Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um fjölmiðlaumhverfið í ljósi þess að ný fréttastöð í sjónvarpi hefur brátt göngu sína. Má leiða líkum að því að ef hún gangi upp muni hún marka þáttaskil í fréttamennsku hérlendis og jafnvel verða Ríkisútvarpinu mjög skeinuhætt. Er ekki annað hægt fyrir fréttafíkil en mig að lýsa yfir ánægju með þessa nýju stöð og með þessu að hafa alltaf aðgang að fréttaumfjöllun og ferskum fréttum á netinu eða í sjónvarpi þegar að hentar. Það er ekki amalegt að geta gengið að öflugum fréttum og spjalli um dægurmálin eins og kalda vatninu í krananum – alltaf aðgengilegt, svo fremi að maður sé við tölvu eða sjónvarp í verkefnum hvunndagsins. Þetta eru vissulega þáttaskil. Fyrsta spurningin sem vaknar þó er litið er kalt á myndina er: hvernig stendur þetta undir sér? Er virkilega nægt streymi frétta til að halda uppi slíkri stöð og er rekstrargrundvöllurinn slíkur að hann standi undir þessu verkefni. Allt eru þetta hugleiðingar og spurningar sem svör koma fljótt við er stöðin hefur hafið göngu sína. Fjalla ég ennfremur um Ríkisútvarpið, en þar blasa við breytingar samhliða útvarpsstjóraskiptum. 23 umsóknir komu um embætti útvarpsstjóra og nefni ég hvernig ég vilji að næsti útvarpsstjóri verði og tel rétt að Elín Hirst eða Páll Magnússon taki við starfinu.

- í öðru lagi fjalla ég um John G. Roberts sem hefur verið tilnefndur dómari við hæstarétt Bandaríkjanna. Rétturinn er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að forseti réttarins, William Rehnquist, sem hefur setið á forsetastóli frá árinu 1986, hefur setið í réttinum í 33 ár, eða frá árinu 1972, eða síðan í forsetatíð Richard M. Nixon. Einn dómarinn er orðinn hálfníræður. Aðeins einn þeirra er yngri en sextugur, Clarence Thomas, sem er fæddur árið 1948. Ekki hefur losnað sæti í réttinum í áratug, en síðast var skipað í réttinn árið 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer. Fer ég yfir stöðu mála í réttinum og ferlið sem nú tekur við vegna valsins á Roberts.

- í þriðja lagi fjalla ég um eymd Framsóknar sem hefur birst stjórnmálaáhugamönnum um nokkuð skeið. Merkilegt var að flokksfélagið í kjördæmi sjálfs forsætisráðherra þjóðarinnar skyldi boða til aðalfundar síns helgina fyrir verslunarmannahelgina, semsagt í júlí. Þá er eins og nærri má geta margir á faraldsfæti og lítið um að vera í pólitíkinni. Reyndar gengur á ýmsu í sama kjördæmi innan Framsóknarflokksins vissulega. Það er alveg greinilegt að mikill eymdarbragur er yfir Framsóknarflokknum í borginni. Í hverri Gallup-könnuninni á eftir annarri mælist flokkurinn með innan við 5% í kjördæmi forsætisráðherrans. Það hefur ekki ræst að Framsóknarflokkurinn muni sjálfkrafa styrkjast samhliða því að taka við forsæti ríkisstjórnarinnar.


Pólitíska ræman
JFK

Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Atburðarás þessa sólbjarta nóvemberdags í Dallas hefur verið umfjöllunarefni margra bóka og kvikmynda og þetta sjónarhorn er sérstakt mjög, enda er þarna beint sjónum að mörgum samsæriskenningum málsins. Þessi kaldi föstudagur í borginni varð hörmungarviðburður, en engu að síður sögulegur. Ráðgert var að forsetahjónin myndu ásamt ríkisstjórahjónunum keyra um borgina í opnum bíl til að heilsa almenningi. Í hádeginu keyrði bílalestin í gegnum Dealey Plaza í miðborg Dallas. Á slaginu 12.30 er bílalestin beygði inn á Elmstræti kváðu við skothvellir. Þrjú skot lentu í forsetanum en eitt í John Connally ríkisstjóra. Bílalestin hélt í kjölfarið rakleiðis á Parkland sjúkrahúsið sem var skammt frá. Hálfri stundu eftir skotárásina var Kennedy forseti, úrskurðaður látinn. Hann var 46 ára að aldri. Fráfall hans er einn nöturlegasti atburður 20. aldarinnar og muna margir hvar þeir voru staddir er þeir fengu fregnina af dauða forsetans.

Andlát hans var tilkynnt skömmu síðar opinberlega í fjölmiðlum, fyrst í útsendingu CBS af sjónvarpsfréttamanninum Walter Cronkite. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans mikið reiðarslag. Þjóðarsorg var um allan heim í kjölfar þess að fregnin um morð hans fór um heimsbyggðina. Lyndon B. Johnson varaforseti, sór embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni kl. 14.38, tveim klukkustundum eftir lát forsetans með eiginkonu sína, Lady Bird, og ekkju forsetans, Jackie, sér við hlið. Að því loknu var haldið með lík Kennedys til Washington. Sama dag var Lee Harvey Oswald handtekinn vegna morðsins. Hann var myrtur tveim dögum síðar af næturklúbbseigandanum Jack Ruby, er flytja átti hann milli borgarfangelsis og sýslufangelsis í Dallas. 29. nóvember 1963 skipaði Johnson forseti sérstaka nefnd undir forsæti Earl Warren forseta hæstaréttar, til að rannsaka morðið á Kennedy. Bar nefndin nafn Warrens. Tæpu ári síðar, í september 1964, skilar nefndin skýrslu sinni. Þar kemur fram niðurstaða hennar að Oswald hafi verið einn að verki.

Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera þessa mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli.

Er fátt meira viðeigandi fyrir áhugamenn um þetta valdamesta embætti stjórnmálaheimsins, forsetaembættið í Bandaríkjunum, en að kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum. Skylduáhorf fyrir alla unnendur stjórnmálasögu og úrvalskvikmyndagerðar.

Saga dagsins
1956 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Hermanns Jónassonar tekur við völdum - hún sat í rúm 2 ár.
1959 Nikita Khrushchev Sovétleiðtogi og Richard Nixon varaforseti Bandaríkjanna, rífast opinberlega á amerískri sýningu í Moskvu - rifrildið gengur undir nafninu The Kitchen Debate og varð mjög frægt.
1967 Charles De Gaulle forseti Frakklands, ergir með áberandi hætti kanadísk stjórnvöld í heimsókn sinni til Kanada með stuðningsyfirlýsingu við frjálst Québec með orðum sínum: Vive le Québec libre!.
1980 Gamanleikarinn Peter Sellers deyr í London, 54 ára að aldri - Sellers var án vafa einn af helstu gamanleikurum 20. aldarinnar og varð víðfrægur um allan heim fyrir leik sinn í fjölda gamanmynda.
1987 Jeffrey Archer lávarður, vinnur sigur í meiðyrðamáli fyrir dómstólum gegn slúðurblaði - málið var síðar tekið upp þegar ljóst var að hann hafði framið meinsæri og logið fyrir rétti og hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm árið 1999 sem markaði lok stjórnmálaferils hans. Hann var látinn laus 2003.

Snjallyrðið
Tíminn líður en minningar lifa
í hjarta eru lífsins gleði og tár
allar lífsins vonir í huganum lifa
þó fenni í sporin ávallt koma ný ár.

Með allar lífsins vonir héldum saman
í gegnum alla hina skipulögðu lífsgöngu.
Markmiðin breyttust en minningar lifðu,
myndirnar varðveitast í gegnum ævigöngu.

Eignast vildi ég ljóma og gleði í hjarta og sál
draumana mína eignast ég vildi með þér,
lífið breyttist snöggt og alltof fljótt kól hjartabál
það fennir í sporin en mynd þinna minninga geymi enn.
Stefán Friðrik Stefánsson (Myndir minninganna)