Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 janúar 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um fjalla ég um undarlega umræðu sem fram fer nú um Íraksmálið í ljósi kostulegrar skoðanakönnunar Gallups, fer ég yfir málið og kem með skoðanir mínar á því öllu. Framundan eru kosningar í Írak sem ber að fagna, ég vona að allir geti orðið sammála um það í málinu, í þeirri merkilegu umræðu sem uppi er. Það er mikilvægasti áfanginn við innrásina og það sem gert var fyrir tveim árum að lýðræði verður endurreist í Írak. Fólk getur gengið að kjörborðinu, kosið og látið í því ljósi uppi skoðanir sínar og valið um frambjóðendur, valið um flokka, valið um það hverjir stjórni landinu. Þetta eru auðvitað þáttaskil og markar endalok einræðis í landinu. Fólki er frjálst að hafa skoðanir, tjá sig, frjálst að mótmæla og vera ósammála ráðandi öflum. Slíkt var ekki áberandi á valdadögum Saddams nema viðkomandi aðilar vildu eiga á hættu fangelsi eða dauða. Enda er ansi ólíklegt að til kosninga hefði verið boðað hefði einræðisherrann Saddam ríkt þar enn.

Þau sögulegu þáttaskil áttu sér stað í vikunni að Norðurljós, eitt umdeildasta fjölmiðlaveldi seinni tíma í fjölmiðlasögu landsins voru sett í það ferli að fuðra upp. Eftir í Norðurljósum stóðu eftir í öllu sínu veldi skattaskuldir Jóns Ólafssonar og aðrar skuldir frá fyrri tíð. Segja má því að dauðadómur Norðurljósa hafi verið staðfestur. Ný stjórn og framkvæmdastjóri voru kynnt til sögunnar í Norðurljósum á þessum fundi: aðilar sem voru ráðnir til að ganga frá fyrirtækinu endanlega og lausum endum þess. Sannkallaðir útfararstjórar þessa sögufræga fyrirtækis sem féll í valinn án þess að fjölmiðlalögin kæmu til sögunnar. Tilkynnt var svo á föstudag að raunverulegu eignir Norðurljósa sem tilheyra Og Vodafone myndu sameinast í nýju fyrirtæki, sem hlaut hið stórmerkilega nafn: 365 - ljósvakamiðlar og 365 - prentmiðlar. Eflaust mun þetta heiti fara í sögubækurnar síðar meir sem eitt stórmerkilegasta heiti á fjölmiðlafyrirtæki í heiminum. R-listinn er að verða jafn friðvænlegur innbyrðis og villta vestrið þegar það var upp á sitt besta, í lok pistilsins fer ég yfir stöðu mála þar og innbyrðis væringar innan og á milli flokkanna.

Saga dagsins
1947 Talsímasamband við Bandaríkin opnað - fyrsta samtalið var milli Emils Jónssonar og Thors Thors
1960 Selma Jónsdóttir listfræðingur, varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands, fyrst íslenskra kvenna
1979 Mohammad Reza Pahlavi Íranskeisari, flýði heimaland sitt. Hann hafði setið á valdastóli allt frá árinu 1941 er herir Breta og Sovétmanna hertóku Íran og neyddu föður hans, þáverandi keisara, til þess að segja af sér. Andstaða sjía-múslima fór mjög vaxandi því hann reyndi að færa landið til vestrænna hátta og gilda. Keisarinn var talinn lifa í óhófsmunaði sem var vatn á myllu leiðtoganna. Einn helsti trúarleiðtoginn, Ayatollah Khomeini, var hrakinn í útlegð árið 1964. Hann flúði til Frakklands og stjórnaði andstöðu gegn keisaranum þaðan. Óánægja með keisarann jókst sífellt og lauk því með uppreisn almennings og hann flúði land. Skömmu síðar sneri Khomeini heim úr 15 ára útlegð og tók völdin þar og ríkti til dauðadags 1989. Landið varð íslamskt lýðveldi. Keisarinn lést 1980
1995 Snjóflóð féll í Súðavík - 14 manns fórust, þar af 8 börn, en 12 manns var bjargað úr snjónum.
12 ára strákur, Tomasz Lupinski, fannst lifandi tæpum sólarhring eftir snjóflóðið. Miðhluti þorpsins sópaðist algjörlega í burtu í flóðinu sem féll snemma morguns, en aðeins nokkrum klukkustundum áður hafði hluti byggðarinnar verið rýmdur vegna snjóflóðahættu. Mannskæðasta snjóflóð hérlendis allt frá árinu 1919 til þess. Leiddi þetta til þess að byggðin var færð og endurskipulögð að mestu
2004 Karl Bjarni Guðmundsson sjóari frá Grindavík, kjörinn fyrsta poppstjarnan í Idol-stjörnuleit

Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (Í fjarlægð)