Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, tilkynnti í dag að hún myndi leggja til í borgarráði að Reykjavíkurborg muni fara fram á skaðabætur vegna samráðs olíufélaganna. Í kjölfar afsagnar Þórólfs Árnasonar fyrrum markaðsstjóra ESSO, úr embætti borgarstjóra í nóvember fól borgin Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni, að kanna hugsanlegan bótarétt borgarinnar. Í dag fengu borgarráðsmenn og borgarstjóri minnisblað frá lögmanninum. Í því kemur fram að talið er að mjög traust sönnunargögn séu fyrir hendi um að olíufélögin hafi svindlað á borgarbúum með því að semja um tilboð. Er þá um að ræða útboð borgarinnar þar sem óskað var eftir tilboðum í sölu á gasolíu, bensíni og steinolíu fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, Malbikunarstöðina og Vélamiðstöðina. Einnig útboð frá 2001 þar sem óskað var eftir tilboðum vegna Strætó og Vélamiðstöðvarinnar. Í gögnum samkeppnisyfirvalda kemur fram með óyggjandi hætti að þykir vera að félögin lögðu á ráðin um tilboð og sá sem hreppti hnossið greiddi hinum félögunum tiltekna upphæð fyrir hvern lítra.
Enginn vafi leikur á því að vandræðalegt hefði verið fyrir borgina að halda út í slík málaferli hefði Þórólfur, forveri Steinunnar Valdísar, setið áfram á stóli borgarstjóra. Hann var mjög beintengdur málinu varðandi borgina og samráðið varðandi útboðin tengda henni. Hafði hann lengi neitað hlutdeild sinni, t.d. er málið kom fyrst upp í júlí 2003, en varð síðar að viðurkenna þátt sinn og síðar axla ábyrgð með því að segja af sér embætti. Er vandséð hvernig hefði með trúverðugum hætti verið hægt fyrir borgina að fara út í málaferli með Þórólf sem framkvæmdastjóra borgarinnar og mæta sjálfum sér sem geranda í samráðinu í voldugri stöðu hjá Olíufélaginu. Hans staða var óverjandi eins og staða mála var orðin og þess vegna auðvitað var hann neyddur til að segja af sér embætti. Er reyndar kostulegt að hann skyldi hafa verið ráðinn í upphafi með þetta mál vofandi yfir sér. Öllum varð ljóst sem lásu skýrslu Samkeppnisstofnunar að Þórólfur var miðpunktur í málinu og samdi um upphæðir og tók þátt í því sem gert var. Hans staða var slík í málinu að honum var ekki treystandi lengur til að vera borgarstjóri þriggja flokka í Reykjavík og auðvitað ekki treyst til að halda á málinu fyrir hönd borgarinnar þegar kæmi að því að sækja skaðabætur til fyrirtækjanna, t.d. þess sem hann vann fyrir að semja um upphæðir 1996. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvað kemur út úr málinu. Hinsvegar er ljóst að borgin mun sækja rétt sinn og jafnframt leitast við að fá fram skoðanir þeirra sem leiddu félögin á þessum tíma, þ.á.m. fyrrum borgarstjóra R-listans.
Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður í New York og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, hné niður þegar hún var að flytja ræðu á viðskiptaþingi í Buffalo í New York ríki í gær. Ef marka má fréttir frá Vesturheimi hefur Hillary verið veik seinustu daga og fengið vírussýkingu í maga og úthaldslítil vegna hennar. Hefur Hillary þótt mjög þreytuleg seinustu daga og litið illa út. Hún fór þó ekki á sjúkrahús en fékk aðhlynningu á staðnum, Hillary, sem verður 58 ára á þessu ári, mun taka sér hvíld næstu daga en athygli vakti að hún kom aftur eftir að hafa fengið aðhlynningu og flutti eins og ekkert hefði gerst erindi um heilbrigðismál í háskóla í Buffalo. Mikið mun mæða á Hillary á næstu vikum, en þingið er að vinna að mörgum stórum málum, t.d. hvað varðar heilbrigðiskerfið. Er hún helsti talsmaður demókrata í þinginu í málaflokknum og verður því áberandi í þingumræðu um málið næstu vikurnar, eftir að Bush forseti, leggur tillögur sínar fyrir þingið.
Framundan er hjá Hillary einnig undir lok ársins og fram á það næsta barátta fyrir endurkjöri í New York. Er líklegt að repúblikanar muni sækja af krafti gegn henni og leitast við að ná sæti hennar frá demókrötum. Verður þó að teljast líklegt ef marka má kannanir um stöðu Hillary og fylgi að hún haldi velli og verði áfram í þinginu. Margir telja allt benda til þess að hún muni bjóða sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins árið 2008. Er talið öruggt að hún muni mæta öflugum frambjóðendum. Þær sögur ganga fjöllunum hærra í bandarískri stjórnmálaumræðu að Al Gore fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, muni sækjast eftir útnefningu flokksins, en hann var eins og flestum er kunnugt varaforseti landsins 1993-2001, í forsetatíð Bill Clinton og forsetaefni flokksins árið 2000, en beið lægri hlut fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Einnig er rætt um möguleikann á því að John Kerry öldungadeildarþingmaður og forsetaefni demókrata 2004, fari fram aftur, en athygli hefur vakið að hann heldur þeim möguleika vel opnum í umræðunni. Er þó talið ólíklegt að hann fái annað tækifæri í baráttu af þessu tagi. Svo má auðvitað ekki gleyma John Edwards fyrrum öldungadeildarþingmanni og varaforsetaefni Kerrys, sem fórnaði þingsæti sínu fyrir baráttuna á seinasta ári, en hefur verið utan pólitíska sviðsljóssins frá kosningaslagnum. Það er því ljóst að Hillary gæti átt von á hörðum slag um útnefninguna, fari hún fram.
10 ár eru liðin frá því að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, opnaði vef sinn. Var hann fyrsti stjórnmálamaður landsins sem ritaði hugleiðingar sínar á netinu og birti þar skoðanir sínar og leyfði öllum að fylgjast með. Er hann sannkallaður brautryðjandi í þessu lifandi birtingarformi skoðana og tjáningar um stjórnmál. Hans framlag er og hefur alla tíð verið mikils virði. Í dag er orðið hversdagslegt brauð að einstaklingar komi sér upp heimasíðu, tjái þar skoðanir sínar og geri öðrum kleift að fylgjast með sér og áhugamálum sínum með einkar áhugaverðum hætti. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Nýja upplýsingatæknin er betri en nokkur annar vettvangur til upplýsingamiðlunar að því leyti, að hún er gagnvirk. Hún gefur fólki nýtt og einstakt tækifæri til að skiptast á skoðunum við fólk. Björn á hrós skilið fyrir mikið framlag sitt til netmála og forystu á þessu sviði, forystu sem á að vera okkur öllum hvatning sem skrifum reglulega á netið og höfum fylgt glæsilegu fordæmi hans. Björn fjallaði um netþróun og skrifin sín í gegnum tíðina í pistli sínum um helgina.
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með hjaðningavígum og látum innan Framsóknarflokksins, einkum innan kvenfélags framsóknar í Kópavogi. Kristallast átökin þar um innanflokkserjurnar og valdabaráttuna innan flokksins, einkum í Kópavogi. Tel ég að um sé að ræða átök um valdasess þar. Eftir að Sigurður Geirdal bæjarstjóri Kópavogs og leiðtogi Framsóknarflokksins þar í 14 ár, féll skyndilega frá í nóvember, myndaðist mikið tómarúm og valdabarátta. Fór svo að Hansína Ásta Björgvinsdóttir, önnur á lista Framsóknar í bænum, tók við leiðtogahlutverkinu og embætti bæjarstjóra og situr á þeim stóli til 1. júní nk. en þá átti skv. samningi Gunnar Birgisson að taka við. Hefur ekki verið neitt leyndarmál að Páll Magnússon varaþingmaður, sóttist eftir stólnum og voru átök innan fulltrúaráðsins í bænum um hvort ætti að fá stólinn. Mun Gunnar taka við þá eins og hann og Sigurður höfðu áður samið um.
Nú eru Páll og hans fólk að styrkja sig innan fulltrúaráðsins með þessu og fá þar fleiri fulltrúa inn, sem munu svo velja efstu menn á listann á næsta ári. En eflaust tengist þetta líka Siv Friðleifsdóttur og stöðu hennar innan flokksins og kjördæmisins. Náin samstarfskona hennar, Una María Óskarsdóttir formaður Landssambands framsóknarkvenna og varabæjarfulltrúi í Kópavogi, var felld úr stjórn kvenfélagsins í bænum, en hún barðist mjög fyrir Siv og talaði t.d. gegn Árna Magnússyni í ráðherrauppstokkuninni í ágúst 2004. Nú á sennilega að slá tvær flugur í einu höggi hjá bræðrunum: veikja bæði Siv og Hansínu Ástu í forystustöðu sínum í Suðvesturkjördæmi. En óneitanlega eru þessi vinnubrögð skítug og ómerkileg, það blasir við öllum sem hafa starfað innan flokksfélaga. Það er lægsta sort í hvaða flokki sem er þegar farið er að smala inn fólki úr öðrum sveitarfélögum og skipta sér með plotteringum beint í innstu raðir hvað gerist í öðrum félögum með svona hætti.
Að loknum bæjarmálafundi í gærkvöldi horfði ég á hina mögnuðu óskarsverðlaunamynd Patton. Stórkostleg mynd sem er ein af allra bestu kvikmyndum áttunda áratugarins, og hlaut átta óskarsverðlaun á sínum tíma. Í henni er lýst á einkar mikilfenglegan og stórbrotinn hátt reisn og falli hershöfðingjans umdeilda George S. Patton, en hann var einn af allra snjöllustu herarkitektum seinni heimsstyrjaldarinnar og átti einna stærstan hlut að máli að sigur vannst á Nasistaríki Adolf Hitlers og veldi hans. Í myndinni er fylgst með herdeild hans og stórum sigrum allt frá innrásinni í Norður-Afríku, Sikiley og Ítalíu uns hann féll loks í ónáð fyrir augnabliksbræði. Stríðsmyndir gerast ekki mikið betri og verð ég að segja í fullri hreinskilni að mér finnst þessi mynd ein af þeim allra bestu þeirrar gerðar, bæði að gæðum, leik og ekki síst söguígildi sitt. Óskarsverðlaunaleikstjórn Franklins Schaffners er í engu ábótavant, hvort heldur sem um er að ræða miklar sögulegar stríðssenur eða þá mjög svipmiklar nærmyndir af hinni einstaklega litríku persónu hershöfðingjans sem George C. Scott túlkar á hreint einstaklega góðan hátt, en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kvikmyndatakan er einnig mjög eftirminnileg og myndin öll, frá einu af allra sterkustu upphafsatriðum kvikmyndasögunnar, hinni einstaklega góðu sex mínútna einræðu hershöfðingjans, allt til loka ferils hans, er ein af allra eftirminnilegustu upplifunum kvikmyndasögunnar. Sjáið hana ef þið eigið kost á!
Íslensku bókmenntaverðlaunin voru afhend fyrir nokkrum dögum. Þau hlutu að þessu sinni Auður Jónsdóttir fyrir bók sína Fólkið í kjallaranum í flokki fagurbókmennta og Halldór Guðmundsson í hópi fræðirita fyrir ævisögu sína um Halldór Kiljan Laxness. Svo skemmtilega vill til að Auður er dótturdóttir Halldórs Laxness. Um er að ræða tvær stórgóðar bækur sem verðskulda verðlaunin. Auður fer á kostum í þessari bók, hef ég nýlega lesið hana og hafði mjög gaman af. Hvet ég alla til að lesa þessar góðu bækur. Ævisagan um Halldór stóð fremst þeirra sem voru tilnefndar með henni, enda er það lifandi og skemmtileg lýsing á umdeildum en um leið einstökum manni í íslensku mannlífi.
Verð ég þó að viðurkenna að ég varð fyrir vonbrigðum með að Arnaldur Indriðason hlaut ekki verðlaunin fyrir Kleifarvatn, sem að mínu mati var langbesta skáldsaga seinasta árs. Hvenær kemur eiginlega að því að frábærir krimmar þessa meistarahöfundar fái þann sess sem þeir eiga skilið og hann persónulega um leið? Það er algjör skandall að meistari Arnaldur hafi ekki hlotið þennan heiður fyrir Grafarþögn og hvað þá nú með Kleifarvatn. Það er dapurlegt að menningarelítan hafi ekki heiðrað hann með þeim hætti sem hann á skilið.
Saga dagsins
1904 Heimastjórn - þingræði var komið á hérlendis og Stjórnarráð Íslands formlega stofnað. Þessi flutningur framkvæmdavaldsins hingað til landsins hafði verið eitt af helstu baráttumálum Íslendinga. Hannes Hafstein tók við embætti ráðherra fyrstur manna og sat í embætti til 1909 og aftur 1912-1914
1935 Áfengisbann formlega afnumið, það stóð frá 1915 - innflutningur léttra vína heimilaður frá 1922
1979 Erkiklerkurinn Ayatollah Khomeini snýr aftur til Írans, eftir 15 ára útlegð. Hann tók við völdum í landinu eftir uppreisnina gegn Reza Pahlavi Íranskeisara, sem missti völdin í janúar 1979 og varð að flýja land. Strangtrúuð einræðisstjórn tók við. Khomeini ríkti með harðri hendi til dauðadags 1989
2003 Bandaríska geimferjan Columbia ferst - var á lofti yfir Texas í 200.000 feta hæð. Heyrðist öflug sprenging er hún fórst og hlutir úr henni féllu til jarðar. Allir þeir sjö sem voru um borð í ferjunni fórust. Mikil öryggisgæsla hafði verið vegna geimferðarinnar, sem farin hafði verið í vísindatilgangi og staðið í 16 daga. Meðal hinna látnu var Ilan Ramon, en hann var fyrsti Ísraelinn sem fór út í geiminn
2004 100 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar fagnað með hátíðlegum hætti - á afmælishátíð sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu hélt Davíð Oddsson forsætisráðherra, hátíðarræðu. Ríkisráð kom saman til fundar án forseta Íslands, sem var á skíðum í Aspen í Bandaríkjunum. Á fundi ríkisráðs var staðfest ný reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem er meginréttarheimild um verkaskiptingu í stjórnarráðinu og þar með um skiptingu starfa milli ráðherra ríkisstjórnar Íslands. Það kom í verkahring handhafa forsetavalds að staðfesta þessar breytingar á fyrrnefndum ríkisráðsfundi
Snjallyrðið
Make me a channel of your peace:
Where there is hatred, let me bring you love;
Where there is injury, your healing power,
And where there's doubt, true faith in you.
Make me a channel of your peace:
Where there's despair in life let me bring hope;
Where there is darkness, - only light,
And where there's sadness, ever joy.
O Spirit, grant that I may never seek
So much to be consolded as to console,
To be understood as to understand,
To be loved as to love with all my soul.
Make me a channel of your peace.
It is in pardoning that we are pardoned,
In giving to all that we receive,
And in dying that we're born to eternal life.
Sebastian Temple (Make me a channel of your peace)
<< Heim