Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 nóvember 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um stöðu varnarmálanna, en Colin Powell og Davíð Oddsson ræddu málin á fundi í Washington í vikunni og samþykktu að formlegar viðræður um framtíð málsins myndu hefjast í janúar, á svipuðum tímapunkti og seinna kjörtímabil Bush Bandaríkjaforseta, hefst. Óvissa var vissulega uppi um stöðu mála í varnarviðræðunum vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, fyrr í þessum mánuði. Hefði John Kerry verið kjörinn forseti hefði óhjákvæmilega þurft að kynna málið frá byrjun fyrir honum og þeim ráðherrum sem hann hefði valið til setu í lykilráðuneytum. Það er að mínu mati ánægjulegt að málið getur haldið áfram í þeim farvegi sem ríkisstjórn Bandaríkjanna setti málið í með leiðtogafundi Davíðs og Bush í júlí og það ferli haldi áfram nú með fundi Powells og Davíðs. Endurkjör forsetans þýðir að sama fólkið og hefur haldið á málum seinustu mánuði í gegnum bein samskipti landanna heldur á ferlinu og ekki þarf að fara aftur í viðræður um grunnstöðu þess og kynna okkar sjónarmið frá grunni. Það skiptir miklu máli að vel sé haldið á þessu máli og góð samskipti séu milli þjóðarleiðtoga landanna vegna þess og þau rædd ítarlega.

Eflaust er þetta mál smámál í heildarmynd bandarískra utanríkismála, en fyrir okkur er þetta stórmál og skiptir miklu varðandi varnir okkar. Ljóst er að Bush forseti, mun taka endanlega afstöðu til framhalds málsins á komandi árum, hvað gera eigi eftir tvíhliða viðræður. Viðræðurnar um framhald varnarsamningins við Bandaríkjamenn eru komin í gott ferli að mínu mati. Fróðlegt er þó að sjá fulltrúa stjórnarandstöðunnar tjá sig um það. Telja þeir greinilega að það sé í lausu lofti og óráðið hvað gerist. Það er þó ljóst hvað sem segja má um hálfvelgju stjórnarandstöðunnar í málinu að íslensk stjórnvöld hafa varið með ákveðnum hætti stöðu okkar í málinu og haldið vel á því. Tilkynnt var í vikunni að Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar, yrði næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Fer ég yfir feril hennar og þau sögulegu þáttaskil sem verða er hún tekur við embætti, en hún verður valdamesta blökkukonan í stjórnmálasögu Bandaríkjanna og er önnur konan sem verður utanríkisráðherra. Að lokum tjái ég mig um málefni kennara, en samningar náðust milli grunnskólakennara og sveitarfélaga í vikunni og tjái ég mig um samninginn, veikindi kennara í byrjun vikunnar og auglýsingu kennara í Brekkuskóla á Akureyri.

Dagurinn í dag
1974 Sprengja grandar 21 manns í sprengjuárás IRA í Birmingham - 6 einstaklingar voru sakfelldir fyrir að hafa átt aðild að verknaðinum en sakleysi þeirra var staðfest 1991 - málið var aldrei upplýst
1975 Gunnar Gunnarsson skáld, lést, 86 ára að aldri - Gunnar var eitt helsta skáld Íslands á 20. öld. Meðal þekktustu verka hans á löngum ferli voru Saga Borgaraættarinnar, Svartfugl og Fjallkirkjan
1985 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbachev leiðtogi Sovétríkjanna, hittust á leiðtogafundi í Genf í Sviss - fundurinn var upphaf að ferlinu sem leiddi til endaloka kalda stríðsins
1995 Leiðtogar Bosníu-Herzegóvínu, Króatíu og Serbíu semja um frið í Bosníu á fundi í Dayton
2002 NATO samþykkir formlega aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu að bandalaginu - aðild þessara fyrrum kommúnistaríkja tók formlega gildi 1. apríl 2004

Snjallyrði dagsins
Ég er friðlausi fuglinn,
sem fæddist með villtri þrá,
sem elskar heiðingjans himin
og hamrafjöllin blá.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem frelsinu mikla ann,
sem hatrið gerði að hetju
og heimskan söng í bann.

Ég er friðlausi fuglinn,
sem forðast að leita í skjól,
þó kaldan blási um brjóstið,
og bregðist vor og sól.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Friðlausi fuglinn)