28. flokksþing Framsóknarflokksins hefst á morgun á Nordica Hotel. Nú hafa drög að ályktunum þingsins verið kynnt formlega á vef flokksins. Þar kemur mjög margt athyglisvert fram. Hef ég litið á þessi drög í dag og kynnt mér hvað framsóknarmenn vilja stefna að og ræða á þessu flokksþingi. Athyglisverðast að mínu mati og eflaust fleiri er að lagt er til í utanríkismálakaflanum að aðildarviðræður hefjist við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili og að kosið verði um aðild að ESB í alþingiskosningunum árið 2011. Þetta er nokkur stefnubreyting af hálfu flokksins, hann hefur aldrei stigið þetta skref fyrr og svo er þetta skref algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Er með ólíkindum að fylgjast með þessu dómgreindarleysi framsóknarmanna. En eins og fram hefur komið í fréttum í dag eru mjög skiptar skoðanir innan flokksins um þessa stöðu mála og þessi drög. Búast má við mjög beittum umræðum um þessi drög á flokksþinginu ef marka má viðbrögð ýmissa forystumanna flokksins. Meðal þeirra sem tjáð hefur sig með mest afgerandi hætti er Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins. Honum eru tillögurnar ekki að skapi og hann telur að ekkert knýji á slíkar umræður á þessum tímapunkti. Hefur Guðni jafnframt lýst yfir þeirri skoðun sinni að réttast sé að halda í fyrri stefnu og með því styrkja EES-samninginn.
Er ekki annað hægt en að taka undir þessi ummæli Guðna. Er ánægjulegt að ekki eru allir í Framsóknarflokknum tilbúnir til að kokgleypa Evrópusambandsdrauginn í einum munnbita þó að viss hluti flokksins telji það ginnkeyptan kost. Er greinilegt að þessi drög hafa borist víða, enda segir frá því í fréttum í dag að erlendar fréttastofur hafi leitað eftir þessum drögum til að kynna sér og heyra af þessum sinnaskiptum stjórnvalda. Þeir eru kostulegir spunameistararnir hans Halldórs, þeir virðast hafa það til að bera að tala svo víða og koma sér á svo marga staði að þeir tala í margar áttir. Enda varla óeðlilegt að forsætisráðherrann sé að verða eins og strengjabrúða í spunaneti. Þetta er kostulegt á að horfa. Einn helsti spunameistarinn er fréttamaðurinn fyrrverandi Steingrímur Ólafsson. Og hvað skyldi hann segja um þessa þróun mála? Jú, það sem vitað var fyrir að Halldór hafi ekki uppi neinar áætlanir um að hefja viðræður um aðild að ESB en ekki sé óeðlilegt að loka neinum dyrum og því ekki óviðeigandi að ræða þessi mál. Yfirlýsing Guðna og fleiri forystumanna flokksins er því ánægjuleg, enda sýnir hún ágreininginn innan flokksins í þessu máli, eins og mörgum öðrum. En hvað hefur eiginlega breyst frá því að Halldór allt að því skellti dyrunum á ESB í frægri ræðu hér á Akureyri í haust (skömmu áður en hann tók við forsætisráðherraembættinu). Hann sagði þar að fiskveiðistefna ESB væri í kreppu og að hún byggði á úreltum sjónarmiðum. Sagði hann að ómögulegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að sambandinu við núverandi aðstæður. Hvað hefur breyst hjá Halldóri og framsóknarmönnum? Af hverju er opnað á málið með svo afgerandi hætti nú, svo skömmu eftir ræðu Halldórs? Vonandi fáum við svörin við því á flokksþinginu um helgina.
Félagsdómur sýknaði í dag Brim í máli sem Vélstjórafélag Íslands höfðaði gegn fyrirtækinu vegna samninga sem gerðir voru við áhöfn fiskiskipsins Sólbaks EA-7. Í kröfum sínum vildi Vélstjórafélagið fá viðurkenningu félagsdóms að með sérsamningnum hefði Brim brotið gegn kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélagsins. Tók félagsdómur undir allar kröfur Brims, enda segir í úrskurði dómsins að Brim eigi einfaldlega ekki aðild að málinu, enda hafi útgerðarfélagið Sólbakur tekið við rekstri skipsins við undirritun leigusamnings í september 2004, og því auðvitað gert það út síðan. Tekið er því undir allar meginröksemdir Brims í þessu mikla deilumáli. Það er gott að fá þennan endi í þetta mikla deilumál.
Flestum er kunnugt um meginefni þess. Forsvarsmenn samtaka sjómanna neituðu upphaflega að sætta sig við stöðu mála og mættu því á bryggjuna á Akureyri í hádeginu þann 6. október 2004 þegar Sólbakur EA-7, kom til hafnar úr fyrstu veiðiferð sinni eftir þessa umdeildu samninga. Eftirleikinn þekkja flestir, en rétt er þó að rekja hann hér. Voru forystumenn sjómanna staðráðnir þá í því að koma í veg fyrir löndun úr skipinu og lögðu því bílum sínum á bryggjuna við skipshlið. Illa gekk að leysa málið og náðust samningar við sjómannaforystuna loks, eftir að lögregla hafði loks beitt sér gegn mönnunum sem stöðvuðu vinnslu á aflanum í skipinu. Vélstjórar fóru þó þessa leið og héldu fyrir dómstólana, eitthvað sem auðvitað allir aðilar áttu að gera ef þeir voru ósáttir við stöðuna. Er skiljanlegt nú af hverju sjómenn stóðu frekar við skipshlið og stöðvuðu vinnslu aflans, enda blasir niðurstaðan við. En það er auðvitað alltaf réttast að fara fyrir tilheyrandi dómstóla séu menn ósáttir. Menn geta ekki gripið lögin í eigin hendur. Lýsi ég yfir ánægju með að niðurstaða er komin í málið og þættir þess liggi vel fyrir. Þessi úrskurður Félagsdóms tekur af öll tvímæli um stöðuna.
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin forseti Rússlands, hittust á leiðtogafundi í Bratislava í Slóvakíu í dag. Var þetta fyrsti fundur þeirra eftir að Bush náði endurkjöri í forsetaembættið í nóvember 2004. Voru þeir um margt sammála. Kemur eflaust mest á óvart að þeir voru sammála um málefni Írans. Samþykktu þeir á fundinum að efla samvinnu Bandaríkjanna og Rússlands varðandi öryggi í kjarnorkumálum. Er með því ljóst að leiðtogarnir eru sammála um að Íranir eigi ekki að ráða yfir kjarnorkuvopnum. Leiðtogarnir voru sammála um að viðræðum um aðild Rússa að Alþjóða viðskiptastofnuninni yrði hraðað og hétu samvinnu í friðarumleitunum í Mið-Austurlöndum. Sýnir þetta vel samstöðuna meðal leiðtoga Evrópu og Bandaríkjanna almennt þessa dagana, hefur þetta sést vel í Evrópureisu forsetans. Mun Bush hafa rætt mjög opinskátt við Putin um lýðræðisþróunina í Rússlandi og lýst yfir áhyggjum sínum af stöðu mála. Það og lýðræðismál almennt er það sem helst aðskilur leiðtogana og afhjúpar muninn á þeim. Kom þetta eins og fyrr segir mjög í ljós í niðurstöðum þessa athyglisverða fundar þeirra. Hafa samskipti leiðtoganna alltaf verið vinsamleg og þeir skipst á heimboðum á heimili sín í Moskvu og Texas. Eitthvað sem hefði þótt óhugsandi í samskiptum leiðtoga þessara landa, fyrir 15-20 árum.
Óskarsverðlaunin verða afhent um helgina. Óvenjujafn slagur er í verðlaunaflokkunum að þessu sinni. Er nær útilokað að spá um suma flokkana, svo jöfn þykir keppnin og spennandi. Er þetta frábrugðið stöðunni í fyrra þegar seinasti hluti þríleiksins um Hringadróttinssögu Tolkiens, The Lord of the Rings: The Return of the King, sló í gegn og hlaut 11 óskarsverðlaun í 11 tilnefndum flokkum. Sigur myndarinnar var sögulegur og í fleiri flokkum var spennan í lágmarki. Þau féllu nær alveg eins og spáð var af helstu spekingum. Nú er ekkert víst um stöðuna. Ja, ef undan er skilinn einn flokkur. Talið er nær öruggt að leikarinn Jamie Foxx muni hljóta óskarinn fyrir leik aðalleikara í kvikmynd. Hann fer alveg á kostum í hlutverki söngvarans goðsagnakennda Ray Charles í kvikmyndinni Ray. Sá ég þessa mynd í suðurferð minni nýlega. Þetta er alveg frábær mynd. Foxx verður hreinlega Ray Charles í túlkun sinni. Þetta er að ég tel einn kraftmesti leiksigur ungs leikara til fjölda ára. Foxx hlýtur að fá þessi verðlaun. Hefur þetta verið staðfest með afgerandi hætti í því að veðmálafyrirtækið Ladbrokes, sem hefur spáð til um verðlaunin til fjölda ára, er hætt að taka veðmál um hvort Foxx fái verðlaunin. Svo öruggur er hann talinn. Undrast ég það ekki. Þetta er frábær mynd, frábær túlkun og í henni er frábær tónlist meistara Ray, sem var einn helsti tónlistarsnillingur síðustu aldar.
Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að embætti forseta Íslands sé óþarft og stokka þurfi það upp. Ítrekaði ég oft þessar skoðanir í deilunum um embættið í fyrra, bæði vegna fjölmiðlamálsins og ekki síður þegar forsetinn sýndi stjórnkerfinu þá vanvirðingu að fara á skíði er haldið var upp á aldarafmæli íslenskrar heimastjórnar. Þykir mér að embættið hafi farið útaf sporinu, enn meira í forsetatíð sitjandi forseta en áður. Hefur allt sem sagt hefur verið um embættið af mér og mörgum fleirum andstæðingum embættisins verið staðfest með afgerandi hætti, með stjórnunarstíl sitjandi forseta. Í dag birtist á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna umfjöllun um þessi mál. Þar er góður pistill um þessi mál eftir vin minn, Einar Þorsteinsson nýkjörinn formann Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Gladdi mig mjög að lesa þessa grein hans og finna hvað við erum sammála um þessi mál og eigum sameiginlegt þessa afstöðu á forsetaembættinu. Fer Einar á athyglisverðan hátt yfir allt málið og tjáir skoðanir sínar með ákveðnum hætti. Hvet ég alla til að lesa þennan góða pistil hans. Ennfremur vil ég óska Einari til hamingju með kjör hans í formannsembættið. Hlakka ég til að vinna með honum í ungliðastarfinu á komandi árum.
Athyglisvert var að horfa á Ísland í dag í gærkvöldi. Þar var Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, gestur þeirra Svansíar og Þórhalls. Fór hún svo marga hringi og talaði í svo margar áttir um allt og ekki neitt til að þurfa ekki að svara neinu að með ólíkindum var á að horfa. R-listinn var löngum ólíkindatól en hann minnir í dag orðið á gatasigti sem hangir saman en hriplekur svo eftir er tekið. Kostulegt að sjá þetta viðtal. Horfði á Kastljósið, en þátturinn var tekinn upp austur á Egilsstöðum. Alltaf gaman að kynna sér stöðu mála þar og var gaman að fara þangað fyrir mánuði og fara yfir málin. Athyglisvert fannst mér að sjá vinstrisveifluna á þættinum og einhliða umfjöllun um mikilvægasta málefni Austfirðinga nú um stundir, álvers- og virkjunarmálin.
Að því loknu var horft á Gettu betur. Þar kepptu Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Fór keppnin fram í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Var gaman að fylgjast með keppninni. Margar fínar spurningar og góð stemmning. Sérstaklega var gaman að sjá kynnismyndböndin um skólana. Júlli vinur minn, sem situr með mér í stjórn Varðar og er í skólanum, fór á kostum í sínu hlutverki í myndbandi MA. Ansi gaman af því. En já, MA vann sigur í keppninni, sem varð aldrei beint spennandi. En þetta var fín keppni. Eftir það fór ég niður í miðbæ og hitti nokkra vini á kaffihúsinu Bláu könnunni. Alltaf gaman að fara þangað og fá sér kakó og köku og njóta þess að fara á reyklaust kaffihús og ræða um mikilvæg málefni við góða vini.
Saga dagsins
1630 Skálholtsstaður brann til kaldra kola - allmikið af sögufrægum húsum og munum brunnu þar
1924 20 þingmenn stofnuðu Íhaldsflokkinn - flokkurinn var talsmaður minni ríkisumsvifa og vildi efla þátt einstaklingsins í fyrirtækjalífi. Flokkurinn varð önnur tveggja stoða Sjálfstæðisflokksins árið 1929
1924 Líkneskið af Ingólfi Arnarsyni eftir Einar Jónsson, var formlega afhjúpað á Arnarhóli í Reykjavík
1950 Ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forsæti Clement Attlee hélt velli í kosningum - stjórnin féll árið eftir og aftur var boðað til kosninga sem leiddi til þess að Íhaldsflokkurinn komst til valda
1981 Tilkynnt opinberlega að Karl prins af Wales og ríkisarfi Englands, giftist lafði Díönu Spencer í St. Pauls-dómkirkju þann 29. júlí - hjónaband þeirra var framan af hamingjuríkt og þau eignuðust tvo syni, William árið 1982 og Harry árið 1984. En hamingjan brast og tilkynnt var um skilnað þeirra árið 1992 og þau fengu lögskilnað árið 1996. Díana lést í bílslysi í París árið 1997. Tilkynnt var í febrúar 2005 að Karl myndi ganga að eiga Camillu Parker Bowles, við borgaralega athöfn þann 8. apríl 2005
Snjallyrðið
Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.
Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)
<< Heim