Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, var í gær kjörin rektor Háskólans. Kristín verður fyrsta konan til að gegna embætti rektors skólans í 94 ára sögu hans. Hún sigraði Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild skólans, í síðari umferð rektorskjörsins. Vann Kristín ennfremur sigur í fyrri umferðinni fyrir viku. Kristín hlaut 52,3% greiddra atkvæða en Ágúst fékk 46,4%. Auð og ógild atkvæði í kjörinu voru 1,3%. Mun Kristín taka við rektorsembættinu af forvera sínum í embætti, Páli Skúlasyni, þann 1. júlí nk. Sigur Kristínar er mjög sögulegur, marka úrslitin þáttaskil í sögu skólans. Það eru óneitanlega sögulegt að kona sé kjörin til forystu í skólanum og taki við forystu hans. Mun Kristín taka við forystu skólans á vissum kaflaskiptum í sögu hans. Nýtt og merkilegt umhverfi blasir við skólanum núna og það verður verkefni hennar að vinna að þeim þáttaskilum sem framundan eru að vissu leyti. Í kosningabaráttu sinni bauð hún sig fram sem fagmann á sínu sviði í starfi innan skólans og öflugan þátttakanda í innri uppbyggingu náms þar.
Kristín bauð sig ekki fram á forsendum kyns, þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem býður sig fram í forystu hans með þessum hætti. Hún notaði ekki kynjastaðla sem grunnþema í sína kosningabaráttu. Öll hennar kosningabaráttu var á forsendum þess að hún væri hæf til þess að leiða skólann og hefði reynslu fram að færa. Aldrei talaði hún á opinberum vettvangi í fjölmörgum umræðuþáttum, með þeim sem buðu sig fram til rektorskjörs auk hennar, á þeim forsendum að hún væri kona og ætti á þeim forsendum að vera vænlegri kandidat eða ætti að leiða starfið þar á forsendum þess beinlínis. Það er mjög gott skref og ég tel að það hafi tryggt henni mörg atkvæði og ekki síður virðingu margra. Oft hefur það verið svo að konur bjóða sig fram til embætta á þeim grunni að konur vanti í forystu. Þetta gerði Kristín Ingólfsdóttir ekki og það er mjög virðingarvert, að mínu mati. Fannst mér hún vera með öflugustu og heilsteyptustu kosningabaráttuna. Eini gallinn við hana tel ég vera að hún lokar t.d. á skólagjöld eða er ekki til í umræðuna um þau. En það er ekkert lokamarkmið og á ekki að ráða valinu að lokum. Aðalatriðið er persóna rektorsefnanna, framkoma þeirra og grunnstefna. Taldi ég Kristínu vera besta valkostinn og tel ánægjulegt að hún hafi unnið sigur í kjörinu. Greinilegt er að þar fer hæf og vönduð kona. Ennfremur tel ég hana vera boðbera nýrra tíma, bæði í sögu skólans og almennt séð. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar og forystu á vettvangi skólans á komandi árum. Ég óska henni til hamingju með kjörið og vona að henni farnist vel í embætti á næstu árum.
Allsherjarnefnd Alþingis samþykkti einróma í dag á fundi sínum að samþykkja beiðni skákmeistarans Bobby Fischer um íslenskan ríkisborgararétt. Er ég mjög andvígur þessari ákvörðun eins og vel hefur komið fram. Í upphafi þessa dags birtist á vef SUS, ítarlegur pistill minn um málefni Fischers. Þar tjái ég afstöðu mína um það hvort veita eigi skákmeistaranum íslenskan ríkisborgararétt með beinum hætti. Taldi ég í senn bæði nauðsynlegt og eðlilegt að tjá mig með þessum hætti, þegar við blasti hvert málið væri að stefna. Það er nauðsynlegt að tjá skoðanir sínar óhikað í þessu efni. Fer ég í pistlinum yfir þær forsendur sem ég hef fyrir því að vera algjörlega andsnúinn því að Fischer sé veittur ríkisborgararéttur. Málið er mjög einfalt að mínu mati. Það snýst um prinsipp varðandi veitingu ríkisfangs og ekki síður þau lög sem til staðar eru. Fékk ég í dag mörg komment á þessi skrif, margir eru mér mjög sammála, en aðrir andsnúnir eins og gengur. Það er heiðarlegt og hið eina rétta í stöðunni að tala hreint út og koma til dyranna eins og maður er. Afstaða mín til málsins hefur blasað við en rétt að tjá hana með mjög beinskeyttum hætti.
Um leið og þessi ákvörðun lá fyrir um miðjan dag ritaði ég pistil á vef minn um sama mál og fer yfir þetta í fáum línum. Það var rökrétt að tjá sig um stöðuna eftir þessa ákvörðun með þessum hætti. Ákvörðun allsherjarnefndar í dag er eitt rugl og algjörlega út í hött að mínu mati. Tel ég um mjög óráðlega ákvörðun að ræða og vart skiljanlega. Hvaða skilaboð er Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir stjórnmálaflokkar að senda út með þessari ákvörðun? Er ríkisborgararéttur sjálfsagður fyrir hvern sem er erlendis og vantar farseðil út úr vandræðum sínum? Mér er spurn, er þessi ákvörðun blasir við. Það var eitt að veita Fischer dvalarleyfi og aðstoða hann með þeim hætti. Ríkisborgararéttur er eitt af því heilagasta hér á landi að mínu mati og það er sérmál alveg í mínum huga, hvernig það mál er unnið. Það kemur ekki til greina að mínu mati að sveigja til þau lög sem til staðar eru um þau fyrir Bobby Fischer. Algjörlega einfalt mál. Þessi ákvörðun allsherjarnefndar er þess eðlis að ég hvorki get né mun verja hana á opinberum vettvangi. Þetta er skref sem ég get ekki stutt. Það er bara þannig. Ég var alveg til í að aðstoða Fischer með þeim hætti sem gerlegt var. Þessi ákvörðun í dag er annar hluti af þessu máli. En nú er komið að því að maður ítreki hana og tjái sig um hana opinberlega. Ég get ekki annað en lýst yfir miklum vonbrigðum með afstöðu allsherjarnefndar, einkum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Þetta er undarleg og ekki síður mjög slæm ákvörðun og óverjandi að mínu mati.
Valdabarátta þeirra Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Verkamannaflokksins, og Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, virðist sífellt vera að aukast. Er greinilegt að trúnaðarsamband þeirra er við frostmark og þeir keppast bakvið tjöldin við að tryggja sig innan flokksins fyrir komandi átök. Ljóst er að reynt er að halda erjunum sem mest undir yfirborðinu fram yfir væntanlegar kosningar í maí, en það verður sífellt erfiðara. Athygli vakti að þegar Brown kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í gær að hann var vel undirbúinn, með brandara í ræðu sinni og virkaði léttur og glaðlegur. Þótti hann aldrei hafa verið í betra formi. Bresku blöðin tala um það í dag að greinilegt væri að þarna talaði næsti leiðtogi flokksins og jafnvel næsti forsætisráðherra Bretlands. Hætt er við að forsætisráðherrann hafi tekið andköf er birtist könnun í dag sem sýnir að hann er mun óvinsælli en Brown. 52% landsmanna telja Brown standa sig betur en Blair en aðeins 17% telja Blair betri. 63% flokksmanna telja Brown sterkari leiðtoga til forystu í næstu kosningum en 34% Blair. 48% þeirra telja að Blair sé dragbítur á stöðu flokksins en aðeins 16% Brown. Það er því ljóst hvert stefnir, staða Blairs er orðin svo veik að valdadagar hans taka brátt enda á hvorn veginn sem komandi kosningar fara.
Stjórn Varðar stóð fyrir sýningu á kvikmyndinni Fahrenhype 9/11 á Dátanum í gærkvöldi. Mætti þónokkur slatti á sýninguna og var góð stemmning hjá hópnum. Myndin er virkilega góð og tekur vel fyrir rangfærslur í þekktri mynd Michael Moore, Fahrenheit 9/11. Eftir sýninguna ræddum við málin saman og áttum fína stund. Þetta var því góð kvöldstund á Dátanum í gærkvöldi og skemmtilegt spjall um mikilvæg mál. Fór heim eitthvað á tólfta tímanum. Er heim kom horfði ég á kvöldfréttatímana á netinu og dægurmálaþættina, en ég hafði misst af þessu öllu vegna undirbúnings fyrir myndasýninguna, sem hófst kl. 20:00. Horfði á viðtal við Jónas Kristjánsson ritstjóra, sem hefur nú verið ráðinn að nýju sem ritstjóri á DV. Hann var ritstjóri blaðsins í tvo áratugi, 1981-2001, er honum var sagt upp störfum, en var um tíma ritstjóri Fréttablaðsins gamla áður en það fór á hausinn sumarið 2002. Hann hefur seinustu tvö ár verið ritstjóri Eiðfaxa. DV hefur orðið sorprit að breskri fyrirmynd síðan og ekki stefnir í miklar breytingar á því ef marka má yfirlýsingar Jónasar. Halda á áfram á sömu slúðurslóðinni sem fetuð hefur verið. Sá svo fréttir af sigri Kristínar í rektorskjörinu, ánægjulegar fréttir af að heyra í gærkvöldi.
Í gær varð Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, að einskonar jólasveini sem gengur um og gefur öllum gjafir með yfirlýsingum um ókeypis leikskóla. Ekki er hægt að segja annað eftir gærdaginn. Þó er nú maðkur í mysunni, svo ekki sé nú meira sagt. Er eitthvað til sem heitir ókeypis leikskóli? Nei, það er ekkert ókeypis í þessum heimi. En menn eiga að tala um gjaldfrjálsan leikskóla frekar en annað. Er ekki hægt að segja annað en að yfirlýsingar borgarstjóra séu kostulegar. Kemur þetta útspil borgaryfirvalda, jólasveinaandinn mikli sem kom fram hjá þeim, flatt upp á marga. Ríkisstjórnarflokkarnir voru eins og fram hefur komið í fréttum við það að kynna hugmyndir um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir öll fimm ára börn í landinu þegar þetta útspil kom. Svo er auðvitað allskondið að borgaryfirvöld séu að nota skatt af fasteignum ríkisins til að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla, eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ, segir. Það blasir við að þetta er rétt hjá henni. Ekki hafa borgaryfirvöld svigrúm vegna góðrar fjárhagsstöðu eins og borgarstjóri fullyrðir, enda blasir við að peningakassi borgarinnar er tómari en pólsk matvöruverslun undir lok kommúnismans.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, heldur fund í bátahúsinu á Siglufirði á morgun ásamt Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra, og Hreini Haraldssyni framkvæmdastjóra Vegagerðarinnar. Mun hann þar væntanlega, og vonandi, tilkynna hvenær framkvæmdir hefjist á Héðinsfjarðargöngum, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Fer ég á morgun til Siglufjarðar og verð viðstaddur fundinn. Nota ég tækifærið um leið og mæti í boð til vinar míns og flokksfélaga, Guðmundar Skarphéðinssonar á Siglufirði á morgun. Bindum við sjálfstæðismenn á Eyjafjarðarsvæðinu og í þessum hluta kjördæmisins að minnsta kosti vonir við að gangnaframkvæmdir hefjist brátt. Þeim var frestað árið 2003 og þá lofað að ferlið vegna útboðs og fleiri þátta færi af stað árið 2005. Nú vonandi standa menn við stóru orðin. Allavega, ég fer á Sigló á morgun á fundinn.
Saga dagsins
1760 Landlæknisembættinu var komið á fót - Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir, fyrstur manna
1772 Björn Jónsson skipaður fyrsti lyfsalinn hérlendis - áður var lyfsala hluti af skyldum landlæknis
1926 Útvarpsstöð, sú fyrsta hérlendis, tók formlega til starfa í Reykjavík - fyrstur í útvarpið þá talaði Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Sagði hann í ræðu sinni að miklar vonir væru bundnar við þessa miklu og nýju uppgötvun mannsandans. Stöðin hætti fljótlega starfsemi en hún markaði söguleg skref, engu að síður í íslenskt fjölmiðlalíf. Ríkisútvarpið hóf útsendingar fjórum árum síðar
1938 Spencer Tracy hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Manuel í kvikmyndinni Captains Courageous. Tracy hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Boys Town. Tracy var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum. Hann lést í júní 1967, örfáum dögum eftir að hann lauk vinnu við sína síðustu mynd, Guess Who's Coming to Dinner?, þar sem hann fór á kostum með Katharine Hepburn
1971 Hæstiréttur Danmerkur kvað upp úrskurð sem ruddi úr vegi síðustu hindrun fyrir afhendingu handritanna til Íslendinga. Fyrstu handritin voru afhend formlega mánuði síðar við hátíðlega athöfn
Snjallyrðið
Experience taught me a few things. One is to listen to your gut, no matter how good something sounds on paper. The second is that you're generally better off sticking with what you know. And the third is that sometimes your best investments are the ones you don't make.
Donald Trump kaupsýslumaður (1946)
<< Heim