Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 mars 2005

RíkisútvarpiðHeitast í umræðunni
Óhætt er að fullyrða að mjög eldfimt ástand sé hjá Ríkisútvarpinu í kjölfar þess að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, tilkynnti í gær um ráðningu Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarpsins. Í dag samþykktu 93% starfsmanna Ríkisútvarpsins tillögu þess efnis að útvarpsstjóri ætti að draga ráðningu Auðuns formlega til baka. Áður hafði félag fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu samþykkt að lýsa yfir vantrausti á Markús Örn og ákvörðun hans. Ljóst er allt logar stafna á milli hjá stofnuninni og mikill órói er þar vegna ráðningarferlisins og ákvörðunar útvarpsstjórans. Er vandséð hvernig muni geta gróið um heilt milli starfsmannanna og útvarpsstjóra að óbreyttu. Greinilegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli starfsmanna og yfirstjórnar Ríkisútvarpsins.

Í gærkvöldi tilkynnti Jóhann Hauksson dagskrárstjóri Rásar 2 og yfirmaður svæðisstöðva RÚV, um uppsögn sína. Lét hann af störfum þegar í dag og tæmdi skrifstofu sína hér á Akureyri strax í gærkvöldi. Jóhann hefur unnið hjá Ríkisútvarpinu í tvo áratugi og var lengi fréttamaður RÚV í Reykjavík, síðar yfirmaður svæðisútvarps RÚV á Austurlandi og að lokum yfirmaður Rásar 2 með aðsetur hér á Akureyri. Jóhann var einn umsækjenda um stöðuna. Hefur hann sagt að Markús Örn hafi brugðist Ríkisútvarpinu með ráðningu nýs fréttastjóra. Er mikið áfall fyrir RÚV að missa Jóhann, en hann hefur verið einn öflugasti forystumaður Ríkisútvarpsins og staðið sig vel í störfum sínum hér á Akureyri. Þekki ég það vel héðan frá Akureyri hversu vel hann hefur staðið sig.

Er erfitt að spá um framhald mála hvað varðar útvarpsstjóra. Hann verður auðvitað að meta stöðu mála og taka afstöðu til mála í ljósi þess. Markús Örn hefur unnið hjá RÚV, með hléum, í tæpa fjóra áratugi. Fáir menn þekkja betur stofnunina og starfskipan mála þar. Ég tel að hann hljóti að íhuga stöðuna vel og meta hvað henti best með tilliti til þess. Er ég þó algjörlega andvígur því að hann segi af sér eins og stjórnarandstaðan hefur krafist. Hvað varðar stöðu nýs fréttastjóra er ljóst að hún er mjög veik og vandséð hvernig hann geti tekið við valdataumunum þar með krafti og orðið sá sterki fréttastjóri sem fréttastofan þarf á að halda til að halda stöðu sinni sem sú fréttastofa sem flestir landsmenn treysta á. Innri átök hjá RÚV staðfesta að brúin milli yfirmanns og starfsmanna er ekki til staðar og húsið logar eins og Róm forðum. Staðan er því að öllu leyti mjög veikluleg og erfið. Enginn efast um að Auðun Georg er hinn mætasti maður, en aðkoma hans að starfinu verður erfið og skal ósagt látið hvort hann geti í raun tekið við því. Við blasir hinsvegar að upplausn er innan stofnunarinnar vegna stöðu mála.

Eitt hefur þetta mál þó sýnt umfram allt annað: staða Ríkisútvarpsins er orðin veik. Það er mikilvægt: enn mikilvægara en nokkru sinni áður, að stokka þar upp stöðu mála. Við blasir fyrst og fremst að staða útvarpsráðs er veikari en nokkru sinni fyrr. Fullyrða má að fjarað hafi algjörlega undan því og mikilvægt að menn líti fram á veginn og stokki alveg upp stöðu þess og hlutverk. Það getur ekki gengið lengur að pólitískt skipað ráð með slíkt hlutverk sé þar til og fari yfir starfsumsóknir þar og meti beint. Þetta fyrirkomulag mála er fyrir lifandis löngu gengið sér til húðar og er orðið með öllu óverjandi. Tel ég einsýnt að stjórnmálamenn verði að setjast niður og taka á þessum málum af krafti. Slíta verður með afgerandi hætti tengslin á milli stjórnmála og rekstrarlegrar yfirstjórnar hjá þessu fjölmiðlafyrirtæki og taka rekstrarformið til endurskoðunar. Best verður það gert með því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið eða það sem enn betra er: með því að einkavæða það. Það er orðið mjög erfitt, allt að því óverjandi, einkum í ljósi nýjustu frétta, að réttlæta ríkisrekinn fjölmiðil í landinu með þeim hætti sem verið hefur seinustu áratugi.

Þorsteinn Pálsson sendiherraTilkynnt var í gær að Þorsteinn Pálsson sendiherra, myndi láta af störfum sínum í utanríkisþjónustunni þann 1. október nk. Óhætt er að segja að þessi tíðindi komi mjög óvænt, enda hefur Þorsteinn verið skamman tíma í störfum sendiherra og ekki kominn á eftirlaunaaldur. Þorsteinn hefur starfað í sex ár sem sendiherra, fyrstu fjögur árin sem sendiherra í London en síðan í Kaupmannahöfn. Þorsteinn hefur verið áberandi í íslensku þjóðlífi í þrjá áratugi. Hann var ritstjóri dagblaðsins Vísis 1975-1979. Tók þá við embætti framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands og sat á þeim stóli 1979-1983. Þorsteinn tók fyrst þátt í stjórnmálum á áttunda áratugnum og sat í stjórn SUS 1975-1977. Hann gaf kost á sér í þingkosningunum 1983 og leiddi lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi. Hann var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í nóvember 1983. Þorsteinn varð fjármálaráðherra árið 1985 og sat á þeim stóli til ársins 1987 og gegndi ennfremur starfi iðnaðarráðherra seinustu mánuði starfstímans.

Þorsteinn varð forsætisráðherra sumarið 1987, að loknum þingkosningum. Hann sat á þeim stóli í rúmt ár, til haustsins 1988, er slitnaði með miklum hvelli upp úr samstarfi stjórnarflokkanna. Þorsteinn leiddi starf stjórnarandstöðunnar á þingi út það kjörtímabil. Davíð Oddsson þáverandi varaformaður flokksins, gaf kost á sér til formennsku á landsfundi flokksins í mars 1991 og sigraði Þorstein í kosningunni, sem fram fór á þessum degi fyrir 14 árum. Þorsteinn hélt áfram í stjórnmálum og leiddi áfram lista flokksins í Suðurlandskjördæmi. Hann varð sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs síðar sama ár og sat samfellt í þessum ráðuneytum í átta ár. Það kom mörgum í opna skjöldu er Þorsteinn tilkynnti, á kjördæmisþingi flokksins í kjördæminu í október 1998, að hann myndi hætta þátttöku í stjórnmálum og ekki gefa kost á sér til þingsetu í alþingiskosningunum 1999. Hann lét af ráðherraembætti, á lokadaginn, 11. maí 1999, og tók skömmu síðar formlega við sendiherraembættinu. Þorsteinn er mjög hæfur maður og hefur nýlega verið valinn til setu í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra. Þótti mér það mjög rétt ákvörðun, enda efast enginn um hæfni Þorsteins í þessum málum. Verður mjög athyglisvert að sjá hvað Þorsteinn gerir eftir að hann hættir í utanríkisþjónustunni.

Punktar dagsins
Dan Rather les sinn síðasta kvöldfréttatíma á CBS

Dan Rather lét í gær af störfum sem fréttastjóri bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS. Hann las í gærkvöldi sinn síðasta kvöldfréttatíma. Í gær voru liðin 24 ár frá því að hann tók við sem fréttaþulur stöðvarinnar og fréttastjórnandi af hinum goðsagnakennda fréttahauk Walter Cronkite sem var andlit frétta CBS í marga áratugi. Staða Rathers veiktist mjög í kjölfar þess að hann birti umdeilda fréttaskýringu í fréttaþætti stöðvarinnar, 60 minutes, þar sem George W. Bush forseti Bandaríkjanna, var gagnrýndur og birt voru skjöl sem áttu að sanna að hann hefði verið rekinn með skömm úr þjóðvarðliði Texas. Kom síðar í ljós að umfjöllun Rathers var byggð á fölsuðum gögnum og skjölum. Telja má líklegt að þessi fréttaskýring hans hafi átt þátt í því að hann vék fyrr en ella úr fréttaþularstól stöðvarinnar. Miklar deilur hafa staðið um störf hans allt frá því. Var almennt talið að Rather hefði beðið allt of lengi með að biðjast afsökunar á mistökum sínum vegna fréttaskýringarinnar. Hann hefði mun fyrr átt að hafa séð að umfjöllunin væri röng og byggð á fölsuðum skjölum.

Dan Rather er frá Texas og er 73 ára að aldri. Hann hefur verið lykilstarfsmaður í fréttamennsku CBS-stöðvarinnar í rúm 40 ár. Hann hóf störf árið 1962 í fréttadeild CBS í Texas og varð fyrst landsfrægur þegar hann fjallaði um morðið á John F. Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas, 22. nóvember 1963. Hann var í fylgdarliði forsetans sem fréttamaður fyrir stöðina og stjórnaði umfjöllun stöðvarinnar frá Dallas þennan örlagaríka dag er forsetinn var ráðinn af dögum og því sem tók við er lík forsetans var flutt til Washington og Lyndon B. Johnson sór embættiseið í forsetaflugvélinni á Love flugvelli í Dallas. Eftir það var hann hækkaður í tign innan stöðvarinnar og fékk lykilstöðu þar. Hann var áberandi sem fréttamaður í málefnum Hvíta hússins sem senior reporter 1969-1977. Eftir það varð hann einn aðalfréttamanna við kvöldfréttir stöðvarinnar og varð aðalfréttaþulur 1981. Allt frá þeim tíma hefur hann leitt fréttastarf stöðvarinnar og verið andlit kvöldfréttanna. Rather mun eftir að hann hættir sem aðalfréttaþulur vinna áfram við fréttaskýringar hjá CBS.

Tony Blair

Óhætt er að fullyrða að Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, sé lentur í miklum forarpytti, við upphaf kosningabaráttunnar til breska þingsins. Bendir allt til, eins og ég hafði sagt frá í umfjöllun hér um seinustu helgi, að þingkosningar fari fram þann 5. maí nk. Blair er lentur í kröppum dansi vegna hins umdeilda frumvarps síns um aðgerðir gegn hryðjuverkum. Breytingatillögur sem lávarðadeildin hafði lagt til áður en málið verður afgreitt endanlega þar, voru felldar í neðri deild breska þingsins. Með því er ljóst að málið er allt strandað og semja þarf um áherslur í málinu og afstöðu allt frá grunni á nýjan leik. Staðan er því öll hin vandræðalegasta fyrir forsætisráðherrann. Hefur hann nú fallist á að breyta frumvarpinu með þeim hætti að dómarar verði að úrskurða endanlega um allar aðgerðir gegn meintum hryðjuverkamönnum. Með því breytist staðan á þann veg að innanríkisráðuneytið geti ekki eitt ákveðið þær eins og frumvarpið hafði áður falið í sér. Er mjög óvenjulegt að Blair verði að bíta odd af oflæti sínu en eins og máltækið segir kennir oft neyðin naktri konu að spinna. Þingkosningar eru handan við hornið og ætli Blair sér að halda völdum verður hann að leita sátta og fá málamiðlun til að lægja öldur. Hvort það tekst er svo næsta spurning í stöðunni.

Ingibjörg H. Bjarnason

Baráttudagur kvenna var í gær. Víða var haldið upp á þann dag í gær og mikil umræða um málefni kvenna í fjölmiðlum tengt því. Á þessu ári verða liðin 90 ár frá því að íslenskar konur hlutu kosningarétt. Í tilefni þessara tímamóta var afhjúpað í gær í sal efrideildar Alþingis, málverk af Ingibjörgu H. Bjarnason, sem var fyrsta konan sem tók sæti á löggjafarþinginu. Hún átti þar sæti 1922-1930 og sat fyrir svokallaðan Kvennalista og síðar Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Málverkið sem er málað af Gunnlaugi Blöndal listmálara, var formlega afhjúpað af Ragnhildi Helgadóttur fyrrum menntamálaráðherra. Ragnhildur varð fyrsta konan sem hlaut kjör sem forseti þingdeildar löggjafarþingsins. Hún sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn til fjölda ára og var menntamálaráðherra 1983-1985 og heilbrigðisráðherra 1985-1987. Við þessa athöfn var öllum konum sem setið hafa á þingi og enn eru á lífi boðið sérstaklega. Samtals hafa 56 konur tekið sæti sem aðalfulltrúar á þingi. 47 þeirra eru enn á lífi. Aðeins tvær konur hafa verið kjörnar sem forsetar Alþingis: Guðrún Helgadóttir og Salome Þorkelsdóttir. Lengsta þingsetu kvenna í sögu löggjafarþingsins á Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur setið þar samfellt í 27 ár. 10 konur hafa átt sæti í ríkisstjórn, frá árinu 1970.

Akureyri

Ákveðið hefur verið að halda opið íbúaþing hér í bænum þann 6. apríl nk. Er um að ræða stefnuþing þar sem verða til umræðu drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Mun íbúaþingið verða haldið í nýjum sal Brekkuskóla, sem nýlega var tekinn formlega í notkun. Skólanefnd Akureyrarbæjar boðar til þingsins alla íbúa bæjarins sem hafa áhuga á að kynna sér fyrirliggjandi drög að skólastefnunni, hafa áhuga á að taka þátt í umræðu um málin og hafa með því áhrif á endanlega gerð skólastefnunnar. Drög að skólastefnunni hafa nú formlega verið kynnt á vef Akureyrarbæjar og geta þeir sem áhuga hafa á málinu litið á drögin þar, mótað skoðanir sínar til málsins og undirbúið sig fyrir hið opna þing. Þessi vinna og drög eru áhugaverð og verður mjög gaman að taka þátt í þessu ferli. Ég ætla mér að mæta í Brekkuskóla, minn gamla skóla, eða ætti maður ekki að segja nýja útgáfu míns gamla skóla, þann 6. apríl og taka þátt í þessu starfi. Verður þetta áhugaverð vinna og gaman að heyra skoðanir annarra og fara yfir þessi mál á grundvelli þess sem fyrir liggur í málinu.

Saga dagsins
1934 Dregið var fyrsta sinni í Happdrætti Háskólans - síðan hefur HHÍ verið ein meginstoða skólans
1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts - alls 13 fórust
1944 Flugfélagið Loftleiðir hf. var formlega stofnað - tæpum 30 árum síðar, árið 1973, sameinaðist það Flugfélagi Íslands hf. undir nafninu Flugleiðir. 10. mars 2005 breyttist nafn Flugleiða í FL Group
1967 Þrjú timburhús, sem voru á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík brunnu til grunna, og hús Iðnaðarbankans skemmdist mikið - um var að ræða einn af mestu eldsvoðum á Íslandi á 20. öld
1991 Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans - Davíð bar sigurorð af Þorsteini Pálssyni þáverandi formanni, í kosningu á fundinum. Davíð hlaut 733 atkvæði en Þorsteinn, sem verið hafði formaður flokksins í rúm 7 ár, hlaut 651 atkvæði. Davíð tók við embætti forsætisráðherra landsins, 30. apríl sama ár, og sat á forsætisráðherrastóli landsins samfellt í 13 ár, eða allt til haustsins 2004, lengur en nokkur annar í sögu Stjórnarráðs Íslands. Davíð varð utanríkisráðherra við ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni 2004

Snjallyrðið
Anyone who stops learning is old, whether at twenty or eighty. Anyone who keeps learning stays young. The greatest thing in life is to keep your mind young.
Henry Ford bílaframleiðandi (1863-1947)

Faðir minn, Stefán Jónas Guðmundsson, er sextugur í dag. Innilega til hamingju með daginn, pabbi minn. Hafðu það gott í dag!