Söguleg tímamót urðu í málum Héðinsfjarðarganga á laugardag þegar samgönguráðherra kynnti tímaramma framkvæmda við göngin sem verða til fyrir árslok 2009. Mikið hefur verið rætt um þau seinustu dagana í kjölfarið. Hefur mér blöskrað hreinlega umfjöllun sumra fjölmiðla og ekki síður fjölmiðlamanna í prívatskrifum sínum á netinu. Sem Eyfirðingi og heimamanni hér á svæðinu er mér hreinlega nóg boðið og tek sérstaklega fyrir tvenn ósvinnuefnistök tveggja fjölmiðlamanna seinustu daga. Í fyrra lagi er það Egill Helgason sem gengur svo langt og er svo ótrúlega ósvífinn á vef sínum að kalla göngin skrípaleik! Telur hann upp allskonar tittlingaskítsrök, ef svo má kalla, gegn göngunum og samgöngubótinni sem Siglfirðingar hafa alla tíð átt rétt á að fá og til að tengja þá við kjördæmið.
Það væri ráð að "spekingar" á borð við þennan sjónvarpsmann frá 101 Reykjavík settust upp í flugvél eða bílinn sinn og kæmu norður og færu svo til Siglufjarðar, annaðhvort með því að fara 234 kílómetra lykk til Skagafjarðar til að komast til Siglufjarðar, eða reyndu að berjast um á ófærri Lágheiðinni þangað! Með því gætu viðkomandi kynnt sér stöðu mála áður en þeir setja niður á blað skrif með þessum hætti, byggð á bæði vanþekkingu og skítmennsku í garð fólks hér. Í seinna lagi er það Ari Sigvaldason hjá Ríkissjónvarpinu í gærkvöld með dæmalausri samantekt um göngin og íbúaþróun hér og ekki síst fjölda þeirra sem keyra göngin og miðar þau við Hvalfjarðargöng sem voru einkaframkvæmd. Eins og allir vita sem fara Lágheiðina til Siglufjarðar er sú leið ekki mönnum bjóðandi á þeim nútíma sem við viljum kenna okkur við að lifa á. Fréttaflutningur Ara var að mínu mati (lái mér hver sem vill) með ólíkindum ósmekklegur og mjög hlutdrægur.
Ef menn vilja fara í talnasamanburð almennt á borð við þessi hráskinnavinnubrögð, væri þá ekki mun nær og eðlilegra að taka mannvirki á höfuðborgarsvæðinu, mislæg gatnamót og fleira sem kostar milljarða og reikna þá á haus hvað kosti að fara úr einu hverfi í annað, fyrir hvern mann. Hvenær sjáum við slíka frétt? Þessi fréttamennska jaðrar við skítlegheit að mínu mati. Ég fékk svo í gær tölvupóst frá vinstrimanni á Austurlandi sem sakaði mig um það í kjölfar sunnudagspistils míns að hafa hyglað þessari framkvæmd en ekki stutt í orði göngin fyrir austan. Eitthvað varð honum orðavant þegar ég í svarpósti benti honum á það tvennt að ég væri ættaður að austan og hefði með pistli í ársbyrjun 2003 stutt göng þar á sama grundvelli og göng hér. Sá stuðningur hélt sér þó að stjórnvöld völdu á milli framkvæmdanna með því að fresta hér um þrjú ár. Enda er sú framkvæmd ekkert síður nauðsynleg en þessi hér til að halda verndarhendi utan um mannlíf á landsbyggðinni.
Það hef ég þó lært seinustu daga umfram allt bæði vegna skrifa t.d. á spjallvefum að þeir sem hæst gala um göng úti á landi og að þau séu óráðsía, hafa ekki kynnt sér stöðu mála, ekki farið á staðina eða vit á því hver grunnur þess sé. Fékk ég skrif frá einum sem fullyrti að ekkert væri að veginum yfir Lágheiðina, það væri bara þjóðsaga að hann væri ónýtur. Svona lyklabörn í Reykjavík ættu að koma norður og keyra veginn, enda kom í ljós að viðkomandi hafði aldrei farið þessa leið, eða komið norður nema þá bara hingað í gegnum Akureyrina. Það er afskaplega hvimleitt að takast á við svona úrtölulið að mínu mati. En það er nauðsynlegt, en ég fann það eftir skrif mín hér um helgina að fólk sem talaði gegn göngunum og skrifum mínum hafði engin rök á bakvið sig í málinu nema þá það að þetta væri dýrt. Samgöngur, góðar samgöngur, eru alltaf dýrar. Það er alveg rétt. En þær verða að koma til eigi að haldast blómleg byggð í landinu.
Það geta jú ekki allir landsmenn búið í nátthverfisblokkum á höfuðborgarsvæðinu og lifað á loftinu þar. En góðar samgöngur opna möguleika, efla svæðin. Hér munu göng leiða til þess að Siglufjörður og Eyjafjörður sameinast. Af því leiðir að göng um Héðinsfjörð er ekki einkamál Siglfirðinga, þau skipta okkur hér öll máli! Ég tala bara sem einstaklingur sem hefur nær alla sína ævi búið hér, þekki svæðið og allt hér. Ég vil að við vinnum saman sem heild og leggjum saman krafta okkar. Það er stutt síðan Skagafjörður var sameinað sem eitt sveitarfélag, utan eins sveitahrepps. Það sama blasir við að gerist hér. Það sjá allir vegna væntanlegra sameiningarkosninga um allt land að sveitarfélögum mun fækka og menn leggja saman krafta sína. Ég vil vinna með Siglfirðingum og öðrum út með firði að þeirra verkefnum og vildi sýna það með nærveru minni þar um helgina. Málefni þeirra skipta mig ekkert síður máli en þá. Mér er annt um þetta svæði, mér er ekki sama. Lái mér hver sem vill.
Alþingi samþykkti seinnipartinn í gær að veita skákmeistaranum Bobby Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Með því er skákmeistarinn orðinn Íslendingur, rétt eins og ég og fleiri hérlendis og nýtur sömu réttinda og ég. Þessi farsi er orðinn langur og allmerkilegur. Afstaða mín hefur komið vel fram seinustu dagana. Ég er bæði undrandi og forviða á því að íslensk stjórnvöld geri Fischer að Íslending til að reyna að koma honum undan því að gera upp við Bandaríkin vegna gamalla mála. Ég er andvígur því að veita honum þennan ríkisborgararétt. Taldi ég ekkert að því að Fischer kæmi hingað, en tvennt ólíkt er hvort hann kemur hingað sem íslenskur ríkisborgari eða vegalaus einstaklingur á útlendingavegabréfi, sem þarf að komast úr haldi Japana, sem hefur farið full harkalega með hann. Tel ég þetta vanhugsaða ákvörðun. Eigum við nú eftir að sjá viðbrögð Bandaríkjamanna í stöðunni. Tel ég litlar líkur á að þeir muni hætta að elta Fischer eða gefa honum upp sakir. Hef ég áhyggjur af því hvort og þá hvaða breytingar verði á samskiptum Bandaríkjanna og Íslands, nú þegar við höfum veitt manni ríkisfang sem er á flótta undan réttvísinni í Bandaríkjunum. Hef ég alla fyrirvara á þessu og vona auðvitað að allt fari vel en óttast það versta vissulega.
Ég met samskipti Íslands við Bandaríkin mikils. Það ættu allir að vita sem fylgjast með skrifum mínum og pólitískum skoðunum, frá því ég fór að taka þátt í stjórnmálum fyrir rúmum áratug með því að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Er ég eiginlega vonsvikinn yfir því hvernig flokkurinn hefur unnið þetta mál og hef farið í skrifum mínum yfir undrun mína á afstöðu flokksins og reyndar allra stjórnmálaflokka, enda virðast allir flokkar leggja blessun sína yfir þetta, svo ekki er um að ræða pólitískt mál að því leyti. Eitt tók ég eftir í gær í kjölfar þess að þingmenn samþykktu að veita Fischer ríkisborgararétt sem jafnvel þingmenn höfðu greinilega gleymt í þeysireið sinni út í buskann í flýtinum við að gera Fischer að Íslendingi. Það er hvort Íslendingurinn Robert James Fischer falli undir lög um launasjóð íslenskra stórmeistara í skák og eigi því rétt á greiðslum úr sjóðnum, sem slíkur. Fischer fellur klárlega í þann flokk. Kom greinilega á fjármálaráðherra þegar hann var inntur svara um þetta á þingi í gær. Núna þegar Fischer er Íslendingur mun hann væntanlega þurfa að taka að sér kennslu á skák fyrir skólabörn til að uppfylla skyldur sínar hér. Spurt er: höfðu þingmenn fyrir því að kynna sér þessi mál fyrir þessa stórundarlegu ákvörðun sína eða lá þeim svo mikið á að þeim var alveg sama? Þetta þarf að fá fram með afgerandi hætti, hvernig staðan er. En ef marka má lögin stenst hann öll skilyrði fyrir veitingu peninga úr sjóðnum, enda orðinn eins og hver annar Íslendingur. Já, það er svona þegar, illu heilli, menn gleyma sér í svo mikilli fljótfærni að dómgreindinni er hent út á hafsjó.
Formannsslagurinn í Samfylkingunni virðist hafinn af fullum krafti, nú þegar nákvæmlega tveir mánuðir eru til landsfundar flokksins. Össur og Ingibjörg eru farin að undirbúa sig og vinna að kjörinu og málefnum tengdum því. Nokkrar vikur eru reyndar síðan Ingibjörg hóf sinn slag í hvítri dragt, þess albúin að hvítmála sig og þvo af sér óráðsíuna í Reykjavík undir hennar stjórn. Össur hefur verið að vinna í baktjaldaherbergjum að því að undirbúa sig og sjá má að hann leggur mikla rækt við vef sinn og vinnur af krafti, tjáir þar skoðanir sínar og vinnur öflugur. Ingibjörg er einnig með vef, en hann er afskaplega sterílíseraður og ópersónulegur. Hún skrifar ekki beint til fólks, notar ekki vefinn sem bloggvef sem skapar nálægð við lesandann. Það gerir Össur, hann hefur skoðanir á málum og talar af krafti um mál. Er ég oft ósammála honum en ég fylgist með skrifum hans. Hann þorir að hafa skoðanir og tjá sig, en Ingibjörg notar ekki vefinn sem samskiptaleið til fólks með skrifum þar inn sjálf, nema ef frá er talið upphafsávarp vefsins við opnun. En svo er þetta bara. Þessi slagur verður eflaust harður og gott að Össur ætlar ekki að víkja fyrir Ingibjörgu sjálfviljugur. Það er þeim báðum enda gott að fá mælingu á stöðu sinni í flokkskjarnanum.
Í nýrri skoðanakönnun í Svíþjóð kemur vel fram það sem blasað hefur við að fylgi sænskra jafnaðarmanna er í sögulegu lágmark, hann hefur misst forystuhlutverki í könnunum í fyrsta skipti frá því kannanir Gallups hófust í landinu og að staða forystumanna flokksins hefur versnað ennfremur. Sérstaklega er pólitísk staða Göran Persson leiðtoga flokksins og forsætisráðherra landsins, orðin mjög veik eins og fram hefur komið seinustu vikurnar. Blasir við að hann missi yfirburðastöðu sína í sænskum stjórnmálum að óbreyttu. Þegar er hafin víðtæk umræða innan flokks og utan meðal stjórnmálaspekinga að hann láti af embætti fyrir kosningar og Margot Wallström varaforseti Evrópusambandsins og fyrrum ráðherra í stjórn Perssons, taki við forystu flokksins og leiðtogahlutverkinu í ríkisstjórninni. Hefur hún æ ofan í æ að undanförnu hafnað þessum vangaveltum. Nýleg skoðanakönnun staðfestir að Wallström er einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins og sá sem jafnaðarmenn vilja helst að taki við forystunni af Persson. Virðist hún nú orðin krónprinsessa flokksins og valdaerfingi hans þegar að þeim tíma kemur, sem gæti að óbreyttu gerst bráðlega. Það er allavega ljóst að það hriktir í stöðum jafnaðarmanna í Svíþjóð þegar Moderata er orðinn stærstur flokka í könnunum og Fredrik Reinfeldt leiðtogi flokksins, orðinn vinsælasti stjórnmálamaður landsins.
Enn einu sinni gerðist það í gær að leitað var að fólki á hálendinu. Nú bar svo við að fólkið anaði af stað í ferðina, án þess að kynna sér aðstæður og stöðu mála. Var alveg kostulegt að sjá viðtöl við ungmennin þrjú sem fóru frá Dalvík í þrem jeppum yfir hálendið á leið suður. Voru þau algjörlega óundirbúin og skrautlegt að fylgjast með skýringum þeirra. Er mjög hvimleitt að sjá þetta með svo skelfilegum hætti að fólki sé alveg sama um allar aðstæður fyrir brottför. Það er bara lagt af stað. Kæruleysið er því miður algjört. Svo missti eitt þeirra út úr sér að þetta hefði nú bara verið spennandi allt saman og skemmtileg lífsreynsla hvað þetta varðaði. Alveg ótrúlegt að sjá og heyra svona ummæli og svona dómgreindarleysi. Það er lágmark þegar fólk leggur á stað yfir hálendið að það taki veðurspá og tékki á stöðu mála t.d. hvað varðar færð og þess háttar. Fannst mér reyndar kostulegt í viðbót þegar stelpan í hópnum sagði að þau hefðu nú bara týnt veginum alveg upp úr þurru. Hvað kostar svona leit? Hvert fellur kostnaðurinn? Það veitir ekki af að taka upp heilsteypta og víðtæka umræðu um þessa þætti. Vonandi verður það fólki umhugsunarefni áður en lagt er af stað í slíka ferð.
Ég verð að segja eins og er að mér hlýnaði nokkuð um hjartaræturnar við að lesa eina frétt á vef bæjarins nýlega. Hún fjallar um það að í vetur muni hafa tekist samstarf á milli leikskólans Síðusels hér í bænum og dvalarheimilis aldraðra í Hlíð. Munu nokkur fimm ára börn á leikskólanum hafa farið reglulega í heimsókn til eldri borgara á einni deildinni í Hlíð. Þessar tvær kynslóðir ólíkra tíma mannlífsins hafa eins og segir í frétt á vef bæjarins spjallað um gamla muni, farið með þulur, sungið saman, lesið sögur og sungið saman. Þetta er ein af smáu mannlífsfréttunum sem vekja athygli og ekki síður ánægjulegt framtak sem þarna á sér stað. Sjálfur ólst ég upp að mestu hjá ömmu minni og ég tel framlag hennar í mótun lífs míns mikilvægt. Ég tel að hún hafi kennt mér það sem ég tel mikilvægast: þekkingu á sögunni, kærleika, kurteisi, það að bera virðingu fyrir öðru fólki og ekki síður þá hluti sem stundum virka smáir en eru stórir er á hólminn kemur síðar á lífsleiðinni. Allavega þetta er notaleg lítil frétt sem segir manni svo margt í einfaldleika sínum, þó það helst að aldur er afstætt hugtak.
Saga dagsins
1924 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tekur við völdum - stjórnin sat í tvö ár, eða allt til andláts Jóns í konungsheimsókn á Austurlandi, hann lést að Skorrastað í Norðfirði
1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt af starfi og þjónustu - breytt í virðisaukaskatt 1990
1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hrundi og sökk í sæ - kemur nú aðeins upp úr sjó á fjöru
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína - varð mjög umdeild
1999 Breska leikkonan Dame Judi Dench hlaut óskarinn fyrir leik sinn í myndinni Shakespeare in Love - Dench er ein virtasta leikkona Breta og var kjörin besta leikkona Bretlands á 20. öld 2001
Snjallyrðið
You must not lose faith in humanity. Humanity is an ocean; if a few drops of the ocean are dirty, the ocean does not become dirty.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)
<< Heim