Hlutafélagið Norðurvegur ehf. var formlega stofnað á Akureyri í gær. Tilgangur félagsins mun fyrst og fremst verða að vinna að því að lagður verði vegur úr Skagafirði um Stórasand, Arnarvatnsheiði og Kaldadal sem stytta mun leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um rúmlega 80 kílómetra og leiða til mikilla þáttaskila í samgöngumálum Norðlendinga. Hef ég lengi verið mjög hlynntur því að þessi vegagerð komi til sögunnar. Stytting á borð við þá sem um er að ræða mun skipta sköpum varðandi vöxt og viðgang Akureyrar á komandi árum og skiptir okkur hér mjög miklu máli. Hlutafé er 11 milljónir króna og hefur stjórn heimild til að hækka það í 15 milljónir. Á stofnfundinum kom fram að kostnaður við slíkan veg gæti verið á bilinu 4,4 - 6,8 milljarðar króna.
Sé miðað við að 700 bílum yrði ekið eftir Norðurvegi daglega gæti stytting leiðarinnar sparað vel á annan milljarð króna á hverju ári. Stofnendur félagsins eru KEA, sem leggur fram 5 milljónir, Akureyrarbær leggur fram 3 milljónir, Hagar leggja fram 2 milljónir, Kjarnafæði leggur til hálfa milljón, Gúmmívinnslan 200 þúsund, og Brauðgerð Kr. Jónssonar, Norðlenska matborðið og Trésmiðjan Börkur eru með 100 þúsund krónur. Ennfremur hefur Norðurmjólk ákveðið formlega að taka þátt í stofnun félagsins. Hluthafar í félaginu eru því orðnir 9 talsins. Í stjórn félagsins voru kjörnir á fundinum þeir Andri Teitsson kaupfélagsstjóri KEA, sem formaður, og meðstjórnendur, þeir Eiður Gunnlaugsson og Jóhannes Jónsson.
Birgir Guðmundsson umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, flutti erindi á stofnfundinum og fór yfir málið í heild sinni. Kynnti hann ennfremur þær hugmyndir sem verið hafa í umræðu almennt varðandi styttingu hringvegarins á þjóðvegi 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur, m.a. um Svínavatn, sunnan Blönduóss og að fara sunnan Varmahlíðar í Skagafirði en um yrði að ræða um 19 kílómetra styttingu. Kostnaður er áætlaður 1,4 milljarðar króna en sparnaður við þessa styttingu gæti numið á annan milljarð króna á ári. Hápunktur leiðarinnar er á Stórasandi, 798 metrar, en um 15 kílómetrar af hálendisveginum yrðu í yfir 700 metra hæð. Til samanburðar má nefna að um Öxnadalsheiði er farið í 540 metra hæð og rúmlega 400 á Holtavörðuheiði. Á stofnfundinum flutti Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, ræðu. Í febrúar 2002 flutti Halldór ítarlega ræðu ræðu um hugmyndir sínar og útskýrði þar alla þætti tillagna sinna á ítarlegan hátt. Var það Halldór sem kynnti málið fyrst opinberlega og segja má því að um sé að ræða mál sem hefur verið eitt hans helsta baráttumál pólitískt seinustu ár.
Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi lagði mikla áherslu á þessar tillögur í alþingiskosningunum 2003. Er enginn vafi á að mikilvægt er að ná fram sem mestri styttingu á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er nauðsynlegt að lækka flutningskostnað milli Akureyrar og Reykjavíkur og ekki síður milli Norðausturlands og Austfjarða til Reykjavíkur. Hér er um mikið forgangsmál að ræða fyrir okkur á landsbyggðinni og mikilvægt að hefjast handa og sameinast um að koma þessu í gegn sem fyrst. Við hér fyrir norðan fögnum því mjög að þetta hlutafélag hafi verið stofnað og umræða almennt um hálendisveg fari af stað og fólk tjái sig um það. Það er mjög til eflingar landsbyggðinni og okkar mikilvægustu þáttum að fá þennan mikilvæga samgöngukost í gegn. Svo má auðvitað benda á að slíkur vegur mun auðvitað ekki einvörðungu nýtast Akureyringum og Eyfirðingum. Skagafjörður, Norð-Austurland og Austurland munu njóta góðs af þessum vegi. Til dæmis mun þetta verða aðalvegur Austfirðinga suður á bóginn, enda leiðir þessi stytting til þess að norðurleiðin mun verða umtalsvert styttri en suðurleiðin fyrir fólk sem býr á Austfjörðum. Þetta er því svo sannarlega mikilvæg pæling.
Það blæs ekki byrlega fyrir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birtar eru í dag. Þar kemur fram að tæplega 17% landsmanna telja að hann hafi staðið sig vel eða mjög vel sem forsætisráðherra. Um 48% fólks telur Halldór hafa staðið sig illa og 35% aðeins sæmilega. Vel kom fram í könnun í gær að Framsóknarflokkurinn er í nokkurri fylgislægð og greinilegt er að landsmönnum líkar ekkert alltof vel við forsætisráðherrann og verk hans. Hart hefur annars verið sótt að Halldóri á seinustu vikum og kemur þessi niðurstaða svosem vart á óvart, sé mið tekið af því. Er þetta óvenjuslæm útreið í persónufylgi hjá forsætisráðherra. Altént höfum við ekki séð slíkar tölur mjög lengi og t.d. hafði Davíð Oddsson sterka stöðu í embætti og mikinn stuðning, en ennfremur líka umdeildur vissulega. En staða Halldórs er mun veikari. Vissulega verður að taka tillit til þess að Halldór er formaður smáflokks skv. skoðanakönnunum og því hægt að búast við að formenn slíkra flokka njóti minna fylgis en forystumenn stærstu flokka landsins í embættinu. Verður fróðlegt að sjá hvernig Halldór svari þessari útkomu, eða öllu heldur spunasérfræðingarnir hans.
Dr. Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú á sínu fyrsta opinbera ferðalagi eftir að hún tók við embætti í síðustu viku. Fer hún um Evrópu og Mið-Austurlönd. Hóf hún ferðina í Bretlandi í gær og átti þar viðræður við Tony Blair forsætisráðherra, og Jack Straw utanríkisráðherra. Hélt hún því næst til Þýskalands og átti viðræður við Gerhard Schröder kanslara. Því næst mun Condi halda til Ítalíu, Frakklands, Belgíu, Lúxemborgar, Póllands og Tyrklands, auk þess sem hún mun halda á Vesturbakkann, þar sem stefnt er að því að bæta með því tengsl Palestínu og Ísraels en búast má við að friðarviðræður hefjist brátt milli þeirra. Er ljóst að Bandaríkjastjórn og utanríkisráðherrann stefna að því að bæta til muna samskipti Bandaríkjanna við mörg Evrópulönd, en þau hafa verið stirð seinustu ár. Mun Rice flytja sína fyrstu stórræðu sem utanríkisráðherra í Frakklandi á þriðjudag. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stefnir að því að fara í ferð til Evrópu seinnihluta febrúarmánaðar og er Evrópuhluti ferðar Rice ætluð umfram allt til að undirbúa hana. Rice notaði tækifærið eftir viðræður við Blair að lýsa því afdráttarlaust yfir að innrás í Íran væri ekki á dagskrá bandarískra stjórnvalda. Kom þó skýrt fram í yfirlýsingum hennar að mikilvægt væri að til staðar væri breið samstaða um að Íranar mættu ekki nota friðsamlega kjarnorkuáætlun sem yfirvarp tilrauna til að koma sér upp gjöreyðingarvopnum.
Í ferð minni til Bandaríkjanna í október keypti ég bókina American Evita: Hillary Clinton's Path to Power. Þar er fjallað um feril Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanns í New York og fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamanns og eiginkonu stjórnmálamanns. Ekki er síður beint sjónum að persónulegu hliðinni á manneskjunni. Þetta er mjög athyglisverð og vönduð bók. Hef ég verið að glugga í hana allt frá því ég kom heim og er lesturinn mjög áhugaverður. Reyndar er jafnvel erfitt fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál að kortleggja Clinton-hjónin og persónur þeirra til fulls. Er í bókinni að finna mjög merkilegar lýsingar á þeirri krísu sem hjónaband þeirra gekk í gegnum vegna Lewinsky-málsins á tímabilinu 1998-1999, þegar almenn umræða um það var sem mest. Er mjög merkilegt reyndar að bera saman þessa bók og sjálfsævisögu Hillary, Living History. Báðar eru áhugaverðar en óneitanlega er meira krassandi í fyrrnefndu bókinni og fara þar yfir ýmsa hluti sem Hillary skautar allhressilega yfir, eins og t.d. framhjáhald hennar og eiginmannsins og stöðu tilvistar hjónabands þeirra í kjölfarið. Er merkilegt einnig að kynnast miklum skapköstum Hillary, sem eru allverulega til staðar. Semsagt; spennandi og áhugaverð bók um ævi tveggja stjórnmálamanna sem ætti að henta vel öllum alvöru stjórnmálaáhugamönnum.
Í gær stóð Sjálfstæðisfélag Akureyrar fyrir opnum fundi um umhverfismál á Hótel KEA. Þar fluttu Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, og Eyjólfur Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri, framsögu. Í ræðu sinni fór Sigga yfir það sem hún hefur gert í umhverfisráðuneytinu frá því að hún tók við embætti í september 2004. Umhverfisráðuneytið verður 15 ára gamalt í þessum mánuði og er hún fyrsti ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ráðuneytinu. Var ræða hennar fróðleg og hún fór yfir marga mikilvæga málaflokka. Í erindi sínu fjallaði Eyjólfur um auðlindahagfræði og mikilvægi umræðunnar um umhverfismál almennt. Eftir framsögurnar báru fundarmenn fram spurningar og var víða farið yfir og spurt um mörg mikilvæg mál. Sigrún Björk stýrði fundi með glæsibrag. Fundurinn tókst mjög vel og urðu fundarmenn margs vísari um umhverfismálin.
Um kvöldið var þorrablót sjálfstæðisfélaganna á Akureyri svo haldið á Fiðlaranum. Var Sigga heiðursgestur okkar og Halldór Blöndal forseti Alþingis, var veislustjóri. Skemmtum við okkur mjög vel og áttum mjög góða kvöldstund saman. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, var einnig gestur okkar á blótinu. Halldór fór á kostum eins og venjulega og flutti hverja vísuna og gamansöguna á eftir annarri. Haraldur Anton frændi var að vinna á Fiðlaranum í gærkvöldi. Halli verður tvítugur í vor og er alltaf jafn duglegur og stendur sig vel í þjónsnáminu. Við bræðrasynirnir áttum gott spjall í gærkvöldi. Stóð blótið fram á nótt og sungum við og skemmtum okkur vel undir stjórn Reynis Schiöth sem spilaði og stjórnaði söngnum af sinni alkunnu snilld. Þetta var því hið fínasta kvöld og ánægjulegt.
Saga dagsins
1967 Silfurhesturinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna, voru afhend í fyrsta skipti - skáldið Snorri Hjartarson hlaut þau þá. Verðlaunin voru veitt árlega allt til ársins 1974 er þau voru loks lögð niður
1968 Snjódýpt á Hornbjargsvita mældist rúmir 217 sentimetrar, en það var met hérlendis í snjódýpt
1974 Patriciu Hearst, barnabarni fjölmiðlakóngsins William Randolph Hearst, rænt af Symbionese Liberation Army - hún tók síðar þátt í nokkrum glæpaverkum SLA og þurfti að afplána fangelsisdóm
1988 Jóhann Hjartarson sigraði Viktor Kortsnoj í undankeppni einvígis um heimsmeistaratitilinn í skák
1989 Vátryggingafélag Íslands hf. - VÍS - formlega stofnað með sameiningu Brunabótafélags Íslands og Samvinnutryggingar. Hlutur fyrirtækisins á tryggingamarkaðnum er sameiningin tók gildi var 36%
Snjallyrðið
Enn birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Svo morgunbjört og fögur í mínum huga býr
hver minning um vor sumarstuttu kynni.
Og ástarljóð til þín verður ævikveðja mín,
er innan stundar lýkur göngu minni
þá birtist mér í draumi sem dýrlegt ævintýr,
hver dagur, sem ég lifði í návist þinni.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Játning)
<< Heim