Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 júlí 2005

Hryðjuverk í London

Flak strætisvagns í London

50 eru látnir í London eftir hryðjuverkin í gær og fjöldi fólks er alvarlega slasað. Mannlífið í borginni hefur farið úr skorðum sínum eftir hryðjuverkaárásina. Erfitt er að komast um, umferðarhnútur hefur myndast á milli staða og með því að lama neðanjarðarlestakerfið eru auðvitað lamaðar samgöngur á mikilvægum punktum í borginni. Áfallið er mikið og breskt samfélag er sem lamað eftir árásirnar. Kemur þetta hryðjuverk sem þruma úr heiðskíru lofti eftir að London var í vikunni valin sem vettvangur Ólympíuleikanna árið 2012. Í London er undarleg stemmning í kjölfar þessara hryðjuverka. Í raun má segja að íbúar borgarinnar séu sterkir og standi eftir þessa árás staðráðið í að standa vörð um gildi tilveru sinnar og láti þessa grimmdarlegu aðför að sér styrkja sig í baráttunni gegn hryðjuverkum. Ró er yfir borginni og íbúarnir þar eru að jafna sig á áfallinu og segja má að ótrúlegt sé að svo mannskætt hryðjuverk hafi verið unnið, enda eru fá merki þess sjáanleg í miðborginni.

Elísabet Englandsdrottning og Bruce Lait

Í ítarlegum pistli mínum á íhald.is í dag fer ég yfir þetta mál og skrifa um skoðanir mínar á stöðu mála. Eins og sjá má af efstu myndinni var þessi hryðjuverkaárás mjög óvægin og skelfileg. Enginn vafi leikur á því að hryðjuverkahópur hafi staðið þarna að baki. Ef marka má fréttir breskra fjölmiðla er ljóst af ummælum sérfræðinga að hér hafi verið að baki hópur hryðjuverkamanna sem starfað hafi í Bretlandi beint við undirbúning sprengjuárásanna. Þessi árás leiddi til dauða fólks af öllum kynþáttum og því af ólíkum uppruna. Meðal þeirra sem létust eru fólk frá Sierra Leone, Ástralíu, Portúgal, Póllandi og Kína auk Bretlands. Í dag heimsótti Elísabet II Englandsdrottning, særð fórnarlömb hryðjuverkaárásanna, á sjúkrahúsi í London. Drottningin ávarpaði fjölmiðlamenn við það tækifæri og sagði að þessar árásir styrktu samstöðu landsmanna og myndu ekki lama þjóðarsál Bretlands. Ennfremur heimsóttu prinsinn af Wales og hertogaynjan af Cornwall særða á sjúkrahúsi í borginni.

Leiðtogarnir standa sameinaðir í Gleneagles

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, kom aftur til leiðtogafundar átta helstu iðnríkja heims í Gleneagles í Skotlandi í gærkvöldi. Það var gríðarlega mikilvægt að hann skyldi fara til London um leið og þessar skelfingar áttu sér stað og eiga þar fund með borgaryfirvöldum og ríkisstjórninni. Ennfremur var mjög rétt viðbrögð af hans hálfu að ávarpa þjóðina frá Downingstræti 10. Ekki síður var rétt að fundurinn skyldi halda áfram og viðræður þjóðarleiðtoganna um mikilvægustu verkefni samtímans héldu áfram. Í dag lauk fundinum formlega með yfirlýsingu leiðtoganna og undirritun hennar. Meðal helstu niðurstaðna fundarins er að iðnríkin ætla að tvöfalda aðstoð við þróunarríkin, úr 50 milljörðum dollara í 100 milljarða, fyrir lok áratugarins. Iðnríkin ætla ennfremur að þjálfa 20.000 friðargæsluliða fyrir Afríkulönd gegn því að þau tryggi lýðræði og jákvæða stjórnarhætti. Niðurstaða fundarins er því jákvæð og ánægjulegt að sjá hana í kjölfar hinna velheppnuðu Live8-tónleika um síðustu helgi, sem vakti máls á aðstoð við Afríkulöndin.

En í heildina er alveg ljóst að baráttan gegn hryðjuverkum hefur tekið á sig nýja mynd við tíðindi gærdagsins í Lundúnum. Atburðir gærdagsins eru áminning til allrar heimsbyggðarinnar um grimmd og ennfremur þess efnis að hryðjuverk á vestrænt samfélag verða ekki liðin. Þeim er svarað af fullri hörku. En mikilvægast er eins og ég hef sagt að standa vörð um samstöðu þjóðanna í baráttunni. Nú er tækifærið til að sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkum af enn meiri krafti en áður.

Saga dagsins
1965 Lestarræninginn Ronald Biggs sleppur úr varðhaldi - Biggs gaf sig fram sjálfviljugur árið 2001.
1986 Kurt Waldheim fyrrv. framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, verður forseti Austurríkis - hann var mjög umdeildur vegna meintrar þátttöku sinnar í starfi nasista í styrjöldinni á fimmta áratugnum.
1987 Ríkisstjórn undir forsæti Þorsteins Pálssonar tekur við völdum - miklir erfiðleikar í samstarfi einkenndi starf stjórnarinnar allan starfstíma hennar. Hún sprakk í beinni útsendingu í sjónvarpi í septembermánuði 1988 í kjölfar mikils ósættis milli leiðtoga stjórnarflokkanna um efnahagsmálin.
1992 Thomas Klestil sendiherra hjá SÞ, tekur við embætti forseta Austurríkis. Hann lést 6. júlí 2004.
2003 Írönsku síamstvíburarnir Ladan og Laleh Bijani deyja eftir aðgerð í Singapore, þar sem reyna átti að skilja þær í sundur. Ladan og Laleh urðu vel þekktar um allan heim vegna fötlunar sinnar.

Snjallyrðið
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár,
nú fellur heitur haddur þinn
um hvíta jökulkinn.

Þú klæðir allt í gull og glans,
þú glæðir allar vonir manns,
og hvar sem tárin kvika á kinn,
þau kyssir geislinn þinn.
Þú fyllir dalinn fuglasöng,
nú finnast ekki dægrin löng,
og heim í sveitir sendirðu æ
úr suðri hlýjan blæ.

Þú frjóvgar, gleður, fæðir allt
um fjöll og dali og klæðir allt,
og gangirðu undir gerist kalt,
þá grætur þig líka allt.
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dali og hól,
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Páll Ólafsson skáld (1827-1905) (Ó, blessuð vertu sumarsól)