Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 janúar 2005

ReyðarfjörðurHeitast í umræðunni
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi á miðvikudag úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar þess efnis að mat á umhverfisáhrifum, sem gert var fyrir álver sem Norsk Hydro hugðist reisa, gilti fyrir væntanlegt álver Alcoa í Reyðarfirði. Að óbreyttu þarf því að meta umhverfisáhrif álversins að nýju. Stjórnvöld og Fjarðaál hafa ákveðið að áfrýja úrskurði héraðsdóms til hæstaréttar, en eins og nærri mun geta mun nýtt umhverfismat á staðnum tefja málið mjög og er vart viðunandi. Er ekki hægt annað en að tjá undrun sína með þessa niðurstöðu héraðsdóms sem Alcoa er að byggja á Reyðarfirði. Í kjölfar þessa sagði Hjörleifur Guttormsson fyrrum ráðherra og þingmaður, sem kærði málið á forsendum þess að mengunarvarnir nýja álversins væru með allt öðrum hætti en fyrirhugað hefði verið, að öll leyfi fyrir álverinu og tengdum framkvæmdum séu úr gildi og gera þurfi nýtt umhverfismat. Með ólíkindum er að heyra málatilbúnað Hjörleifs og stórundarlegt að hann vinni þetta mál á þessum forsendum sem hann lagði upp með. Það þarf því varla að undrast að áfrýjað verði.

Upphaflega stóð til að reisa 420.000 tonna álver og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði og höfðu umhverfisáhrif þess verið metin og stjórnvöld lagt blessun sína yfir framkvæmdina. Þegar Alcoa tók við af Norsk Hydro var hinsvegar fallið frá áformum um rafskautaverksmiðju og ákveðið að byggja minna álver, eða 320.000 tonna. Skipulagsstofnun taldi að þetta kallaði ekki á nýtt mat á umhverfisáhrifum og staðfesti þáverandi umhverfisráðherra þá niðurstöðu í apríl 2003. Eins og fyrr segir telur Austfirðingurinn Hjörleifur fyrri ákvarðanir nú marklausar eftir þennan dóm og því megi vinna við byggingu álversins í raun ekki halda áfram. Er það auðvitað fjarstæða. Sérfræðingur í umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands hefur nú komið í fjölmiðla og sagt að auðvitað muni framkvæmda- og starfsleyfi áfram halda sínu gildi. Dómurinn getur ekki haft ráðandi áhrif á framkvæmdirnar jafnvel þótt svo illa færi að hæstiréttur myndi staðfesta hann, enda eru engin ákvæði í lögum um mat á umhverfisáhrifum sem beiti viðurlögum þótt umhverfismat sé ekki fyrir hendi. Ég hef alla tíð verið stuðningsmaður þess að álver rísi við Reyðarfjörð og að Kárahnjúkavirkjun verði að veruleika. Er enginn vafi á því að virkjun á Austurlandi og virkjun í Reyðarfirði er kraftmikil byggðaframkvæmd sem mun styrkja stöðu mála í kjördæminu til framtíðar. Fór ég vel yfir sögu málsins og skoðanir mínar á álverinu og virkjuninni í ítarlegum pistli á heimasíðu minni í nóvember 2004, sem ég hvet fólk til að lesa ef það vill fara yfir málið.

Útvarp SagaEins og vel hefur komið fram í fréttum seinustu vikurnar eru mikil átök og deilur milli útvarpsmanna sem störfuðu lengi vel á Útvarpi Sögu og forystumanna stöðvarinnar nú. Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Sögu, hefur nú kært þrjá fyrrum samstarfsmenn sína á stöðinni, þá Ingva Hrafn Jónsson, Hallgrím Thorsteinsson og Sigurð G. Tómasson, til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans fyrir meint brot á lögum um einkahlutafélög. Er það mat Arnþrúðar að þeir hafi haldið ólöglegan stjórnarfund þar sem hún var svipt prókúru fyrir útvarpsstöðina. Kæran fjallar einnig um meintan ásetning þeirra að stöðva rekstur Útvarps Sögu og þvinga hana með þeim hætti til að selja Frétt ehf. eignarhluta hennar í félaginu. Er þetta margflókið og undarlegt mál og hafa málsaðilar háð orrustu sín á milli seinustu daga í fjölmiðlum. Lætur Arnþrúður til skarar skríða nú, enda blasir við að Íslenska útvarpsfélagið ætli með fulltyngi fyrrum samstarfsmanna hennar að láta til skarar skríða gegn henni og Sögu með því að stofna nýja talmálsstöð. Málið tók þó merkilega stefnu í dægurmálaspjallþættinum Íslandi í dag í gærkvöldi. Þar voru mætt Arnþrúður og Hallgrímur að ræða þessi mál.

Þar var upplýst hið stórmerkilega að Baugur lánaði Arnþrúði 5 milljónir króna á síðasta ári til þess að hún gæti keypt Ingva Hrafn út úr stöðinni. Þá sagði Hallgrímur að þetta lán hafi verið til útvarpsstöðvarinnar til að stuðla að samstarfi Norðurljósa og Sögu. Eftir allt fjölmiðlafár um fjölmiðlafrumvarpið í fyrra, er það óneitanlega alveg stórmerkilegt að Baugur ákvað að kaupa sér jákvæða umfjöllun hjá Sögu og með þessu hafi allir þar í raun verið til sölu. Merkilegt er líka að auki að í miðri heitustu umræðunni um fjölmiðlalögin í fyrrasumar að til komi svo þetta lán til Arnþrúðar til að losa sig við Ingva Hrafn og með því að reyna að kaupa stöðina aftur til baka. Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus, var sjálfur nafngreindur í þættinum sem sá sem stóð í þessu öllu og var í viðræðum um málefni Sögu við Arnþrúði og aðra eigendur stöðvarinnar. Í miðjum hita fjölmiðlamálsins eru semsagt Sigurður G. (stuðningsmaður forsetans), Jóhannes og Gunnar Smári að plottast um að kaupa upp eina af fáum stöðvum sem ekki voru í þeirra eigu. Alveg kostulegt, svo ekki sé meira sagt og hefði ef upp hefði komist þá haft áhrif á ferli málsins, hiklaust. En eftir stendur að Arnþrúður fékk persónulegt lán hjá einum af ríkustu mönnum landsins, sem hann veitti til að reyna að sölsa undir sig stöðina en tókst ekki. Vandséð er hvernig félagarnir þrír af gömlu Sögu ætli nú að ná til baka trúverðugleikanum og hefja trúverðuga þjóðmálaumræðu undir merkjum Baugs-gríssins.

Sturla BöðvarssonSigurður Kári KristjánssonStjórnmálafundur á Húsavík
Fundaröð þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins: Með hækkandi sól, hélt áfram í Norðausturkjördæmi á miðvikudagskvöld með fundi á veitingastaðnum Sölku á Húsavík. Á fundinum voru sérstakir gestir okkar, þeir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, og Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður. Fór ég með þeim og fleiri góðu fólki héðan frá Akureyri síðdegis á miðvikudaginn til að sitja fundinn. Var kuldaveður stóran hluta leiðarinnar austur, skafrenningur og leiðindaveður í Víkurskarðinu og í Köldukinn var þæfingur og var leiðindaskafrenningur þegar nálgaðist Húsavík. En það gekk vel að komast þrátt fyrir íslenskt kuldaveður í janúarmánuði og var mjög ánægjulegt að hitta flokksfélaga í Þingeyjarsýslu við þetta tækifæri. Áður en formlegur fundur hófst fengum við okkur að borða saman og ræddum málin.

Kynnti Friðfinnur Hermannsson bæjarfulltrúi, okkur gestunum stöðu bæjarins og setti okkur vel inn í stöðu mála þar og hver helstu málefni í bæjarmálunum séu. Hófst fundurinn formlega kl. 20:00. Fundarstjóri var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Flutti Sturla ítarlega framsögu í byrjun fundar og fór yfir stöðu mála á valdaferli Sjálfstæðisflokksins, seinustu 14 árin og vék sérstaklega að stöðu efnahagsmála við upphaf valdatímans og það sem blasir við nú og fór í lok framsögunnar ítarlega yfir samgöngumálin, sem er hans málefni í pólitík almennt. Var framsaga Sturlu góð og umfangsmikil og gagnlegt að hlusta á hana. Að þessu loknu tók Siggi Kári til máls og kynnti skattalækkanirnar og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í þeim efnum með ítarlegum hætti. Kom hann með mörg athyglisverð dæmi og fór yfir þessi mál mjög vel. Að því loknu voru málin rædd og fundarmenn komu með spurningar til Sturlu, Öbbu og Sigga Kára. Greinilegt var á fundinum að málefni stóriðju, samgöngu- og atvinnumál voru aðalmálin á Húsavík og það sem helst brann á fólki. Var þetta ánægjulegt kvöld og gaman að sækja flokksfélaga heim og ræða málin við þá.

Saga dagsins
1814 Danmörk lætur Noreg af hendi til Svíþjóðar með Kílarfriðargerðinni - konungdæmi var svo loks endurreist í Noregi árið 1905 með valdatöku Hákonar konungs, og færðust þá völdin aftur þangað
1918 Læknafélag Íslands formlega stofnað - tilgangurinn einkum sá að efla hag læknastéttarinnar
1972 Friðrik IX Danakonungur, deyr, 72 ára að aldri. Margrét Þórhildur prinsessa, verður drottning Danmerkur. Hún var fyrsta drottning Dana frá 1412 og ennfremur fyrsti þjóðhöfðingi Dana frá 1513, sem ekki ber nafnið Friðrik eða Kristján, sem hefur gengið lið af lið. Margrét hefur ríkt síðan þá
1976 Ólafur Jóhann Sigurðsson skáld, hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrstur Íslendinga
1990 Simpson-fjölskyldan hefur göngu sína á Fox-sjónvarpsstöðinni - áður höfðu verið sýndir nokkrir kynningarþættir sem hittu alveg beint í mark. Þátturinn, sem varð mjög vinsæll, er enn á dagskrá

Snjallyrðið
Yfir hvítum ísabreiðum,
yfir gömlum, frosnum leiðum
flýgur hann og flýgur hann.

Villtur fugl, sem enginn ann
og aldrei sína gleði fann.
Um loftið, blandið bölvi og seiðum,
brýst hann einn og flugið knýr,
útlægur frá himni heiðum,
hræðist menn og dýr.

Bannfærð sál,
sem böl sitt flýr.
Örvænting að brjósti og baki,
bæn í hverju vængjataki.
Vetur, vetur, veðragnýr,
og jörðin kaldur klaki.

Flugið lamast. Fuglinn hnígur,
flýgur upp með sáru kvaki,
og dauðadansinn stígur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Villti fuglinn)