Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

02 mars 2005

Davíð Oddsson utanríkisráðherraHeitast í umræðunni
Eins og ég sagði á vefnum hér í gær var ESB-ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í raun hvorki fugl né fiskur. Ekkert nýtt kom þar fram, sem ekki hafði legið fyrir áður. Stuðningsmenn aðildar, með formann flokksins í fararbroddi, urðu að láta í minni pokann fyrir andstæðingum aðildar með áþreifanlegum hætti. ESB-kafli utanríkismálahluta ályktunarinnar varð sífellt bitlausari eftir því sem leið á flokksþingið og niðurstaðan varð órafjarri upphaflegum pælingum. Var óneitanlega skondið að fylgjast með þessu flokksþingi og hvernig þetta þynntist sífellt út. Segja má að sigurvegarar málsins hafi verið þeir sem töluðu hvað harðast gegn aðild allt þingið, þeir Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins, Steingrímur Hermannsson fyrrum forsætisráðherra og formaður flokksins, og Páll Pétursson fyrrum félagsmálaráðherra. Mjög skondið var að heyra Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kalla þessa ályktun tímamót á flokksþinginu. Ómögulegt er að sjá hverslags tímamót hún boðar í stjórnmálum hérlendis. Engin breyting varð á málinu af hálfu flokksins, nema þá það að andstaðan við aðild innan hans varð mun skýrari en áður hefur verið.

Ánægjulegt var að heyra í dag ummæli Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um útkomu ESB-hluta ályktana Framsóknar. Eins og við má búast segir hann engin tímamót í Evrópumálum. Það blasir enda við að það er rétt, engin ný ákvörðun var tekin í málinu á þessu flokksþingi. Engin stefnubreyting hefur orðið í stjórnarflokkunum né í ríkisstjórn. Sagði hann að sér vitanlega hefði ekkert nýtt hafi gerst, svo framarlega sem hann sjálfur væri enn læs. Þetta er alveg ljóst. Eins og allir vita, ef undan eru skildir nokkrir höfuðborgarframsóknarmenn í málefnanefndum flokksins fyrir flokksþingið, er málið ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarsáttmálinn, sem gilda mun að öllu óbreyttu til vorsins 2007 er þingkosningar eiga að fara fram, gerir ekki ráð fyrir aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Það væri því brot á stjórnarsáttmálanum að stefna lengra en það. Hvað gerist eftir 2007 er alls óvíst. Það blasir þó við að ekki er þingmeirihluti fyrir aðildarviðræðum, né stefnir í það ef skoðanakannanir verða að kosningaúrslitum. Ekki er hægt að sjá með afgerandi hætti hvernig þingmeirihluti gæti myndast um þessa stöðu mála. Hann er ekki til staðar. Málið er því statt þannig á íslensku stjórnmálasviði og innan Framsóknarflokksins að aðild er ekki raunverulegur möguleiki. Reyndar er alls óvíst hvort ESB verði kosningamál í þingkosningunum árið 2007. Vissir aðilar vildu gera ESB að kosningamáli árið 2003, en það var lítil sem engin umræða fyrir þær kosningar. Framsókn á eflaust í vændum mikil átök um þetta mál á komandi árum, enda er flokkurinn tvískiptur í afstöðu sinni til málsins. Kom þetta vel í ljós á flokksþinginu og kemur enn betur fram fyrir næstu kosningar ef Framsókn gerir ESB að kosningamáli næst.

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherraValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, lagði í dag fram á Alþingi, frumvarp til samkeppnislaga. Í því er lagt til að ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, verði sett á fót. Er henni ætlað að taka við verkefnum og hlutverki Samkeppnisstofnunar og ennfremur stórum hluta verkefna samkeppnisráðs. Í öðru frumvarpi, sem Valgerður lagði fram samhliða í dag er gert ráð fyrir stofnun svokallaðrar Neytendastofu, sem mun verða ríkisstofnun sem hefur það hlutskipti að starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, opinberrar markaðsgæslu, vöruöryggismála, rafmagnsöryggismála og mælifræði. Fram kemur í frumvarpinu um stofnunina að áætlað sé að færa a.m.k. sex stöðugildi frá Samkeppnisstofnun, sem sinnt hafa neytendamálum og neytendaverkefnum, yfir til þessarar nýju Neytendastofu. Þá er stefnt að því að Neytendastofa taki við þeim verkefnum sem nú heyra undir Löggildingarstofu. Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa verða, í framhaldi þess að lögin verða samþykkt, formlega lögð niður.

Stefnt er að því að stofna nýtt embætti talsmanns neytenda, sem sinna á neytendamálum og vera opinber talsmaður málaflokksins. Í frumvarpinu um samkeppnislögin kemur m.a. fram á einum stað að það hafi verið samið með hliðsjón af tillögum starfshóps sem skipaður var á síðasta ári og gera átti tillögur um íslenskt viðskiptaumhverfis og skilaði tillögum sínum í ágúst 2004. Með frumvarpinu eru ennfremur breytingatillögur sem munu leiða af aðild okkar að EES-samningnum, sem samþykktur var í janúar 1993. Lagt er til í frumvarpi viðskiptaráðherra að Samkeppniseftirlitið fái skýrar lagaheimildir til þess að krefjast þess að fyrirtæki sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga breyti skipulagi sínu. Lögin munu taka gildi 1. júlí nk. og þá verða eldri stofnanir lagðar niður. Þetta frumvarp er mjög athyglisvert og fróðlegt, svo ekki sé meira sagt, að lesa það. Stofna á greinilega enn einn talsmann einhvers málaflokks og auka til muna aðkomu ríkisins beint að slíkum málum. Þetta er allt mjög kostulegt. Nær væri að minnka aðkomu ríkisins að þessum málum beint og leitast við að stokka stöðuna upp, frekar en að auka umfangið. Þetta er í takt við margt annað sem kemur frá þessum viðskiptaráðherra á starfstíma hennar í þessu ráðuneyti, seinustu fimm árin í ráðherratíð Valgerðar. Það væri óskandi að hún tæki sér meira tíma tíma í að vinna að því sem gerist í hennar kjördæmi.

Punktar dagsins
Dr. Condoleezza Rice

Davíð Oddsson utanríkisráðherra, ræddi varnarmálin í símtali við Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á mánudag. Kom fram í umræðum á þingi í dag að þau hefðu farið þar yfir framtíð varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og væntanlegar viðræður um hana. Ekkert hefur gerst í málinu eftir að forveri Condi, Colin Powell, lét af embætti í janúar. Tafðist málið vegna anna í bandaríska stjórnkerfinu. Nú er hinsvegar komið að því að viðræðurnar muni hefjast. Er stefnt að því að þau ræðist aftur við í næstu viku. Ekki þurfti Davíð að fræða ráðherrann um stöðu mála. Condi þekkir mjög vel til stöðu allra mála okkar. Hún er sérfræðingur í málefnum NATO og varnarmálum almennt á seinustu áratugum og þekkir því vel til allra aðstæðna tengdum Keflavík og hefur margoft rætt við helstu forystumenn á vettvangi íslenskra stjórnmála og sérfræðinga innan NATO með varnarviðbúnað almennt í Evrópu. Lykilatriði er að koma varnarmálunum í fastan farveg og eyða óvissu sem uppi hefur verið um framtíð F4 þotanna og varnarviðbúnaðar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Vonandi munu væntanlegar viðræður leiða til farsællar niðurstöðu.

Bobby Fischer

Íslensk sendinefnd er nú komin til Japans, til að láta reyna á hvort japönsk stjórnvöld muni sleppa skákmeistaranum Bobby Fischer úr haldi. Mun brátt reyna á hvort ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að veita honum landvistarleyfi komi honum að gagni. Sæmundur Pálsson, sem hefur verið vinur Fischers allt frá því að hann var hér á landi á heimsmeistaramótinu í skák í Reykjavík árið 1972, fór til Japans til að hitta hann og beita sér í málinu með fleirum. Í dag átti að heimsækja hann í varðhaldsbúðirnar þar sem hann er staddur. Babb kom skjótt í bátinn. Var Íslendingunum meinað að heimsækja hann og ræða við hann. Ljóst er að verða að það mun ekki vera áhlaupsverk að ná honum frá Japan, ef marka má tíðindi dagsins. Ef marka má fréttirnar í dag eru varðhaldsbúðirnar langt frá Tokyo þar sem Íslendingarnir búa. Það mun taka 5 tíma að fara þangað fram og aftur með lest og bíl. Skrifaði Sæmundur bréf til Fischer sem fangaverðirnir lásu og er fjarri því ljóst að Íslendingarnir hitti skákmeistarann á morgun. Er allt málið í óvissu og frekar dökkt yfir því. Óneitanlega eru sífellt minnkandi líkur á því að reyni á dvalarleyfið og Fischer fái að fara frá Japan, hingað til Íslands.

Alþingi

Í dag birtist góður pistill Steina á íhald.is. Þar fjallar hann um fyrirtæki í eigu ríkisins og þróun mála í því að stokka upp stöðu mála. Kemur þessi pistill hans í kjölfar skrifa minna þann 16. febrúar sl. á vefinn, þar sem ég fjallaði um eignarhlut ríkisins í hlutafélögum og einkahlutafélögum víðsvegar um landið. Birti ég þar langan lista með svari Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar alþingismanns. Sá listi hefur að ég veit komið mörgum á óvart og leitt til umræðu. Taldi ég rétt að skrifa um þessi mál og birti þessi skrif um miðjan febrúar. Vöktu þau nokkra athygli og fékk ég mörg komment á hann. Steini birtir nú pistil sem heldur áfram með umræðuna. Er það mjög nauðsynlegt og gott að lesa skrif hans um þetta. Hvet ég alla til að lesa pistil hans. Eins og vel hefur komið fram er það skoðun okkar beggja að það sé mjög brýnt hagsmunamál fyrir allan almenning að ríkið dragi sig í meira mæli út úr atvinnurekstri. Bendi á pistla okkar um þessi mál, mikilvægt að fólk kynni sér ennfremur svar ráðherra til Sigga Kára.

Elizabeth

Horfði á bæjarstjórnarfund í gærkvöldi. Hann var öllu lengri en síðast, eða rétt rúmir tveir tímar. Gerði Ingimar Eydal varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður náttúruverndarnefndar bæjarins, grein fyrir stöðu náttúruverndarmála og voru fróðlegar umræður í kjölfarið. Bæjarstjóri gerði grein fyrir þriggja ára áætlun Akureyrarbæjar, 2006-2008. Var áætlunin eftir umræður samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans. Var ennfremur rætt um sorpmálin, en ljóst er að brátt þarf að fara að taka ákvarðanir um framtíðarsorpurðunarstað. Eftir fundinn horfði ég á úrvalsmynd Shekhar Kapur, Elizabeth. Myndin hefst árið 1554. England hefur lotið stjórn hinnar kaþólsku Maríu drottningar sem er hatrammur andstæðingur mótmælenda í landinu. Þar sem hún á sjálf engin börn og þar með engan erfingja að krúnunni óttast fylgismenn hennar að eftir hennar dag nái hálfsystir hennar, Elísabet sem er mótmælandatrúar, völdum. Þeir hvetja því Maríu til að ákæra Elísabetu um landráð og láta taka hana af lífi. Af aftökunni verður þó ekki og þegar María deyr er Elísabet krýnd drottning aðeins 25 ára, árið 1558.

Krýningu Elísabetar fylgja miklar pólitískar hreinsanir því ráðgjafar hennar, þar á meðal hinn slóttugi Sir Francis Walsingham, ráðleggja henni eindregið að koma upp um óvini sína innan ríkisstjórnarinnar og láta taka þá af lífi. Smám saman tekst Elísabetu síðan að útrýma öllum helstu andstæðingum sínum og að lokum er hún orðin svo trygg í sessi að enginn sem er á móti henni þorir að láta mótmæli sín í ljós. Þegar Elísabet kemur næst fyrir sjónir almennings eftir hreinsanirnar hefur hún umbreytt sér í hina goðsagnakenndu meydrottningu, óárennileg, ósnertanleg og ósigrandi. Hér smellur allt saman til að skapa ógleymanlega kvikmynd; góð leikstjórn, fínt handrit, afbragðsgóð tónlist, fallegir búningar og glæsilegar sviðsmyndir, en aðall hennar er leikurinn í henni. Cate Blanchett er afbragðsgóð í hlutverki drottningarinnar og átti að hljóta óskarsverðlaun fyrir leik sinn. Hún hlaut verðlaunin loks í vikunni fyrir stórleik í hlutverki leikkonunnar Katharine Hepburn í The Aviator. Mögnuð mynd, sem allir áhugamenn um sögu og bresku krúnuna verða að sjá.

Saga dagsins
1940 Þýsk herflugvél réðst að togaranum Skutli frá Ísafirði - fyrsta árásin að íslensku skipi í stríðinu
1956 Bandarísk herflutningavél með 17 manns innanborðs hrapaði í sjóinn við Reykjanes - allir fórust
1957 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík vígð - tók 7 ár að byggja hana og var fyrsti hlutinn vígður 1953
1982 Bíóhöllin opnaði í Breiðholti - það rúmaði 1040 manns í sæti í sex sölum. Bíóhöllin þótti án vafa vera höll í kvikmyndamálum þá. Bygging hennar og opnun markaði þáttaskil í bíómálum hérlendis
2000 Augusto Pinochet fyrrum forseta Chile, var sleppt úr stofufangelsi í Bretlandi - Pinochet hafði verið haldið þar frá októbermánuði 1998, vegna afbrota sinna á valdatíma stjórnar sinnar, 1973-1990

Snjallyrðið
Life can only be understood backwards; but it must be lived forwards.
Søren Kierkegaard heimspekingur (1813-1855)