Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 mars 2005

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherraHeitast í umræðunni
Miklar umræður urðu á Alþingi í gær um ráðningu nýs fréttastjóra á fréttastofu Útvarpsins. Var þar tekist á um stöðu málsins. Málshefjandi, Ögmundur Jónasson alþingismaður, krafðist þess að heyra sjónarmið Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um málið. Sagði hann að neyðarástand ríkti á Ríkisútvarpinu. Taldi hann að ráðning nýs fréttastjóra væri makalaus valdníðsla og sett fram til að vinna gegn hagsmunum RÚV. Í svari menntamálaráðherra kom fram að hægt væri að hafa misjafnar skoðanir á ráðningu fréttastjórans. En á móti kæmi að umræddur einstaklingur hefði verið talinn hæfur af framkvæmdastjóra fréttasviðs RÚV, hann hefði einn fengið atkvæði í útvarpsráði og útvarpsstjóri hefði því ráðið hann.

Kom fram það mat menntamálaráðherra að það væri umdeilt hvort pólitískir fulltrúar ættu að hafa áhrif á ráðningar starfsmanna á faglegum grundvelli, en með þeim hætti væri skipan mála í dag. Sagði Þorgerður Katrín að það væri að sínu mati vandséð að sjá hvaða úrræði útvarpsstjóri hefði haft önnur en skipa viðkomandi umsækjanda þegar einn umsækjandi hefði fengið atkvæði í útvarpsráði. Eins og Þorgerður benti réttilega á er stjórnarandstaðan í hentistefnuummælaleik. Stundum á að gera þetta svona, stundum hinsegin, allt eftir því hvernig vindar blésu í Samfylkingunni og félögum hennar í stjórnarandstöðunni. Best sást það á ummælum Marðar Árnasonar. Hann fann kerfinu allt til foráttu og sagði hentistefnu ríkja í ráðningarmálum hjá RÚV.

Á móti kemur að viðkomandi maður sat sjálfur í útvarpsráði í fjögur ár, 1999-2003, sem fulltrúi síns flokks. Hvernig vann hann? Gott dæmi er að árið 2002 þegar kom að ráðningu fréttastjóra Sjónvarpsins tafði hann endalaust afgreiðslu málsins því hann var í samningaviðræðum við Framsókn og VG um að mæla með kandidat gegn Elínu Hirst. Elín var sú eina sem yfirmaður fréttasviðs mælti með og hafði stuðning fréttamanna á Sjónvarpinu. Reyndi meirihlutinn fyrst að mæla með Páli Benediktssyni, en hann hætti við þegar sýnt var í hvaða farsa málið væri og þeir mæltu að lokum með Sigríði Árnadóttur. Útvarpsstjóri réð Elínu eftir kosningu í útvarpsráði í desember 2002. Mörður er kostulegur í þessum efnum, þegar menn rifja upp störf hans sjálfs í útvarpsráði. Vel kom fram í ræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar að tími útvarpsráðs er liðinn og ráðningarfyrirkomulag hjá RÚV væri gengið sér til húðar og þörf væri á uppstokkun. Gátu stjórnarandstæðingar vart annað gert en tekið undir það. Enda blasir við að allt innra kerfi RÚV og skipulag er komið út í algjöra móa. Það sem helst stendur eftir í látum seinustu daga innan Ríkisútvarpsins er að útvarpsráð er barn síns tíma. Skipan mála með það er algjörlega úrelt.

Í þingumræðunni í gær tilkynnti menntamálaráðherra að samkomulag hefði loks náðst milli stjórnarflokkanna um breytingar á útvarpslögum. Mun frumvarp verða lagt formlega fram á þingi í dag. Þingflokkar stjórnarflokkanna og ríkisstjórnin hafa samþykkt frumvarpið. Frumvarp ráðherra gerir ráð fyrir þeim breytingum sem kynntar höfðu verið í fjölmiðlum að mestu. Mín viðbrögð á þessar tillögur, sem birtar hafa verið í fjölmiðlum og virðast hluti af væntanlegu frumvarpi menntamálaráðherra, eru þær að ég harma að menn stígi ekki skrefið til fulls og geri Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þessar tillögur eru hænufet í átt að þeim grunnbreytingum sem ég tel rökréttastar. Er slæmt að ekki hafi náðst samstaða um að ganga lengra. Uppstokkun mála hvað varðar útvarpsráð er sjálfsögð og eðlileg og ætti að hafa náðst í gegn fyrir lifandis löngu. Ekki líst mér á hugmyndir um nefskatt. Það er döpur útkoma og ekki spennandi, að neinu leyti. Málefni Rásar 2 er svo næsta mál. Vonandi fara menn réttar leiðir og selja hana. Rás 2 er algjör tímaskekkja. Mér finnst að menn opni nú vel á að hún verði seld. Er það mjög gott mál. En meira um frumvarpið á morgun.

AkureyrarbærÍ dag kynntu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, og Jakob Björnsson formaður bæjarráðs og leiðtogi Framsóknarflokksins, á blaðamannafundi, ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir árið 2004. Málið verður svo til umræðu á fundi bæjarstjórnar í Ráðhúsinu í dag. Helsta niðurstaðan í rekstrarreikningnum er að reksturinn var jákvæður um tæpar 240 milljónir króna á árinu 2004. Framkvæmt var fyrir um 1820 milljónir króna, handbært fé frá rekstri nam 1908 milljónum og hækkaði um 533,1 milljón. Þá voru fjármagnsliðir jákvæðir um 73,4 milljónir. Í fréttatilkynningu leiðtoga meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn kemur fram að rekstrarniðurstaða hafi verið jákvæð um ríflega 239,9 milljónir en áætlun hafði gert ráð fyrir 146,7 milljóna hagnaði. Gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir og voru gjaldfærðar nærri 439 milljónir í samstæðunni. Segir ennfremur þar að ef ekki hefði komið til mikil hækkun lífeyrisskuldbindinga hefði orðið um verulegan rekstrarafgang á árinu að ræða.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Akureyrarkaupstaður og Hríseyjarhreppur sameinuðust á árinu og er nú gerður einn ársreikningur fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Eru þetta mjög jákvæð og góð tíðindi sem staðfestir að rekstur sveitarfélagsins er mjög góð og vel haldið á málum. Er þetta ánægjuleg niðurstaða, nú þegar rétt rúmlega ár er til sveitarstjórnarkosninga. Meirihlutaflokkarnir geta verið stoltir af stöðu mála. Í dag var svo tilkynnt um þá ákvörðun að gjaldskrá leikskóla verði einfölduð frá því sem nú er með því að hafa eitt gjald fyrir alla. Þetta mun verða gert með því t.d. að lækka almenna gjaldskrá leikskóla um 25% þannig að grunngjald fyrir dvalartímann lækki úr 2.846 kr. í 2.134 kr. Lagt er til að gjaldskrárbreytingin taki gildi í vor, eða þann 1. maí nk. Markmið bæjaryfirvalda með þessu er að koma til móts við stóran hóp barnafjölskyldna þannig að allir sitji við sama borð varðandi gjaldtöku óháð fjölskylduformi. Er þessi breyting í takt við það sem lagt hefur verið áherslu á að Akureyri sé fjölskylduvænn bær.

Punktar dagsins
Ríkisútvarpið við Efstaleiti

Ekki hefur ástandið batnað mikið hjá Ríkisútvarpinu seinustu daga. Enn er tekist mjög á um ráðningu nýs fréttastjóra Útvarpsins eins og fyrr hefur komið fram. Nýjast í málinu var að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tjáði sig um ráðninguna og tengd mál í ítarlegu viðtali við Eyrúnu Magnúsdóttur og Sigmar Guðmundsson í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Þar fór hann yfir ástæður þess að hann ákvað að ráða Auðun Georg Ólafsson í stöðu fréttastjóra og sín sjónarmið almennt. Mjög fór fyrir brjóstið á fréttamönnum við stofnunina hvernig útvarpsstjóri tjáði sig um fréttamenn stofnunarinnar og starfsreynslu þeirra. Í ályktun félags fréttamanna við stofnunina sem kynnt var eftir viðtalið var ítrekað vantraust á útvarpsstjóra. Segir þar að hann hafi fjallað um störf fréttamanna við stofnunina af fádæma vanvirðingu, sérstaklega þeirra sem lengst hefðu starfað. Er ennfremur lýst yfir því í ályktuninni sem samþykkt var einróma að fréttamenn myndu ekki starfa með nýjum fréttastjóra. Þau tíðkast greinilega breiðu spjótin í Efstaleitinu þessa dagana í húsakynnum þessa ríkisrekna fjölmiðilsnáttrisa.

Akureyri

Mikið hefur verið deilt um þá ákvörðun Ríkiskaupa um að semja við pólska skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý. Óhætt er að fullyrða að þessi ákvörðun hafi orðið okkur Akureyringum mjög mikil vonbrigði, svo ekki sé nú meira sagt. Vekur mikla furðu og undrun að ekki hafi verið samið við Slippstöðina, hér á Akureyri, um breytingar og endurbætur á varðskipunum. Fer ég yfir málið í pistli á Íslendingi í gær. Þessi ákvörðun er með ólíkindum og hefur vakið hörð viðbrögð hér. Í gærkvöldi var bæjarmálafundur í Kaupangi og fórum við þar yfir ýmis mál, ræddum ársreikning sveitarfélagsins sem er til umræðu í bæjarstjórn og fleiri mál sem í umræðunni er. Ræddum við þetta mál ennfremur og er óhætt að segja að afstaða okkar sé mjög í takt við skrif mín í gær á vef okkar sjálfstæðismanna í bænum. Spurt er: hvað ætla ráðamenn að gera í stöðunni? Er verjandi að fara með verk á borð við þetta til Póllands og sýna íslenskum skipa- og málmiðnaði þá lítilsvirðingu sem felst í ákvörðun Ríkiskaupa? Það væri gott að fá svar við því. Stjórnmálamennirnir skulda okkur hér skýringar á þessum verknaði. Það er svo einfalt.

Gísli Marteinn Baldursson

Seinustu tvö laugardagskvöld var Gísli Marteinn Baldursson í spjallþætti sínum með ítarlegt viðtal við hljómsveitina Stuðmenn. Fór hann ásamt þeim yfir tónlistarsögu hljómsveitarinnar og helstu punktana á 30 ára ferli hennar. Var mjög gaman að fylgjast með þessu og heyra frábær lög hljómsveitarinnar. Stuðmenn hafa lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér og er ein af bestu hljómsveitum landsins seinustu áratugina. Kvikmynd Stuðmanna og Grýlanna, Með allt á hreinu, er ein af mínum uppáhaldskvikmyndum og er óhætt að segja að sú mynd og lögin í henni hafi öðlast mikinn sess. Sérstaklega var merkilegt að hlusta á Björgvin Halldórsson leika á munnhörpu yfir lagi Stuðmanna, Strax í dag, í þættinum. Vissi ég reyndar ekki að hann hefði átt munnhörpuleikinn í þekktri útgáfu lagsins á Sýrlandsplötunni. Var þetta fínt spjall og áhugavert að fara yfir þessi 30 ár í sögu hljómsveitarinnar á skömmum tíma. Nú blasir við að Gísli Marteinn er að hætta með þáttinn, væntanlega í næsta mánuði. Mun hann brátt snúa sér að fullu að stjórnmálaþátttöku í borginni. Er það gott að heyra, þó vissulega verði sjónarsviptir af þætti hans.

Dalvík

Eins og fram kom hér á vefnum um daginn eru læti í bæjarmálunum, út með firði, út á Dalvík. Er deilt um að loka sveitaskólanum í Svarfaðardal. Við blasir að allar rekstrartölur réttlættu lokun skólans og er óverjandi í raun að hafa hann opinn áfram. Eftir rekstrartölunum verður að fara. Það er ómögulegt fyrir fólk að lifa á tilfinningalegum rökum í málinu. Svo virðist vera að margir berji höfðinu við steininn og neiti að horfast í augu við grunn málsins. Merkilegast er að sjá ólguna sem er innan Framsóknarflokksins í bæjarmálunum vegna lokunar skólans. Nú hefur Gunnhildur Gylfadóttir, einn bæjarfulltrúi flokksins, og einn varamaður hennar, sem sátu bæjarstjórnarfund um daginn er ákvörðunin var tekin, sagt sig frá trúnaðarstörfum sínum í bæjarmálunum. Er óneitanlega allskondið fyrir okkur sem fylgjumst með stjórnmálum í firðinum að fylgjast með klofningi Framsóknarflokksins í bæjarmálum á Dalvík. Flokkurinn hefur þar ríkt lengi sem stærsta aflið og verið ráðandi þar í forystu sveitarfélagsins. Nú hefur flokkskjarninn þar klofnað og væntanlega ólga framundan varðandi framboðsmál þar á næsta ári.

Saga dagsins
1905 Bæjarsíminn í Reykjavík var formlega opnaður með því að leikið var á fiðlu í símann. Þá höfðu 15 símar verið tengdir. Er Landssíminn var stofnaður, 1912, voru á fjórða hundrað talsímar í borginni
1978 Mikil sprenging varð í ratsjárflugvél frá varnarliðinu skömmu fyrir flugtak á Keflavíkurflugvelli
1983 Litlu munaði að farþegaþota frá Arnarflugi og herflugvél lentu í árekstri við Vestmannaeyjar
1994 Markús Örn Antonsson segir af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, eftir að hafa setið á stóli í tæplega 3 ár, eða frá því Davíð Oddsson lét af embætti - við borgarstjóraembætti tók Árni Sigfússon
2003 Samningar um álver Alcoa á Austurlandi formlega undirritaðir við hátíðlega athöfn á Reyðarfirði

Snjallyrðið
Be faithful in small things because it is in them that your strength lies.
Móðir Teresa (1910-1997)