi væri milli fólks. Það er nú ekki annað hægt en að hlæja að þessu, svona sem áhorfandi að látunum innan R-listans og valdabröltsins seinustu tvö árin, en nú blasir við að leita þurfi að borgarstjóra í þriðja skipti á innan við tveim árum. Hreinlyndið er ekki meira en svo að menn tala í sínhvora áttina í fjölmiðlum og eru tilbúnir til að kippa fótunum undan hvor öðrum og geta ekki heldur unnt hvoru öðru að verða borgarstjóri í Reykjavík. Svo vöktu síðast en ekki síst athygli ummæli hennar þess efnis að borgarfulltrúi yrði borgarstjóri nú, þegar við blasir að engin samstaða er um næstu skref og ekkert sem blasir við nema þá það að slagsmál verði og harkaleg valdaátök um það milli flokka og meira að segja innan flokkanna sem mynda R-listann, um það hver muni taka við af Þórólfi.

Dagurinn í dag
1949 Þjórsárbrú vígð - brúin þótti mikið samgöngumannvirki og marka þáttaskil í samgöngumálum
1967 Strákagöng voru formlega tekin í notkun - þau voru þá lengstu veggöngin, um 800 metrar. Göngin voru mikil samgöngubót, endu komust íbúar Siglufjarðar þá loks í vegasamband allt árið
1970 Charles De Gaulle fyrrum forseti Frakklands, lést á heimili sínu í Colombey-les-deux-Églises, 79 ára að aldri. De Gaulle var einn af helstu stjórnmálamönnum Frakka á 20. öld, og forystumaður landsins í seinna stríðinu. Hann var forsætisráðherra landsins 1958-1959 og loks forseti 1959-1969
1982 Leonid Brezhnev Sovétleiðtogi, deyr, 76 ára að aldri - hann hafði lengi átt við veikindi
1996 Sighvatur Björgvinsson kjörinn formaður Alþýðuflokksins í stað Jóns Baldvins Hannibalssonar. Sighvatur sigraði Guðmund Árna Stefánsson þáverandi varaformann flokksins, í formannskjörinu. Alþýðuflokkurinn varð hluti af nýjum flokki, Samfylkingunni, 2000. Flokkurinn er þó enn formlega til
Snjallyrði dagsins
Today, President Bush thanked those that worked the hardest for his reelection: Ralph Nader and Osama bin Laden.
Let me tell ya, you gotta feel bad for John Kerry. Just think he came this close to finally getting his own house.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi
<< Heim