Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, bauðst tvisvar til að segja af sér embætti er Abu-Ghraib málið var í sem mestum hámæli í fyrrasumar. Þetta kom fram í viðtali bandaríska spjallþáttastjórnandans Larry King við Rumsfeld, sem var sýnt á CNN í gærkvöldi. Í maílok og snemma í júní 2004 skrifaði Rumsfeld tvisvar afsagnarbréf og lagði fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Í bæði skiptin hafnaði forsetinn afsögninni og sagði að Rumsfeld bæri skylda til að sitja áfram á ráðherrastóli og vinna að Íraksmálinu allt til enda. Er umræða um misþyrmingar bandarískra hermanna á íröskum föngum í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak stóð sem hæst í fyrrasumar var mjög deilt um stöðu Rumsfelds og einkum tekist á um hvort honum væri sætt í embætti. Veiktist staða hans svo mjög að margir áttu von á að hann yrði að víkja af stóli fyrir forsetakosningar. Svo fór þó ekki og hann sat fram að þeim og var svo skipaður aftur í embættið formlega af forsetanum í byrjun desember 2004, sem kom mörgum að óvörum, eftir allt sem áður hafði gerst. Margir töldu öruggt að skipt yrði um varnarmálaráðherra.
Þrátt fyrir slæma stöðu Rumsfelds og átök tengd honum og embættisverkum hans og hvernig hann hélt á málum í Írak skaðaði það ekki forsetann og hann hlaut endurkjör í embætti. Rumsfeld er orðinn 72 ára gamall og er elsti maðurinn sem hefur setið á ráðherrastólnum, en jafnframt sá yngsti en hann var varnarmálaráðherra í forsetatíð Gerald Ford 1975-1977. Þótti framtíð hans ótrygg vegna þeirra tíðinda að bandarískir hermenn hefðu misþyrmt írökskum föngum í Abu Ghraib. Ekki hafði þó fyrr verið talið að Rumsfeld hefði stigið þetta skref og beinlínis boðist til að víkja, og það tvisvar á svo skömmum tíma. Brugðið var á það ráð frekar að taka Rumsfeld úr kastljósi fjölmiðlanna, með því tókst að einangra skaða málsins og í kjölfarið náði forsetinn endurkjöri í embætti. Greinilegt er að hlutskipti Rumsfeld mun áfram verða óbreytt, hið fyrsta að minnsta kosti. Verður þó að teljast eiginlega útilokað að Rumsfeld muni sitja á ráðherrastóli allt til 20. janúar 2009, er forsetinn lætur af embætti að loknu öðru kjörtímabili sínu. Þá verður Rumsfeld orðinn 77 ára gamall. Hlutverk Rumsfelds mun verða að stjórna áfram starfinu í Írak og væntanlegum aðgerðum vegna stríðsins gegn hryðjuverkum. Ljóst er að utanríkisstefna Bush breytist lítið en jafnvel að hún verði enn ákveðnari, nú þegar dr. Condoleezza Rice er orðin utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Greinilegt er því að staða Rumsfeld er tryggari nú en lengi áður, hann kom mjög öflugur inn í stjórn árið 2001 en veiktist vegna Íraksmálsins en hefur náð á skömmum tíma að styrkja stöðu sína. Það að hann hafi svo öflugan stuðning forsetans eflir hans stöðu auðvitað mjög. Það að Rumsfeld hafi tvisvar í raun sagt af sér embætti en því verið hafnað beint af forsetanum, segir margt um sterka stöðu hans.
Alberto Gonzales tók í gærkvöldi formlega við embætti dómsmálaráðherra Bandaríkjanna af John Ashcroft. Hann sór embættiseið í Hvíta húsinu og var það Dick Cheney varaforseti, sem stjórnaði athöfninni. Gonzales er 49 ára gamall og hefur verið einn af helstu lögfræðilegum ráðgjöfum Bush í forsetatíð hans seinustu fjögur árin. Áður var hann dómari við hæstarétt Texas fylkis og einn af helstu lagaspekingum í málum fylkisins. Hann er sonur fátækra innflytjenda og verður fyrsti spænskumælandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Gonzales verður 80. dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Hefð er fyrir því að æðstu embættismenn Bandaríkjanna séu yfirheyrðir fyrir þingnefnd áður en þeir eru skipaðir í embætti. Gonzales varð að svara mörgum erfiðum og flóknum spurningum er hann fór fyrir þingnefnd í janúar.
Þingið samþykkti eftir langar og flóknar umræður loks skipan hans. Hlaut hann 60 atkvæði en 36 greiddu atkvæði gegn honum. Er það einn naumasti munur í sögu kosningar um dómsmálaráðherraefni Bandaríkjanna. Er líklegt að hann verði álíka umdeildur og forveri hans í embætti. Ashcroft var alla tíð mjög umdeildur og deilt var mjög á verk hans, orð og ákvarðanir meðan hann gegndi embættinu. Flest ráðherraefni forsetans hafa nú verið samþykkt. Rice er tekin við sem utanríkisráðherra, Margaret Spellings er orðin menntamálaráðherra, Michael Leavitt er orðinn heilbrigðisráðherra, Mike Johanns er orðinn landbúnaðarráðherra, Samuel Bodman er tekinn við embætti sem orkumálaráðherra, og Jim Nicholson er orðinn ráðherra hermála. Eftir er að samþykkja skipan Michael Chertoff sem ráðherra heimavarnarmála, og Carlos Gutierrez sem ráðherra viðskiptamála. Er líklegt að skipan þeirra komist í gegn í næstu viku. Þá loks verður ríkisstjórn forsetans orðin fullskipuð eftir uppstokkunina í kjölfar forsetakosninganna. 9 ráðherrar í fyrri stjórn viku, sem er hið mesta frá því að Richard Nixon skipti út 9 ráðherrum eftir kosningasigur sinn árið 1972.
Varla hafði ég fyrr sent inn punkta mína í gær og upphófst sú umræða að hálfu spekúlanta í stuðningsmannahópi Ingibjargar Sólrúnar um að niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins leiddi til þess að Össur ætti að íhuga að draga sig til baka í formannsslag Samfylkingarinnar. Eins og flestir sjá er um spunamennsku að ræða að þekktum meiði úr innsta hring stuðningsmannasveitar ISG til að koma í veg fyrir að hún þurfi að fara í kosningu gegn samherja sínum. Hefur hún aldrei þurft að fara í slag beint um embætti eða stöðu innan eigin raða, fengið allt á silfurfati, þannig að þetta er auðvitað ný staða fyrir hana. Vissulega er staða Össurar eitthvað veikari en ánægjulegt er að sjá það á vef hans að hann ætlar ekki að láta deigan síga og heldur ótrauður áfram. Hann ætlar semsagt að tryggja okkur pólitískum áhugamönnum næg umræðuefni fram á vorið og spekúleringar um stöðu sína og ISG í slagnum. Össur er beittur á vef sínum og segir þar um könnunina: "Þessa nýju tegund könnuna sem Baugsveldin í fréttamiðlun hafa tekið upp kalla ég gisk. Prófessorinn, sem ekki var að hylja hvorn hann studdi á bak við fræðilegt yfirbragð sagði að yfirburðir Sólrúnar væru slíkir að stuðningsmenn hennar gætu nú hallað sér makindalega aftur því sigurinn væri nánast í höfn. Rifja ég nú upp orð Xin Tsui hershöfðingja og spekings frá Chang tímabilinu: Erfiðasti andstæðingurinn er sá sem oftast er talinn sigraður." Enginn bilbugur á Össuri greinilega.
Í dag birtist í Fréttablaðinu skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna. Ef marka má þessa könnun bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig þingmanni frá seinustu kosningum. Það má auðvitað ekki gleyma því að flokkurinn hefur verið í stjórn í 14 ár samfellt. Miðað við það má telja gengi flokksins með ólíkindum gott, enda þess engin fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu að flokkur sé svo lengi samfellt í forystu ríkisstjórnar og fá fordæmi að flokkar sitji í stjórn samfellt eins og Sjálfstæðisflokkurinn að undanförnu. Staða Samfylkingarinnar rokkar til og frá og eru stóru flokkarnir nú jafnir. Auðvitað vildum við sjálfstæðismenn fá meira fylgi en þetta. Annars liggur fylgistap stjórnarmeirihlutans Framsóknar megin og eflaust eru menn þar farnir aldeilis að hugsa sinn gang. En það er auðvitað að óbreyttu langt í þingkosningar og margt getur gerst á þeim 27 mánuðum sem þangað til munu líða. Annars finnst mér þessi könnun ekki ósvipuð því og var sýnt í febrúar 2003 og allir töldu öll sund vera að lokast fyrir Framsóknarflokkinn og voru farnir að telja hann af. Reyndin varð sú að hann endaði í oddaaðstöðu og réði stjórnarmyndun.
Horfði í gærkvöld á The Contender, vandaðan og vel gerðan pólitískan spennutrylli, eins og þeir gerast bestir. Þar er sögð sagan af því er Jackson Evans forseti Bandaríkjanna, tekur þá örlagaríku ákvörðun að tilnefna fyrstu konuna, öldungadeildarþingmanninn Laine Hanson, sem varaforsetaefni sitt er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna fellur frá rétt fyrir lok seinna kjörtímabils forsetans. Hann sér í því tvenna möguleika, báða mjög góða fyrir sig og arfleifð sína. Hann yrði með því fyrsti forseti Bandaríkjanna til að útnefna konu sem varaforseta sinn og hann yrði með því öruggur partur af stjórnmálasögu sinnar samtíðar, einnig gæti hann tryggt ítök síns flokks áfram í Hvíta húsinu eftir forsetatíð sína, ef hún næði kjöri sem eftirmaður hans. Er val forsetans á henni hefur verið tilkynnt opinberlega koma fram gögn sem greina í smáatriðum frá afar frjálslegum kynferðislegum athöfnum hennar á yngri árum sínum og með því kemst allt í uppnám þar sem öldungadeild Bandaríkjaþings (sem þarf að staðfesta varaforsetaefni sitjandi forseta) telur slíkt vart hæfa tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna.
Meðal þeirra sem ganga lengst fram í andúð sinni á vegtyllu hennar er repúblikaninn Shelly Runyon, en honum er mjög í nöp við hana og ekki síst fortíð hennar. Hann ákveður að reyna hvað sem hann getur til að spilla fyrir framavonum hennar. Við tekur óvæginn og vægðarlaus hráskinnaleikur sem getur tekið á sig allar myndir og það kemur að því að enginn er óhultur, hvorki varaforsetaefnið né sitjandi forseti og valdhafar í Hvíta húsinu. Hér smellur allt saman til að skapa hina einu sönnu pólitísku spennumynd. Leikstjórn Rod Lurie, handritið, tónlistin, kvikmyndatakan og leikurinn eru hreint afbragð. Joan Allen fer á kostum í hlutverki varaforsetaefnisins, var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sama má segja um Jeff Bridges sem er flottur í hlutverki forsetans. En senuþjófurinn er Gary Oldman sem er frábær í hlutverki klækjarefsins Runyon sem reynir ALLT til að koma fyrir skipan Hanson í embættið. Oldman hefur aldrei leikið betur á sínum magnaða ferli. Semsagt; kraftmikil, spennandi, vönduð, vel leikin og raunsæiskennd úrvalsmynd sem nefnir hlutina réttum nöfnum. Þeir sem hafa ekki séð hana og hafa áhuga á stjórnmálum, drífið endilega í því!
Klukkan 16:30 verður opinn fundur um umhverfismál á Hótel KEA sem Sjálfstæðisfélag Akureyrar stendur fyrir. Þar munu Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri, hafa framsögu. Farið verður yfir umræðuna um sjálfbært Ísland. Hvernig miðar okkur í því verkefni? Er eitthvað til í umhverfisvænni stóriðju? Er hægt að nýta náttúruauðlindir á hagkvæman hátt? Þessar spurningar og margar fleiri munu eflaust koma upp. Fundarstjóri verður Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi. Í kvöld munu svo sjálfstæðisfélögin á Akureyri og í Eyjafirði hafa þorrablót sitt. Heiðursgestir okkar verða Sigga og eiginmaður hennar, sr. Jón Þorsteinsson. Veislustjóri verður Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það er því framundan skemmtilegt síðdegi og góð skemmtun í kvöld í góðum félagsskap sjálfstæðisfólks.
Saga dagsins
1789 George Washington kjörinn fyrsti forseti Bandaríkjanna - Washington lést 14. desember 1799
1947 Ríkisstjórn undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar tók við völdum - sat við völd í tæp 3 ár
1968 Fárviðri gekk yfir Vestfirði og var veðurofsinn mestur á Ísafjarðardjúpi. Heiðrún II frá Bolungarvík fórst með sex mönnum. Varðskipið Óðinn bjargaði átján manna áhöfn breska togarans Notts County sem strandaði við Snæfjallaströnd. Annar breskur togari, Ross Cleveland, sökk og fórust með honum alls nítján manns, en aðeins einn, Harry Eddom, fannst á lífi eftir hrakningar í tvo daga
1969 Yasser Arafat verður leiðtogi PLO (Palestine Liberation Organization). Arafat var kjörinn forseti heimastjórnar Palestínu 1996. Hann gegndi báðum embættum allt til dauðadags, 11. nóvember 2004
1969 Gamanleikkonan Thelma Ritter lést úr hjartaáfalli, 63 ára að aldri. Ritter var ein af virtustu gamanleikkonum Bandaríkjanna á 20. öld og verður alla tíð ógleymanleg fyrir leik sinn í t.d. A Letter to Three Wives, All About Eve og Rear Window. Tilnefnd til óskarsverðlauna 6 sinnum en vann ekki
Snjallyrðið
Þegar sumarið
finnur nístandi nál vetrarins
liðast þokan eftir dalnum
breyðandi gleymsku
yfir minningarnar sem þú aðeins sérð
og þú sérð aðeins,
seinasta augnablikið.
Augu þín,
sem sögðu mér meira en orðin
líta spyrjandi á mig.
En ég les ekki eins vel og ég gerði.
Samt les ég úr þeim,
ég les úr þeim,
seinasta augnablikið.
Bubbi Morthens (Seinasta augnablikið)
<< Heim