Það hefur ekki farið framhjá neinum þeim sem fylgist með íslenskum stjórnmálum að mikil átök voru á flokksþingi Framsóknarflokksins um stór mál. ESB-kafli utanríkismálahluta í ályktunum flokksþingsins sem stefndi í lengi vel að myndi enda með því að mælt skyldi með aðildarviðræðum við ESB á komandi árum, breyttist sífellt yfir helgina. Staðreyndin varð sú að ályktunin varð hvorki fugl né fiskur, stuðningsmenn og andstæðingar aðildar sættust á málamiðlun sem segir í raun ekki neitt. Ekki er óeðlilegt að flokkurinn hafi stefnt í þessa átt, enda er stefna mála skýr í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar eru aðildarviðræður ekki á dagskrá á kjörtímabilinu. Ekkert hefur breyst síðan og því ljóst að framsóknarmenn hafi áttað sig á stöðu mála. Ágreiningurinn innan flokksins sem hefur verið áberandi almennt í umræðunni er óneitanlega farinn að sliga flokkinn og fylgi hans mjög. Þetta kemur mjög vel í ljós í nýjustu skoðanakönnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokkanna og ríkisstjórnarinnar. Í febrúarkönnun fyrirtækisins mælist fylgi flokksins aðeins rétt rúm 10% og hefur hann misst 3% milli mánaða.
Hefur fylgi Framsóknarflokksins ekki mælst minna í skoðanakönnunum Gallup frá því þær hófust með þeim hætti sem nú er fyrir 12 árum, árið 1993. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist rúm 37% og hefur fylgi hans aukist um 4% á milli mánaða. Því ber að fagna vel. Við sjálfstæðismenn fundum vel á fundaferð okkar um landið í janúar og febrúar að mikill meðbyr er með okkur og stefnu okkar. Gafst okkur þar gott færi á að fara yfir skattalækkunartillögur flokksins og jafnframt ræða við fólk um stöðu mála almennt heima í héraði hjá fólki. Þingmenn fóru um landið og var þeim dreift í önnur kjördæmi. Var það gott tækifæri fyrir þá til að kynna sig og ekki síður kynnast aðstæðum fólks úti á landi. Fundaröðin gekk vel og ég tel að hún hafi eflt okkur í könnuninni og styrkt stöðu okkar. Skattamálin eru okkar helsta tromp og því ánægjulegt að kynna tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum málum, sem samþykktar voru á þingi undir lok síðasta árs. Þessi könnun kemur því ekki á óvart fyrir okkur, enda ljóst að fólk hefur kynnt sér vel málin og fjölmennt á fundi almennt til að kynna sér stöðuna og ræða við okkar fulltrúa. Er litið er yfir stjórnarandstöðuflokkana kemur í ljós að fylgið við Samfylkinguna mælist 32,5% og minnkar því um rúm 2% milli mánaða. Fylgi VG mælist tæp 16% sem er óbreytt. Fylgi Frjálslyndra helst einnig óbreytt, flokkurinn mælist með 4% fylgi. Þessi skoðanakönnun er óneitanlega áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Svo virðist vera sem flokkurinn hafi veikst sífellt eftir að hann tók við stjórnarforystunni í september. Eflaust er staða mála þeim mikið áhyggjuefni og verður fróðlegt að sjá hvernig brugðist verður við stöðu mála.
Kostulegt hefur verið að fylgjast með ágreiningnum og togstreitunni innan R-listans vegna málefna Landsvirkjunar. Hefur sú umræða sem hófst eftir að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri, undirritaði viljayfirlýsinguna af hálfu borgarinnar vakið athygli. Borgarfulltrúar VG hafa tjáð andstöðu sína við ætlaðar breytingar á fyrirtækinu. Við blasir því að óbreyttu að afar ólíklegt sé að það gerist eitthvað í þessum málum fyrr en eftir kosningar á næsta ári til borgarstjórnar. Hefur formaður vinstri grænna og borgarfulltrúar flokksins enda talað með þeim hætti að allt skuli gera til að hindra þessa niðurstöðu mála. Það stefnir því margt í að vinstri grænir ætli að setja R-listann í gíslingu í þessu máli og hindra framgang þess. R-listinn er auðvitað eins og allir vita margbrotinn og þetta mál ekki hið fyrsta eða eina á kjörtímabilinu sem staðfestir hversu R-listinn er tvístraður. Nægir mörgum að sjá borgarstjóraráðningarnar sem hafa sýnt hversu mjög þetta valdabandalag vinstri manna lafir saman með öllum áföllum í því eina markmiði sínu að Sjálfstæðisflokknum skuli ekki komið til valda. Það markmið hefur lengi verið eina límið sem heldur þessu ólíka fólki og óskyldu flokksörmum saman í einni sæng.
Það þótti því mörgum í borgarstjórn eðlilegt að kosið yrði bara um viljayfirlýsinguna og staða mála kæmi fram með óyggjandi hætti: nýtur viljayfirlýsingin stuðnings? Sjálfstæðismenn báru fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að viljayfirlýsingin yrði borin undir atkvæði borgarfulltrúa. Eftir að borgarfulltrúar höfðu samþykkt að slík atkvæðagreiðsla mætti fara fram og allt stefndi því í hana lýsti borgarstjóri yfir að hún myndi bera upp tillögu um að vísa málinu frá og yrði því ekki tekin til afgreiðslu. Er þetta allt með ólíkindum. Við hvað er borgarstjóri hrædd við eiginlega? Hvað stendur í vegi þess að umboð hennar og yfirlýsingarinnar í nafni borgarinnar sé könnuð? Það skyldi þó ekki vera það sem sagt hefur verið og hún neitað að baklandið sé brostið, hafi í reynd aldrei verið fyrir hendi? Óneitanlega lítur þetta svona út í augum almennings. Af hverju annars ætti að draga málið til baka og láta ekki reyna á það? Það blasir alveg við hvernig staðan er. Borgarstjóri þorir ekki að setja eigin viljayfirlýsingu í dóm borgarstjórnar. Það staðfestir óneitanlega mikinn vandræðagang og ekki síður klofning innan meirihlutans í málinu. Meirihlutinn hefur oft verið veikur og staðið veikt en þetta mál staðfestir sundrunguna með mjög afgerandi hætti, tel ég. Reyndar er kostulegt að fylgjast með tilraunum borgarstjóra til að reyna að spila sig stærri í málinu en hún er, þegar við blasir að hún hefur ekkert fast bakland í málinu.
Tilkynnt var í gær að Sjóvá og Íslandsbanki hefðu keypt svokallaðan hugverkasjóð tónlistarmannsins Bubba Morthens. Er þetta í fyrsta skipti sem slík viðskipti eiga sér stað hér á landi. Fyrirmyndin að þessum samningi er Pullman-samningurinn svokallaði, sem stjörnur á borð við Rolling Stones, Elton John og David Bowie hafa gert í samvinnu við alþjóðleg fjármála- og viðskiptafyrirtæki seinasta áratuginn. Nær þessi samningur til ævistarfs Bubba á sviði tónlistar. Hefur hann nú gefið út 52 plötur á 25 árum, rúmlega 530 lög. Samningurinn er metinn á tugi milljóna króna. Ferill Bubba er óneitanlega mjög glæsilegur og er Bubbi einn afkastamesti tónlistarmaður í sögu þjóðarinnar. Áformað er að hinn nýstofnaði hugverkasjóður verði í reynd eignatryggingarsjóður og er því stefnt að því að hugverk Bubba á tónlistarsviðinu renni í þann sjóð á vissum árafjölda. Með þessu eignast fyrirtækin vissan rétt á lögum hans, en hann mun eftir sem áður hafa lokaorð um listalega framsetningu þeirra og útgáfurétt. Bubbi hefur til fjölda ára verið einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum. Fáir íslenskir tónlistarmenn hafa náð betur að verða þjóðareign. Lög hans og textar sem eru flest ódauðleg í flutningi Bubba hafa öðlast sess meðal þjóðarinnar.
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, varð fyrir miklu pólitísku áfalli í gær þegar neðri málstofa breska þingsins greiddi atkvæði um frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Ríkisstjórnin hefur öruggan meirihluta á þinginu, rúmlega 160 sæta meirihluta, svo margir töldu málið öruggt og myndi fara í gegn með litlum látum. Þau sögulegu tíðindi gerðust að tugir þingmanna flokksins hlupust undan merkjum og greiddu atkvæði gegn því. Að lokum var frumvarpið samþykkt með aðeins 53 þingsæta meirihluta, sem þykir lítið þegar um mikilvægt stjórnarfrumvarp í forsætisráðherratíð Blair er að ræða. Eins og fram hefur komið í fréttum er frumvarpið mjög umdeilt vegna þess að með því er innanríkisráðuneyti Bretlands í raun heimilað að úrskurða meinta hryðjuverkamenn í stofufangelsi án allra atbeina dómstóla. Nú fer málið fyrir lávarðadeildina. Má búast við mikilli andstöðu þar og jafnvel að málið verði svæft þar eða breytt stórlega frá fyrri samþykkt. Staða mála þykir mikill álitshnekkir fyrir Charles Clarke innanríkisráðherra, sem tók við embættinu af David Blunkett, sem sagði af sér undir lok síðasta árs. Að auki þykir staða mála auðvitað segja margt um sífellt veikari stöðu forsætisráðherrans, nú í aðdraganda kosninga og valdaátök á bakvið tjöldin innan Verkamannaflokksins.
Í dag, 1. mars, eru 16 ár liðin frá því að sala á sterkum bjór, var leyfð á Íslandi. Innflutningur og sala á bjór var bönnuð með lögum árið 1915, bannið var því í gildi í 74 ár. Frumvarp um afnám bjórbannsins var samþykkt á Alþingi að kvöldi 9. maí 1988. Oft hafði fram að því verið lagðar fram tillögur á þingi um afnám bannsins en alltaf tókst andstæðingum þess, að sala á áfengu öli yrði heimiluð að nýju, að stöðva framgang breytinganna. Loks tókst að ná þingmeirihluta um málið í kjölfar þingkosninganna 1987 og frumvarpið varð að lögum eins og fyrr segir vorið 1988. Ólíkt því sem nú er voru deildir þingsins þá tvær, efri og neðri deild, og tafði það afgreiðslu málsins að ekki var víst um stuðning í annarri deildinni. Atkvæðagreiðsla um bjórinn varð þó ekki eins tvísýn og búist hafði verið við í upphafi. Bjórfrumvarpið í heild var samþykkt í efri deild þingsins með 13 atkvæðum gegn átta. Fyrir ári, er 15 ár voru liðin frá þessum mikla merkisdegi, ritaði ég ítarlegan pistil í tilefni dagsins og fór yfir bjórmálið. Bendi ég á þau skrif og ekki síður góða samantekt sem ég setti á vef SUS í fyrra til að minna á ummæli andstæðinga bjórsins á sínum tíma. Lítið á þetta!
Var bæjarmálafundur í gærkvöldi. Fórum við þar yfir bæjarmálin og það sem er að gerast almennt í pólitíkinni í bænum og það sem um er að vera. Áttum gott spjall um stöðu mála og fórum yfir stjórnmálaumræðuna almennt. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar kynntu málefni sem verða til umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag. Eru það fá hitamál sem eru í umræðunni en margt er framundan. Kom heim um tíuleytið. Horfði þá á klippta endursýningu Stöðvar 2 frá Óskarsverðlaunahátíðinni í Los Angeles. Var gaman að fylgjast með þessari klipptu útgáfu. Jafnast þó auðvitað ekkert á við að horfa á þetta í beinni og útsendinguna frá upphafi til enda. Í samanklipptri útgáfu detta alltaf einhverjir gullmolar kvöldsins út og var þetta skiptið engin undantekning. Í gær benti ég á pistil minn og samantekt um Óskarinn að þessu sinni. Eitthvað klikkaði tengillinn eða uppsetning mín svo hann virkaði ekki lengst af. En ég birti slóðina aftur hér svo þeir sem vilja lesa og hafa áhuga á að kynna sér pistilinn geti lesið hann.
Saga dagsins
1964 Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, lést á Akureyri, 69 ára að aldri - Davíð var eitt af bestu ljóðskáldum Íslendinga, hann var talinn vinsælastur og mikilvirkastur sinna samtímaskálda. Fyrsta ljóðabók Davíðs, Svartar fjaðrir, kom út í desember 1919. Hann samdi átta ljóðabækur á löngum ferli og skrifaði að auki skáldsögur og nokkur leikrit. Davíð var gerður að heiðursborgara Akureyrarbæjar á sextugsafmæli sínu, árið 1955. Davíð byggði sér íbúðarhús að Bjarkarstíg 6, hér á Akureyri. Við andlát hans var það ánafnað Akureyrarbæ. Þar er safn til minningar um skáldið, verk hans og feril
1970 Ísland varð formlega aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA - aðildin var samþykkt 1969
1988 Skylt varð að aka með ljósum allan sólarhringinn, samkvæmt nýjum umferðarlögum. Ennfremur varð heimilt að sekta fyrir vanrækslu á notkun bílbelta í framsæti - tók gildi með alla farþega 1996
1989 Bjórdagurinn - framleiðsla og sala á áfengu öli var leyfð eftir 74 ára hlé. Bjórfrumvarpið var samþykkt á Alþingi í maí 1988 og markaði mikil þáttaskil. Bölspár andstæðinga bjórsins rættust ekki
1991 Vigdís Finnbogadóttir þáv. forseti Íslands, opnaði göngin gegnum Ólafsfjarðarmúla - var um að ræða mikla samgöngubót fyrir íbúa Ólafsfjarðar, enda hafði vegurinn um Múlann verið hættulegur
Snjallyrðið
Komið allir Caprisveinar
komið, sláið um mig hring
meðan ég mitt kveðjukvæði
um Catarinu litlu syng.
Látið hlæja' og gráta af gleði
gítara og mandólín.
Catarina, Catarina,
Catarina er stúlkan mín.
Með kórónu úr Capriblómum
krýndi hún mig hinn fyrsta dag.
Af hæsta tindi hamingjunnar
horfðum við um sólarlag.
Þar dönsuðum við tarantella
og teygðum lífsins guðavín.
Catarina, Catarina,
Catarina, stúlkan mín.
En nú verð ég að kveðja Capri
og Catarinu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar,
einn, um næsta sólarlag.
Grátið með mér gullnu strengir,
gítarar og mandólín.
Ó, Catarina, Catarina,
Catarina, stúlkan mín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Capri Catarina)
Kata hefði orðið þrítug í dag. Vil ég tileinka henni þetta snjallyrði meistara Davíðs frá Fagraskógi.
<< Heim