Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 janúar 2005

AkureyriÍslendingur - grein SFS um bæjarmálin
Íslendingur, blað sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri, kom út á miðvikudag. Þar eru ítarlegar greinar, fréttir um bæjarmálin og ýmislegur fróðleikur úr bæjarlífinu. Í ítarlegri grein eftir mig og birtist í blaðinu fjalla ég um atvinnu- og byggðamál og það sem hæst ber að mínu mati sem verkefni fyrir þetta ár. Þar segir t.d. "Vöxtur og uppgangur hefur verið mikill á Akureyri á undanförnum árum. Staða bæjarins hefur styrkst mjög á þessum tíma. Að okkar mati í Verði er mikilvægast að standa vörð um öflugt atvinnulíf í bænum, kraftmikla menntun og treysta undirstöður bæjarins sem öflugs samfélags sem gott er að búa í. Við teljum rétt að huga að því að styrkja Eyjafjörð sem heild og teljum því mikilvægt að huga að því að fjörðurinn verði eitt og kraftmikið sveitarfélag í fyllingu tímans. Hér á Akureyri eru öll lífsins gæði, hér er gott að búa og samfélagið okkar er öflugt og traust.

Við njótum hér allrar þeirrar þjónustu sem nauðsynleg er og öll erum við sammála um það markmið að hann verði öflugur og kraftmikill sem stærsti þéttbýlisstaðurinn á landsbyggðinni. Það að halda vel utan um bæinn okkar og styrkja enn frekar á alltaf að vera markmið okkar og eftir því skal ávallt unnið. Það er og verður alltaf okkar helsta verkefni. Það er grunnurinn auðvitað að skapa atvinnulífinu aðstæður til vaxtar. Forgangsmál að okkar mati eru góðir skólar, hagstætt orkuverð, góðar samgöngur, öflug þjónusta á sviði fjarskipta- og gagnaflutninga, nútímalegt stjórnkerfi og nægt framboð lóða. Mikilvægt er að vekja athygli á Akureyri sem álitlegum stað til búsetu og fyrirtækjarekstrar, standa vörð um hin öflugu sjávarútvegsfyrirtæki okkar og skilyrði þeirra til áframhaldandi vaxtar. Nauðsynlegt er að leita að tækifærum til uppbyggingar af nýjum hugmyndum að öflugu atvinnulífi í Eyjafirði almennt og er þá rétt að líta til uppbyggingar stóriðju hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Eftir stendur þó sem grunnpunktur málsins að mikilvægt er að stóriðja rísi á Norðurlandi, það er nauðsynlegt að fá þennan kost hingað í fjórðunginn. Það er mikilvægt nú að sveitarstjórnarmenn sameinist kröftugri en nokkru sinni fyrr í því að sameinast um grunnáherslu málsins: að tryggja að stóriðja rísi hér."

Neyðarhjálp úr norðri - landssöfnun vegna hamfaranna í Asíu

Valgerður Hrólfsdóttir (1945-2001)Valgerður Hrólfsdóttir (1945-2001)
Valgerður Hrólfsdóttir fyrrum bæjarfulltrúi og fyrsti stjórnarformaður Norðurorku, hefði orðið sextug í dag. Við hæfi er að minnast þessarar kraftmiklu kjarnakonu, sem svo lengi var í forystusveit okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, á þessum degi. Valgerður fæddist í Reykjavík 15. janúar 1945. Hún var kennari að mennt og starfaði við kennslu og fræðslumál lengst af, meðal annars í Árbæjarskóla í Reykjavík, Lundarskóla á Akureyri og á Fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Hún starfaði síðustu æviár sín sem forstöðumaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri. Þátttaka Valgerðar í sveitarstjórnarmálum hófst árið 1987, og sat hún í ýmsum nefndum og ráðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá þeim tíma allt til dánardags. Hún sat m.a. í félagsmálaráði, stjórn Tónlistarskólans, menningarmálanefnd, hafnarstjórn, í stjórn Eyþings, Leikhúsráði, skólanefnd, héraðsnefnd Eyjafjarðar og héraðsráði, stjórnum Minjasafnsins og Listasafnsins.

Valgerður Hrólfsdóttir tók sæti í bæjarstjórn árið 1996 og sat ennfremur í bæjarráði og varð fyrsti stjórnarformaður Norðurorku. Valgerður gegndi til fjölda ára ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sjálfstæðisfélögin á Akureyri. Valgerður vann öll sín störf af trúmennsku og dugnaði og hennar þægilega viðmót og hæfileikar til að vinna með öðrum nutu sín vel á vettvangi sveitarstjórnarmála. Ég kynntist Völlu persónulega fyrst sumarið 1996 þegar ég vann að framboði Péturs Kr. Hafsteins, en hún studdi framboðið af krafti. Kynntist ég þar fljótlega öflugri og réttsýnni konu sem lagði sig ávallt að fullu fram við að vinna heilsteypt að málum. Valla var glaðleg og hress kona sem lífgaði upp á sitt nánasta umhverfi. Valgerði auðnaðist því miður ekki að sitja í bæjarstjórn lengi, hún sat þar einungis í fimm ár. Á þeim tíma sást þó vel kraftur hennar og styrkur í öllum verkum. Valgerður lést eftir erfið veikindi, 21. júní 2001. Þá þurfti Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri að sjá á eftir þessari kjarnakonu langt um aldur fram. Á þessum degi er við hæfi að við sjálfstæðismenn á Akureyri minnumst öflugrar konu sem setti mikinn svip á starfið innan flokksins og var farsæl í öllum sínum verkum. Blessuð sé minning hennar.

Saga dagsins
1970 Moammar al Gaddafi verður leiðtogi Líbýu - Gaddafi hefur ríkt þar síðan við fullt einræði
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, fyrirskipar vopnahlé í Víetnamsstríðinu - því lauk 1975
1983 Bandalag jafnaðarmanna var stofnað að frumkvæði Vilmundar Gylfasonar fyrrum ráðherra og þingmanns Alþýðuflokksins, en hann hafði sagt sig úr flokknum í nóvember 1982. Flokkurinn hlaut fjóra menn kjörna í alþingiskosningum í apríl sama ár. Vilmundur lést í júní 1983 og við andlát hans varð flokkurinn í raun forystulaus og forystulega lamaður. Hann sameinaðist Alþýðuflokknum 1986
1991 Stöð 2 hefur beinar útsendingar frá bandarísku stöðinni CNN vegna átakanna við Persaflóa
1994 Minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur ákveða að bjóða fram sameiginlega undir nafni Reykjavíkurlistans í kosningum í maí 1994 - R-listinn sigraði í kosningunum og hefur ríkt alla tíð síðan

Snjallyrðið
Ég beið þín lengi lengi
mín liljan fríð,
stillti mína strengi
gegn stormum og hríð.
Ég beið þín undir björkunum
í Bláskógarhlíð.

Ég leiddi þig í lundinn
mín liljan fríð.
Sól skein á sundin
um sumarlanga tíð.
Og blærinn söng í björkunum
í Bláskógarhlíð.

Leggur loga bjarta
mín liljan fríð
frá hjarta til hjarta,
um himinhvelin víð.
Og blítt er undir björkunum
í Bláskógarhlíð.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég leiddi þig í lundinn)