Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 febrúar 2005

Hansína Ásta Björgvinsdóttir bæjarstjóri í KópavogiHeitast í umræðunni
Seinustu vikur hefur mikið verið skrifað og talað um innanflokksátökin innan Framsóknarflokksins í Kópavogi. Eins og flestir vita snúast þessar deilur fyrst og fremst um forystu flokksins í bænum eftir snögglegt fráfall Sigurðar Geirdal leiðtoga flokksins og bæjarstjóra sveitarfélagsins í 14 ár, en hann lést í nóvember. Við það myndaðist mikið tómarúm og valdabarátta. Fór svo að Hansína Ásta Björgvinsdóttir, önnur á lista Framsóknar í bænum, tók við leiðtogahlutverkinu og embætti bæjarstjóra og mun sitja á þeim stóli til 1. júní nk. er bæjarstjóraembættið færist skv. samningi eftir seinustu kosningar til Sjálfstæðisflokksins. Hefur ekki verið neitt leyndarmál að Páll Magnússon sóttist eftir stólnum og voru átök innan fulltrúaráðsins í bænum um hvort ætti að fá stólinn. Átök um Freyju, félag framsóknarkvenna í Kópavogi, hafa vakið athygli, ekki síður vegna þess að lykilleikendur í þeim átökum voru eiginkonur Páls og bróður hans, Árna Magnússonar félagsmálaráðherra. Ekki varð það heldur til að draga úr umræðu um það að Páll væri að styrkja sig fyrir sveitarstjórnarframboð og að Árni hefði áhuga á leiðtogastól Sivjar Friðleifsdóttur í Suðvesturkjördæmi og jafnvel að reyna fyrir sér í kosningu um valdamikið embætti á næsta flokksþingi.

Málefni kvenfélags framsóknarmanna í Kópavogi og valdabaráttan í sveitarstjórnarmálapólitíkinni þar tók nýja og athyglisverða stefnu um helgina. Þá var stofnað nýtt kvenfélag framsóknarkvenna í bænum, Brynja. Það merkilegasta við stofnfundinn er að leiðtoga flokksins í kjördæminu og ennfremur í bænum sjálfum, framsóknarkonununum Siv og Hansínu Ástu, var ekki boðið til fundarins og hann fór fram án þess að þeim hefði verið gert grein fyrir því. Er þetta vægast sagt stórundarleg staða sem blasir við þarna og greinilega mikill trúnaðarbrestur milli fólks og barátta bakvið tjöldin um völd og áhrif. Svo blasir hið merkilega við að heiðursgestur fundarins var Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Fyrir Brynjukonum fara sömu konur og náðu stjórnarmeirihluta á fundinum í Freyju, sem dæmdur var ólöglegur. Helsti talsmaður félagsins er nú sem fyrr Aðalheiður Sigursveinsdóttir, eiginkona Páls Magnússonar. Formaður félagsins var hinsvegar kjörin Sigurbjörg Vilmundardóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi, en hún tók sæti í bæjarstjórn við andlát Sigurðar Geirdal fyrrum bæjarstjóra. Hefur hún myndað bandalag greinilega með Páli um að sækjast eftir forystusætum á listanum næst og sækja fram gegn núverandi leiðtoga. Það er því greinilega mikil ólga að koma þarna fram í dagsljósið og allnokkur sundrung í bæjarmálapólitíkinni og eflaust er þessu allt ennfremur stefnt gegn Siv á kjördæmavísu. Nærvera Valgerðar á fundinum ýtir óneitanlega undir það að hér séu Magnússynir að koma sér áfram til áhrifa og hafi myndað bandalag með Valgerði til áhrifa, þegar að því kemur að Halldór muni láta af formennsku í Framsóknarflokknum. Allavega er ljóst að átakalínurnar í Framsókn liggja mjög víða.

George W. BushGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur nú hafið fimm daga för sína um Evrópu. Þessi för forsetans kemur í kjölfar vikulangrar ferðar Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Evrópu og Mið-Austurlönd. Sú ferð átti að vinna grundvöll undir sættir við Þýskaland og Frakkland eftir ósætti þeirra við Bandaríkin eftir Íraksstríðið og ennfremur styrkja stoðir friðarsamkomulagsins í Mið-Austurlöndum. Forsetinn hefur byggt á stefnu þeirri sem Rice kynnti í för sinni í byrjun mánaðarins í ræðum sínum í ferðinni, það sem af er. Hann hefur sagt að það sé sameiginlegt markmið Bandaríkjamanna og Evrópubúa að samkomulag náist um frið í Mið-Austurlöndum og að samskipti þjóðanna verði efld og styrkt til muna, til að vinna saman að þeim málum sem framundan séu. Í ferð sinni mun Bush forseti, hitta þjóðarleiðtoga Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Úkraínu og Rússlands. Hann mun á morgun verða viðstaddur leiðtogafund NATO í Brussel. Meðal þjóðarleiðtoga á þeim fundi er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.

Í ræðu sinni í Brussel í dag talaði forsetinn með mjög svipuðum nótum og Condi gerði í ítarlegri ræðu sinni í París nýlega. Forsetinn sagði að Bandaríkin þyrftu á samstöðu heimsins að halda í þeim verkefnum sem væru framundan. Með því gaf hann auðvitað í skyn að sögulegra sátta væri þörf eftir átök seinustu ára: sættir væru nauðsynlegar til að tryggja frið og betri stöðu heimsins. Í ræðunni fór hann ítarlega yfir friðarviðræðurnar og sáttatóninn sem nú er kominn upp í Mið-Austurlöndum. Kom fram í ræðu hans að það væri sameiginlegt markmið Bandaríkjanna og Evrópu að tryggja að Palestína og Ísrael gætu lifað saman í sátt og samlyndi. Hann taldi að nú væri friður í sjónmáli og betri staða framundan og nýir tímar. Minntist forsetinn ennfremur á Rússland í ræðu sinni. Taldi hann stöðu mála þar langt í frá nógu góða og nauðsynlegt væri að hafa áhyggjur af lýðræðisþróuninni þar. Sagði hann mikilvægt að hvetja stjórnvöld í Moskvu að reyna að feta með mun öflugri hætti leiðina til lýðræðis. Í ræðunni skaut forsetinn ennfremur sem fyrr að stjórnvöldum í Íran. Taldi hann nauðsynlegt að stjórnvöld þar hættu með afgerandi hætti stuðningi við hryðjuverkamenn og hætti ennfremur við smíði kjarnavopna. Þá kom fram það mat hans að Sýrlandsstjórn verði að hætta hernámi Líbanons. Bush var því mjög ákveðinn í ræðu sinni og gaf með því tóninn með ákveðnum hætti um það sem koma mun fram í samræðum hans við þjóðarleiðtoga á næstu dögum í þessari för hans.

Punktar dagsins
ISG

Horfði í gærkvöldi á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli í Ríkissjónvarpinu. Alltaf vandaðir og vel gerðir þættir. Páll Benediktsson og hans fólk á hrós skilið fyrir áhugaverð efnistök og vandvirk vinnubrögð. Þessi þáttur er orðið eitt af helstu trompum Sjónvarpsins á síðustu árum. Meðal þess sem fjallað var um að þessu sinni eru átök svilanna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar um formannsembætti Samfylkingarinnar. Kom margt mjög merkilegt þar fram og farið yfir stöðu mála með áhugaverðum hætti. Voru merkilegar viðtalsklippur við formannsframbjóðendurna. Það merkilegasta sem þar kom fram voru ummæli Össurar þess efnis að þrýst hefði verið á hann að tryggja stöðu Ingibjargar fyrir seinustu kosningar, eftir að hún hrökklaðist af borgarstjórastóli vegna svika á gefnum loforðum. Þrýstu stuðningsmenn ISG því á Össur um að vinna að því að efstu menn í Reykjavíkurkjördæmunum, sem unnu sæti sín í prófkjöri, vikju fyrir Ingibjörgu á framboðslistunum. Vildi enginn víkja fyrir henni, skiljanlega eftir að hafa þurft að berjast í prófkjöri fyrir sætum sínum, meðan Ingibjörg engdist upp í vafa um hvað hún ætti að gera. Hikið varð henni reyndar mjög dýrkeypt að lokum, eins og allir vita. En góð samantekt og fróðleg, þeir sem fylgjast með þessum kattaslag vita þá eitthvað meira um þessa persónupólitík Samfylkingarinnar.

Naruhito, Aiko og Masako

Það hefur lengi þjakað Japani að Naruhito krónprins Japans, og eiginkona hans, Masako, hafa ekki eignast son til að erfa ríkið síðar meir. Eiga þau aðeins eina dóttur, Aiko, sem fæddist árið 2002. Vonuðust landsmenn og foreldrarnir að þau ættu von á syni, en þvert á vonirnar kom dóttirin til sögunnar. Samkvæmt lögum landsins geta aðeins karlmenn erft krúnuna. Að óbreyttu mun því stefna í óefni, enda er talið ósennilegt að krónprinshjónin geti eignast annað barn, enda eru þau tekin að eldast. Nú stefnir flest í að ríkisstjórn landsins ætli að bjarga málunum og tryggja eðlilegan framgang keisaraembættisins í komandi framtíð. Verður brátt í hennar nafni lagt fram lagafrumvarp fyrir þingið sem gerir ráð fyrir því að konur geti erft ríkið. Eins og flestir vita hefur enginn drengur fæðst í fjölskylduna síðan Naruhito fæddist á sjötta áratugnum. Þingið þarf að samþykkja þessar breytingar. Kannanir í Japan sýna að rúmlega 80% Japana vill breyta reglunum um keisaraembættið svo Aiko geti erft ríkið síðar meir. Hefur verið þrýstingur á krónprinshjónin til fjölda ára um að eignast son, en allt hefur komið fyrir ekki. Verði lögin samþykkt þurfa þau engar áhyggjur frekari að hafa og keisaraembættið er styrkt. En með þessu stefnir í að fyrsta konan taki við ríkinu.

Dan Rather

Óðum styttist í að fréttahaukurinn Dan Rather hætti störfum sem fréttastjórnandi CBS-sjónvarpsstöðvarinnar. Hann mun kveðja áhorfendur að kvöldi 9. mars. Eftirmaður hans hefur ekki verið formlega valinn en fyrst um sinn mun Bob Schieffer vera aðalfréttalesari stöðvarinnar í hans stað. 9. mars verða nákvæmlega 24 ár liðin frá því að Rather tók við embættinu af hinum goðsagnakennda fréttahauk Walter Cronkite sem var andlit frétta CBS í marga áratugi. Staða Rathers veiktist mjög í kjölfar þess að hann birti umdeilda fréttaskýringu um Bush forseta, og birti gögn máli sínu til stuðnings sem reyndust fölsuð. Telja má öruggt að þessi fréttaskýring hans hafi átt stóran þátt í því að hann vék fyrr en ella úr starfi. Rather sem er 73 ára að aldri, hefur verið lykilstarfsmaður í fréttamennsku CBS stöðvarinnar í rúm 40 ár. Hann var áberandi sem fréttamaður í málefnum Hvíta hússins sem senior reporter 1969-1977. Hann varð svo aðalfréttaþulur 1981. Rather mun eftir að hann hættir í næsta mánuði vinna áfram við fréttaskýringar hjá CBS. Efast er þó um að það verði mjög lengi.

The Remains of the Day

Horfði í gærkvöldi á bresku úrvalsmyndina The Remains of the Day. Myndin er byggð á samnefndri bók Ruth Prawer Jhabvala sem einnig skrifaði handritið en um framleiðslu og leikstjórn sá tvíeykið Merchant og Ivory, mennirnir sem stóðu að meistaraverkunum Howards End og A Room with a View en Ruth Prawer Jhabvala skrifaði ennfremur handritið að þeim myndum. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem bæði vildi eiga hann og þótti í raun vænt um hann.

Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu, en á meðan er rifjuð upp saga hans og starfsfólksins á Darlington Hall, en konan sem hann hyggst hitta er fröken Sally Kenton, en hún starfaði sem ráðskona á hefðarsetrinu undir stjórn hans á þeim tíma sem áður er lýst, þ.e.a.s. árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Stevens varð þá ástfanginn af henni, en þorði ekki að segja henni hug sinn, en hún giftist öðrum manni. Hún hefur nú skilið við eiginmann sinn og hyggst Stevens reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar... Frábær mynd. Handrit, tónlist, sviðsetningin og leikstjórnin er frábær, en aðall hennar er leikur aðalleikaranna. Sir Anthony Hopkins er frábær í hlutverki hins skyldurækna yfirþjóns á hefðarsetrinu og hefur hann sjaldan leikið betur. Emma Thompson er einnig stórkostleg í hlutverki ráðskonunnar fröken Kenton. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Semsagt; einstök kvikmynd sem ég mæli eindregið með að þeir kynni sér sem ekki hafa séð hana. Hún er meistaravel gerð og stórfenglega leikin af tveimur einstökum leiksnillingum.

Saga dagsins
1945 Dettifoss sökk norður af Írlandi. 15 manns fórust en 30 var bjargað. Þýski kafbáturinn U 1064 skaut skipið í kaf. Aðeins þremur mánuðum síðar játuðu Þjóðverjar sig sigraða í átökum stríðsins
1960 Fidel Castro leiðtogi Kúbu, ríkisvæðir öll fyrirtæki í landinu og segir það nauðsynlegt skref
1965 Blökkumannaleiðtoginn umdeildi, Malcolm X var myrtur, af íslömskum öfgatrúar-mönnum á fjöldafundi í New York. Malcolm var 39 ára gamall. Sagt var frá ævi hans í myndinni Malcolm X 1992
1972 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, kom í mjög sögulega heimsókn til Kína. Nixon varð fyrsti þjóðarleiðtogi Bandaríkjanna sem hélt í opinbera heimsókn til Kína frá valdatöku kommúnista 1949. Með þessu var blað brotið í samskiptum landanna og þíða komst á í samskiptum þeirra. Hann hitti í för sinni bæði Mao formann, og Zhou Enlai forsætisráðherra. För Nixons markaði mikil þáttaskil
2002 Breski leikarinn John Thaw lést úr krabbameini, sextugur að aldri - Thaw var einn helsti leikari Breta á 20. öld og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn. Thaw hlaut heiðursverðlaun Bafta 2001. Thaw mun verða lengi í minnum hafður fyrir meistaralega túlkun sína á lögregluforingjanum Morse

Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)