Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 júlí 2005

Könnun á fylgi flokkanna á Akureyri

Akureyri

Eins og vel hefur komið fram í fjölmiðlum seinustu dagana framkvæmdi IMG Gallup viðamikla könnun á lífskjörum íbúa á Akureyri í marsmánuði. Samhliða þeirri könnun var spurt um afstöðu fólks til þeirra fimm framboða sem hafa fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002. Úrtakið var handahófsvalið úr þjóðskrá. Svarhlutfall í könnuninni var 53,7%. Sjálfur lenti ég í þessari könnun. Hún var verulega umfangsmikil. Hringt var í mig miðvikudagskvöld eitt í marsmánuði og þar spurt um allt mögulegt og ómögulegt. Var ég í símanum að mig minnir í kortér og man ég að ég taldi að þetta ætlaði engan endi að taka. En hvað með það. Þetta var ítarleg könnun og margt fróðlegt hefur komið út úr henni. Man ég að mér þótti mjög athyglisvert á sínum tíma að spurt væri samhliða þessu um fylgi þeirra framboða sem eru í bæjarstjórn. Stutt er síðan niðurstöður þessarar lífsgæðakönnunar voru birtar formlega. Hinn 8. júlí sl. var fjallað um málið á vef Akureyrarbæjar. Í stuttri frétt eru raktir helstu þættir könnunarinnar hvað varðaði lífskjörin. Eins og athugulir lesendur taka eftir er litið er á tengilinn stendur þar feitletrað neðst: "Niðurstöðum könnunarinnar verða gerð frekari skil síðar."

Í vikunni hófst umræða um stjórnmálahluta þessarar könnunar. Ríkisútvarpið sló fréttinni upp að kvöldi mánudags í svæðisútvarpinu hér á Akureyri. Þar var fullyrt að meirihlutinn væri fallinn og að könnuninni hefði verið stungið undir stól. Í frétt um málið að kvöldi mánudagsins sagði Björn Þorláksson fréttamaður, frá meginniðurstöðunum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu ekki lengur meirihluta í bæjarstjórn, Oddur Helgi væri inni þrátt fyrir umfangsmikið fylgistap Lista fólksins, Samfylkingin og VG bættu við sig og meirihlutaflokkarnir hefðu dalað nokkuð. Á þessu var svo haldið áfram að klifa í gær. Nema að þá birtist Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, og sakaði meirihlutann um valdníðslu og að hafa leynt könnuninni því meirihlutinn ætti að vera fallinn. Einnig hefur svo verið talað ítarlega um málið á vef Samfylkingarinnar hér í bænum og fullyrt auðvitað á mánudag í takt við Ríkisútvarpið og talnameistarann Björn Þorláksson að meirihlutinn væri fallinn. Já þetta er merkileg pólitík sem Samfylkingin stundar finnst mér. En annars er skiljanlegt að menn þar á bæ hafi vonað að meirihlutinn væri fallinn - þó það nú væri.

Tölurnar eru þessar:
Sjálfstæðisflokkurinn: 29,8%
Samfylkingin: 26,8%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð: 18,5%
Framsóknarflokkurinn: 17,1%
Listi fólksins: 6,3%

Akureyri

Þegar nánar var litið á þessa könnun og Gallup kynnti tölurnar og skiptingu bæjarfulltrúa kom mjög skondið í ljós. Meirihlutinn, þrátt fyrir nokkuð fylgistap, var ekki fallinn. Sjálfstæðisflokkur heldur sínum fjórum bæjarfulltrúum og Framsókn hlýtur tvo, missir einn. Eins og allir talnaglöggir átta sig á, ef þeir kunna þ.e.a.s. að reikna, eru þar komnir sex bæjarfulltrúar, sem nægir að mynda meirihluta, allavega í ellefu manna bæjarstjórn. Eða það segir mín grunnskólastærðfræði mér. Þegar maður er með sex epli og fimm appelsínur er nokkuð ljóst að eplin eru fleiri. Eða þetta kenndi góður stærðfræðikennari mér allavega einu sinni. En hvað með það. Greinilegt er að fréttamaður hefur fjallað um málið með þeim hætti að meirihlutinn hlyti að vera fallinn, fyrst hann fengi undir 50% fylgi. Því hlyti Oddur Helgi að vera inni og treysta ætti á það sem virtist sjást í tölunum. Það er merkilegt að reyndir fréttamenn hafi ekki gengið úr skugga um að atkvæði greidd Lista fólksins hafi ekki nægilega mikið á bakvið sig til að koma manni inn. Eins og sést hefur nú þegar könnunin er greind kemur L-listi Odds Helga Halldórssonar ekki að manni og missir báða sína fulltrúa, þrátt fyrir að hafa setið í minnihluta í tvö kjörtímabil.

Oddur Helgi er vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík og það er vonlaust að afskrifa hann nú, þrátt fyrir þessa könnun. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála. Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en t.d. Samfylkingin sem finnur sér skotfæri í fjölda mála og lætur meira á sér kræla. Þó að Oddur Helgi mælist með þessum hætti núna er varhugavert að afskrifa hann. Honum hefur tekist í tveim kosningum að byggja með undraverðum hraða maskínu til verka og komið sér inn í bæjarstjórn og bætti svo verulega við kjörfylgi sitt 1998 síðast. Verður fróðlegt að sjá hvað Listi fólksins og Oddur Helgi persónulega geri í aðdraganda næstu kosninga.

Akureyri

Greinilegt er að nokkur valdabarátta er framundan innan Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar. Oktavía er greinilega komin í varnarstöðu fyrir komandi átök innan síns flokks. Í dag lýsti Hermann Jón Tómasson varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, yfir framboði sínu til leiðtogastöðu flokksins í bænum í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust. Hefur Oktavía ekki gefið upp hvað hún ætlar sér, en ekki er búist við að hún hætti. Oktavía var bæjarfulltrúi Akureyrarlistans 1998-2002 og því í meirihluta með Sjálfstæðisflokki af þeirra hálfu ásamt Ásgeiri Magnússyni. Fyrir seinustu kosningar vann hún Ásgeir í forvali innan Samfylkingarinnar og Ásgeiri var bolað burt. Nú stefnir í átök milli Hermanns og Oktavíu um forystuna. Skiljanlegt er því að Oktavía minni á sig og hefji öfluga fjölmiðlaframkomu til að vekja á sér athygli og nái almennilegri vígstöðu í þessu prófkjöri. Í því ljósi er framkoma hennar í fjölmiðlum í gær skiljanleg. Hún er að reyna að fá á sig aggressívari ímynd og reyna að notfæra sér vaxandi fylgi flokksins sér til framdráttar í ljósi prófkjörsins sem flokkurinn stendur fyrir. Er vissulega merkilegt að Samfylkingin sem hefur vaxið nokkuð nú undir forystu Oktavíu sjái fram á átök um leiðtogahlutverk flokksins.

Flokkurinn hefur vaxið nokkuð milli kannana. Er ekkert óeðlilegt að hann eflist að mínu mati. Samfylkingin var að skrapa algjört botnfylgi í seinustu kosningum og áttu greinilega í stökustu vandræðum þá. Nú koma þau sterkari til leiks og svo virðist sem að Oktavía hafi náð að efla fylgi flokksins. Það er reyndar skondið ef henni verður svo launað það með því að verða sparkað af Hermanni Jóni. Eitt fannst mér ennfremur athyglisvert í gær. Það var að Lára Stefánsdóttir varaþingmaður, kom fram í spjallþættinum Sjónarhornið á Aksjón sem talsmaður Samfylkingarinnar. Fyrirfram hefði ég búist við Oktavíu þar sem leiðtoga flokksins í bæjarmálunum og hún myndi tala þar ásamt Oddi Helga sem þar var að tala um fylgi Lista fólksins og sína stöðu almennt pólitískt. Vissulega er Lára með þingmanninn í maganum og kæmi sér henni vel að koma sér vel á framfæri, en ég verð að viðurkenna að merkilegt var að Oktavía kom ekki fram þarna. En kannski er óánægjan með forystu Oktavíu meiri en heyrist úti í bæ. Allavega er leiðtogaframboð Hermanns fyrirboði um nokkur átök í þessu prófkjöri Samfylkingarinnar.

Akureyri

Framsóknarflokkurinn hefur dalað gríðarlega í bæjarmálunum hér seinasta áratuginn. Árið 1994 fékk flokkurinn fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu og vann mikinn sigur. Jakob Björnsson varð bæjarstjóri og myndaður var meirihluti með krötum sem höfðu einn mann, Gísla Braga Hjartarson. Fyrir kosningarnar 1998 varð mikið umrót. Framsóknarflokkurinn klofnaði og Oddur Helgi fór í sérframboð. Hann komst inn og Framsókn fór niður í þrjá bæjarfulltrúa. Á því tímabili leiddi flokkurinn minnihlutann en var frekar lítt sýnilegur þar. Framsókn hélt sínum þrem síðast og myndaður var meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Framsókn hefur minnkað í bæjarmálunum og er kominn niður í rúm 17% í þessari könnun, sem er söguleg mæling í þessu fyrrum höfuðvígi flokksins. Vinstri grænir bæta verulega við sig og eflast, eins og við var að búast. Flokkurinn fékk lítið fylgi í síðustu kosningum og getur ekki annað en bætt við sig eftir þá herfilegu útreið. Verður fróðlegast að sjá hverjir muni leiða framboð VG í næstu kosningum. Valgerður Bjarnadóttir mun væntanlega ætla sér að halda áfram og sama má segja um Jón Erlendsson en mikið er talað um Andreu Hjálmsdóttur og Hall Gunnarsson í umræðunni líka.

Við sjálfstæðismenn missum nokkuð fylgi í þessari könnun en höldum okkar fulltrúafjölda. Þó er alveg ljóst að þetta fylgi er vart ásættanlegt og við þurfum að fá vel yfir 30% til að eiga okkar fjóra bæjarfulltrúa vel trygga inn. Þannig að framundan hjá okkur er öflug og massív kosningabarátta þar sem við ætlum okkur að halda okkar hlut. Ljóst er að nokkur hörð mál hafa verið í aðdraganda þessarar könnunar. Deilt var um hugmyndir um byggingu tólf hæða íbúðablokkar á Baldurshagareitnum, hér rétt fyrir neðan heimili mitt í Þórunnarstrætinu. Það var mikil heift og læti í því máli. Að lokum kom meirihlutinn til móts við óskir fólks og byggingin var lækkuð og niðurstaðan eru tvær sjö hæða blokkir á þessum reit. En það er auðvitað alltaf svo að upp koma deilumál. Það er erfitt að stjórna vaxandi sveitarfélagi svo allir séu sáttir. En það er alveg ljóst að við sjálfstæðismenn munum koma sterkir til leiks eftir að við höfum ákveðið aðferð til að velja framboðslista okkar fyrir næstu kosningar. Hvort sem uppstilling eða prófkjör verður ofan á tel ég mikilvægt að uppstokkun verði í hópi tíu efstu og þar muni koma fleiri yngri frambjóðendur til sögunnar en var síðast.

Sumarsól í Eyjafirði árið 2004

Kemur vel til greina að ég muni gefa kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Mig skortir ekki áhuga á stjórnmálum og er alveg ljóst að ég mun leggja mitt að mörkum til framboðs flokksins á komandi ári. Ég hef í skrifum mínum verið virkur við að tala fyrir bæjarmálum og fókuserað mig mikið á skipulags- og skólamálin. Það eru þeir málaflokkar auk atvinnumála sem ég tel að verði aðalmál næstu kosningabaráttu. Það er mikilvægt að yngra fólk sé virkt við að tala fyrir sinni stefnu og við í Verði munum vera virk á vetri komanda við að vinna okkar sýn í bæjarmálum. Tel ég mikilvægt að með einum eða öðrum hætti komi ungt fólk sterkt inn á listann að ári. Við sjáum á þessari könnun að viss uppstokkun þarf að vera og er gott að fá þessa mælingu á þessum tímapunkti. Allavega er ljóst að spennandi kosningar eru framundan. Það sem ekki er vitað er hvernig sveitarfélagið lítur út að vori. Það er sameiningarkosning hér í firðinum í október og þar verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði að lokum.

Saga dagsins
1903 Fyrsta kvikmyndasýningin fer fram í Reykjavík - sýndar voru þá breskar fréttakvikmyndir í Iðnó.
1965 Sir Edward Heath var kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð fyrsti almúgamaðurinn sem kjörinn var á leiðtogastól flokksins. Heath varð forsætisráðherra Bretlands árið 1970 og sat allt til ársins 1974. Þá tapaði hann í tveim þingkosningum árið 1974 og missti leiðtogastólinn til Margaret Thatcher árið 1975. Heath sat á breska þinginu í hálfa öld, 1951-2001. Hann lést hinn 17. júlí 2005.
1996 Sprengjutilræði á Ólympíuleikunum í Atlanta í Georgíu - tveir létu lífið og fjöldi fólks slasaðist.
1999 Milljónasti bíllinn fór um Hvalfjarðargöng, rúmu ári eftir að þau voru opnuð, hinn 11. júlí 1998.
2003 Gamanleikarinn Bob Hope deyr í Toluca Lake í California - Hope var þá nýlega orðinn tíræður.

Snjallyrðið
Ég á það heima sem aldrei gleymist
né umbreyst fær,
við ölduhreiminn mig ávallt dreymir
um auðnir þær,
sem vindar geyma og vetrar snær,
þar vatnsföll streyma um dali tær.

Ó, fögru sveitir með fell og leiti
og fannagljá,
með svipinn hreina á öllu og einu
sem ann mín þrá.
Við minnstu steina grær minning smá
sem mun ei leynast né falla í dá.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946) (Heima)