Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um umsókn Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og stöðu málsins á undanförnum vikum og mánuðum. Ljóst er að tekist er á innan stjórnarsamstarfsins um framtíð þess og ljóst af yfirlýsingum forsætisráðherra á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á Fjóni að hann ætlar að stefna að því að umsóknin verði að veruleika við andstöðu margra þingmanna og forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Segja má að hér sé forsætisráðherra að reyna að halda andlitinu í þessu máli. Það er ekkert hernaðarleyndarmál að umsóknin um sæti í öryggisráðinu hefur lengi verið gæluverkefni hans úr langri utanríkisráðherratíð hans. Vissulega yrði það nokkur niðurlæging fyrir Halldór ef hætt yrði við framboðið. Það blasir alveg við. En burtséð frá því verður forsætisráðherra að líta blákalt á málið. Líkurnar á því að við fáum þetta sæti fara minnkandi, kostnaðurinn við framboðið er allnokkur og deilt er pólitískt um það hvort rétt sé að stefna í þessa átt. Það er bara einfaldlega þannig, þetta sjá allir. Ég túlkaði viðbrögð forsætisráðherra á Fjóni þannig að hann væri að storka samstarfsflokknum og andstæðingum umsóknarinnar og bjóða þeim upp í krappan dans. Það er sjálfsagt mál að leggja upp í það verkefni að takast á um þetta mál. Ekki tel ég annað rétt en að skerpa línurnar og fara yfir stöðu málsins nú.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni hæstaréttar Bandaríkjanna. Sandra Day O´Connor tilkynnti á föstudag að hún hefði beðist lausnar úr hæstarétti Bandaríkjanna, eftir að hafa setið þar í 24 ár. Sandra varð fyrsta konan sem kjörin var til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Sandra sem er 75 ára kemur frá Texas og hefur verið þekkt fyrir að vera óhrædd við að tjá skoðanir sínar og opinskáa framkomu á opinberum vettvangi. Er hún án vafa ein áhrifamesta kona í sögu Bandaríkjanna. Reynir nú á hvað George W. Bush forseti Bandaríkjanna, gerir við val á hæstaréttardómara. Verður þetta í fyrsta skipti í ellefu ár sem dómari er skipaður við hæstarétt Bandaríkjanna. Verður öldungadeildin að samþykkja val forsetans og því ljóst að ef umdeildur kandidat er valinn að staðfestingarferlið verði harkalegt og langvinnt. Reyndar sló Bush forseti tóninn er hann sagði að valinn yrði einstaklingur sem hefði ríka réttlætiskennd og hefði að sjónarmiði mannleg gildi með þeim hætti sem reisn væri af fyrir samfélagið. Það má teygja þetta hugtak vítt og ljóst að Bush gæti komið á óvart með valinu á þeim kandidat sem mögulega tekur við af hinni áhrifamiklu Söndru Day O´Connor.

- í þriðja lagi fjalla ég um 75 ára afmæli SUS í síðustu viku. Haldinn var hátíðarstjórnarfundur í Hvannagjá á Þingvöllum í tilefni afmælisins. Heiðursgestur á fundinum var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður SUS, og flutti hann ávarp. Á þessum hátíðarstjórnarfundi voru samþykktar tvær ályktanir. Bendi ég ennfremur á skrif fyrrum formanna SUS á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna í tilefni afmælisins.


Pólitíska ræman
The Contender

The Contender er vandaður og vel gerður pólitískur spennutryllir, eins og þeir gerast bestir. Þar er sögð sagan af því er Jackson Evans forseti Bandaríkjanna, tekur þá örlagaríku ákvörðun að tilnefna fyrstu konuna, öldungadeildarþingmanninn Laine Hanson, sem varaforsetaefni sitt er sitjandi varaforseti Bandaríkjanna fellur frá rétt fyrir lok seinna kjörtímabils forsetans. Hann sér í því tvenna möguleika, báða mjög góða fyrir sig og arfleifð sína. Hann yrði með því fyrsti forseti Bandaríkjanna til að útnefna konu sem varaforseta sinn og hann yrði með því öruggur partur af stjórnmálasögu sinnar samtíðar, einnig gæti hann tryggt ítök síns flokks áfram í Hvíta húsinu eftir forsetatíð sína, ef hún næði kjöri sem eftirmaður hans. Er val forsetans á henni hefur verið tilkynnt opinberlega koma fram gögn sem greina í smáatriðum frá afar frjálslegum kynferðislegum athöfnum hennar á yngri árum sínum og með því kemst allt í uppnám þar sem öldungadeild Bandaríkjaþings (sem þarf að staðfesta varaforsetaefni sitjandi forseta) telur slíkt vart hæfa tilvonandi varaforseta Bandaríkjanna.

Meðal þeirra sem ganga lengst fram í andúð sinni á vegtyllu hennar er repúblikaninn Shelly Runyon, en honum er mjög í nöp við hana og ekki síst fortíð hennar. Hann ákveður að reyna hvað sem hann getur til að spilla fyrir framavonum hennar. Við tekur óvæginn og vægðarlaus hráskinnaleikur sem getur tekið á sig allar myndir og það kemur að því að enginn er óhultur, hvorki varaforsetaefnið né sitjandi forseti og valdhafar í Hvíta húsinu. Hér smellur allt saman til að skapa hina einu sönnu pólitísku spennumynd. Leikstjórn Rod Lurie, handritið, tónlistin, kvikmyndatakan og leikurinn eru hreint afbragð. Joan Allen fer á kostum í hlutverki varaforsetaefnisins, var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sama má segja um Jeff Bridges sem er flottur í hlutverki forsetans. En senuþjófurinn er Gary Oldman sem er frábær í hlutverki klækjarefsins Runyon sem reynir ALLT til að koma fyrir skipan Hanson í embættið. Oldman hefur aldrei leikið betur á sínum magnaða ferli.

Semsagt; kraftmikil, spennandi, vönduð, vel leikin og raunsæiskennd úrvalsmynd sem nefnir hlutina réttum nöfnum. Þeir sem hafa ekki séð hana og hafa áhuga á stjórnmálum, drífið endilega í því! Frábær úrvalsmynd fyrir þá sem unna alvöru kvikmyndum með pólitísku ívafi.

Saga gærdagsins
1874 Þjóðhátíð haldin í Eyjafirði til að minnast þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar, síðar sama ár.
1907 Tveir þýskir menn drukkna á Öskjuvatni - enn þann dag í dag þykir þetta mál vera ráðgáta.
1961 Nóbelsskáldið Ernest Hemingway sviptir sig lífi í Idaho - Hemingway var þá 61 árs að aldri.
1964 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, undirritar hina sögufrægu réttindalöggjöf landsins.
1997 Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart deyr í Los Angeles, 89 ára að aldri. Stewart var einn af þekktustu leikurum sinnar kynslóðar og hlaut frægð fyrir góða túlkun á ógleymanlegum persónum.

Saga dagsins
1921 Hin íslenska fálkaorða var formlega stofnuð - hún hefur verið veitt af forseta Íslands frá 1944.
1928 Farið í fyrsta skipti á bíl yfir Öxnadalsheiðina. Þá tók ferðin frá Akureyri til Blönduóss rúma 15 tíma og var mikið ferðalag. Öllu greiðlegra er nú að aka leiðina, eða 2 tíma og vegurinn mun skárri.
1971 Jim Morrison aðalsöngvari Doors, deyr úr hjartabilun í París, 27 ára að aldri. Morrison var jarðsettur í París og er legstaður hans þar einn af helstu vettvöngum ferðamanna sem koma þangað.
1986 Sjálfvirkt farsímakerfi Landssímans formlega tekið í notkun - um var að ræða allmikil þáttaskil.
1987 Fjöldamorðinginn og nasistinn Klaus Barbie dæmdur í lífstíðarfangelsi - Barbie lést árið 1991.

Snjallyrðið
Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Kærleikurinn (Kor.1.1-13)