Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 nóvember 2004

KennslaHeitast í umræðunni
Samninganefndir Kennarasambandsins og sveitarfélaganna náðu seinnipartinn í dag samkomulagi um nýjan kjarasamning grunnskólakennara, eftir að hafa setið á samningafundi í allan dag. Það kemur því ekki til þess að Gerðardómur úrskurði um laun kennara eða taki málið að sér, en við blasti að næðust ekki samningar fyrir 20. nóvember nk. kæmi til þess. Samningurinn gildir til maíloka 2008. Laun kennara munu hækka um 5,5 prósent strax og þeir fá 130.000 króna eingreiðslu. Að mati bæði sveitarfélaganna og kennaraforystunnar var betri kostur að semja með þessum hætti en láta málið fara í gerðardóm, ekki hefði verið lengra komist. Leggur kennaraforystan til að kennarar samþykki þennan samning og taki því sem þar er samið um. Formaður Kennarasambandsins sagði í fjölmiðlum í kvöld ljóst að það sem kennarar hafi í höndunum nú sé allt annað en það sem blasti við áður en farið var í verkfall.

Vissulega er rétt að þessi kjarasamningur sé gerður við erfiðar aðstæður, bæði með tilliti til lagasetningarinnar og þess að skipan Gerðardóms vofði yfir. Ánægjulegt er að samningar hafi nú náðst milli kennara og sveitarfélaganna og að skólastarf geti farið af stað að nýju með miklum krafti, þeim krafti sem nauðsynlegur er. Blasti við að skólastarfið væri komið í algjöra rúst og stefndi í óefni eftir að kennarar brugðust algjörlega hlutverki sínu sem fyrirmyndir nemenda með því að brjóta landslög og liggja heima hjá sér og þykjast vera veikir í byrjun vikunnar, sem var dæmi um algjört siðleysi. Er gott að niðurstaða hafi náðst fyrir skipan Gerðardóms og starf í skólunum geti farið af stað og að nemendur geti fengið þá menntun sem þeim ber. Að mínu mati snýst skólastarfið um að útvega sem bestu menntun til nemenda og að kennarar standi sig í starfi sínu og séu þær fyrirmyndur sem þeim ber! Ég tel að kennarar landsins eigi nokkuð verk framundan við að hitta nemendur sína og ávinna sér traust þeirra aftur eftir framkomu þeirra í vikubyrjun. Staða kennarans á jú að vera sú að kenna nemendum lífsreglurnar jafnt sem fagið.

F4-öryggisþoturDavíð Oddsson utanríkisráðherra, hitti seinnipartinn í gær Colin Powell fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi í utanríkisráðuneytinu í Washington DC. Fóru ráðherrarnir vel yfir stöðu varnarmálanna og komandi skref af hálfu ríkisstjórnar George W. Bush forseta, nú eftir að ljóst er að hann mun gegna embætti forseta Bandaríkjanna til janúar 2009, næstu fjögur árin. Nokkrir mánuðir eru síðan Davíð átti fund með forsetanum í Hvíta húsinu þar sem farið var yfir þessi mál. Sagði Davíð eftir fund sinn með Colin að það væri sitt mat að ríkin tvö hefðu færst nær samkomulagi um framtíð varnarstöðvarinnar í Keflavík. Sömdu ráðherrarnir um það að embættismenn ríkjanna myndu koma saman í janúar til að halda viðræðunum áfram en þá verður dr. Condoleezza Rice tekin við af Powell sem utanríkisráðherra, en Bush forseti tilkynnti í gær að hann hefði valið hana til að taka við embættinu.

Lýsti Davíð yfir ánægju sinni sérstaklega með val forsetans á henni, enda hefðu þau átt samskipti um varnarmálin og farið yfir oft, t.d. í gegnum síma og með bréfaskriftum. Davíð sagði að samskipti Íslands við utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefðu jafnan verið sterk og hann myndi næst næst hitta ráðherrann á ráðherrafundi NATO í desember. Sagði Davíð í viðtölum að lykiltilgangur fundarins með Powell hefði verið að koma varnarmálunum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefði verið um framtíð F4 þotanna og varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki hreyft neinum andmælum við eðlilegri aðlögun varnarliðsins að breyttum aðstæðum, sem hafir frá lokum kalda stríðsins falið í sér verulegan samdrátt í búnaði og fækkun liðsmanna. Hins vegar hafi verið lögð rík áhersla á að á Íslandi þurfi að vera varnarviðbúnaður eins og í öllum bandalags- og nágrannaríkjum Íslands. Jafnframt sé ljóst að mikill vöxtur hafi orðið í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll sem valdi því að stjórnvöld séu reiðubúin að semja um það við Bandaríkjamenn hvernig Íslendingar geti tekið meiri þátt í kostnaði við rekstur hans.

Condoleezza Rice verðandi utanríkisráðherra BandaríkjannaEnginn vafi leikur á að það er mikill kostur fyrir Íslendinga í stöðu varnarmálanna að það er dr. Condoleezza Rice sem verður utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stað Colin Powell. Condi þekkir mjög vel til stöðu allra mála okkar og er eins og fyrr segir vel málkunnug bæði forsætis- og utanríkisráðherra Íslands. Condi er sérfræðingur í málefnum NATO og varnarmálum almennt á seinustu áratugum og þekkir því vel til allra aðstæðna tengdum Keflavík og hefur margoft rætt við helstu forystumenn á vettvangi íslenskra stjórnmála og sérfræðinga innan NATO með varnarviðbúnað almennt í Evrópu. Enginn vafi er á því að hún hefur haft ráðandi stöðu í utanríkismálum Bandaríkjanna seinustu árin, þó ekki hafi hún fyrr orðið ráðherra. Hún er í raun nánasti samstarfsmaður forsetans á sviði utanríkismála.

Þegar Bush forseti, fór í framboð 1999, réði hann strax Condi til að fræða sig um helstu málefnin í utanríkispólitík almennt í heiminum. Segja má því með sanni að Condi hafi kennt honum allt það sem þurfti. Gárungarnir hafa sagt að þau séu svo náin í stefnumótun að þau séu eins og systkini. Eflaust er það rétt. Bush hefur treyst mjög mikið á dómgreind hennar og forystu í að taka ákvarðanir og ráðleggja sér í erfiðum málum. Það er alveg greinilegt. En eftir stendur að val hans á henni kemur ekki á óvart, þó svo að blað sé brotið í sögu Bandaríkjanna með útnefningu hennar. Hún mun verða valdamesta blökkukona í sögu landsins. Embætti utanríkisráðherra er gríðarlega valda- og áhrifamikið og stendur sem þriðja í valdaröðinni á eftir varaforseta og forseta fulltrúadeildarinnar. Óneitanlega er það skondið að það verður Bush sem fer í sögubækurnar fyrir það að velja fyrsta blökkumanninn og blökkukonuna í þessa sterku valdastöðu. Það verður óneitanlega ein af helstu arfleifðum forsetans að hafa gert það sem demókratar gerðu aldrei, þorðu því sennilega ekki, að koma blökkufólki til æðstu metorða í þessu lykilráðuneyti bandarískra stjórnmála.

Dagurinn í dag
1913 Fréttamyndir, hinar fyrstu íslensku, birtust í Morgunblaðinu. Voru dúkristur sem voru gerðar til skýringar á frétt um morð í Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona eitraði fyrir bróður sínum í mat hans
1940 Akureyrarkirkja, minningarkirkja sr. Matthíasar Jochumssonar heiðursborgara Akureyrar, vígð - hún var þá langstærsta guðshús landsins, rúmaði rúmlega 500 manns í sæti. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna og réð umhverfi hennar, upp að henni liggja um 100 tröppur
1983 Mikligarður, stærsta verslun landsins á þeim tíma, opnuð í Reykjavík - verslunarrýmið var 4.700 fermetrar. Mikligarður sem var rekinn af SÍS fór á hausinn 1993 - þar er nú fjöldi minni verslana
1988 Linda Pétursdóttir, 18 ára menntaskólanemi frá Vopnafirði, var kjörin Ungfrú Heimur í London
2000 Þjóðþing Perú sviptir Alberto Fujimori embætti forseta landsins, eftir 10 ára setu á þeim stóli

Snjallyrði dagsins
Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Jónas Hallgrímsson skáld (Íslandsminni)