Það er óneitanlega undarlegt að fylgjast með stöðu mála hjá Ríkisútvarpinu þessa dagana og hnignun þessarar stofnunar, sem nú á sér stað. Starfsmenn, bæði almennt í húsinu, sem og fréttamenn hafa hvatt útvarpsstjóra til að draga ráðningu sína á fréttastjóra til baka og fréttamenn meira að segja gengið svo langt að lýsa yfir vantrausti á hann sem yfirmann. Er um sögulega ákvörðun að ræða, enda aldrei gerst í 75 ára sögu Ríkisútvarpsins að starfsmenn lýsi yfir vantrausti eða efist á opinberum vettvangi með beinni yfirlýsingu um yfirmann sinn og verk hans. Loft er því lævi blandið í Efstaleitinu og óveðurský hrannast upp yfir útvarpshúsinu óneitanlega. Það er erfitt að sjá hvernig báðir aðilar geta farið með sæmd frá málinu nema fréttastjóraefnið víki þá sjálfviljugur frá.
Ég var staddur á ráðstefnu í gær og ekki við útvarp nema snemma í gærmorgun. Mér fannst merkilegt að heyra af því eftir á að fréttamenn hefðu lagt niður störf í tíufréttum og ekki útvarpað fréttum. Ofan á allt var táknrænasta aðgerð gærdagsins það að eitt heilagasta djásn Ríkisútvarpsins, hádegisfréttirnar, hefðu verið tíu mínútna langar í stað hins klassíska tíma, 25 mínútur, frá 12:20 til 12:45. Það sem nú er að gerast hjá stofnuninni á sér engin fordæmi og það sem meira er að ólgan og lætin bakvið tjöldin vex sífellt meira. Um það er nú talað að starfsmenn gangi út og hætti störfum. Staðan er einfaldlega með þeim hætti að fréttastofan er að lamast og Ríkisútvarpið er í mestu krísu sem það hefur lent í á löngum ferli. Það blasir við.
Þetta ástand er dapurlegt í raun, enda eru fréttamiðlar ríkisins með þær fréttastofur sem njóta mests trausts. Sem merki um heiftina er að fréttamenn neituðu að eiga fund með nýjum fréttastjóra í gær. Fundur var boðaður en starfsmenn mættu einfaldlega ekki til fundar. Það finnst mér mjög langt gengið. Það er lágmark að leyfa viðkomandi að kynna sig og hvað hann vilji gera í stöðunni. En heiftin er svo mikil að það er himinn og haf milli starfsmanna og yfirstjórnar stofnunarinnar. Málið er allt í miklu óefni. Vonandi kemur ekki til þess að starfsmenn gangi á dyr og fréttaþjónusta stofnunarinnar stöðvist. Annars sást vel hversu hörð deilan er og átökin milli manna í Kastljósi í gærkvöldi þar sem Pétur Gunnarsson varamaður í útvarpsráði, og Jóhann Hauksson fyrrum yfirmaður Rásar 2, tókust á um ráðningu Auðuns Georgs. Hvöss orð flugu á milli og ásakanir um stöðuna. Ískalt er á milli aðila og ástandið mjög slæmt. Gekk Pétri greinilega illa að verja ákvörðun útvarpsráðs og Jóhann lét skotin dynja á honum vegna málsins. Segja má að neistarnir fljúgi á milli aðila.
Í dag birtist ítarlegur pistill minn um stöðu mála hjá Ríkisútvarpinu. Rek ég fréttastjóramálið og ólguna innanhúss. Ennfremur fer ég yfir rekstrartölur stofnunarinnar og framtíðarhorfur þar í ljósi væntanlegs frumvarps menntamálaráðherra um breytingar á útvarpslögum. Í pistlum mínum um málefni RÚV sem birst hafa víða seinustu ár hef ég vel kynnt afstöðu mína til málefna RÚV. Þeir sem hafa lesið þær hafa séð hvert hugur minn stefnir í þessum efnum. Ég vil ganga rösklega til verks og stokka upp RÚV í þá átt að ríkið verði ekki lengur þátttakandi í fjölmiðlarekstri. Ég vil að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Á því leikur enginn vafi. Það er alveg rétt sem Pétur H. Blöndal sagði í umræðu á þingi í gær að á meðan ríkið rekur fjölmiðil verða pólitísk ítök þar inn að einhverju leyti. Þótti mér Pétur orða þetta vel, en við erum samherjar í þessum málum. En ég hvet alla til að lesa pistilinn og kynna sér skoðanir mínar á stöðu mála, hvað varðar þessa umdeildu ráðningu og rekstrarmálin hjá RÚV. Með því reifa ég margar vangaveltur í þeirri miklu óvissustöðu sem blasir við hinum 75 ára gamla staðnaða ríkisfjölmiðli, sem er á vissum krossgötum nú.
Ráðstefna um stjórnarskrána og stjórnskipan landsins var haldin í Háskólanum hér á Akureyri í gær. Í upphafi ráðstefnunnar flutti Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra, erindi. 4. janúar sl. var formlega skipuð fyrrnefnd stjórnarskrárnefnd af hálfu forsætisráðherra, sem í eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi, sem mun vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í ræðu sinni fór Jón yfir starf nefndarinnar, markmið starfsins og það sem blasir við að gera og muni verða verksvið hennar. Stefnt er að því að vinna nefndarinnar taki ekki lengra tíma en tæp tvö ár og að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni liggi fyrir ekki síðar en í árslok 2006. Nefndin hefur opnað heimasíðu, þar sem starf hennar og dagskrá funda hennar er kynnt með mjög ítarlegum og nákvæmum hætti. Er þar hægt að líta á fundargerðir nefndarinnar, en hún hefur nú haldið tvo fundi. Er hægt að líta á dagskrá næsta fundar, á mánudag.
Að lokinni ræðu Jóns, flutti Eiríkur Tómasson lagaprófessor og formaður sérfræðinganefndar forsætisráðuneytisins, sem vinna mun með stjórnarskrárnefndinni, ávarp. Kynnti hann skoðanir sínar á fyrirhugaðri endurskoðun stjórnarskrár frá sjónarhóli fræðimannsins. Sérstaklega nefndi hann að mikilvægt væri að fara yfir stöðuna óhikað og nefndi sem dæmi að ekki væri hægt að útiloka það að taka 26. greinina til endurskoðunar. Talaði Eiríkur í rúman hálftíma og erindi hans því í senn bæði fróðlegt og gagnlegt. Ennfremur fluttu ræður á ráðstefnunni þau: Eivind Smith prófessor hjá UiO og forstöðumaður Institutt for offentlig ret, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, Kári á Rógvi og Ágúst Þór Árnason prófessor. Var þetta fróðleg ráðstefna og gott að heyra þar góð erindi um stöðu mála. Þann 10. janúar sl. birtist á vef Heimdallar pistill minn um endurskoðun stjórnarskrár og tengd atriði. Fer ég þar yfir málið og skoðanir mínar. Hef ég tjáð mig nokkuð um málefni stjórnarskrárinnar frá látunum í fyrra um 26. greinina. Til fjölda ára hefur skort pólitískan kjark til að hrinda úr vör þessu ferli, opna málið og ræða málefni stjórnarskrár með opnum huga og ræða nauðsynlegar breytingar, sem verða að eiga sér stað í samræmi við nútímann, vinna að sjálfsagðri endurskoðun á stjórnarskrá. Um að gera að líta á pistilinn til að lesa þær pælingar og fara yfir skoðanir mínar á málinu.
Í dag er eitt ár liðið frá hryðjuverkaárásinni í Madrid á Spáni. Sprengjur í bakpokum sprungu í lest er hún var að koma inn á Atocha-lestarstöðina í miðborginni að morgni 11. mars 2004. Hún er ein mikilvægasta samgöngumiðstöð borgarinnar og tengir saman grannlestakerfi ríkisjárnbrautanna og jarðlestakerfið. Á þessum tíma er stöðin iðandi af fólki á leið til vinnu eða í skóla, úr grannbæjum og úr úthverfunum. Fleiri sprengjur sprungu svo í lestum á öðrum tveimur stöðvum á sömu lestaleiðinni, Santa Eugenia og El Pozo sem eru í úthverfum, austanmegin í borginni. Kannast ég vel við þessar lestarstöðvar frá því ég fór til Madrid fyrir þrem árum. Var því afskaplega sorglegt að heyra þessar fregnir. Tæplega 200 manns létu lífið í þessu hryðjuverki. Deilt var um það hverjir stæðu að baki því. Lengi vel fullyrtu spænsk yfirvöld að baskneska aðskilnaðar- og ógnarverkahreyfingin ETA væru þar að verki. Bakpokasprengjur og koparhvellhettur, tendraðar með boðum úr farsíma, báru þó ekki merki um handbragð ETA. Fljótt bárust böndin að íslömsku hryðjuverkasamtökunum Al Qaeda. Kom í ljós að þau stóðu þarna að baki. Leiddu deilur um fullyrðingar stjórnvalda um aðild ETA til þess að stjórn hægriflokkanna féll í þingkosningunum á Spáni sem haldnar voru um miðjan mars 2004.
Úrslitastundin rennur upp í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind í kvöld. Þá keppa Hildur Vala og Heiða um titilinn poppstjarna Íslands 2005. Rúmt ár er nú liðið frá því að Karl Bjarni Guðmundsson vann titilinn poppstjarna Íslands, fyrstur allra. Fullyrða má að Hildur Vala og Heiða standi báðar vel að vígi við lok keppninnar. Þær eru óneitanlegar stórglæsilegar söngkonur. Þær hafa staðið sig vel alla keppnina og átt glæsilegar frammistöður í keppninni. Að mínu mati stendur þó Hildur Vala óneitanlega sterkar að vígi fyrir lokakvöldið. Hún hefur glansað í gegnum alla keppnina, aldrei stigið feilspor og er eftirminnilegust þeirra sem keppt hafa nú. Hildur Vala og Heiða syngja þrjú lög í kvöld. Heiða syngur lögin Ég veit þú kemur, eftir Gunnar Þórðarson, og Slappaðu af með Flowers. Hildur Vala mun syngja lögin The boy who giggled so sweet, sem Emilíana Torrini gerði vinsælt, og Án þín með Trúbrot. Báðar syngja þær einnig lagið Líf, við texta Stefáns Hilmarssonar, sem hann söng fyrir rúmum áratug og gerði vinsælt, en lagið er eftir Jón Ólafsson. Til að auðvelda sér valið fyrir kvöldið og til að hita upp fyrir úrslitastundina eru hér tenglar á fyrri frammistöður þeirra í keppninni.
Hildur Vala
Immortality
Dark end of the street
I Love the Nightlife
Á nýjum stað
Er hann birtist
Everything I do, I do it for you
It´s only a Papermoon
I Wish
You´ve got a friend in me
Heart of glass
Careless Whisper
The Boy who giggled so sweet
Án þín
Líf
Heiða
Dimmar rósir
Angel
Hot Stuff
Láttu mig vera
Himinn og jörð
Fame
Love
Stephanie says
You are the sunshine of my live
Living on a Prayer
Total eclipse of the heart
Ég veit þú kemur
Slappaðu af
Líf
Að síðustu tveir merkilegir punktar. Í fyrra lagi: það er góð helgi framundan hér í bænum og margt í boði. Meðal þess sem stendur þar hæst er óneitanlega matarsýningin MATUR-INN 2005 sem verður haldin á morgun og sunnudag í Verkmenntaskólanum. Um er að ræða matvæla- og léttvínssýningu þar sem norðlensk fyrirtæki kynna sig og sínar vörur. Matvælaframleiðsla og tengdar greinar eru mjög fjölbreyttar á Norðurlandi og er tilgangurinn auðvitað að kynna almenningi betur vörur þeirra. Mjög spennandi og mun ég líta á staðinn og kanna dæmið. Í seinna lagi má ég til með að skrifa um það að í gær gangsetti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fyrsta þráðlausa stafræna sjónvarpsdreifikerfið á Norðurlandi, hér í bænum. Um er að ræða fyrirtækið Íslandsmiðil ehf. sem stendur að baki þessu dreifikerfi. Með þessu geta bæjarbúar hér notið sömu þjónustu og íbúar suðvesturhornsins í þessum efnum. Boðið er upp á lággjalda áskriftasjónvarp með hámarksmyndgæðum. Í boði eru 8 erlendar stöðvar. Mjög gott mál. Þetta er vænn og góður pakki. Já og svo er sýning á myndum Errós að byrja í Listasafninu. Lít á hana á morgun. Meira um hana hér um helgina. :)
Saga dagsins
1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar bátnum Hellisey frá Eyjum hvolfdi og sökk
1985 Mikhail Gorbachov tekur formlega við völdum í Sovétríkjunum - varð áhrifavaldur á söguna og lykilþátttakandi í endalokum kalda stríðsins og sögulegum samningum við Bandaríkin um eyðingu kjarnorkuvopna og langdrægra vopna. Hann hlaut svo friðarverðlaun Nóbels 1990 fyrir framlag sitt til þessara verkefna. Gorbachev einangraðist heima fyrir og sá ekki fyrir endalok Sovétríkjanna. Hann varð valdalaus við fall Sovét árið 1991 og hefur verið þögull þátttakandi í stjórnmálum alla tíð síðan
1990 Litháen lýsir yfir sjálfstæði sínu - leiddi til upphafsins að endalokum Sovétríkjanna. Löndin sem voru í ríkjasambandinu lýstu síðan öll yfir sjálfstæði sínu. Sovétríkin liðu formlega undir lok ári síðar
1996 John Howard tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu eftir kosningasigur hægrimanna - þá hafði Verkamannaflokkurinn leitt stjórn landsins samfellt í 13 ár - Howard varð 25. forsætisráðherra landsins og hefur setið í embætti síðan. Howard er einn af sigursælustu leiðtogum hægrimanna þar
2004 Hryðjuverkaárás í Madrid á Spáni - fjöldi bakpokasprengja sprungu í lestum í samgöngukerfi borgarinnar. Tæplega 200 manns létust í árásinni. Upphaflega var ETA, aðskilnaðarsamtök Baska, kennt um hryðjuverkin. Síðar kom í ljós að Al-Qaeda stóð þar að baki. Árásin var gerð fáum dögum fyrir þingkosningar í landinu. Stjórnvöld kenndu ETA um hryðjuverkin. Neituðu þau lengi að kanna aðra möguleika, t.d. þátttöku Al-Qaeda. Trúnaðarbrestur varð milli kjósenda og stjórnvalda og fór svo að hryðjuverkaöflunum tókst ætlunarverk sitt: að fella hægristjórn landsins í þingkosningunum
Snjallyrðið
What is success? I think it is a mixture of having a flair for the thing that you are doing; knowing that it is not enough, that you have got to have hard work and a certain sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
<< Heim