Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 mars 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um málefni Ríkisútvarpsins í kjölfar athyglisverðrar umfjöllunar Morgunblaðsins um stöðu RÚV. Sú úttekt sannar svo ekki verður um villst að Ríkisútvarpið er á algjörum villigötum og taka verður rekstur þess til algjörrar endurskoðunar. Það hefur verið vitað til fjölda ára að rekstur Ríkisútvarpsins er glórulaus með öllu og að rekstrarform fyrirtækisins getur ekki gengið til lengdar. Þetta var endanlega staðfest að mínu mati í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins, sem birt er í blaðinu í dag. Þar koma fram sláandi tölur og merkileg umfjöllun sem ég hvet alla til að kynna sér. Í stuttu máli sagt kemur þar fram að Ríkisútvarpið var síðast rekið með tekjuafgangi á árinu 1997 en frá því ári hafi samanlagður taprekstur verið þar og nemi ríflega 1400 milljónum króna. Í umfjöllun blaðsins kemur ennfremur fram að á undanförnum áratug, eða frá árinu 1995, hafi eigið fé stofnunarinnar farið úr 2,5 milljörðum króna niður í núllið, semsagt nánast ekki neitt. Sláandi alveg og því nauðsynlegt að fara vel yfir þetta dæmi í pistlinum í dag.

- í öðru lagi fjalla ég um samgöngumál. Að mestu leyti er þar beint sjónum að flugvellinum í Vatnsmýrinni. Fagna ég niðurstöðum starfshóps samgönguráðherra um samgöngumiðstöð á Vatnsmýrarsvæði í Reykjavík, sem skilaði tillögum í vikunni. Gera þær tillögur ráð fyrir að slík bygging muni rísa og er gert ráð fyrir að hún þjóni bæði flugi og langferðabifreiðum með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Fagna ég þessu mjög, enda styrkir þessi niðurstaða mála undirstöður flugvallar í Vatnsmýrinni. Er um að ræða góð tíðindi fyrir okkur á landsbyggðinni. Ennfremur vík ég að fundi sem við sjálfstæðismenn áttum hér á Akureyri með samgönguráðherra á fimmtudag. Var þar góð og gagnleg umræða, t.d. um hálendisveg milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fékk ráðherrann gott veganesti eftir fundinn, enda kom vel fram á fundinum afstaða fólks til þess framfaramáls í samgöngumálum.

- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu mála hér á Akureyri. Vík ég að skipan sérstakra umboðsmanna Akureyrar sem er ætlað til að vekja athygli á því góða fólki sem sé eða hafi verið búsett í bænum og ekki síður að fagna miklum uppgangi í sveitarfélaginu á síðasta ári. Bæjarbúum fjölgar, sl. tvo mánuði hefur þeim fjölgað á annað hundrað manns, sem er mikið gleðiefni. Aldrei hefur verið hafist handa við fleiri byggingar í bænum á einu ári og var í fyrra og við bætist að fasteignaverð í bænum hefur hækkað nokkuð að undanförnu. Minnist ég einnig á góða niðurstöðu í hugmyndasamkeppninni í kjölfar íbúaþingsins og fleiri atriði. Allt gott að frétta héðan að norðan.

Punktar dagsins
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í gestapistli á vef mínum fjallar Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, um tengsl höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ítrekar hann mikilvægi þess að landsmenn allir eigi sem greiðastar samgöngur sín á milli. Ennfremur að góð sameiginleg sýn sé til þess hvernig menn vilja byggja landið og vilji haga samgöngum almennt. Er víkur að umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni segir Kristján Þór: "Meðan Reykjavík er höfuðborg Íslands, miðstöð stjórnsýslu landsins, máttarstoð og miðstöð menningar, viðskiptalífs og samganga í landinu þá er m.a. sátt um það að ríkissjóður, hinn sameiginlegi sjóður allra landsmanna, hafi verið og sé nýttur til þess að kosta aðstöðu innanlandsflugsins í Reykjavík - að þessu leytinu til er höfuðborgin einnig annarra en Reykvíkinga." Síðar segir Kristján svo: "Niðurstaða mín er sú að ef þessi samgöngumiðstöð leggst af, þar sem hún er nú, þá sé nauðsynlegt að skilgreina að nýju verkefni og þjónustuhlutverk höfuðborgar Íslendinga. Að "skilgreina að nýju" er þó tæpast rétt að orði komist þar sem þetta verkefni hefur raunar aldrei verið unnið með skipulögðum hætti heldur hefur stjórnsýsla ríkisins fengið að þróast óheft í Reykjavík á forsendum kunningjasamfélagsins innan borgarmúranna.". Bendi gestum vefsins á að líta á pistil Kristjáns Þórs og kynna sér sjónarmið hans í þessum málum.

Össur Skarphéðinsson

Eins og fram kom nýlega í blöðum mun Össur Skarphéðinsson hafa verið skammaður á einhverjum stöðum, á spjallvefum og bloggsíðum, fyrir að hafa breytt texta á heimasíðu sinni og eytt þar færslum ennfremur. Mun vera um að ræða skrif hans um brotthvarf Bryndísar af þingi og ráðningu á Bifröst og innáskiptingu ISG. Fór hann yfir stöðu mála á Bifröst eins og þar væri hver Samfylkingarmaðurinn af öðrum kominn og mátti lesa á milli línanna að ISG hefði verið "reddað" með innanflokkstilfærslum hjá stuðningsmannasveit sinni. Pistlinum var breytt og parturinn um Samfylkingarfólkið á Bifröst hvarf. Hinsvegar mun vera um að ræða hugmyndir svokallaðrar framtíðarnefndar undir forystu ISG í skólamálum. Össuri mun hafa orðið það á að hnýta í tillögur nefndarinnar og sagt þau feilskot í stefnumörkun. Pistillinn hafði verið settur inn eftir miðnætti en verið horfinn í býtið. Ekki skil ég í fólki að skammast þetta út í Össur blessaðan þó hann finni sína leið til tjáningar. Hann skrifar um málin á eigið vefsetur og er þarafleiðandi ritstjóri og ábyrgðarmaður þess sem þar fer fram. Það hlýtur að vera hans mál en ekki annarra hvað hann skrifar og vill segja með skrifum sínum. Skil ekki þetta fjaðrafok í þessu máli.

Bobby Fischer

Ekki hefur mikið breyst í málum skákmeistarans Bobby Fischer seinustu daga. Hefur staðan frekar orðið dökkari ef eitthvað er. Fischer er í einangrun í fangelsinu og vinurinn sem hann hefur ekki séð í rúma þrjá áratugi og ferðaðist um hálfan hnöttinn til að líta hann augum fær ekki að sjá hann. För félaganna til Japans virðist hafa haft þau áhrif að Fischer fær hvorki að hitta nokkurn né tala við þá sem hann vill. Hann er í algjörri einangrun. Ekki bætir svo úr skák fyrir honum að fram hefur komið að bandarísk skattayfirvöld undirbúi málssókn á hendur honum vegna skattsvika. Greinilegt er að Bandaríkjamenn eru að verða leiðir á biðinni og grípi til þessara aðgerða til að fá hann framseldan til Bandaríkjanna. Hefur þetta leitt til þess að sendinefndin hefur sent beiðni til utanríkisráðuneytisins um að þeir beiti sér frekar eða þingið samþykki með flýtimeðferð ríkisborgararétt fyrir Fischer. Virðist það vera orðið það eina sem geti bjargað honum. Annars virðist málið vera í hörðum hnút og fátt gott framundan fyrir skákmeistarann. Eins og ég hef oft sagt er ég andvígur því að Fischer fái ríkisborgararétt og tel að ef dvalarleyfið dugi ekki verði við svo að búa.

Illugi, Óli Teitur, Katrín og Guðmundur

Fróðlegt var að fylgjast með sunnudagsspjallþáttunum. Var merkilegt að sjá þau Dagnýju liðsmann og Eirík Bergmann í Sunnudagsþættinum á Skjá einum. Var á við marga brandara að sjá Dagnýju reyna að útskýra stórundarlega ESB-ályktun flokksþings Framsóknarflokksins. Eins og ég hef sagt var ályktunin hvorki fugl né fiskur og því ekki undarlegt að útskýringarnar verði eftir því. Var þetta enn ein öfugmælavísan sem berst úr framsóknarkotinu þessa dagana á stöðu mála þar. Alltaf lífleg og góð umræða í Sunnudagsþættinum. Hjá Agli bar hæst umræða um málefni Frjálslynda flokksins sem hafði landsþing sitt um helgina. Vinstrihliðin á þeim flokki varð sífellt greinilegri um helgina. Komu þeir Gunnar Örlygsson og Sigurður Ingi Jónsson til að ræða stöðu mála í þessum flokki. Fróðleg umræða, reyndar var skondnast að heyra af því að fréttamaðurinn fyrrverandi Magnús Þór Hafsteinsson sem endurkjörinn var varaformaður þessa ultra vinstriskotna smáflokks hafi neitað að láta sjá sig fyrst Sigurður Ingi væri þarna. Það er greinilegt að sumir treysta sér ekki í málefnalegar umræður við flokksfélaga sína.

Saga dagsins
1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða, skammt út af Reykjanesi, og stóð það í rúma 2 mánuði
1873 Ofsaveður gerði við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi þá farist
1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar - togarinn var keyptur frá Skotlandi
1983 CDU (kristilegir demókratar) vinna sigur í þýsku þingkosningunum - Helmut Kohl sat áfram á kanslarastólnum, en hann hafði tekið við embættinu ári áður - Kohl var kanslari samfellt í 16 ár, eða allt til ársins 1998, er flokkurinn beið þá ósigur í þingkosningum. Kohl sat lengst í embættinu á 20. öld
1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það var mesta frost sem hafði mælst hérlendis í 80 ár

Snjallyrðið
To wear your heart on your sleeve isn't a very good plan; you should wear it inside, where it functions best.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)