Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 mars 2005

SiglufjörðurGleðidagur á Sigló - göngin boðin út í haust!
Í dag náðist bæði mikilvægur og ánægjulegur sigur í baráttunni fyrir Héðinsfjarðargöngum, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þetta mikla baráttumál okkar Eyfirðinga er loksins endanlega í höfn. Ég var í dag staddur á Siglufirði, á borgarafundi með Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Þar lýsti hann því yfir með afgerandi hætti að staðið verði við loforð um tímaramma gangnaframkvæmda sem lofað var sumarið 2003 af hálfu ríkisstjórnarinnar. Stjórnarflokkarnir hafa nú endanlega ákveðið með samþykkt ríkisstjórnarinnar að bjóða út framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng í haust og munu framkvæmdir við göngin hefjast í júlímánuði á næsta ári. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka eigi síðar en við árslok árið 2009, á 50 ára afmælisári Siglufjarðarkaupstaðar. Er Sturla lýsti þessu yfir var klappað og mikil gleði meðal viðstaddra.

Á fundinum, sem er sennilega fjölmennasti fundur í sögu bæjarins, voru samankomnir rúmlega 300 manns. 19. mars verður framvegis stór og mikill dagur í sögu Eyjafjarðar, og umfram allt Siglufjarðar. Stórum og miklum áfanga er náð - baráttunni fyrir göngum er lokið. Málið er komið á það stig að það verður ekki aftur snúið. Tímarammi sem settur var fyrir nokkrum árum mun ganga eftir og menn hafa neglt málið niður með afgerandi hætti. Mikil ánægja er á Siglufirði með þessa niðurstöðu mála, ekki síður í Eyjafirði öllum. Þetta er mál sem kemur okkur Eyfirðingum öllum við. Þetta er ekki bara málefni Siglufjarðar. Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild og grundvöllur fyrir sameiningu alls svæðisins kominn til staðar.

Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri slæmu og óverjandi ákvörðun stjórnvalda. Enn situr eftir gremja í garð þeirra sem lofað höfðu að göngin kæmu til á réttum tíma í kosningabaráttunni vorið 2003 en sviku það eftir kosningar. En það eru eðlileg viðbrögð. Það voru mikil vonbrigði og vakti undrun fólks hér þegar spurðist út að verkinu skyldi frestað á þeim tímapunkti, enda fátt sem hafði breyst í málinu frá kosningabaráttunni, og er framkvæmdin hafði verið boðin út. En mikilvægast er vissulega að menn standa við loforðið, þó seint sé. Er ómögulegt á þessum tímapunkti að vera reiður yfir fyrri ákvörðunum um að fresta verkinu. Þess þá mikilvægar er að horfa fram á veginn og fagna því að menn stíga skrefið nú, á þeim tímapunkti sem lofað var árið 2003. Dagurinn í dag er gleðidagur en ekki vettvangur þess að horft sé til gamalla atburða. Nú horfum við fram á veginn og pælum ekki í fortíðinni. Framtíðin skiptir okkur mestu hér og á henni verður byggt. Var mjög gaman að fara í dag til Siglufjarðar og vera viðstaddur þennan góða og skemmtilega fund og finna bjartsýnina í íbúum svæðisins.

Fór ég vestur í morgun með Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra, og Birni Magnússyni formanni fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Fyrir fundinn, sem haldinn var í hinu stórglæsilega bátahúsi sem tilheyrir Síldarminjasafni, bauð Siglufjarðarbær aðkomufólki upp á hádegisverð og gafst þar gott tækifæri til að ræða málin. Við ræddum við Halldór, Arnbjörgu, Dagnýju, Birki og Siv Friðleifsdóttur um stjórnmálin og málefni svæðisins almennt. Var gaman að hitta fólk þarna og rabba um málin. Á fundinum í dag flutti Sturla ítarlega framsögu og ennfremur ávörpuðu fundinn fulltrúar flokkanna: þeir Halldór Blöndal forseti Alþingis, og alþingismennirnir (og Siglfirðingarnir) Birkir J. Jónsson og Kristján L. Möller. Ennfremur fluttu fulltrúar sveitarfélaganna ávörp: þau Kristján Þór að hálfu Akureyrar, Valdimar Bragason bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, Stefanía Traustadóttir bæjarstjóri á Ólafsfirði og Ólafur Kárason formaður bæjarráðs Siglufjarðar. Eftir fundinn var boðið upp á veitingar og gafst þá tækifæri til að ræða við fólk sem var viðstatt þennan merka fund. Þessi göng, þessar framkvæmdir, eru hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi til þess að styrkja svæðið sem heild og efla það. Með tilkynningu dagsins er málið í höfn. Sigur hefur loks náðst í málinu. Gleðin á Siglufirði og Eyjafirði í dag er mikil og við fögnum farsælum lokum málsins.

Saga dagsins
1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur - Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og lagði hún til í ræðu sinni að fé yrði veitt til sundkennslu fyrir stúlkur. Tillaga Bríetar var samþykkt
1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka við Breta
1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins, og settust þær að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði
1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar - aldrei mælst meiri hér
2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og tveim sonum hans, til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórninni væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr mætti stjórnarinnar. Einræðisstjórn Íraks féll í byrjun apríl

Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)