Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 mars 2005

Gleðilega páska
Gleðilega páska!



Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli á páskum fjalla ég um mál sem eru efst á baugi:

- í fyrsta lagi fjalla ég um komu skákmeistarans Bobby Fischer á skírdag. Sjónvarpsáhorfendur Stöðvar 2 urðu þá vitni að einhverjum mesta fjölmiðlasirkus í sögu landsins. Í pistli mínum á föstudaginn langa fjallaði ég um komu Fischer til landsins og því þegar íslenskt fjölmiðlafyrirtæki allt að því tók Fischer á vald sitt því að hann hafði flogið til landsins frá Svíþjóð í einkaflugvél þeirra. Virðist vera sameiginlegt mat fólks að umfjöllun Stöðvar 2, frá því er skákmeistarinn kom til landsins, hafi verið eitt tilþrifamesta fíaskó íslenskrar fjölmiðlasögu, sannkallað skot í myrkrið hjá fréttastofu sem vill láta taka sig alvarlega í vinnubrögðum sínum. Sérstaklega var með hreinum ólíkindum að fréttastjóri Stöðvar 2 var þátttakandi í vinnubrögðunum og Stöð 2 fór með skákmeistarann eins og hann væri algjörlega á þeirra valdi. Fer ég yfir tjáningu blaðamanna og starfsmanna innan fjölmiðlafyrirtækja Baugs um atvikið og fjalla um stöðu Páls Magnússonar sem bæði er fréttastjórnandi og yfirmaður sinn á stöðinni eins furðulegt og það hljómar.

- í öðru lagi fjalla ég um innihaldslaus loforð R-listans og kostulega breytingu á borgarsjóði á skömmum tíma. Þrem mánuðum eftir að borgarstjóri hækkaði álögur á Reykvíkinga er lofað gjaldfrjálsum leikskóla. Í Reykjavík er óráðsían grasserandi. Enda hljómaði fagurgali borgarstjóra frekar falskur. Um er að ræða innistæðulausan tékka sem veifað er framan í borgarbúa. Að mestu er talað um loforð á næsta kjörtímabili varðandi leikskólann og spilað á stór slagorð eins og gjaldfrjáls leikskóli og ókeypis vist á leikskóla. Það er ekkert til sem heitir ókeypis leikskóli. Það er ekkert ókeypis í þessum heimi. Um er að ræða tilfærslu á peningum og streymi til að borga fyrir þjónustuna. Auðvitað þarf fólk áfram að borga fyrir leikskóla. Það færist þá bara yfir alla þá sem borga útsvarið og kemur öðruvísi út. Makalaust er að fylgjast með borgarstjóranum reyna að slá ryki í augu fólks.

- í þriðja lagi rita ég nokkrar hugleiðingar í tilefni páskanna á páskadegi, einum helgasta degi kristinna manna. Páskadagur er í mínum huga heilagur dagur og tími íhugunar um ýmis málefni. Páskahelgin og hátíðin sem henni fylgir er sá tími ársins sem er hvað bestur til að slappa af og íhuga málin og hafa það gott og sinna sínum innri manni. Samkvæmt venju fór ég í messu í Akureyrarkirkju í morgun og minni ég á mikilvægi kristinnar trúar í samfélaginu.

Saga dagsins
1957 Leikkonan Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á hinni dularfullu en heillandi Anastasiu - hún hlaut óskarinn alls þrisvar á löngum leikferli sínum: 1944 fyrir leik sinn í Gaslight og 1974 fyrir Murder on the Orient Express - Bergman var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonunum í kvikmyndasögunni og varð vinsæl fyrir túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini 1982
1963 Skagafjarðaskjálftinn - mikill skjálfti, sem var um 7 stig á Richtersskala, fannst víða um land. Upptökin voru norður af Skagafirði. Hús léku á reiðiskjálfi um allt Norðurland og olli mikilli skelfingu
1973 Leikarinn Marlon Brando hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather. Brando hafði áður hlotið verðlaunin árið 1954 fyrir leik sinn í On the Waterfront. Brando varð einn af svipmestu leikurunum í gullaldarsögu Hollywood og þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Marlon Brando lést í júlí 2004. Hann átti þá að baki einn litríkasta leikferil kvikmyndasögunnar og var ímynd töffarans í kvikmyndum um miðja 20. öldina, goðsögn í lifanda lífi
1979 Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, og Anwar Sadat forseti Egyptalands, semja um frið og undirrita friðarsamkomulag um að Ísrael og Egyptaland bindi enda á þriggja áratuga stríð á milli landanna. Samkomulagið var kennt við Camp David, sumardvalarstað Bandaríkjaforseta í Maryland, en viðræður leiðtoganna fóru fram þar undir forystu Jimmy Carter forseta Bandaríkjanna. Begin og Sadat hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1979 fyrir framlag sitt til friðar. Samkomulagið kostaði Sadat lífið, en öfgamenn réðu hann af dögum í nóvember 1981, en þeir töldu hann svíkja málstað þeirra
1995 Leikarinn Tom Hanks hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Forrest Gump - Hanks, sem er einn af svipmestu leikurum nútímans, hlaut áður verðlaunin árið áður fyrir magnaða túlkun sína á lögfræðingnum alnæmissmitaða Andrew Beckett og mannlegri baráttu hans í myndinni Philadelphia

Snjallyrðið
In this life we cannot do great things. We can only do small things with great love.
Móðir Teresa (1910-1997)