Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 mars 2005

Alþingi ÍslendingaHeitast í umræðunni
Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, mælti á mánudag fyrir frumvarpi sínu og fleiri þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem felur einkum í sér að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði með öllu lögð af. Fór Sigurður Kári yfir grunn málsins í ítarlegri ræðu og kynnti það vel. Að lokinni ræðu Sigurðar Kára var fróðleg umræða um málið. Var mjög merkilegt að kynna sér afstöðu þingmanna til þess. Sérstaklega fannst mér merkilegt að heyra skoðanir Ögmundar Jónassonar. Snerist hann öndverður gegn áætluðum breytingum og talaði af krafti gegn þeim. Var merkilegt að sjá þetta gamla og úrelta forræðishyggjuhjal hjá Ögmundi. Ekki er hægt að segja að tal hans sé nýtt af nálinni. Forræðishyggja Ögmundar og annarra þingmanna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er fyrir löngu orðið landsþekkt og þarf vart að hafa um það mörg orð. En það er vissulega mjög fyndið að sjá grunn VG og vinstrikreddur opinberast með svo galopnum hætti. En Ögmundur er og verður forræðishyggjumaður, það breytist ekki svo glatt eins og við vitum öll sem fylgjumst með honum, flokknum og þeim sem sitja í umboði hans á löggjafarþinginu.

Fleiri vinstrisinnaðir þingmenn komu í pontu og tóku undir málflutning Ögmundar eða grunnstef hans: semsagt að það komi fólki úti í bæ við hvað Jón Jónsson verkamaður í Breiðholtinu, eða Jón Jónsson athafnamaður í Grafarvogi, er með í laun. Þetta er grunnpunktur vinstrimanna virðist vera að það sé málefni almennings hvað næsti maður hafi í laun eða vilji svala forvitni sinni með því að vita allt um hagi viðkomandi að þessu leyti. Ég og við sjálfstæðismenn almennt segjum að þetta gangi ekki upp. Þetta frumvarp er sett fram umfram allt til að fá umræðu um málið og vonandi leiða til þess að tekin verði upp önnur vinnubrögð og annað fyrirkomulag taki við. Þetta frumvarp er mikilvægt og sett fram sem grunnpunkt í mikilvægt prinsippmál: það að almenningur hafi sín lykilmál, tekjugrunn sinn sem sitt einkamál. Eða það er mitt mat og okkar sjálfstæðismanna. Það er reyndar hlægilegt að til sé fólk sem tali gegn þessu og afhjúpi með því gamaldags vinstrikreddupólitík. Þessir gamaldags vinstrimenn ættu að taka af sér hofmóðugu gleraugun og horfa fram fyrir sig án þeirra. Það gæti orðið þeim gæfuleg ákvörðun. Ekki veitir þeim af að hugsa málið frá öðrum forsendum og frá öðrum grunni beint. Ég tek bara undir orð Sigurðar Kára í umræðunni á mánudag: "Við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað náunginn í sama stigahúsi og við er með í laun." Það er því verðugt verkefni okkar sjálfstæðismanna, sérstaklega okkar ungra sjálfstæðismanna að kalla til Ögmundar og félaga hans í forræðishyggjunni: komið þið inn í framtíðina, ekki veitir ykkur af!

RÚVÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, tilkynnti í gær að umræða um frumvarp hennar til laga um breytingar á útvarpslögum, muni ekki fara fram fyrr en eftir páska. Þá mun fjölmiðlanefndin hafa skilað áliti sínu og grunni að nýjum fjölmiðlalögum. Með því gefst þingmönnum færi á að ræða þessi tvö mál, grunnvettvang fjölmiðlaumhverfis og grunnbreytingar á Ríkisútvarpinu á sama stað á sama tíma og það sem best er: á sama grundvelli efnislega. Það veitir ekki af því. Hefðu menn átt að taka þennan pól í hæðina strax í fyrra þegar menn lögðu af stað í för með lagasetningu um fjölmiðla almennt. Fyrir tæpu ári, þegar umræða var sem mest í þinginu um fjölmiðlalögin hin fyrri, skrifaði ég ítarlegan pistil um stöðu þess þá. Ítrekaði ég þá mikilvægi þess að menn yrðu að taka RÚV fyrir samhliða, til að ná trúverðugum grunni undir málin. Ítrekaði ég þessa skoðun með titli pistilsins, sem var: Já, en hvað með RÚV??. Loks eru menn því að leggja af stað í vegferð um réttan stíg að mínu mati.

Þetta tvennt; grunnur fjölmiðlaumhverfis og framtíð ríkisrekins fjölmiðils er sama málið í grunninn séð og átti að taka fyrir saman. Því er það auðvitað mat mitt að menn hefðu átt að bíða með fjölmiðlafrumvarp þar til frumvarp um breytt útvarpslög hefðu legið fyrir. Menn fóru allt of geyst af stað og áttu að bíða. Þetta sagði ég fyrir ári, menn áttu að taka þetta saman og vinna saman sem einn pakka og taka fyrir með þeim hætti. En það er að gerast og því fagna ég. Menn eiga að feta málið með þessum hætti. Það er hárrétt ákvörðun hjá Þorgerði Katrínu að vinna málið með þessum hætti. Fagna ég einnig því sem heyrist að samstaða sé að mestu í fjölmiðlanefndinni um nýtt fjölmiðlafrumvarp. Það er mikilvægt að svo verði og þverpólitísk samstaða náist um grunnáherslur og ramma utan um íslenskt fjölmiðlaumhverfi. Nú hefur borið svo við að átök verða sennilega um frumvarp menntamálaráðherra um RÚV sf. Er ekkert að því að takast á um það og fara yfir alla fleti þessa forms sem taka á upp og þau sjónarmið sem uppi eru um málið. En fyndnast af öllu í málinu er að sjá framtíðarsýn VG um RÚV. Ef marka má tillögur þeirra er það vilji flokksins að koma á fót dagskrárráði í RÚV. Það muni miðstýra dagskrárgerð og verða sett yfir hana. Þvílíkar kommakreddur og miðstýringarárátta hjá forræðishyggjulufsunum. Segi ekki annað!

Punktar dagsins
Paul Wolfowitz

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti formlega í gær að hann hefði tilnefnt Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem forstjóra Alþjóðabankans. James Wolfensohn sem nú er forstjóri bankans, mun láta af embætti þann 1. júlí nk. eftir að hafa setið í embættinu í áratug. Hefð er fyrir því að Bandaríkin tilnefni forstjóra Alþjóðabankans en Evrópumenn tilnefni þess í stað forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hefur þetta verið byggt á samkomulagi sem gert var eftir seinni heimsstyrjöldina, er þessar tvær alþjóðastofnanir komu til sögunnar. Wolfowitz hefur verið aðstoðarvarnarmálaráðherra allt frá því að Bush tók við forsetaembætti í janúar 2001 og verið því einn af nánustu pólitísku samstarfsmönnum hans og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra. Hefur hann jafnan verið mjög umdeildur, ekki síst vegna árásarinnar í Írak fyrir tveim árum, en hann var einn af lykilforystumönnum hennar á alþjóðavettvangi. Er ákvörðunin var kynnt í gær tjáði Bush sig mjög hlýlega um Wolfowitz og verk hans. Hætt er við að þessi ákvörðun muni valda titringi og ósætti, enda mjög deilt um ágæti Wolfowitz og verk hans á vettvangi stjórnmála.

Háskóli Íslands

Nýr rektor Háskóla Íslands verður kjörinn í kosningu í skólanum í dag. Kjörgengir eru allir starfsmenn hans og nemendur við skólann. Um er að ræða seinni umferð kjörsins. Í fyrri umferð kjörsins voru fjórir í kjöri og féllu tveir út í fyrri umferðinni: þeir Einar Stefánsson og Jón Torfi Jónasson. Flest atkvæði í kjörinu fyrir viku hlutu Ágúst Einarsson prófessor og fyrrum alþingismaður, og Kristín Ingólfsdóttir prófessor. Fyrir viku hlaut Kristín 28,5% atkvæða í kjörinu, Ágúst Einarsson hlaut 27,4%, Jón Torfi Jónasson hlaut 24,5% og Einar Stefánsson 18,9%. Atkvæði háskólakennara og annarra starfsmanna sem hafa háskólapróf gilda sem 60% greiddra atkvæða. Atkvæði stúdenta gilda sem 30% greiddra atkvæða og atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila gilda sem 10% greiddra atkvæða. Gilda því sömu reglur um kjörið í dag og fyrri umferðina fyrir viku. Sá sem hlýtur meirihluta atkvæða hlýtur kjör. En það er menntamálaráðherra skipar í stöðu rektors, en það er alveg ljóst að ráðherra mun skipa þann sem sigrar í kjörinu. Er merkilegt að líta á vefi þeirra og kynna sér stefnu þeirra í málefnum skólans. Hvet ég alla til að gera það. Verður fróðlegt að sjá hvort þeirra sigrar og leiðir skólann næstu árin. Nýr rektor tekur við embætti af Páli Skúlasyni þann 1. júlí nk.

Gettu betur

Í Íslandi í dag var fróðleg umræða í gærkvöldi um málefni RÚV. Þar ræddu Einar K. og Óli Björn málin og voru ekki sammála um grunn nýs frumvarps um RÚV sf. Kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins voru sendar út héðan frá Akureyri í gærkvöldi. Var gott að RÚV skyldi gera það samhliða öðrum útsendingum og ánægjulegt að Elín Hirst skyldi koma norður og lesa fréttirnar frá Kaupvangsstrætinu. Kastljósið var ennfremur sent út héðan frá Akureyri. Sigurður og Eyrún fengu til sín þau Gunnar Ragnars stjórnarformann Slippstöðvarinnar, og Ingu Eydal hjúkrunarfræðing og deildarstjóra öldrunardeildar Akureyrarbæjar. Þau ræddu mál málanna hér þessa dagana við Gunnar: ákvörðun Ríkiskaupa að taka frekar pólsku tilboði en innlendu í endurbætur á varðskipum. Ræddu þau svo öldrunarmál við Ingu. Eftir þáttinn var viðureign MA og Verzló í Gettu betur sýnd í beinni útsendingu frá Hólum, sal skólans. Var þetta skemmtileg viðureign og gaman að fylgjast með. Lauk henni með þeim hætti að Akureyringar unnu og slógu með því sigurvegara seinasta árs úr keppninni. Munu strákarnir mæta Borgarholtsskóla í hreinni úrslitaviðureign í næstu viku. Glæsilegt hjá Ásgeiri, Bensa og Tryggvi Páli. Góð úrslit og fínt að MA komist í úrslit keppninnar í fyrsta skipti frá 1992!

Fahrenhype 9/11

Eins og fram kom hér í gær mun Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sýna myndina Fahrenhype 9/11 á skemmtistaðnum Dátanum, hér á Akureyri í kvöld. Hvet ég alla sem áhuga hafa til að mæta og horfa á myndina. Allir eru velkomnir á staðinn, til að fræðast um málin og svo ekki síður eiga ánægjulega stund. Myndin hefur vakið mikla athygli, er umdeild og hefur vakið viðbrögð og miklar umræður. Þess þá mikilvægara að fræðast um hana og sjá hana til að geta bæði talað um hana og bent á punktana sem mestu skipta í henni.

Saga dagsins
1917 Tíminn, flokkspólitískt blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - kom út allt til 1996
1953 Leikarinn Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á Will Kane í kvikmyndinni High Noon. Cooper hlaut verðlaunin áður fyrir leik sinn í myndinni Sergeant York árið 1942. Cooper var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum, t.d. í The Pride of the Yankees og Meet John Doe. Cooper hlaut heiðursverðlaun kvikmyndaakademíunnar í apríl 1961. Hann lést úr krabbameini mánuði síðar
1987 Beinar kosningar um prestsembætti voru afnumdar með nýjum lögum um veitingu prestakalla
1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis - nákv. 10 árum eftir að fyrsta barnið fæddist á heimsvísu
2001 Kosið var um það í beinni atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíðarskipulag flugvallar í Vatnsmýrinni og um skipulagslegt byggingarfyrirkomulag alls svæðisins - mjög dræm þátttaka var í kosningunni. Andstæðingar flugvallarins náðu þó naumlega sigri kosningunni. Úrslitin breyttu þó litlu, enda er enn tekist á af krafti um málið. Forsendur flugvallarmála eru og verða átakamál að óbreyttu

Snjallyrðið
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)