Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 mars 2005

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Í dag var birt í Morgunblaðinu ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar á fylgi flokkanna. Sú könnun sýnir merkilegt landslag í stjórnmálunum að mínu mati. Er reyndar mjög merkilegt að fara yfir þær tölur sem hún sýnir og stöðu mála almennt. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 39,3% (það var 33,7% í þingkosningunum 2003). Er þessi niðurstaða mjög ánægjuleg. Allar skoðanakannanir seinustu vikurnar hafa sýnt að fylgi Sjálfstæðisflokksins er á nokkurri uppleið og er flokkurinn aftur að mælast með styrkleika á við það sem kom upp úr kjörkössunum í alþingiskosningunum 1999, þegar flokkurinn vann einn sinn sögulegasta kosningasigur. Er enginn vafi á því í mínum huga að skattalækkanirnar og fundaferð okkar sjálfstæðismanna í upphafi ársins sé að skila okkur meira fylgi og sterkari fylgisstöðu. Við sjálfstæðismenn fundum vel á fundaferðinni að mikill meðbyr er með okkur og stefnu okkar. Gafst okkur þar gott færi á að fara yfir skattalækkunartillögurnar og jafnframt ræða við fólk um stöðu mála almennt heima í héraði hjá fólki. Þingmenn fóru um landið og var þeim dreift í önnur kjördæmi. Var það gott tækifæri fyrir þá til að kynna sig og kynnast aðstæðum fólks úti á landi. Skattamálin eru okkar lykiltromp og því ánægjulegt að kynna stöðu mála og efndir kosningaloforða okkar í skattamálunum.

Fróðlegt er að líta svo á hina flokkana. Samfylkingin tekur væna dýfu frá fyrri könnunum og mælist með 25,5%. Eflaust eru þær tölur þeim svilum Össuri og Ingibjörgu eitthvað umhugsunarefni meðan á formannsslag þeirra stendur í sviðsljósi fjölmiðlanna. Eflaust er það þó stefnan (eða kannski mun frekar stefnuleysið) og sá krappi dans sem þar er stiginn sem er ástæða stöðu mála hjá þeim í þessari könnun. VG bætir verulega við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 16,5% (en flokkurinn fékk 8,8% í kosningunum). Slöpp staða Framsóknarflokksins staðfestist enn og aftur í könnuninni en flokkurinn mælist með 12,5% en fékk 18% í kosningunum 2003. Eins og staða mála er orðin er ljóst að Framsóknarflokkurinn er að hrynja fylgislega séð. Með þetta fylgi eða eitthvað í námunda, innan við 15%, fer hann vart í ríkisstjórn á komandi árum. Það er því engin furða að allt logi þar í illdeilum og valdaátökum, svo eftir er tekið. Hef ég annars lýst þessu öllu hér á seinustu dögum. Um að gera að skrolla niður og lesa eldri skrif, sem segja allt af minni hálfu um þetta mál. Frjálslyndi flokkurinn fær 5,8% atkvæða, og er sem fyrr undir kjörfylginu 2003. Segja má að sá flokkur sé að dansa á línu þess sem bjargvænlegt er, enda 5% mark til að ná jöfnunarsætum á þingi. En eitt enn segir þessi könnun stjórnmálaáhugamönnum. ESB-sinnar færast með þessu órafjarri þingmeirihluta. Eru engin teikn um að nokkur þingmeirihluti standi að aðild, það blasir við. Pólitískur stuðningur við aðild er, nú sem fyrr, órafjarri. Það er vissulega mikið ánægjuefni að sjá þessa könnun, í mörgu tilliti.

DalvíkurbyggðBæjarstjórn Dalvíkurbyggðar tók þá erfiðu og sársaukafullu ákvörðun á þriðjudag að loka Húsabakkaskóla í Svarfaðardal frá og með næsta skólaári. Með þessu lýkur langri sögu skólans. Sú ákvörðun var nauðsynleg. Staða sveitarfélagsins er með þeim hætti að fólk verður að horfa framan í stöðuna þar og gera upp við sig hvort standa eigi vörð um heildina eða ekki. Það verður að horfa til heildarinnar í málinu. Einfalt er það í huga meirihlutans á Dalvík. Þekki ég vel til mála á Dalvík, þekki bæjarfulltrúa þar mjög vel og fólk almennt og hef kynnt mér skýrslu um stöðu skólanna og fleira. Veit ég því mjög vel hvaða kostir voru í stöðunni fyrir bæjafulltrúa þar. Meirihlutinn varð umfram allt að horfast í augu við það og bregðast við með þeim eina hætti sem var í stöðunni. Svarfaðardalur og Árskógsströnd sameinuðust Dalvík í sveitarfélagið Dalvíkurbyggð árið 1998. Frá þeim tíma hafa skólar verið á öllum þremur stöðunum en seinustu ár hefur skólinn á Dalvík sífellt verið styrktur með hliðsjón af því að hagkvæmara sé að reka skóla þar. Nýleg úttekt á skólunum staðfesti með óyggjandi hætti að óhagkvæmt var að reka skóla í Svarfaðardal, 6 kílómetrum frá Dalvík.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu því fram tillögu um að leggja skólann niður en samstaða náðist ekki innan Framsóknarflokksins um framtíðina. Var tillagan samþykkt að lokum með 5 af 7 atkvæðum meirihlutans, en 4 greiddu atkvæði gegn, þar af tveir bæjarfulltrúar Framsóknar í meirihlutanum sem fyrr eru nefndir. Eftir krísuna í meirihlutanum undir lok seinasta árs var skipaður vinnuhópur til að vinna að málinu og niðurstöðu þess. Niðurstaða hans var afgerandi, ekki væri hagkvæmt að reka skólann. Verða skólarnir þrír sameinaðir í einn og skóladeild í Svarfaðardal lokað en sú á Árskógsströnd starfrækt áfram, en undir stjórn frá Dalvík. Grunnpunktur í þessu máli var að fólk þurfti að horfast í augu við staðreyndir um rekstur skólanna í Dalvíkurbyggð, en gat ekki lifað á tilfinningalegum rökum. Það voru engin rök nema tilfinningaleg lengur með skólarekstri í Svarfaðardal, svo einfalt var það. Eins og staða sveitarfélagsins var orðin eftir 8 ára valdaferil Framsóknar og vinstri manna 1994-2002 varð að gera eitthvað róttækt. Er sjálfstæðismenn fóru í meirihluta með Framsókn árið 2002 blasti við sviðin jörð. Skil ég mótmæli foreldra og nemenda í vikunni - það er alltaf erfitt að breyta því sem fyrir er og fólk hefur tryggt í hendi, en stundum er það nauðsynlegt. Komi til sameiningarkosninga hér í firðinum er grunnatriði þess að ég samþykki slíka sameiningu að sveitarfélögin reyni eftir fremsta megni að taka til í fjármálum sínum. Það gera Dalvíkingar núna og það er mikilvægt. Ég vil hrósa meirihlutanum út með firði fyrir það að taka af skarið þar.

Punktar dagsins
Akureyri

Fjölmennasta íbúaþing í sögu landsins, Akureyri í öndvegi, var haldið hér á Akureyri í september 2004. Komu þar saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að miklu framfaramáli: að móta hugmyndir til að efla hjarta okkar góða bæjar. Þar var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Niðurstöður þingsins voru nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni. Í dag voru niðurstöður í því kynntar. Alls bárust um 140 tillögur víðsvegar úr heiminum í hugmyndasamkeppnina. Niðurstöður hennar verða formlega kynntar á sumardaginn fyrsta, undir lok næsta mánaðar. Þetta er mun meiri þátttaka en búist hefði verið við og á sér enga hliðstæðu hér á landi í sambærilegri keppni. Ljóst er að dómnefndin á mikið verk fyrir höndum. Í henni munu sitja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Árni Ólafsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir skipulagsfræðingur og landslagsarkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Þorvaldur Þorsteinsson listamaður og forseti Bandalags íslenskra listamanna. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og kynna sér niðurstöðurnar formlega í næsta mánuði.

Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Fróðlegt var að sjá Ísland í dag í gærkvöldi. Var sýnt frá því er umsjónarmaður þáttarins fór í Háskólann, framhaldsskóla og Kringluna og ræddi við ungt fólk. Voru þeim sýndar myndir af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og áttu þau að giska á um hverja væri að ræða. Þekktu nær allir Davíð Oddsson utanríkisráðherra, og einn mundi ekki hvað hann gerði en hann væri þó yfirgaurinn! ;) Þó voru ekki allir vissir á hvaða starfi hann gegndi. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, var frekar óþekktur íslenskri æsku og náðu ekki allir að nefna hann eða hvað hann gerði. Sumir héldu reyndar að Halldór væri í Sjálfstæðisflokknum! Þegar dregin var upp mynd af Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra, tók ekki betra við. Verð ég að viðurkenna að ég tók mikið hláturskast þegar það gerðist að tveir rugluðust á henni og Sólveigu Pétursdóttur fyrrum dómsmálaráðherra, og margir héldu reyndar að Valgerður væri semsagt dómsmálaráðherra. Ein hélt að hún væri femínisti :) Alveg kostulegt. Það besta kom undir lokin er mynd af Árna Magnússyni félagsmálaráðherra, var dregin upp. Einn taldi að hér væri kominn Mörður Árnason og talaði hann um að Mörður væri sko framsóknarmaður! Alveg kostulegt, hvet alla til að horfa á þessa klippu. En óneitanlega vekur þetta margar spurningar um hversu vel ungt fólk í dag er inní stjórnmálunum. Frekar döpur staða mála að mínu mati.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tilnefndi í dag fimm einstaklinga sem svokallaða umboðsmenn Akureyrar fyrir árið 2005. Að þessu sinni urðu fyrir valinu: Svanhildur Hólm Valsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jóhannes Jónsson, Margrét Blöndal og Vilhelm Anton Jónsson. Tilefnið með þessu er að mati bæjarins að vekja athygli á því góða fólki sem sé eða hafi verið búsett í bænum og eins að fagna miklum uppgangi í sveitarfélaginu á síðasta ári. Unnið hafi verið markvisst að markaðssetningu bæjarins á síðustu árum og marki skipun umboðsmannanna upphaf nýrrar herferðar þar sem verði meðal annars lögð áhersla á þann árangur sem náðst hafi og bjartar horfur fram undan. Í fréttatilkynningu bæjarins kemur fram að gott dæmi um vöxt bæjarins sé að í ársbyrjun 1998 hafi Akureyringar verið rétt rúmlega 15.000 en 28. febrúar sl. hafi þeir verið orðnir 16.541. Hafði þeim þá fjölgað um tæplega 100 frá 1. desember 2004, eða á tveggja mánaða tímabili. Það er nokkuð óvanalegt, og mikið gleðiefni. Svo er gaman að segja frá því að á síðasta ári var hafin smíði um 200 íbúða á Akureyri og þar af voru svo fullgerðar um 100 íbúðir alls. Aldrei hefur verið hafist handa við fleiri byggingar í bænum á einu ári og árið 2004. Árið 1997 voru 52 íbúðir fullgerðar. Ástandið hér er mjög gott - tölurnar tala sínu máli. Er það ekki annars? Held það nú.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra

Klukkan 20:00 í kvöld verður opinn fundur um samgöngumál á Hótel KEA sem Sjálfstæðisfélag Akureyrar stendur fyrir. Á fundinum mun Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, hafa framsögu. Um nóg er að tala þegar samgöngumál eru annarsvegar. Málefni Héðinsfjarðarganga, Norðurvegs og Vaðlaheiðarganga ber þar eflaust hæst. Mun verða að öllum líkindum mjög fróðleg og öflug umræða um samgöngumálin. Er mjög gott að fá Sturlu í heimsókn hingað og fá tækifæri til að ræða þessi mál almennt. Má búast við kraftmiklum og góðum fundi. Hvet alla Eyfirðinga til að líta á fundinn og ræða samgöngumálin við samgönguráðherrann.

Saga dagsins
1943 Leikkonan Greer Garson hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mrs. Miniver - hún hélt lengstu þakkarræðu í Óskarssögunni, 7 mínútna langa, er hún tók formlega við verðlaununum
1965 Kvikmyndin The Sound of Music var frumsýnd í Los Angeles - myndin sló öll aðsóknarmet og hlaut 5 óskarsverðlaun, t.d. sem besta kvikmynd ársins. Einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar
1991 Lögreglumenn í Los Angeles réðust á blökkumanninn Rodney King - leiddi til allmikilla óeirða
1997 Söngkonan Björk Guðmundsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs í Osló-borg
2003 Davíð Oddsson sagði í viðtali hjá RÚV að sér hefðu verið boðnar mútur af Baugi - ummælin lét Davíð falla í morgunþættinum Morgunvaktinni á Rás 1. Davíð var með þessu að svara fyrir harkalegar árásir Baugs, Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar að honum í kosningabaráttunni til þings árið 2003

Snjallyrðið
If you always do what interests you, at least one person is pleased.
Katharine Hepburn leikkona (1907-2003)