Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, undirrituðu í dag, í Þjóðmenningarhúsinu, viljayfirlýsingu þess efnis að íslenska ríkið muni formlega leysa til sín eignarhluta Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Enn á eftir að semja um endanlegt verð fyrir fyrirtækið og málið er því ekki endanlega afgreitt, en undirrituð er viljayfirlýsing til að staðfesta áhuga á að setja málið í þetta ferli. Samningaviðræður hafa staðið lengi um þessa lausn mála og munaði litlu að skrifað yrði undir svipaða yfirlýsingu undir lok nóvembermánaðar í fyrra, skömmu fyrir starfslok Þórólfs Árnasonar í embætti borgarstjóra, en hann vék af þeim stól 1. desember sl. Hafði Þórólfur lengi unnið að málinu fyrir hönd borgarinnar og reynt var að ná samkomulaginu í gegn áður en hann léti af embætti. Það kemur því í hlut eftirmanns hans að undirrita viljayfirlýsinguna fyrir hönd borgarinnar. Mikil tímamót felast í undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Er þetta mikið ánægjuefni að samstaða hafi náðst um þessa lausn mála. Þó er vissulega enn eftir að ganga frá málinu endanlega, en vonandi mun það ganga greiðlega fyrir sig. Er þetta stórt skref, þó vissulega sé það ekki endanlega komið í höfn. Er rétt að sveitarfélögin fari með formlegum hætti úr rekstri Landsvirkjunar. Er þetta gert í ljósi nýlegra raforkulaga, en þau fela í sér samkeppni í vinnslu og sölu á raforku. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær eru eigendur öflugra orkufyrirtækja, Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku, og því rétt að þau losi um eignarhlut sinn í Landsvirkjun. Framundan er nú að meta að fullu virði fyrirtækisins. Munu óháðir aðilar fara í það verkefni nú. Er því ekki endanlega ljóst hvert verðmæti eignarhluta sveitarfélaganna tveggja sé. Íslenska ríkið á helming fyrirtækisins, Reykjavíkurborg um 45% og Akureyrarbær rúm 5%. Ef marka má ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2003 er bókfært eigið fé þess rúmlega 40 milljarðar króna. Náist endanlegir samningar um þessa lausn mála munu greiðslur fyrir eignarhlutana renna beint til að mæta lfeyrisskuldbindingum sveitarfélaganna. Kemur fram í viljayfirlýsingunni að samningur þessa efnis skuli liggja fyrir eigi síðar en 30. september 2005. Stefnt er að því að þessar breytingar á eignarhaldinu muni ekki eiga sér stað síðar en undir lok ársins, eða fyrir 1. janúar 2006. Í framhaldinu stefnir ríkið að því að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða. Stefnt er því að einu öflugu fyrirtæki að hálfu ríkisins í dreifingu, sölu og framleiðslu á raforku. Í kjölfar þess verði það gert að hlutafélagi, eigi síðar en á árinu 2008. Mikið ánægjuefni það.
Samþykkt var á fundi allsherjarnefndar í morgun að afgreiða ekki að þessu sinni mál Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák. Eins og frægt varð undir lok síðasta árs ákváðu íslensk stjórnvöld að veita honum dvalarleyfi hér á landi en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi í Japan frá því um miðjan júlímánuð 2004. Bandarísk yfirvöld hafa óskað eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að hafa brotið viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad árið 1992. Síðan hefur Fischer verið á flótta og ekki farið til Bandaríkjanna. Í ársbyrjun, í kjölfar þess að japönsk yfirvöld tilkynntu að hann fengi ekki að koma hingað til lands nema að hann hlyti íslenskan ríkisborgararétt, skrifaði Fischer bréf til Alþingis og bað um hann formlega. Fischer stenst ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer.
Allsherjarnefnd hefur með þessari ákvörðun hindrað frekari framgang þess. Mun nú reyna á það hvort japönsk stjórnvöld taki mark á dvalarleyfi Fischers hingað til lands. Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, mælti með því á fundinum í morgun að erindið yrði ekki afgreitt. Segir Bjarni að nefndin sé jákvæð fyrir veitingu ríkisborgararéttar, fái Fischer að koma til landsins. Með öðrum orðum, boltinn er hjá japönskum yfirvöldum. Leyfi þau honum ekki að koma hingað, er málið strandað. Tel ég þessa ákvörðun nefndarinnar, og mat formanns hennar, rétta. Lýsti ég yfir ánægju minni með þá ákvörðun að íslensk stjórnvöld styddu við bakið á Fischer. Ég er hinsvegar algjörlega andsnúinn því að honum verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með þeim hætti sem um er rætt. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Fyrir eru mjög góðar reglur um veitingu hans og þurfa að vera mjög gild rök fyrir því að veita undanþágu. Ég sé ekki þörfina á að veita honum ríkisborgararétt umfram reglurnar sem fyrir hendi eru, en hann stenst þau ekki eins og fyrr er sagt. Er ómögulegt að mínu mati að afgreiða þetta sem einangraðan hlut, og án þess að skapa þá fordæmi fyrir fleiri að sækja um slíkt og fá ríkisborgararétt með sama hætti.
Mikil umræða hefur verið seinustu daga um stöðu mála í Framsóknarflokknum í kjölfar þess að forysta flokksins samdi frið við Kristinn H. Gunnarsson þingmann flokksins, og hleypti honum að nýju í þingnefndir. Er almennt talið að samið hafi verið við hann til að tryggja frið á væntanlegu flokksþingi og formaður flokksins hafi viljað halda góðum stuðningi í formannskjöri. Hætta hafi verið á að flokksmenn úr Norðvesturkjördæmi myndu mæta vígreifir til þingsins og læti hefðu orðið þar vegna stöðu Kristins og getað leitt til þess að formaðurinn hefði verið endurkjörinn með mun minni stuðning þingfulltrúa en dæmi eru fyrir í sögu flokksins. Formenn Framsóknarflokksins hafa verið kjörnir nær einróma allt frá stofnun flokksins, ef frá er talið uppgjörið 1944 þegar Jónasi Jónssyni frá Hriflu, var velt af formannsstóli. Pétur H. Blöndal alþingismaður, tjáði sig um stöðu mála í Framsókn í morgunþættinum Ísland í bítið, í morgun á Stöð 2. Í vikulegu spjalli með Merði Árnasyni sagði Pétur að undarlegt væri að túlkað væri sem svo að Kristinn væri gerður að píslarvotti í málinu. Hann hefði unnið með honum í nefndum og hefði kynnst manninum og vinnubrögðum hans. Einbeitt ummæli sem segja meira en mörg orð um hvernig samkomulagið hefur verið orðið milli þeirra í efnahags- og viðskiptanefnd undir lokin.
Tilkynnt var formlega í gær um breytingar á yfirmannasviði Flugleiða í kjölfar þess að Sigurður Helgason forstjóri, lætur af störfum þann 1. júní nk. eftir 20 ára setu á forstjórastóli fyrirtækisins. Stjórn Flugleiða hefur ráðið Ragnhildi Geirsdóttur framkvæmdastjóra hjá Icelandair, í starf forstjóra Flugleiða, og Jón Karl Ólafsson framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, sem forstjóra Icelandair. Það taka því tvö við störfum Sigurðar í sumar. Munu þau vinna með Sigurði þann tíma sem hann á eftir og taka svo formlega við í júníbyrjun. Mikið gleðiefni er að Ragnhildur fái þessa stöðu og verði yfirstjórnandi Flugleiða. Hún er aðeins 33 ára gömul og hefur átt skjótan frama. Hún hóf störf hjá Flugleiðum árið 1999. 2002 var hún skipuð forstöðumaður rekstrarstýringardeildar og framkvæmdastjóri rekstrarstýringarsviðs Icelandair í janúar 2003. Jón Karl hóf störf hjá Flugleiðum árið 1984, en hefur verið framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands frá árinu 1999. Þau eru kjörin til að taka við af Sigurði sem hefur unnið gott starf hjá fyrirtækinu.
Horfði í gærkvöldi á kvikmyndina In the Line of Fire. Hörkugóð og vel leikin úrvalsmynd, frá árinu 1993, sem segir frá Frank Horrigan, sem er lífvörður forseta Bandaríkjanna. Hann er í sögubyrjun kominn á sjötugsaldurinn og hefur ótvírætt umfangsmikla reynslu í starfi sínu eftir tæplega þrjátíu og fimm ára starf í leyniþjónustunni sem lífvörður forsetans. Hefur hann í raun aldrei jafnað sig á því að hafa mistekist að vernda John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, sem myrtur var í Dallas í Texas, 22. nóvember 1963. En allt í einu hefur samband við hann maður sem hefur í hyggju að myrða yfirmann Franks, núverandi forseta Bandaríkjanna, sem er nú í hörðum kosningaslag um lyklavöldin í Hvíta húsinu og er undir í baráttunni er sagan hefst. Er Frank áttar sig á að honum er alvara leggur hann til atlögu gegn skaðvaldinum. En spurningin að lokum er óneitanlega tvíþætt: tekst Frank að bjarga lífi forsetans eða tekst tilræðismanninum að myrða hann og mistekst Frank rétt eins og í Texas hinn heita vetrarmorgun er JFK féll fyrir morðingjahendi.
Clint Eastwood fer á kostum í einu af hans allra bestu hlutverkum á ferlinum. Hann er frábær sem hinn einmana leyniþjónustumaður sem lifir kyrrlátu lífi, sinnir vinnu sinni en fær sér einn kaldan bjór og hlustar á og spilar jazz utan vinnutíma. John Malkovich hefur aldrei verið betri en hér í hlutverki tilræðismannsins, Mitch Leary. Hann er alveg stórfenglegur í túlkun sinni, meistaralega góður er hann tjáir hið brenglaða eðli Leary og hæfileika hans til að spinna hinn margflókna vef sem mun jafnvel duga honum til að drepa forsetann. Hann hlaut tilnefningu til óskarsverðlauna fyrir leik sinn, var það hreinn skandall að hann vann ekki verðlaunin. Rene Russo er flott í hlutverki lögreglukonunnar Lilly Raines, og Dylan McDermott á góða takta sem Al D'Andrea, vinnufélagi Franks. Hér gengur allt upp: frábær leikur, vandað handrit og meistaraleg leikstjórn (þjóðverjans Wolfgang Petersen). Rúsínan í pylsuendanum er svo hin frábæra tónlist meistara Ennio Morricone, sem klikkar ekki frekar en fyrri daginn. Semsagt: hörkugóð og ógleymanleg hasarmynd sem fær áhorfandann til að gleyma stað og stund og tryggir spennandi kvöldstund.
Enn einu sinni var Íraksmálið rætt í þingsölum í dag. Miklu jákvæðari tónn var í umræðunni að þessu sinni, enda verið að ræða um kosningarnar í landinu þann 30. janúar sl. og þá lýðræðisþróun í landinu sem þær mörkuðu. Málshefjandi var Jónína Bjartmarz alþingismaður. Beindi hún nokkrum spurningum til Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um stöðu mála í Írak. Í svörum sínum sagði Davíð að Íslendingar myndu taka virkan þátt í uppbyggingunni þar með öðrum þjóðum. Sagði Davíð í umræðunum að án innrásar í Írak hefðu aldrei komið til lýðræðislegar kosningar þar og engin lýðræðisþróun orðið. Er þetta rétt, enda trúa fáir því að í valdatíð einræðisstjórnar Saddams og Baath-flokksins hefði verið boðað til lýðræðislegra kosninga. Þetta bara blasir við. Án íhlutunar annarra þjóða væru einræðisöflin þar enn við völd. Þær fréttir komu annars í dag frá Írak að sjítar hlutu hreinan meirihluta á írakska þinginu og geta því stjórnað landinu einir, en þurfa samkomulag við aðra við val á þingforseta og í fleiri embætti. Blasir við að kosningarnar voru frjálsar og opnar, enda seint hægt að segja að beinn vilji Bandaríkjamanna hefði verið að sjítar ynnu þær.
Saga dagsins
1866 Kristján Jónsson Fjallaskáld, orti kvæðið Þorraþrælinn (sem hefst svo: Nú er frost á Fróni)
1906 Fyrsta fréttamyndin í íslensku blaði birtist í Ísafold - var teikning sem sýndi frá Friðrik VIII konung, ávarpa fólk í Amalienborg, 18 dögum áður. Fyrstu innlendu fréttamyndirnar birtust 1913
1947 Ingólfur Arnarson, fyrsti Nýsköpunartogarinn svokallaði (af meira en þrjátíu), kom til landsins
1969 Golda Meir leiðtogi ísraelska Verkamannaflokksins, verður fyrsti kvenforsætisráðherra Ísraels - Meir sat á forsætisráðherrastóli allt til ársins 1974, er hún hætti í stjórnmálum. Hún lést árið 1978
1990 Vaclav Havel forseti Tékkóslóvakíu, kom til landsins og sá leikrit sitt, Endurbygginguna, í Þjóðleikhúsinu - Havel var forseti Tékkóslóvakíu 1989-1992 og svo forseti Tékklands 1993-2003
Snjallyrðið
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,
í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sjá dagar koma)
<< Heim