Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 mars 2005

RíkisútvarpiðHeitast í umræðunni
Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, gaf í dag út frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt er að Auðun Georg Ólafsson markaðs- og sölustjóri, hefði verið ráðinn fréttastjóri Útvarps. Kom sú niðurstaða í kjölfar fundar útvarpsráðs í gær þar sem meirihluti útvarpsráðs mælti með Auðuni í stöðuna. Áður hafði félag fréttamanna og Blaðamannafélag Íslands sent frá sér yfirlýsingar þar sem niðurstöðu útvarpsráðs var mótmælt og útvarpsstjóri beðinn um að hafa fagleg sjónarmið í huga við ákvörðunartöku um nýjan fréttastjóra. Á fjórða tímanum í dag sendi útvarpsstjóri svo frá sér yfirlýsingu sína, eftir að hafa hugleitt málið í rúman sólarhring.

Óhætt er að fullyrða að ákvörðun útvarpsstjóra hafi vakið ólgu meðal fréttamanna á fréttastofu Útvarps. Mjög er deilt um hæfni Auðuns Georgs í stöðuna og ekki allir á eitt sáttir um að hann hafi verið ráðinn til starfans. Á það er bent réttilega að hann hefur langt í frá mesta starfsreynslu umsækjenda á sviði fréttamennsku. Hann vann í nokkur ár hjá fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, en hefur annars unnið mest á sviði rekstrarmála. Greinilegt er að sú reynsla er metin mun frekar en störf að fjölmiðlamálum, sem fyrirfram mætti búast við að yrði aðalhluti starfs nýs fréttastjóra. Það er vissulega stórundarlegt að fagleg reynsla hafi ekki meira að segja við lokaákvörðun.

Það er mitt mat, og þetta segi ég sem áhorfandi að fjölmiðlum á daglegum basis, að fréttastjóri sé faglegur stjórnandi fréttamennsku en ekki baunateljari, eins og mögulega má orða það. Ég er undrandi á þessari ákvörðun og er andvígur henni í öllum meginatriðum. Í mínum huga hefur alltaf skipt mestu að fréttastjóri á ríkisfjölmiðlunum hafi að baki langan feril að fréttamennsku og helst þá ef mögulegt er stjórnunarreynslu á slíku sviði. Margir umsækjendur uppfylltu frekar þau skilyrði en sá sem ráðinn var til starfans. Það sem ég vil fá fram og vonandi kemur upp í umræðu næstu daga er tvennt: Í fyrra lagi: eru menn að breyta eðli yfirmannsstöðu fréttamiðla RÚV? Í seinna lagi: skiptir engu máli hver fyrri störf umsækjenda á sviði fréttamennsku eru? Þetta er það sem stendur eftir og þeir punktar sem ég er að tala um og legg til áherslu í málinu.

Til þessa hafa verið ráðnir einstaklingar sem hafa unnið til fjölda ára hjá fjölmiðlum og jafnvel verið stjórnendur á öðrum miðlum, besta dæmið um það er Elín Hirst fréttastjóri Sjónvarps, sem var áður fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar og ennfremur DV, áður en hún var ráðin til starfa hjá RÚV árið 2002. Þessi niðurstaða mála er faglegt kjaftshögg framan í reynt fólk sem unnið hefur hjá stofnuninni til fjölda ára. Nægir þar að nefna Hjördísi Finnbogadóttur, Óðin Jónsson og Jóhann Hauksson. Að mínu mati varð minnihluti útvarpsráðs sér að athlægi í gær með því að kasta frá sér tækifærinu til að koma öðru nafni upp í pottinn svo útvarpsstjóri gæti unnið úr. Þeirra skömm er algjör í málinu og þeir hafa dæmt sig frá því. En eftir stendur þó grunnur málsins: þessi ákvörðun er með öllu óskiljanleg og staðfestist enn og aftur hvað útvarpsráð og allt skipulag mála hjá þessari stofnun er gjörsamlega orðið úrelt.

Bobby FischerSkákmeistarinn Bobby Fischer er 62 ára í dag. Ekki varð mikið um hátíðarhöld vegna afmælisins, enda er hann enn í varðhaldi í Japan. Sú niðurstaða mála að veita honum dvalarleyfi á Íslandi og útlendingsvegabréf mun ekki duga að því er virðist. Japönsk yfirvöld hafa synjað beiðni skákmeistarans og lögmanns hans um að hann verði látinn laus á grundvelli þess að hann hefur fengið vegabréf. Mun sú ákvörðun vera byggð á því að hann er ríkisfangslaus og því auðvitað í mjög undarlegri stöðu. Japönsk yfirvöld líta ennfremur enn á Fischer sem bandarískan ríkisborgara, þó slitið hafi verið á þau bönd vissulega. Fischer á ógerð mál við bandarísk yfirvöld og því er litið svo á að það sé ekki hægt að sleppa honum með þau ófrágengin. Það er eiginlega með ólíkindum að ákvörðun Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um að veita Fischer dvalarleyfi hér og vegabréf sem staðfestir það, sé ekki nægjanleg til að honum sé sleppt úr haldi. Það er merkilegt hvernig japanska kerfið vinnur.

Viðbúið er að nú verði háværar raddir þess efnis að veita skuli Fischer íslenskan ríkisborgararétt. Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni og finna misskilning fólks á stöðu málsins. Hef ég rætt við marga sem líta á þetta sem eitt og sama málið. Dvalarleyfisveitingin og ríkisborgararéttur eru tvö aðskilin mál, á því leikur enginn vafi. Um þetta tvennt verður að sækja um með aðskildum hætti og veiting dvalarleyfis er ekki sjálfkrafa ávísun á íslenskan ríkisborgararétt. Eins og flestallir vita stenst skákmeistarinn ekki skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar, enda verður skv. lögum viðkomandi að hafa búið hérlendis í fimm ár og hafa hreint sakavottorð. Því getur aðeins þingið samþykkt undanþágu fyrir Fischer. Ég hef margoft tjáð skoðanir mínar á þeim hluta málsins sem víkur að því hvort koma eigi til greina að þingið veiti Fischer ríkisborgararétt. Ég er því algjörlega andsnúinn og mun mótmæla því, ef til þess kæmi, með greinaskrifum. Ég er almennt séð ekki mjög hlynntur því að veita undanþágur frá lögum um ríkisborgararétt með þessum hætti. Það er bara svo einfalt, ég sé enga ástæðu til að veita manni sem ekki hefur komið hingað í 33 ár undanþágu.

Punktar dagsins
Akureyri - ekkert er fallegra en Eyjafjörðurinn

Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktanir á fundi sínum í gærkvöldi:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með viljayfirlýsingu þá sem bæjarstjórinn á Akureyri, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa undirritað um breytt eignarhald á Landsvirkjun. Er að mati félagsins jákvætt skref að ríkið leysi með þessu til sín eignarhluta sveitarfélaganna í fyrirtækinu. Fram hefur komið vilji til þess að í kjölfarið verði Landsvirkjun hlutafélagavædd. Vörður lýsir yfir stuðningi sínum við þær hugmyndir og hvetur til einkavæðingar á sviði orkuiðnaðar.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur hugmyndir um nýtingu Sjallareitsins mjög mikilvægar til að efla miðbæinn. Enginn vafi er á því að væntanlegar byggingatillögur, sem gera ráð fyrir tveggja hæða verslunar og bílageymsluhúsi og að auki þrem 14 hæða íbúðaturnum, muni efla hjarta bæjarins. Vörður hefur í fyrri ályktunum lýst yfir stuðningi við háhýsi í miðbænum og telur rétt að stefna að því að þétta byggð á miðbæjarsvæðinu. Félagið telur þessar hugmyndir mjög vænlegar og vel til þess fallnar að efla miðbæinn í samræmi við verkefnið Akureyri í öndvegi. Vill félagið ennfremur lýsa yfir ánægju með hversu margir tóku þátt í hugmyndasamkeppni samhliða fyrrnefndu verkefni en tæplega 140 tillögur bárust, víðsvegar að úr heiminum.

ISG

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi, tilkynnti formlega í dag um framboð sitt til formennsku Samfylkingarinnar og skilaði inn framboði til kjörstjórnar flokksins. Formannskjör í Samfylkingunni hefst formlega í næsta mánuði og kjörgengir eru allir flokksmenn. Kjörið fer fram í póstkosningu og verður tilkynnt um úrslit á landsfundi Samfylkingarinnar, sem verður haldinn 20. - 22. maí nk. Er þetta í annað skipti í sögu flokksins sem formannskjör fer fram í póstkosningu. Fyrsta skiptið var við stofnun flokksins árið 2000 þegar Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður og sigraði Tryggva Harðarson núverandi bæjarstjóra á Seyðisfirði. Kynnti Ingibjörg formlega um áherslur sínar í formannsslagnum og opnaði jafnframt kosningaskrifstofu og heimasíðu á netinu. Ljóst er að Ingibjörg leggur allt í slaginn og setur allt sitt undir. Er ljóst að stefna hennar er að leiða flokkinn í ríkisstjórn. Sagði hún reyndar í blaðaviðtali í janúarmánuði að það væri það sem eina sem flokkurinn ætti að stefna að: völd eða ekkert, voru hennar lykilorð þá. Hafa þau kjörorð annars alltaf fylgt henni. Þessi slagur er merkileg lífsreynsla fyrir Ingibjörgu, enda er þetta í fyrsta skipti sem hún þarf að heyja kosningabaráttu gegn pólitískum samherja sínum. Fer hún fram gegn Össuri, sitjandi formanni og pólitískum skoðanabróður og fjölskyldufélaga til fjölda ára. Verður fróðlegt að fylgjast með formannsslag svilanna.

ESB

Mjög athyglisvert var að heyra í gær af því að Evrópusambandið hefði í hyggju að stofna til jafnréttisstofu. Samkvæmt fréttatilkynningu ESB er ætlunin með henni að fylgjast með launamun kynjanna í aðildarlöndunum 25. Það er mat framkvæmdastjórnar ESB að launamunurinn sé stór þáttur í stöðnun efnahagslífsins, og stuðli að því jafnvel að konur eignist ekki börn. Mun það verða markmið væntanlegrar jafnréttisstofu að auka réttindi kvenna á vinnumarkaði almennt. Kemur fram að konur í ESB-löndunum fá að meðaltali 16% lægri laun en karlar í sömu vinnu. Það er ólíðandi á okkar tímum að kynin fái ekki sömu laun fyrir sambærileg störf. Ég hef kynnst því í störfum jafnréttis- og fjölskyldunefndar Akureyrarbæjar hversu mikilvægt er að horfa til framtíðar og vinna gegn þessum launamuni. Hef ég seinustu mánuði farið á margar ráðstefnur og kynnt mér stöðu málaflokksins. Það er gagnlegt að fræðast um jafnréttismálin. Sérstaklega vil ég færa Katrínu Björgu Ríkarðsdóttur jafnréttisráðgjafa bæjarins, miklar þakkir fyrir þær upplýsingar sem hún hefur tekið saman um þessi mál. Katrín hefur haldið vel á málum og verið mjög kraftmikil í sínu starfi og það er mjög gott að geta leitað til hennar með þær upplýsingar sem skipta máli.

Cinema Paradiso

Hefur verið mikið að gera hjá mér seinustu daga. Var langur fundur hjá mér á mánudagskvöldið og í gær var fundur seinnipartinn og svo tók við annar fundur í Kaupangi í gærkvöldi. Það er því ekki laust við að ég hafi verið nokkur þreyttur þegar loks var heim komið seint á ellefta tímanum í gærkvöldi. Ákvað ég að horfa á eina af mínum uppáhaldskvikmyndum. Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri - við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig og tónlist meistara Ennio Morricone í myndinni er sérstaklega eftirminnileg, eins og öll hans verk. Uppúr stendur Love Theme sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar, hvorki meira né minna.

Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna. Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en sjónvarpið drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni - hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd. Þessa verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá!

Saga dagsins
1700 Góuþrælsveðrið - í þessu mikla aftakaveðri fórust alls 15 skip og með þeim alls 132 sjómenn
1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík - þeim var stjórnað af Róbert Abraham Ottóssyni. 9. mars 1950 telst formlegur stofndagur hljómsveitarinnar
1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK, lést, 92 ára að aldri - hann var einn öflugasti kristniboðsleiðtogi landsins á 20. öld og stofnaði t.d. íþróttafélagið Val í Reykjavík
1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu - 57% kjósenda samþykktu tillöguna. Miklar deilur hafa alla tíð verið vegna stöðu mála og óeirðir allmiklar
1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði - skipverjar höfðust við í flotgöllum í tvær klukkustundir. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, bjargaði 10 skipverjum en 2 létust

Snjallyrðið
Always vote for principle, though you may vote alone, and you may cherish the sweetest reflection that your vote is never lost.
John Quincy Adams forseti Bandaríkjanna (1767-1848)