Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 febrúar 2005

Rafik HaririHeitast í umræðunni
Rafik Hariri fyrrum forsætisráðherra Líbanons, var myrtur í sprengjutilræði í Beirút-borg í gær. Að minnsta kosti 12 aðrir létu lífið í sprengjuárásinni og yfir 100 særðust. Bíl með sprengju innbyrðis var ekið á bílalest Hariri með þessum afleiðingum. Á meðal þeirra sem særðust lífshættulega er Basil Fuleihan fyrrum viðskiptaráðherra Líbanons, en hann var náinn aðstoðarmaður Hariris. Eldur kviknaði í að minnsta kosti 20 bílum í þeirri miklu sprengingu sem varð er bíllinn keyrði á bílalestina. Atvikið átti sér stað utan við eitt frægasta hótel Beirút, St. George. Svo mikill var krafturinn í sprengingunni að svalir á hótelinu sprungu utan af því. Hefur morðið á Hariri leitt til upplausnar í landinu og mikils glundroða, sem gæti leitt til enn meiri tíðinda almennt á vettvangi stjórnmála í landinu. Hariri var viðskiptajöfur og milljarðamæringur sem sat á stóli forsætisráðherra Líbanons tvívegis, í fyrra skiptið 1992-1998 og á ný 2000-2004. Hann sagði af sér embætti í október í fyrra og fór þá í stjórnarandstöðu. Hafði hann skömmu fyrir andlát sitt tekið undir vaxandi kröfur í Líbanon, þess efnis að hersveitir Sýrlendinga verði kallaðar heim frá landinu.

Ástandið hefur lengi verið óstöðugt í Líbanon, einkum í höfuðborginni Beirút. Sprengjutilræði voru algeng í Beirút á meðan borgarastyrjöldinni stóð yfir, 1975-1990, en síðan henni lauk hafa þau verið öll fátíðari. Vaxandi spenna hefur verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu í landinu seinustu árin og frá valdaskiptunum í október, er Hariri lét af embætti forsætisráðherra hefur hún aukist til muna. Ekki hefur slegið á spennuna í landinu að Sýrlendingar hafa í landinu 14.000 manna herlið og hafa haft nokkuð lengi öflugan varnarviðbúnað í því formi. Enginn vafi leikur á því að morðið á Hariri og sprengjuárásin sem grandaði honum hafi verið ætlað að auka óstöðugleikann í landinu og jafnvel koma á annarri blóðugri borgarastyrjöld. Mikil hætta er fyrir hendi að svo verði. Ástandið í Líbanon jaðrar við púðurtunnu og hefur verið til fjölda ára. Árás af þessu tagi og morð á áberandi stjórnmálamanni landsins gæti orðið að eldspýtu sem magnar upp mikið ófriðarbál. Athygli vekur vissulega að árásin sé gerð á sama tíma og alþjóðlegur þrýstingur eykst á Líbanon og Sýrland um að láta undan kröfum Ísraels í Mið-Austurlöndum. Árásina verður vissulega að skoða mjög vel í ljósi þeirra atburða. Með mikilvægustu pólitísku baráttumálum Hariri á ferli hans voru efnahagsleg uppbygging landsins, sjálfstæði og almenn hagsæld. Greinilegt er að umfang morðsins á Hariri sé með slíkum stærðarbrag að það sé ekki verk lítilla hópa eða samtaka. Hér standi að öllum líkindum að baki leyniþjónusta eða öflug valdasamtök með mikil umsvif. Vonandi er að morðið á Hariri trufli ekki væntanlegar þingkosningar í landinu, í maímánuði.

ReykjavíkurflugvöllurMikla athygli vakti fyrir nokkrum vikum þegar andstæðingur flugvallar í Vatnsmýrinni til fjölda ára, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og fyrrum formaður skipulagsnefndar borgarinnar, tjáði sig um málefni flugvallarins. Sagði hún þá að flugstarfsemi gæti verið heppileg áfram í Vatnsmýrinni en þó í minnkaðri mynd. Kom þar greinilega fram sáttatónn í stað þess einstrengingslega málflutnings sem hún hélt fram í desember, skömmu eftir að hún tók við embætti sem borgarstjóri. Virtist það vera mat hennar að hluti flugstarfseminnar geti verið áfram í Vatnsmýrinni og meginhluti innanlandsflugs eigi þar vettvang áfram með einni flugbraut. Þessi ummæli voru merkileg í ljósi afstöðu Steinunnar til fjölda ára, sem formaður í nefndinni og borgarfulltrúi.

En nú virðist sem að mikil átök séu innan R-listans um málið. Hefur það svosem lengi blasað við en er nú komið upp á yfirborðið með afgerandi hætti. Í viðtali í dag sagði Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi, og eftirmaður Steinunnar Valdísar sem formaður skipulagsnefndar borgarinnar, að stefna borgaryfirvalda um að Reykjavíkurflugvöllur fari úr borginni sé með öllu óbreytt, þó rétt sé að menn ræði rökin með og á móti vellinum, að hans mati. Þessar yfirlýsingar fara alveg í kross við yfirlýsingar Steinunnar og virðist vera sem að formannsembættinu í skipulagsnefnd í valdatíð R-listans fylgi andstaða við völlinn. Stýrihópur undir forystu Dags fer nú yfir málefni vallarins og ræðir heildarskipulag Vatnsmýrarinnar. Á næstu dögum mun verða birt formlega skýrsla nefndar sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, skipaði til að fjalla um væntanlega samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni sem gera mun ráð fyrir innanlandsflugi í Reykjavík. Mikilvægt er að taka upp öfluga umræðu um völlinn og mikilvægi hans, eins og ég hef oft bent á er þetta lykilmál fyrir okkur á landsbyggðinni. Hef ég oft farið yfir málefni vallarins og bendi lesendum vefsins að líta á umfjöllun mína og skoðanir mínar á málinu sem birtust í tveim pistlum: 28. nóvember 2004 og 6. febrúar 2005.

Punktar dagsins
Whisky

Félag íslenskra stórkaupmanna gaf út yfirlýsingu í dag og kynnti það mat sitt að áfengisverð hér á landi sé það langhæsta í heiminum. Það sé á forsendum ofurskattlagningar áfengis, en ekki álagningar áfengisheildsala. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að 86% af verði flösku af sterku víni sem kosti tæpar 3.000 krónur renni í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts og áfengisgjalds eða tæplega 2.600 krónur. Af flösku af léttu víni, sem kosti tæplega 1.000 krónur, fari tæplega 70% í ríkissjóð. Samgönguráðherra svaraði þessu með skýrslu í dag þar sem segir að hátt áfengisgjald skýri ekki eitt og sér hátt verð á léttvíni og bjór á íslenskum veitingahúsum, heldur sé um að kenna álagningu veitingamanna, sem sagt er að sé á bilinu 130-360%. Eftir stendur að áfengisgjaldið er stór hluti af málinu og með lækkun gjaldsins lækkar áfengið. Þessu getur ráðuneytið vart neitað.

Miklar breytingar verða að eiga sér stað almennt í áfengismálum hérlendis. Mikilvægt er að einkaleyfissala ríkisins á áfengi verði afnumin. Það er tímaskekkja á tímum frjálsra viðskipta að ríkisvaldið skuli standa í vegi fyrir einkaaðilum með þessum hætti. Er í senn nauðsynlegt og mikilvægt að þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sameinist sem fyrst um lagafrumvarp þess efnis að selja léttvín og bjór í verslunum. Slíkt er mikilvægt skref til afnáms einokunarsölu ÁTVR á áfengi. Að auki er rétt að ríkisvaldið afnemi auglýsingabann á áfengi, enda er stórundarlegt á okkar tímum að ekki megi hérlendis auglýsa fullkomlega löglega vöru sem er framleidd á Íslandi. Síðast en ekki síst er rétt að lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár. Vonandi fer frumvarp slíks efnis í gegn sem fyrst. Eftir stendur að verð á áfengi hérlendis er alltof dýrt og stokka verður stöðu mála upp.

Kristján Þór Júlíusson tekur fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi í maí 2003

Tæp tvö ár eru nú liðin síðan Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi, nýjasta hverfi bæjarins. Síðan hefur hverfið byggst upp og fjöldi húsa risið þar. Áætlað hefur verið að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verði þar 6-8.000 manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður orðið fullbyggt. Hverfið mun skiptast upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Fyrsta byggingin sem ráðist var í, í hinu nýja hverfi, var glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, Naustatjörn, sem tekinn var í notkun 18. ágúst 2003, áður en fyrstu íbúar hverfisins fluttu inn. Var ráðist í byggingu hans áður en tekin var fyrsta skóflustungan að íbúðarhúsi á svæðinu. Þetta var að öllum líkindum einsdæmi í byggingu íbúðarhverfa hérlendis. Nýr grunnskóli mun rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu hefur verið lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir. Á fundi umhverfisráðs í síðustu viku var lögð fram tillaga umhverfisdeildar bæjarins til ráðsins að götuheitum í öðrum áfanga hverfisins. Lögð voru til eftirfarandi heiti og þau samþykkt: Brekatún, Ljómatún, Pílutún, Sokkatún, Sómatún, Sporatún og Þrumutún. Litrík og góð götunöfn í öflugt og nýtt hverfi bæjarins.

About Schmidt

Fór á bæjarmálafund í gærkvöldi, ræddum við þar bæjarmálin og fórum yfir stöðuna. Að loknum ítarlegum og góðum fundi var farið heim. Horfði á kvikmyndina About Schmidt. Kolsvört kómedía frá leikstjóranum Alexander Payne, sem hefur gert t.d. myndirnar Election og hina mögnuðu Sideways, sem er tilnefnd til fjölda óskarsverðlauna þetta árið. Í þessari kvikmynd, sem byggð er á skáldsögu Louis Begley, segir frá Warren R. Schmidt, ósköp hversdagslegum manni sem lendir á skömmum tíma í miklu mótlæti. Hann er að ljúka störfum sem tryggingasérfræðingur eftir margra ára starf, og satt best að segja ekkert hvað hann á að taka sér fyrir hendur. Helen, eiginkona hans til fjögurra áratuga fellur í kjölfarið skyndilega frá, og einkadóttirin Jeannie er að fara að gifta sig náunga að nafni Randall sem Warren líkar hreint ekki við. Orðinn einstæðingur án eiginkonu, starfs og fjölskyldu, heldur Schmidt í örvæntingarfulla leit að fyllingu í sviplaust líf sitt, enda sjálfstraust hans í molum. Hann ákveður að leggja af stað í leit að sjálfum sér á æskuslóðum sínum í Nebraska á húsbíl sem hann hafði keypt í þeim tilgangi á ferðast á um landið ásamt konunni sinni. Hann ákveður loks að halda til Denver og koma í veg fyrir að dóttir hans giftist Randall.

Framundan er spennandi atburðarás sem enginn verður svikinn af. Hér er á ferðinni alveg frábær kvikmynd sem skartar óskarsverðlaunahafanum Jack Nicholson í frábæru hlutverki. Hann birtist hér áhorfendum í nýju gervi; glottið er hvergi sjáanlegt og sjálfstraustið er víðsfjarri, hann leikur karakter sem er í rusli tilfinningalega séð. Nicholson á að baki mjög glæsilegan leikferil og hreint ógleymanlegar leikframmistöður. Fáir núlifandi leikarar eiga að baki eins glæsilegan feril. Hver man annars ekki eftir honum úr One Flew Over The Cuckoo´s Nest, Terms of Endearment, As Good As It Gets, Chinatown, Five Easy Pieces, The Shining, Prizzi´s Honour, Easy Rider og Heartburn svo aðeins séu nefndar örfáar af hans bestu myndum. Hann hlaut fyrir leik sinn í þessari mynd sína tólftu óskarsverðlaunatilnefningu og Golden Globe verðlaunin, og Óskarinn fyrir þrjár fyrstnefndu myndirnar. Enginn karlleikari hefur oftar verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Hann er einn af bestu leikurum samtímans. Ennfremur er Kathy Bates frábær í hlutverki Robertu. Hún var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sannkölluð eðalmynd sem vekur mann til umhugsunar og skilur þónokkuð eftir í undirmeðvitundinni.

Chris Rock

Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles, þann 27. febrúar nk. Ákveðið var í október að grínistinn Chris Rock yrði kynnir á hátíðinni að þessu sinni. Allt frá upphafi var deilt um það val, enda Rock þekktur fyrir nokkuð grófan húmor og að vera nokkuð ólíkindatól. Bandaríska kvikmyndaakademían og Gil Cates framleiðandi hátíðarinnar í sjónvarpi, voru gagnrýnd fyrir valið í haust og hafa þær raddir í raun aldrei þagnað. Allt varð þó vitlaust innan akademíunnar í gær er Rock sagði um helgina að athöfnin væri bara tískusýning og aðeins fyrir homma. Ef marka má fréttir mun hann hafa sagt: "Ég hef aldrei horft á Óskarinn. Ég meina, þetta er tískusýning" - "Hvaða gagnkynhneigði svarti karlmaður sest niður til að horfa á Óskarsverðlaunin? Bentu mér á einn slíkan!" - "Verðlaun fyrir listir eru andsk. heimskuleg". Meðlimir akademíunnar hafa hvatt til að Rock verði látinn fjúka og fundinn verði annar kynnir sem fyrst. Óttast hópur fólks að hann muni draga athöfnina á lágt plan með orðavali sínu og framkomu við afhendingu verðlaunanna. Að mínu mati á að láta Rock gossa, svona framkoma er fyrir neðan virðingu kvikmyndaakademíunnar og til skammar ef hann á að vera í hlutverki kynnis eftir það sem á undan er gengið. Fróðlegt verður að fylgjast með framkomu Rock á óskarsverðlaunahátíðinni, sem fram fer undir lok næstu viku.

Saga dagsins
1917 Kristín Ólafsdóttir lauk læknaprófi fyrst íslenskra kvenna og varð með því fyrsta konan sem lauk formlega embættisprófi frá Háskóla Íslands í sögu skólans. Markaði þetta því þáttaskil í sögu skólans
1923 Ingibjörg H. Bjarnason, fyrsta konan sem kjörin var á löggjafarþingið, tók fyrst sæti á þingi
1944 Bandaríska kvikmyndin Casablanca, sem skartaði þeim Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðalhlutverkum, var frumsýnd í Tjarnarbíói - varð ein vinsælasta mynd aldarinnar og hlaut óskarinn
1952 George VI Englandskonungur, jarðsunginn í Westminster Abbey og borinn til hinstu hvílu í St. George kapellu í Windsor - eiginkona hans, Elizabeth Bowes-Lyon drottning, lifði eiginmann sinn í hálfa öld. Hún var titluð drottningamóðir frá láti konungs til dauðadags. Hún varð elst kóngafólks í sögu bresku krúnunnar, eða tæplega 102 ára gömul. Elísabet drottningamóðir lést 30. mars 2002
1956 Urho Kekkonen forsætisráðherra Finnlands, kjörinn forseti Finnlands - sat í embætti til 1981

Snjallyrðið
There are places I remember all my life,
Though some have changed,
Some forever, not for better,
Some have gone and some remain.

All these places had their moments
With lovers and friends I still can recall.
Some are dead and some are living.
In my life I've loved them all.

But of all these friends and lovers,
There is no one compares with you,
And these memories lose their meaning
When I think of love as something new.

Though I know I'll never lose affection
For people and things that went before,
I know I'll often stop and think about them,
In my life I'll love you more.
John Lennon tónlistarmaður (1940-1980) (In My Live)