28. flokksþing Framsóknarflokksins hófst í dag. Í yfirlitsræðu sinni við upphaf flokksþingsins fór Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og formaður flokksins, yfir stöðu mála í stjórnmálunum og þau málefni sem hæst bera í umræðunni almennt. Lýsti hann yfir með afgerandi hætti að Síminn yrði seldur á þessu ári í heilu lagi, með grunnnetinu. Sagði Halldór að það væri rökréttasta skrefið, enda lægi fyrir heimild Alþingis og ennfremur bæði veigamikil rekstrarleg og pólitísk rök. Ennfremur vék forsætisráðherrann að málefnum Landsvirkjunar sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu og greinilegur ágreiningur komið fram um málið innan raða flokksins. Sagði hann ekkert ákveðið um framtíð fyrirtækisins. Tilkynnti hann, að í samráði við iðnaðarráðherra, að sú ákvörðun hefði verið tekin að á vegum flokksins yrði skipuð sérstök nefnd sem myndi vinna að stefnumörkun í málinu og vinna að tillögum um að skipuleggja orkumálin til framtíðar. Á þeirri vinnu að ljúka fyrir miðstjórnarfund flokksins á næsta ári. Vék forsætisráðherra ennfremur að miklu hitamáli seinustu daga, drögum að ályktunum þingsins um utanríkismál þar sem kemur fram að flokkurinn eigi að stefna að aðildarviðræðum að ESB á kjörtímabilinu, sem gengur þvert á stjórnarsáttmálann og fyrri yfirlýsingar forystumanna Framsóknarflokksins.
Sagði hann að það væri sitt mat að það væri hvorki tímabært né skynsamlegt að fara út í aðildarviðræður við ESB á þessu kjörtímabili, eins og lagt er til í drögunum. Sagðist hann telja að ályktun flokksins um utanríkismál, sem liggur fyrir flokksþinginu sé gagnlegt vinnuplagg, en lagði áherslu á að ekki ætti að stefna að því að því að samþykkja drögin og yfirlýsingar um ESB óbreyttar á flokksþinginu. Er því ljóst að allir ráðherrar flokksins hafa lýst því yfir að málið sé ekki á dagskrá á kjörtímabilinu. Nokkuð sem blasir við, enda algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Samkvæmt honum er málið ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili. Sagði hann að drögin hefðu verið mótuð af 13 málefnahópum sem öllum félagsmönnum hefði gefist kostur á taka þátt í. Mörg hundruð skráningar hafi borist og margir hefðu lagt á sig mikla vinnu við að móta drögin. Sú vinna hefði farið fram með lýðræðislegum og opnum hætti. Ræddi Halldór ennfremur um skólamál og minntist á eitt mál úr nefndastarfinu, hugmynd um betri samtengingu mismunandi skólastiga, sem gerir ráð fyrir að gera síðasta ár leikskólans að skyldunámi. Er þetta nokkuð sem framsóknarmenn hafa þó ekki hafið umræðu um, enda lagði Sjálfstæðisflokkurinn svipaðar tillögur fram í borgarstjórnarkosningunum 2002, undir forystu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Athygli vakti við upphaf flokksþingsins dagskrá hátíðardagskrár í morgun. Þar voru fjölþjóðlegir dansar og söngvar, þeirra eftirtektarverðastur var eflaust magadans þokkafullrar konu, sem skaut jafnréttissinnuðum konum þar skelk í bringu. Karlakór Reykjavíkur söng einnig nokkur lög af sinni miklu snilld. Stjórnandi kórsins er frændi minn, Friðrik S. Kristinsson. Erum við systkinabörn og berum við báðir nafn afa okkar, Friðriks Árnasonar fyrrum hreppsstjóra á Eskifirði.
Jóhannes Páll páfi II var lagður að nýju inn á Gemelli-sjúkrahúsið í Róm í gærkvöld, en aðeins eru nokkrar vikur síðan hann lagðist þar inn í 10 daga vegna flensu og öndunarerfiðleika. Sló páfa niður eftir veikindin, enda talinn hafa farið of geyst eftir að hann sneri aftur í Vatíkanið. Var hann það þungt haldinn að læknar neyddust til að gera á honum barkaskurð til að hann gæti andað eðlilega og var komið fyrir barkaraufspípu til að auðvelda honum öndun. Hvíldi hann fyrstu klukkutímana eftir aðgerðina í öndunarvél, en hún var svo aftengd í dag, enda líðan páfans betri og gat hann þá nærst eðlilega. Ljóst er að slík aðgerð er í tilfelli svo gamals og veikburða manns algjör neyðaraðgerð. Við blasir að hann var í lífshættu og því ekkert annað hægt að gera, til að páfi gæti andað eðlilega. Hefur aðgerðin þau áhrif að páfi getur ekki talað í nokkrar vikur og verður hann eflaust lengi að ná sér að nýju. Páfi hefur verið mjög veikbyggður seinustu ár, eins og vel er kunnugt. Þjáist hann af ýmsum sjúkdómum, nægir þar að nefna Parkinsons-veiki og liðagigt auk almennra öldrunarsjúkdóma.
Páfinn verður 85 ára í maí. Hann hefur nú setið á páfastól í tæp 27 ár, frá 16. október 1978. Sat hann lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar hafa setið lengur en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Páfi hefur haldið fast við stefnu sína þrátt fyrir sífellt hrakandi heilsu. Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli er páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann sé andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann leggist gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann sé gamaldags fulltrúi og leggist gegn framþróun og sé andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi sé kraftmikill málsvari mannréttinda og styðji "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Þrátt fyrir slæmt heilsufar hyggst Páfi sitja á stóli til dauðadags og vísar á bug að hann víki vegna heilsubrests. Það sé hans sannfæring að aðeins Guð geti bundið enda á það verkefni sitt að þjóna í embætti sínu kaþólsku fólki. Ef marka má stöðu mála má búast við að sífellt styttist í að kardinálarnir verði að velja eftirmann páfa, sem gæti leitt til mikilla valdaátaka.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, er nú kominn heim í Hvíta húsið í Washington, eftir fimm daga för sína um Evrópu. Almennt er litið á Evrópureisu forsetans sem mikla sigurför og niðurstaða hennar túlkuð sem mikill diplómatískur sigur fyrir hann og stefnu hans. Segja má að sögulegar sættir hafi náðst milli Bush forseta og þjóðarleiðtoga í Evrópu í þessari ferð og sáttatónninn var mjög áberandi þar sem hann fór. Hann átti notalegar umræður um stöðu heimsmálanna við Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands. Eitthvað sem hefði þótt nær óhugsandi fyrir tveim árum þegar hitinn var sem mestur í Íraksmálinu og samskipti landanna náðu frostmarki. Staðan er allt önnur nú. Forsetinn hefur samið frið við þessa lykilleiðtoga Evrópu. Einnig komu vel í ljós sterk tengsl hans og Vladimir Putin forseta Rússlands. Mjög merkilegt var ennfremur að sjá hversu mjög vinsamlegri samskipti leiðtogarnir almennt eiga. Segja má því að ferðin hafi gengið vel og verið mikilvægur vitnisburður þess að leiðtogarnir horfa fram á veginn, til þeirra úrlausnarefna sem blasa við, og einblína ekki á fortíðina. Eru enda næg verkefni framundan á vettvangi heimsmálanna. Uppbyggingin í Írak, friðarþróunin í Mið-Austurlöndum, staða mála í Íran og Líbanon og fleiri mál eru meðal þess sem blasir við að takast þarf á við.
4. janúar sl. var formlega skipuð nefnd af hálfu forsætisráðherra, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi, sem mun vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Stefnt er að því að vinna nefndarinnar taki ekki lengra tíma en tæp tvö ár og að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni liggi fyrir ekki síðar en í árslok 2006. Nú hefur nefndin opnað heimasíðu, þar sem starf hennar og dagskrá funda hennar er kynnt með mjög ítarlegum og nákvæmum hætti. Er þar hægt að líta á fundargerðir nefndarinnar og það sem þar er rætt og farið yfir. Nefndin hefur nú haldið tvo fundi og er hægt að líta á dagskrá næsta fundar, 14. mars, og það sem gerst hefur í starfinu til þessa. Er mjög ánægjulegt að þessi vefur sé kominn til sögunnar og að almenningur geti tekið þátt í starfinu þarna, með því að beina erindum til nefndarinnar, líta á hvað hafi gerst þar og hvað sé framundan. Er löngu orðin þörf á að taka þessa vinnu, stokka upp stjórnarskrána og færa hana til nútímans, enda henni lítið verið breytt frá lýðveldisstofnun 1944. Nær engar breytingar hafa t.d. átt sér stað á köflunum sem fjalla um forsetaembættið, er mikilvægt að stokka þá upp. Hef ég kynnt mínar skoðanir á því hvað þurfi að stokka helst upp og færa í átt til nútímans. Fór ég yfir þau mál í ítarlegum pistli þann 10. janúar sl. á vef Heimdallar. Um að gera að líta á hann til að lesa þær pælingar og fara yfir skoðanir mínar á málinu.
Í dag birtist á íhald.is skrif mín um málefni Landsvirkjunar. Í pistli mínum fjalla ég að mestu leyti um ágreininginn sem kominn er upp, að því er virðist mjög áberandi, innan Framsóknarflokksins og R-listans um hvernig haga eigi framtíð fyrirtækisins, eftir að það er að öllu leyti komið í eigu ríkisins. Þetta er kostulegt mál og fróðlegt að fylgjast með því, og því ærin ástæða til að skrifa nokkra punkta um það með þessum hætti. Held ég að flestir séu að verða gáttaðir á framgöngu vinstri grænna í þessu máli. Maður er meira að segja að heyra það frá fólki á vinstri vængnum, sem er gáttað á yfirlýsingum fólks í þessum undarlega kommaflokki. Ef maður zoom-ar það sem hefur gerst er einfalt að segja hvað þau ætla að gera. Í einföldu máli sagt vilja vinstri grænir halda hlut borgarinnar í fyrirtækinu í gíslingu svo að ríkið geti ekki ráðstafað fyrirtækinu með vild eftir að borgin og Akureyrarbær eru farin út úr því. Alveg kostulegt mál. Í Framsókn er málið mjög undarlegs eðlis líka, en í VG er það á algjörum villigötum. Annars er R-listinn að verða mjög veiklulegur, það sést best á þessu máli hvernig pólitíkin er iðkuð þar. Þetta er eins og gatasigti sem hriplekur en hangir saman af gömlum vana. Einfalt mál. En já, lítið á pistilinn og kynnið ykkur þessi mál og skoðanir mínar á því, ef þið viljið fara meira yfir þetta.
Horfði í gærkvöldi á Ísland í dag samkvæmt venju. Þórhallur og Svansí eru að standa sig vel og eru með lífleg og góð efnistök. Í gærkvöldi var Árni Magnússon félagsmálaráðherra, gestur þeirra. Farið var yfir mörg mikilvæg mál, ánægjulegt var að heyra ummæli hans um ESB-málin. Þarf hann svosem varla að taka þetta fram, enda er stjórnarsáttmálinn alveg skýr og því ályktunardrög flokksins allundarleg. En engu að síður undarleg vinnubrögð hjá Framsókn í ESB-málum. Fór á fund kl. 20:00, sem gekk vel og var um margt rætt og farið yfir málin. Kom heim á ellefta tímanum. Horfði þá á úrvalsmyndina Jackie Brown. Myndin, sem byggð er á einni af sögum rithöfundarins Elmore Leonard, segir frá flugfreyjunni Jackie Brown sem drýgt hefur tekjurnar með því að smygla peningum inn í landið fyrir vopnasalann Ordell Robbie. Dag einn er hún staðin að verki á flugvellinum og handtekin. Þeir sem hafa málið á sinni könnu, lögreglumaðurinn Mark Dargus og vopnaeftirlitsmaðurinn Ray Nicolet, bjóða henni tvo kosti: Annað hvort hjálpar hún þeim að fletta ofan af Ordell eða hún fær langtíma gistingu á bak við rimlana.
Með aðstoð aðdáanda síns og hjálparhellu, Max Cherry, tekst Jackie að leggja fram tryggingu fyrir frelsi sínu, ákveðin í að velja þriðju leiðina út úr þessum vandræðum. Hún hefur engan áhuga á að fara í fangelsi og hún veit alveg nákvæmlega hvað verður um þá sem dirfast að svíkja Ordell. Hún tekur því þá ákvörðun að skjóta, bæði Ordell og hjálparkokkum hans, þeim Louis og Melanie, og lögreglunni, ref fyrir rass, etja þeim saman á slyngan hátt og stinga síðan sjálf undan með ávinninginn, hálfa milljón dollara í beinhörðum peningum! Stórkostleg mynd, sem vinnur á eftir því sem maður sér meira af henni. Leikstjórinn Quentin Tarantino sló í gegn með mynd sinni, Pulp Fiction árið 1994, og hefur unnið sér enn meiri frægð með Kill Bill-myndunum, nú í upphafi 21. aldarinnar. Myndin skartar úrvalshópi leikara í öllum hlutverkum, t.d. þeim Robert De Niro, Samuel L. Jackson og Michael Keaton. En senuþjófarnir eru Robert Forster í hlutverki Max Cherry og Pam Grier, sem fer alveg á kostum í hlutverki ferils síns, hinnar úrræðagóðu Jackie. En já, frábær spennumynd fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.
Ég verð að viðurkenna að ég tók vænt hláturskast þegar ég sá þessa kostulegu mynd, sem birtist hér að ofan, á erlendum fréttavef. Þarna eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, á leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Brussel í vikunni. Er myndin er tekin hnippir Halldór í forsetann og vill eflaust tala við hann um alþjóðamálin. Einhvernveginn dettur mér í hug að það sem Halldór sé í þann mund að segja sé: Heyrðu Bush minn, manstu eftir mér? hehe :)
Saga dagsins
1920 Önnur ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tók við völdum - stjórnin sat í rúm tvö ár
1956 Nikita Khrushchev leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, flutti sögulega ræðu í Moskvu. Með ræðunni afneitaði hann algjörlega einræðislegum vinnubrögðum Stalíns við stjórn landsins, en hann var leiðtogi flokksins frá 1922 til dauðadags 1953. Ræðan markaði mikil þáttaskil, enda höfðu bæði orð og gjörðir Stalíns verið sem æðstu lög í huga flokksins og stuðningsmanna hans í marga áratugi. Khrushchev var alla tíð umdeildur leiðtogi og var honum steypt af stóli í innbyrðis valdabaráttu 1964
1964 Skopteikning eftir Sigmund Jóhannsson frá Vestmannaeyjum, birtist í Morgunblaðinu í fyrsta skipti - síðan hefur Sigmund teiknað myndir í Moggann. Íslenska ríkið keypti skopmyndirnar 2004
1966 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald kom til landsins og hélt tónleika í Reykjavík. Ella var ein fremsta jazzsöngkona sögunnar og talin hafa hljómbestu kvensöngrödd aldarinnar. Ella lést 1996
1990 Violeta Chamorro kjörin forseti Nicaragua - með því lauk 11 ára einræði sandinista í landinu
Snjallyrðið
Í daganna rás hef ég draumanna notið
um dáðríkast mark sem ég aldrei fæ hlotið.
Þeir yljuðu mér þó ef stóð ég í ströngu.
og stríðið mér léttu á ævinnar göngu.
Og eins er í vetrarins myrkasta veldi
að vorþráin sterk fer um hjarta mitt eldi.
Ég angan þess finn þó að úti sé myrkur,
þess yndi í fjarska er huganum styrkur.
Þótt ár hafi liðið og týnzt út í tómið,
þá tær vakir minning um fegursta blómið.
Því ennþá í ljóma þá vitjar mín vorið.
Það vekur og gleður og léttir mér sporið.
Helgi Seljan fyrrum alþingismaður (Vordraumur)
<< Heim