Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

20 júlí 2005

John Roberts tilnefndur í hæstarétt

John Roberts og George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í gærkvöldi að hann hefði tilnefnt John G. Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hefur í réttinum allt frá árinu 1981. Tilkynnti hún um afsögn sína hinn 1. júlí sl. og hafði síðan verið uppi mikill orðrómur um hver yrði tilnefndur í hennar stað. Nú þegar tilkynnt hefur verið um valið fer málið fyrir Bandaríkjaþing. Mun Roberts koma fyrir þingnefnd seinni hluta ágústmánaðar og svara þar spurningum um lögfræðileg álitaefni og tengd málefni. Nefndin mun í kjölfarið kjósa um tilnefninguna og fer málið svo fyrir öldungadeildina í heild sinni. Hljóti Roberts meirihluta atkvæða (fleiri en 50 atkvæði) er hann réttkjörinn til setu í réttinum. Valið á Roberts kom að mörgu leyti ekki á óvart, en þó hafði verið talið líklegra seinustu daga að Alberto Gonzales dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og dómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Fullyrt var lengi vel í gær að Clement hefði orðið fyrir valinu og fluttu fréttastöðvar fréttir þess efnis að sú yrði raunin en þau drógu fullyrðinguna til baka þegar leið að tilkynningunni í Hvíta húsinu og ljóst var að hún hefði ekki hlotið tilnefninguna.

Bush forseti, ræddi við fjölda aðila áður en hann tók ákvörðun. Mun fjöldinn vera rúmlega 10 manns sem raunverulega kom til greina í embættið. Roberts var alla tíð meðal þeirra sem helst komu til greina en þegar nær dró ákvörðuninni var talið að möguleikar hans hefðu minnkað og fjölmiðlar fjölluðu mest um konurnar sem fyrr eru nefndar og Gonzales. Tilkynnt var í gær að forsetinn myndi tilkynna um val sitt á hæstaréttardómara í stað Söndru klukkan níu að kvöldi að bandarískum tíma í beinni sjónvarpsútsendingu á öllum sjónvarpsstöðvum. Var það nýmæli, en jafnan hefur valið verið tilkynnt með lágstemmdum hætti á blaðamannafundi með annarri framsetningu, en Bush boðaði til blaðamannafundar í austurálmu Hvíta hússins. Var talið að um konu væri að ræða og orðrómurinn um Edith Clement varð allnokkur. CNN taldi sig svo örugga um að hún yrði dómaraefnið að þau fullyrtu að hún hefði flogið ásamt manni sínum frá New Orleans til Washington og væri í borginni. Stóðu þeir við fréttina þar til kom í ljós að eiginmaður Edith var í New Orleans og að hún væri þar líka. Þá varð ljóst að hún var ekki dómaraefnið.

John Roberts og George W. Bush

John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður Rehnquist forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og verður seint hægt að finna að fræðimannsferli hans og starfsferli sem dómara og lagasérfræðings. Hinsvegar er hann mun hægrisinnaðri í skoðunum en hin hófsama íhaldskona Sandra og hætt við að átök verði um tilnefningu hans. Segja má að viðbrögðin við tilnefningu Roberts í hæstarétt hafi verið mjög flokkaskipt. Repúblikanar fögnuðu mjög tilnefningu hans og hrósuðu forsetanum fyrir valið. Demókratar voru sumir jákvæðir en flestir þeirra frekar neikvæðir og sögðu harðvítugt staðfestingarferli framundan. Roberts þykir vera íhaldssamur og því er hætt við að demókratar reyni að flokkseinkenna þessa tilnefningu og finna höggstaði á þeim tilnefnda og ekki síður þeim sem valdi hann, forsetanum sjálfum.

Þetta hefur oft gerst en ekki alltaf tekist. Besta dæmið um misheppnaðar skipanir í réttinn var þegar að Lewis Powell tilkynnti um starfslok sín sumarið 1987. Reagan forseti tilnefndi Robert Bork til embættisins en öldungadeildin hafnaði honum, 58-42. Þá tilnefndi Reagan í staðinn Douglas H. Ginsburg en hann varð að draga sig til baka vegna orðróms um dópneyslu hans fyrr á árum. Þá var í þriðju tilraun tilnefndur Anthony Kennedy og tók hann loks við embætti, nokkru eftir formleg starfslok Powell. Hvað varðar Roberts nú má búast við mikilli hörku frá báðum hliðum ef út í átök fer. Frjálslyndir telja hann ekki viðeigandi dómaraefni, hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann. Þó hefur Roberts ekki sagst telja rétt að gera það. En nú tekur við merkilegt ferli málsins. Staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík. Alveg einfalt!

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Búast má við enn frekari breytingum á hæstarétti á komandi mánuðum, í kjölfar þess að eftirmaður Söndru hefur tekið þar sæti. Þegar er ljóst að stutt er í að forseti réttarins, hinn áttræði William Rehnquist, láti af störfum, enda hefur hann greinst með krabbamein og er orðinn nokkuð veiklulegur. Sást við embættistöku Bush forseta í janúar að heilsa hans er brothætt og hægt að slá því föstu að hann láti brátt af störfum. Hann hefur verið í réttinum frá forsetatíð Nixons og forseti hans frá árinu 1986. Aðeins einn forseti hefur setið lengur en hann í sögu réttarins. Þrátt fyrir að Rehnquist hafi nýlega lýst yfir að hann ætli ekki að hætta, hefur hann sagt að hann muni sitja í réttinum svo lengi sem heilsa hans leyfir. Það er því ljóst að starfslok gætu orðið á hverri stundu. Einnig blasir við að John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Það eru því miklar breytingar í sjónmáli og ljóst að Bush forseti getur með vali sínu á eftirmönnum þessara dómara sem teljast hægrisinnaðir breytt réttinum og hvernig hann muni dæma í stórum og vandasömum málum á komandi árum.

Saga dagsins
1627 Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum, lést, 85 ára gamall - Guðbrandur var biskup í 56 ár.
1783 Eldmessan á Kirkjubæjarklaustri haldin - meðan að sr. Jón Steingrímsson flutti þrumandi ræðu yfir sóknarbörnum sínum stöðvaðist framrás hraunsins úr Skaftáreldum, skamman spöl frá kirkjunni.
1944 Adolf Hitler lifir af banatilræði - hann svipti sig lífi er seinna stríðið var loks tapað í maí 1945.
1951 Abdullah I Jórdaníukonungur myrtur í mosku í Jerúsalem - Abdullah var þá sjötugur að aldri.
1960 Sirimavo Bandaranaike kjörin í embætti forsætisráðherra Ceylon (Sri Lanka) - Sirimavo varð fyrsti kvenforsætisráðherra heimsins og einnig fyrsta konan er kjörin var til leiðtogastarfa í pólitík.

Snjallyrðið
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig.
Minnst mildingur mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjarta borg.

Gæt, mildingur mín,
mest þurfum þín,
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
málsefni fögur.
Öll er hjálp af þér
í hjarta mér.
Kolbeinn Tumason (1170-1208) (Heyr himnasmiður)