Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 febrúar 2005

George W. Bush og Dick CheneyHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, flutti árlega stefnuræðu sína í nótt í báðum deildum Bandaríkjaþings. Aðalefni ræðunnar voru heilbrigðismálin, eins og flestir höfðu búist við. Mikið hafði verið rætt um þau mál í kosningabaráttunni í fyrra og almennt hafði verið talið í umræðu seinustu vikna, samhliða embættistöku forsetans, að hann myndi leggja fyrir þingið róttækar breytingar í málaflokknum. Kom það vel fram í ræðunni. Hyggst forsetinn gera róttækar breytingar á lífeyriskerfi landsins en hann sagði ellilífeyrissjóðina stefna að óbreyttu í þrot. Fór hann ítarlega yfir stefnu sína í málaflokknum og kom fram í ræðunni að hann vilji að yngra fólk á vinnumarkaði breyti hluta af skattfé sínu í fjárfestingarreikninga svo tryggja megi með bestum hætti að fólk fái eftirlaun þegar það hættir að vinna við eftirlaunaaldur. Reiknað hefur verið út að Bandaríkin muni fljótlega þurfa að láta meira fé af hendi rakna í almannatryggingasjóði landsins en ríkið fær almennt í skatttekjur sínar. Að óbreyttu muni slík þróun blasa við innan nokkurra ára, ef marka má ummæli forsetans. Vakti þessi boðskapur hörð viðbrögð og sá sögulegi atburður varð að nokkrir þingmenn púuðu á hann. Breytingar á lífeyriskerfinu munu leiða til harðvítugra pólitískra deilna og má búast við miklum átökum þegar um þeir verður rætt í þinginu á næstunni.

Hafa breytingar á lífeyriskerfinu í gegnum tíðina þótt viðkvæmt efni, en ljóst er að Bush leggur ótrauður í átök við demókrata í öldungadeildinni, sem hafa mótmælt harðlega en eru vængbrotnir eftir tvo slæma kosningaósigra í þingkosningunum 2002 og 2004. Forsetinn kom ennfremur vel inn á utanríkis- og varnarmálin, þá málaflokka sem mestan svip settu á fyrra kjörtímabil hans og ekki síður forsetakosningarnar í nóvember. Sagði hann að mikilvægt væri að berjast með sama krafti gegn hryðjuverkaöflum og ekki mætti sofna á verðinum. Atburðir seinustu ára ættu að vera bandaríkjamönnum hvatning til að fylgjast vel með stöðu mála. Vék forsetinn lítið að Íraksmálinu og talaði hann ekki um mögulegan brottflutning hersins frá landinu í kjölfar þingkosninganna 30. janúar sl. Sagði hann mikilvægt að haldið væri áfram á þeirri braut að stuðla að frelsi og lýðræðisþróun í Mið-austurlöndum. Vék forsetinn sérstaklega að því að mikilvægt væri að stuðla að friði milli Palestínu og Ísraels. Sagðist hann ætla að fara fram á 350 milljóna dala stuðning frá Bandaríkjaþingi til þess að styðja nýja stjórn Palestínumanna, undir forsæti Mahmoud Abbas. Væri það markmið sitt að tryggja að friður kæmist á og takmarkið að mynda tvö lýðræðisríki, Ísrael og Palestínu, hlið við hlið í sátt og samlyndi. Myndu Bandaríkjamenn leggja sitt að mörkum til að tryggja farsæla lausn. Vék forsetinn stuttlega að kosningum í Írak og Palestínu og tjáði ánægju sína með fyrirkomulag þeirra og niðurstöðu. Gagnrýndi hann harðlega Írana, Sýrlendinga og Norður-Kóreu, sem þykir til marks um mikla spennu í samskiptum við þessi lönd og gaf byr undir báða vængi orðrómi sem andstæðingar hans hafa magnað upp að hann hyggi á innrás í þessi lönd á kjörtímabilinu.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherraÍ vönduðum fréttaskýringaþætti Sjónvarpsins, Í brennidepli, að kvöldi sunnudagsins 23. janúar var fjallað um málefni aldraðra. Fór Páll Benediktsson helst yfir hvernig staða fólks breyttist við það að þurfa að yfirgefa eigið heimili og fara inn á stofnun og njóta þar umönnunar. Margir telja það óneitanlega breyta lífi sínu og viðkomandi missi með því mikilvæga stjórn á eigin lífi og helstu daglegu athöfnum: fólk ráði ekki hvenær það fari í bað, hvenær borðaður sé matur og hvað sé í matinn og fleiri slíkir þættir. Var rætt við öldrunarsálfræðinga og sérfræðinga í málefnum aldraðra og ennfremur fólk sem dvelur á öldrunarstofnunum, í þessu tilfelli á Hrafnistu og Grund í Reykjavík. Var þetta mjög fróðleg samantekt og vakti eflaust marga til hugsunar um þessi mál. Það er einkum athyglisvert fyrir yngra fólk að kynna sér þessi mál frá þessum ólíku sjónarhornum. Fyrir okkur sem höfum átt ömmu eða afa á slíkri stofnun er lífsmynstrið þar vel kunnugt. Annars er aldrei í raun hægt að setja sig í spor fólks sem verður að fara frá heimili sínu og lúta lögmálum stórs heimilis á borð við öldrunarstofnanir.

Var samantektin því gagnleg og fræðandi til að fólk geti betur séð aðstæður fólks, þeirra sjónarmið og skoðanir fleiri á þessu. Í gær voru málefni aldraðra rædd á þingi. Þar kom fram í svari Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra, að nærri þúsund einstaklingar, sem dvelja á öldrunarstofnunum landsins, verða að deila herbergjum með öðrum að frátöldum þá fólki í sambúð. Eru þetta að mínu mati nokkuð sláandi tölur, ég þóttist vita að talan væri allhá miðað við að unnið væri að því að stokka þetta upp. En óhætt er að segja að ótrúlega margir verði að gera sér það að góðu á öldrunarstofnunum að deila herbergi með öðrum, er þetta alltof há tala. Kom þó fram í máli ráðherra að stefnt sé að því að sem flestir aldraðir á stofnunum muni hafa eigið herbergi og nauðsynlegt sé að fylgja þeirri stefnu fast eftir. Tek ég undir þetta mat Jóns. Er sérstaklega sláandi að sjá að í öldrunarstofnunum sem eru innan við 20 ára gömul sé slík staða uppi. Er þetta ótækt ástand. Tek ég undir það mat sem fram kom í þingumræðunni að banna eigi hreinlega með lögum að aldraðir þurfi að deila íbúð eða herbergi með öðrum en maka eða sambýlingi. Sagði ráðherra í svörum sínum að reynt sé eftir fremsta megni að vinna að því að þetta sé viðhaft, að allir hafi einstaklingsherbergi. Staða mála er engu að síður ómöguleg og vinna verður að meiri krafti að þessu.

Punktar dagsins
ISG

Ef marka má könnun Fréttablaðsins í dag mun Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vinna Össur Skarphéðinsson með yfirburðum í formannskjöri Samfylkingarinnar í maí. Ef aðeins er tekið mið af flokksfólki styðja 77% framboð Ingibjargar en aðeins 21% framboð Össurar. Þessar tölur hljóta að vera nokkur vonbrigði fyrir Össur, eins og staða mála hefur verið. Er um mjög mikið áfall að ræða fyrir forsvarsmann stjórnarandstöðu sem verið hefur áberandi í virkri umræðu í samfélaginu og hlýtur að teljast viss áfellisdómur Samfylkingarmanna yfir leiðtoga sínum. Greinilegt er að það er á brattann að sækja fyrir hann í þessum slag og minnkandi líkur á að hann nái að veita Ingibjörgu öfluga mótspyrnu í þessum harða slag. En eflaust mun Össur reyna að gefa í og leggja allt sitt í slaginn. Annars vaknar óneitanlega sú spurning hvort þessi könnun sé sett fram til að sýna lítinn stuðning við Össur og fá hann til að draga framboð sitt til formennsku til baka, svo Ingibjörg yrði formaður án átaka. Eins og allir vita sem fylgjast með pólitík hefur Ingibjörg aldrei þurft að berjast um nein embætti eða vegtyllur við samherja sína og því er staðan henni framandi. En nú reynir á hvort Össur haldi fast við sitt, þrátt fyrir þessa könnun.

Fahrenhype

Mikið hefur verið deilt seinustu mánuði um kvikmynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Þar fjallaði hann á mjög einhliða máta um Bush-stjórnina og verk hennar og tók staðreyndir úr samhengi og skeytti eigin mati og afstöðu til málanna inn á milli. Sumir aðilar kepptust við að kalla þetta heimildarmynd og töldu hana unna með markvissum og merkilegum hætti. Ég get ómögulega tekið undir það. Ég hef fylgst með kvikmyndum og kvikmyndagerð með miklum hætti í tæpa tvo áratugi og get ekki með nokkru móti kallað þessa mynd annað en áróðursmynd gerða útfrá einni skoðun, einu hugarfari og samansafni neikvæðra hliða úr einni átt. Heimildarmynd tel ég vera mynd sem gerð er frá mörgum áttum, rætt við ólíka aðila um efni og leitast við að taka fyrir mörg sjónarhorn á sama hlutnum. Allir sem sjá þessa mynd sjá fljótt að hér er aðeins eitt sjónarhorn á hlutina. Ég hefði mikinn áhuga á að vita hvað hefði gerst í Bandaríkjunum hefði Ann Coulter eða Rush Limbaugh ákveðið að gera heimildarmynd um John Kerry, herferil hans eða þingmannsferil í öldungadeildinni frá einni hlið fyrir seinustu kosningar.

Væntanlega hefðu þeir sem lofsyngja þessa mynd Moore fordæmt slíka mynd eða það sjónarhorn. Engum blandast hugur um að Moore og Ann Coulter eru umdeild vegna skoðana sinna og umfjöllunarefni þeirra og sjónarhorn á viðfangsefnið helgast af skoðunum þeirra. Moore lagði fram þetta einhliða sjónarhorn til að vega að forsetanum á kosningaári og vekur máls á einhliða áróðri til að ráðast að honum. Einhliða sýn á eitt mál getur seint talist heimildarmynd eða djúp sýn á viðfangsefni. Ég tel rétt að allir hafi rétt á að tjá sínar skoðanir og gera það með þeim hætti sem hentar best. Einum hentar að skrifa bækur, öðrum að gera kvikmynd, hinum að vera með pistlaskrif og svo framvegis. Óendanleg tjáningarform eru til. Þeim sem hafa áhuga á pólitík, hvet ég til að skoða kvikmyndina Fahrenhype 9/11. Þar er mynd Moore tekin í gegn og beint öðru sjónarhorni að henni og vinnslunni að henni. Hvet alla til að sjá hana, er bæði í bíó á næstunni og svo er hægt að kaupa hana á DVD á t.d. Amazon og fleiri vönduðum vefum.

Groundhog Day

Í gærkvöldi horfði ég á kvikmyndina Groundhog Day með Bill Murray. Átti hún vel við í gær, enda 2. febrúar vettvangur myndarinnar. Þann dag er alltaf mikið um að vera í smábænum Punxsutawney í Philadelphia. Þá er múrmeldýr dregið út úr holu snemma að morgni og með því er spáð fyrir um veðrið út veturinn og vorkomuna. Múrmeldýradagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í bænum í 118 ár. Groundhog Day fjallar um veðurfræðinginn Phil Connors. Hann er með nettum orðum sagt egóisti og algjör besservisser. Einn dag þarf hann að fara í vinnuleiðangur til að fylgjast með Múrmeldýrsdeginum. Þetta er fjórða skiptið sem að Phil fer í þennan leiðangur og er hann ekki í uppáhaldi hjá honum. Hann ætlar að drífa sig strax heim aftur seinna um daginn til að komast úr þessu skítaplássi, eins og hann telur það vera.

Þegar hann er búinn að taka upp athöfnina frægu drífur hann sig með starfsliðinu en þá kemur upp að það er orðið ófært. Þá verður hann að snúa aftur til smábæjarins og gistir þar um nóttina. Þegar hann vaknar þar næsta dag fattar hann að hann upplifir sama daginn aftur og aftur.... Er óhætt að fullyrða að hann lifi daginn oftar en góðu hófi gegni. Frábær mynd sem fellur vel allavega í minn kaldlynda húmor. Hef alltaf haft gaman af henni. Bill Murray fer á kostum í hlutverki Phil Connors. Andie MacDowell og Chris Elliot eru einnig alveg frábær. Handritshöfundar standa sig vel og fara vel með þessa frábæru hugmynd. Harold Ramis er einn af mínum uppáhalds grínmyndaleikstjórum og leikstýrir hann hér að venju mjög vel. Groundhog Day er hugljúf, bráðskemmtileg og fyndin mynd sem hentar alltaf vel.

Ragnheiður Gröndal

Horfði á Íslensku tónlistarverðlaunin áður en ég horfði á myndina. Leist vel á niðurstöðu þeirra. Vestfirski tónlistarmaðurinn Mugison kom, sá og sigraði á verðlaunaafhendingunni og hlaut alls fern verðlaun: fyrir bestu poppplötuna, besta lagið, Murr Murr, besta plötuumslagið og sem vinsælasti flytjandinn og var í síðastnefnda flokknum kosinn af lesendum vísir.is. Ragnheiður Gröndal hlaut tvenn verðlaun: var valin besta söngkona ársins og plata hennar var valin besta dægurlagaplata ársins. Reggíhljómsveitin Hjálmar hlaut verðlaun fyrir bestu rokkplötuna og að vera bjartasta vonin.

Páll Rósinkranz var valinn söngvari ársins en hljómsveitin Jagúar flytjandi ársins. Sammi í Jagúar var valinn flytjandi ársins í jazzflokki. Jagúar hlaut verðlaun fyrir bestu plötuna í jazzflokknum og Jagúar var valin flytjandi ársins í popp,- rokk- og dægurtónlistarflokki. Í flokknum ýmis tónlist vann Ellen Kristjánsdóttir íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötuna Sálmar, sem var mest selda plata síðasta árs. Helga Ingólfsdóttir hlaut heiðursverðlaunin fyrir æviframlag sitt til tónlistar. Helst var ég ósáttur við að lag Bubba, Fallegur dagur, var ekki valið lag ársins. Frábært lag, hiklaust eitt af því besta sem Bubbi hefur gert.

Saga dagsins
1937 Sérstök norðurljós, almennt nefnd Norðurljósahjálmur, sáust á lofti í Eyjafirði í fyrsta og eina skiptið á Íslandi á 20. öld. Þessu var lýst sem magnaðri birtu sem lýsti upp næturhúmið í allar áttir
1944 Hótel Ísland, sem þá var stærsta timburhús í Reykjavík, brann til kaldra kola - einn maður fórst
1959 Tónlistarmennirnir Buddy Holly og Ritchie Valens láta lífið í flugslysi í Clear Lake í Iowa - báðir voru þeir þá á hátindi ferils síns. Þeirra var minnst í ódauðlegu lagi Don McLean, American Pie, 1972
1975 Lagahöfundurinn og gítarleikarinn Gunnar Þórðarson, hlaut listamannalaun - hann varð fyrstur popptónlistarmanna til að hljóta slíkan heiður. Hefur almennt verið nefndur afi íslenska rokksins
1991 Eitt mesta fárviðri í manna minnum gekk yfir landið - eignatjón var alls á annan milljarð króna en engin alvarleg slys. Langbylgjumastur sem staðið hafði í rúm 60 ár á Vatnsendahæð fauk um koll

Snjallyrðið
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Til eru fræ)