Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 janúar 2005

Sumarsólstöður í Eyjafirði sumarið 2004Heitast í umræðunni
Bæjarráð Dalvíkurbyggðar samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja til að þann 23. apríl nk. verði kosið um sameiningu allra sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu. Fagna ber þessari niðurstöðu, hún er sú sama og kom fram að loknum fundi bæjarráðs Akureyrar þann 30. desember sl. Nú þegar hefur Eyjafjarðarsveit hinsvegar hafnað sameiningarkosningu og því ljóst að ekki munu öll sveitarfélögin 10 kjósa um sameiningu í vor. Í fréttum Útvarps Norðurlands í gærkvöldi sagði Bjarni Kristjánsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, að ósanngjarnt væri að velta fjárhagslegum vanda byggðanna út með firði yfir á aðra. Tek ég undir með Valdimar Bragasyni bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð, að afstaða Bjarna sé bæði smekklaus og byggð á misskilningi. Með ákvörðun Dalvíkinga er ljóst að a.m.k. verður kosið um sameiningu Dalvíkur, Akureyrar og Siglufjarðar í apríl, en Siglfirðingar hafa ennfremur samþykkt þessa kosningu. Það stefnir því að óbreyttu að mjög öflugri sameiningu á þessu ári hér í firðinum og ljóst að verði sameining samþykkt muni verða kosið á næsta ári í byggðakosningum til nýs og öflugs sveitarfélags.

Eyfirðingar virðast hafa vaxandi áhuga fyrir samstarfi og sameiningu sveitarfélaga við fjörðinn, ef marka má niðurstöður könnunar sem Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri kynnti skömmu fyrir jól. Líst mér mjög vel á niðurstöður rannsóknarstofnunar Háskólans, hef ég kynnt mér helstu atriði hennar og farið yfir. Hef ég alla tíð verið mjög hlynntur því að sveitarfélög í Eyjafirði myndu sameinast í eitt og verið þeirrar skoðunar í tæpan áratug að það væri skynsamasta skrefið að stefna að því. Hefur ferlið gengið mun hraðar fyrir sig en ég þorði að vona í upphafi þessa kjörtímabils og mikið gleðiefni ef þetta öfluga sveitarfélag verður til á þessu ári. Í júnímánuði í fyrra samþykktu Akureyringar og Hríseyingar að sameinast. Alla tíð var það mitt mat að einungis væri um að ræða fyrsta skrefið á þeirri vegferð að Eyjafjörður verði eitt sveitarfélag og mikilvægt væri að hefja ferlið með þeim hætti að Hrísey og Akureyri yrðu eitt sveitarfélag í upphafi. Nú, innan við ári síðar, stefnir allt í að sveitarfélagið stækki eftir sameiningarkosningu í apríl. Í hugum flestra Eyfirðinga er svæðið allt að verða ein heild og ennfremur hætt að hugsa í gömlum hrepparíg um að þetta og eitt sé málefni eins svæðis og þetta komi afmörkuðum parti einungis við. Ég finn það á fólki sem býr út með firði og ég hef þekkt til fjölda ára að sameining sveitarfélaga á sér sífellt fleiri stuðningsmenn en verið hefur. Andstaðan hefur verið mikil við sameiningu í vissum sveitarfélögum út með firði, en hlutirnir eru að breytast, sem betur fer. Fólk er hætt að horfa til fortíðar, það horfir þess í stað fram á veginn og hugsar til framtíðar. Það eitt skiptir okkur hér máli að styrkja Eyjafjörð sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið og gera það ákjósanlegt að búa hér og efla svæðið sem sterka heild.

StjórnarráðiðEins og vel hefur komið fram seinustu daga hefur stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra formlega verið skipuð og ljóst hverjir muni sitja í henni og móta það starf að stokka upp stjórnarskrá lýðveldisins: verkefni sem fyrir löngu var orðið tímabært. Í skipunarbréfi nefndarinnar kom fram að stefna ætti sérstaklega að því að huga að endurskoðun fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrár. Kostulegt hefur verið að fylgjast með ummælum fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, formanns og varaformanns flokksins sem virðast komin í kapphlaup um yfirlýsingagleði í fjölmiðlum þessa dagana. Hefur Ingibjörg Sólrún sagt að skipunarbréfið sem gerir ráð fyrir sérstakri uppstokkun þriggja kafla stjórnarskrár bjóða heim óeiningu strax í upphafi starfsins.

Eru þessar yfirlýsingar undarlegar enda er nefndinni heimilt að ræða öll atriði stjórnarskrár en skipunarbréfið nefnir sérstaklega nokkra þætti, það bindur þó auðvitað engan veginn hendur hennar að taka fyrir fleiri þætti. Stjórnarskráin verður öll rædd, en varla er þó nokkur vilji að fara yfir t.d. mannréttindakaflann að nýju, en hann er einungis 10 ára gamall og var samþykktur á hátíðarfundi þingsins á Þingvöllum, þann 17. júní 1994. Eins og komið hefur fram í viðtölum við formann nefndarinnar mun nefndin ræða öll þau atriði stjórnarskrár sem nefndarmenn vilja ræða, þó nokkrir þættir séu nefndir sérstaklega í skipunarbréfi. Fyrir liggur að mest hefur verið deilt um þessa kafla að undanförnu og varla tíðindi þó farið sé sérstaklega í þá þætti hennar. Er ástæða til að taka undir með þingmanni Framsóknarflokks sem hefur sagt að þessi geðvonskuköst í upphafi lýsi undarlegu verklagi fulltrúa þessa flokks í nefndinni. Ástæða er til að menn fari í starfið með heilindum og án allra prímadonnustæla í fjölmiðlum, en það er því miður eðli þessara flokksfulltrúa að þurfa að ana í fjölmiðla til að vekja á sér athygli.

Jarðskjálfti að styrkleika 5,5 á Richter á Norðurlandi

SjálfstæðisflokkurinnMeð hækkandi sól - lægri skattar - aukin hagsæld
Sjálfstæðisflokkurinn gengst á næstu vikum fyrir opnum, almennum stjórnmálafundum í öllum kjördæmum landsins, undir yfirskriftinni: Með hækkandi sól - lægri skattar - aukin hagsæld. Fundirnir verða 45 talsins og hefst fundaröðin með fundi í Valhöll, Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, á laugardaginn kl. 10.30. Þar verður framsögumaður, Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Sama dag verður fundur kl. 15:00 á Hótel KEA, hér á Akureyri. Hér verða framsögumenn Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálf­stæðis­flokksins, og Halldór Blöndal forseti Alþingis. Fundarstjóri verður Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Sama dag verða ennfremur fundir í Þorlákshöfn og í Keflavík. Á sunnudag verða sex fundir: á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Hellu, Stykkishólmi, Borgarnesi og Búðardal. Hvet ég alla sjálfstæðismenn að mæta á þessa fundi, sérstaklega sjálfstæðismenn hér á Akureyri og í Norðausturkjördæmi á auglýsta fundi.

Framundan er kraftmikil fundaröð í Norðausturkjördæmi næstu vikurnar sérstaklega. Eins og fyrr segir verða fundir á sunnudag fyrir austan. Kl. 16:00 á Hótel Héraði á Egilsstöðum og um kvöldið kl. 20:30 á Café Kósý á Reyðarfirði. Framsögumenn á þessum fundum verða Geir, Abba og Guðlaugur Þór Þórðarson. Á mánudag verða Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, og Abba á ferð í Eyjafirði og verða með fundi á kaffihúsinu Sogni á Dalvík kl. 17:30 og félagsheimilinu Tjarnarborg á Ólafsfirði kl. 20:00. Á miðvikudag verða Abba, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, og Sigurður Kári Kristjánsson með fund á veitingahúsinu Sölku á Húsavík. Laugardaginn 15. janúar verða Abba og Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, með fund á veitingastaðnum Toppnum á Eskifirði. Síðar sama dag verða þau með fund í Herðubreið á Seyðisfirði með Sigga Kára. Sturla og Abba verða svo með fund á Hótel Bjargi á Fáskrúðsfirði sunnudaginn 16. janúar. Þriðjudaginn 18. janúar verða Abba og Einar K. Guðfinnsson þingflokksformaður, með fundi á Hótel Bláfelli í Breiðdalsvík og Hótel Framtíð á Djúpavogi. Laugardaginn 22. janúar verða Halldór og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, með fund á Allanum á Siglufirði. Miðvikudaginn 26. janúar verða Björn, Halldór og Gunnar I. Birgisson með fund á Hótel Capitano á Neskaupstað. Fimmtudagskvöldið 27. janúar verða Sigga og Halldór með fund á Hótel Seli í Mývatnssveit. 31. janúar verða svo Halldór og Árni M. með fundi á Miklagarði í Vopnafirði og í grunnskólanum í Bakkafirði. Í febrúar eru svo auglýstir fundir með Þorgerði, Halldóri og Pétri Blöndal á Þórshöfn og á Raufarhöfn.

Saga dagsins
1919 Theodore Roosevelt 26. forseti Bandaríkjanna, lést, 61 árs að aldri. Hann var forseti 1901-1909
1923 Halldór Laxness var skírður og fermdur til kaþólskrar trúar í Clervaux-klaustri í Lúxemborg. Með þessu tók hann formlega upp kaþólska dýrlingsnafnið Kiljan. Halldór var kaþólskur allt til æviloka. Trú hans staðfestist er hann var kvaddur að hætti kaþólskra við sálumessu við lát sitt
1949 Leikstjórinn Victor Fleming lést, 59 ára að aldri. Fleming leikstýrði á löngum ferli fjölda góðra kvikmynda, þeirra þekktastar eru án vafa stórmyndirnar Gone with the Wind og The Wizard of Oz
1968 Rannsóknarstöð Hjartaverndar í Reykjavík, tekin í notkun. Tilkoma hennar markaði þáttaskil í hjartalækningum og aðstöðu til rannsókna. Fyrsti yfirlæknir þar var Ólafur Ólafsson, síðar landlæknir
2001 George W. Bush ríkisstjóri í Texas, formlega kjörinn sem forseti Bandaríkjanna, er öldungadeild Bandaríkjanna staðfestir formlega úrslit forsetakosninganna 2000. Það kom í hlut Al Gore varaforseta, sem forseta öldungadeildarinnar að stjórna fundinum og lýsa formlega yfir kjöri Bush. Gore hafði verið mótframbjóðandi Bush í kjörinu og hlotið fleiri atkvæði á landsvísu en tapað í kjörmannakjöri

Snjallyrðið
Heyrið vella á heiðum hveri,
heyrið álftir syngja í veri:
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna,
foss í klettaskorum bruna:
Íslands er það lag.

Eða fugl í eyjum kvaka,
undir klöpp og skútar taka:
Íslands er það lag.
Heyrið brim á björgum svarra,
bylja þjóta svipi snarra:
Íslands er það lag.

Og í sjálfs þín brjósti bundnar
blunda raddir náttúrunnar:
Íslands eigið lag.
Innst í þínum eigin barmi,
eins í gleði og eins í harmi
ymur Íslands lag.
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) (Íslandslag)