Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 ágúst 2005

Punktar dagsins
Ráðhúsið í Reykjavík

Samþykkt var á fjölmennum flokksfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík í gærkvöldi að flokkurinn myndi bjóða fram á eigin vegum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, þann 27. maí nk. Þessi ákvörðun markar söguleg þáttaskil, enda slítur flokkurinn með þessu samstarfi sínu við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn í kosningabandalagi R-listans. Með þessu blasir endanlega við að R-listinn heyri sögunni til. Eftir mörg högg í gegnum tíðina og margar veltur á langri leið blasa loks við endalok R-listans og um leið nýtt landslag í borgarmálunum í komandi kosningum. Það er nú ljóst að endalok þessa kosningabandalags andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum verður ekki umflúið. Deilt var harkalega á fundinum um þessi mál. Fyrir fundinum lágu bæði tillaga stjórnar flokksfélags VG í borginni um að slíta samstarfinu og bjóða fram á eigin vegum og eins önnur frá Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa, um að halda áfram samstarfinu innan R-listans. Voru fluttar þar margar ræður og ef marka má fréttir varð að slíta umræðum á ellefta tímanum þegar að margir biðu enn eftir að fá að tala og var kurr í sumum vegna þess. Gengið var til atkvæða og fór svo að fyrrnefnda tillagan hlaut 68 atkvæði en sú síðarnefnda 28 atkvæði. Vilji fundarmanna var því mjög skýr og heldur VG nú á eigin vegum inn í kosningabaráttuna.

Mikil þáttaskil fylgja þessum endalokum R-listasamstarfsins. R-listinn bauð fram þrisvar sinnum: í kosningunum 1994, 1998 og 2002 og var í upphafi stofnað sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Við uppstokkun á vinstrivængnum komu Samfylking og VG inn auk Framsóknarflokks. Sýnt þótti seinustu daga hvert stefndi vegna R-listans. Slitnað hafði uppúr samningaviðræðum flokkanna á fimmtudagskvöldið og þótti ljóst að VG myndi á félagsfundinum stíga skrefið til fulls og gefa samstarfið upp á bátinn. Þetta hafði heyrst á tali vinstri grænna í borginni og ekki síður samstarfsmanna þeirra. Þrátt fyrir að tillagan um að binda enda á þátttöku VG í R-listanum væri samþykkt með afgerandi mun voru mikil átök á milli borgarfulltrúa flokksins um stöðu mála. Árni Þór Sigurðsson leiðtogi flokksins og fyrrum forseti borgarstjórnar, studdi með afgerandi hætti tillöguna um sérframboð flokksins en eins og fyrr segir lagði Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, fram tillögu um áframhaldandi samstarf og varð undir í kosningunni með nokkrum mun. Verður reyndar fróðlegt í kjölfar þessa að sjá hvað Björk muni gera, en hún hefur verið stóryrt seinustu daga vegna stöðu mála.

Það hafði blasað við nær allt kjörtímabilið að R-listinn ætti sér ekki lífsgrundvöll nema út kjörtímabilið. Í kjölfar ákvörðunar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að gefa kost á sér í þingframboð fyrir Samfylkinguna í Reykjavík í desember 2002 nötraði R-listinn og þar fór allt í háaloft. Þá bjargaði Ingibjörg Sólrún listanum með því að segja af sér embætti. Ingibjörg hafði verið sameiginlegt leiðtogaefni allra flokkanna í kosningunum þrennum og hafði lofað fyrir kosningarnar 2002 að fara ekki í þingframboð árið 2003. Það loforð sveik hún sem leiddi til sífellt erfiðari vinnuanda innan R-listans. Í kjölfarið varð Þórólfur Árnason borgarstjóri, en VG var alla tíð á móti honum en samþykkti hann með semingi við afsögn Ingibjargar Sólrúnar til að halda völdum sínum og áhrifum. Flokkurinn notaði svo tækifærið til að losa sig við Þórólf í nóvember 2004 er umræðan um skýrslu Samkeppnisstofnunar um samráð olíufélaganna kom fram, sem benti til þátttöku Þórólfs í því. Neyddist hann til að segja af sér vegna andstöðu VG. Leiddu þessi tvennu borgarstjóraskipti til erfiðleika innan R-listans en hann þraukaði í gegnum það og náði saman um að redda stöðunni fyrir horn. VG var þó orðið langþreytt á stöðunni innan R-listans og slítur samstarfinu nú með hvelli.

Nú þegar að endalok R-listans eru orðinn veruleiki vaknar óneitanlega sú spurning hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur. Enn eru níu mánuðir til kosninga. Það verður óneitanlega merkilegt að fylgjast með því hvernig flokkunum þremur gengur að vinna saman sem ein heild eftir þessi sögulegu þáttaskil. Það er þó víst að kosningabaráttan í Reykjavík er hafin með þessari ákvörðun félagsfundar vinstri grænna. Framundan eru nú flokkaframboð flokkanna sem hafa myndað R-listann og má búast við átökum þeirra á milli, jafnt um atkvæðin og svo það hverjum það hafi verið að kenna að R-listinn, sem stjórnað hefur borginni í rúman áratug, leið undir lok þrátt fyrir að vera meirihlutaaflið í borgarmálunum. Það gæti orðið mjög hart í ári meðal rústanna innan R-listans ef fram heldur sem horfir. Þegar að harðvítug kosningabarátta er hafin meðal flokkanna þriggja og keppni um atkvæðin hefst getur allt gerst. Það má því alveg búast við lamaðri pólitískri forystu næstu mánuðina. Hún hefur reyndar ekki verið beysin seinustu mánuðina og árin, eða eftir öll borgarstjóraskiptin, en það stefnir skiljanlega í mun meiri átök. Framundan er allavega mjög öflug kosningabarátta í höfuðborginni.

Vigdís Finnbogadóttir forseti

Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, flutti hátíðarávarpið að þessu sinni á Hólahátíð sem haldin var að Hólum í Hjaltadal sl. sunnudag. Árlega er forystumanni á vettvangi þjóðmála boðið þangað til að ávarpa hátíðina og hefur ræðan oft verið áberandi í fjölmiðlum í kjölfarið. Í fyrra flutti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, góða ræðu þar sem bar heitið: "Hnigna tekr heims magn?" og ég birti sem gestapistil á vef mínum á sínum tíma. Í ræðu sinni að þessu sinni varð Vigdísi tíðrætt um málrækt. Sagði hún að aukinni fátækt í íslensku máli mætti einna helst líkja við landeyðingu og landrof. Kom fram það mat hennar að hún hefði ekki áhyggjur af tökuorðum í íslensku máli en hefði sífellt meiri áhyggjur af auknum áhrifum ensks máls í setningaskipan og notkun óþarfa aukasagna í töluðu máli. Er þetta þörf ábending hjá Vigdísi forseta. Það blasir við að staða mála er orðin nokkuð áhyggjuefni og umhugsunarvert hvert stefnir hvað varðar okkar fallega og einstaka tungumál. Áhrif utanaðkomandi þátta er farið að setja mark sitt æ meir á daglegt tal yngri kynslóða. Þessu taka allir eftir sem eiga einhver samskipti við ungt fólk. Það er mikilvægt að fólk sé virkt í að verja íslenskt mál - það er svo mikilvægt grunnstoðum tilveru okkar að íslenskt mál haldi velli.

Vigdís forseti hefur alla tíð verið öflugur baráttumaður fyrir málefnum sem hafa sameinað þjóðina. Hjartans mál Vigdísar á 16 ára forsetaferli hennar voru náttúruvernd og málvernd. Í þessu tvennu gátu allir landsmenn sameinast. Hún valdi sér baráttumál sem sameinuðu þjóðina. Barátta hennar fyrir verndun menningararfsins og íslenskrar tungu, sem er heilagast af öllu sem við eigum, hefur skipt sköpum. Man ég fyrst eftir Vigdísi er hún kom hingað til Akureyrar í opinbera heimsókn árið 1981. Hún vakti þá (sem ávallt síðar) í mínum huga mikla athygli fyrir það hversu alþýðleg og blátt áfram hún var í sínum verkum. Þá sem síðar á forsetaferlinum gróðursetti hún tré og minnti með því á það að hvert tré skiptir máli og að náttúran skiptir máli. Forysta hennar í þeim efnum hefur sérstaklega verið farsæl og einnig eitt jákvæðasta baráttumál hennar að hvert sem hún fór um landið gróðursetti hún alltaf tvö tré: eitt fyrir strákana og eitt fyrir stelpurnar eins og hún sagði jafnan: tvö tré fyrir framtíðina. Mikilvægasta barátta Vigdísar á opinberum vettvangi er þó forysta hennar í málefnum íslensks máls. Alla tíð hefur hún verið þar áberandi, alltaf virk í að tjá mikilvæga punkta til hins góða hvað varðar eflingu málsins.

Vigdís kunni á forsetaferli sínum þá list að skilja að forsetaembættið og dægurþras stjórnmálanna. Hún var yfir dægurþrasið hafin og náði að vera traustverðugur fulltrúi allra. Það er umfram allt lykillinn að því hversu farsæl forsetatíð hennar og verk almennt í þágu allra landsmanna eru, í huga allra landsmanna, bæði þegar litið er yfir forsetaferilinn og ekki síður þegar tjáð sig er um persónu hennar. Verk hennar og forysta í embættinu sameinuðu þjóðina að baki heilsteyptri konu. Er Vigdís varð 75 ára fyrr á þessu ári ritaði ég pistil um hana sem ég bendi á hérmeð fyrir lesendur vefsins.

Guðmundur Árni StefánssonÁsgeir FriðgeirssonValdimar Leó Friðriksson

Eins og kunnugt er mun Guðmundur Árni Stefánsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og fyrsti varaforseti Alþingis, láta af þingmennsku þann 1. september nk. Sama dag tekur hann til starfa í utanríkisráðuneytinu við undirbúning þess að hann verður sendiherra í Svíþjóð frá og með 1. nóvember nk. Blasti því við að fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, Ásgeir Friðgeirsson ráðgjafi, tæki við þingmennsku, en Rannveig Guðmundsdóttir tekur að nýju við leiðtogahlutverkinu sem hún tapaði til Guðmundar Árna í prófkjöri árið 2002. Í gær tilkynnti svo Ásgeir að hann afþakkaði þingmennskuna og heldur í starf sitt sem almannatengslaráðgjafi Björgólfsfeðga og fleiri aðila. Óneitanlega vaknar spurning: er þarna kannski komið skýrt dæmi um að þingmennskan sé jafnvel ekki heillandi starf og annað virki meira heillandi? Það hlýtur að vera í huga Ásgeirs fyrst hann afþakkar þingsæti sem hann þó barðist fyrir í prófkjöri. Þetta vekur spurningar um hvort áhugi fólks á pólitískum störfum hafi minnkað. Að mínu mati er svo ekki, en það er vissulega mjög fróðlegt þegar fólk hafnar tryggu þingsæti og áhrifum sem því fylgir í pólitík. Í stað Ásgeirs, sem þarf að segja sig að fullu af listanum, tekur sæti á þingi Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri í Mosfellsbæ. Hann hefur áður tekið sæti á þingi, t.d. í veikindaforföllum Katrínar Júlíusdóttur.

Taxi Driver

Kom seint heim í gærkvöldi eftir nokkra fundi. Það var kærkomið að tylla sér í hægindastólinn góða og horfa á góða úrvalsmynd. Ákvað ég að horfa á meistaraverkið Taxi Driver - sem er ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt meistarans Martin Scorsese á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Hér segir frá leigubílstjóranum Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að bland geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy, en þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára gömlu vændiskonu, brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður fullsaddur á öllum ósómanum í borginni. Robert De Niro er hreinlega stórfenglegur í hlutverki Travis og vinnur þar stærsta og mikilvægasta leiksigur ferils síns. Senuþjófur myndarinnar er þó Jodie Foster sem fer þarna á kostum í sínu fyrsta alvöru kvikmyndahlutverki. Semsagt óviðjafnleg tímamótamynd sem er skemmtilega flókin á allan hátt. Rúsínan í pylsuendanum er svo tónlist meistara Bernard Herrmann. Sem ávallt fyrr er saxófónstefið fræga ómótstæðilegt. Það varð hans seinasta verk á löngum og glæsilegum ferli. Ógleymanlegt meistaraverk - sjáið það!

Margaret Thatcher

Á föstudaginn fékk ég veglega bókasendingu í póstinum - pantaði ég nokkrar bækur á Amazon, þeim frábæra vef. Var mjög ánægjulegt að fá pakkann. Um helgina leit ég á bækurnar og gaf mér góðan tíma í þær í rólegheitum. Fyrir nokkrum árum keypti ég ævisögu Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sem er í tveim bindum. Það er mögnuð lesning. Nú keypti ég mér bókina The Collected Speeches of Margaret Thatcher - mjög flott ræðusafn frú Thatcher. Það er mjög áhugavert að kynna sér góðar ræður hennar. Hún var einstakur stjórnmálamaður. Er maður kynnir sér feril hennar og verk á valdastóli, bæði sem forsætisráðherra í 11 ár og leiðtoga Íhaldsflokksins í 15 ár, sér maður öfluga konu á valdastóli sem markaði skref í söguna og tókst að breyta landslagi stjórnmálanna heima fyrir. Auðvitað breytti hún Íhaldsflokknum og grunni hans, en í raun ekki síður Verkamannaflokknum. Enda geta allir sem þekkja til breskra stjórnmála tekið undir það mat mitt að Verkamannaflokkurinn á níunda áratugnum og sá sem hefur stjórnað Bretlandi nú í tæpan áratug eiga nær ekkert sameiginlegt. Frú Thatcher breytti grunni stjórnmálanna - enda segja margir gárungar að Blair sé eins og pólitískur fóstursonur hennar.

Saga dagsins
1920 Sveinn Björnsson, 39 ára forstjóri Brunabótafélags Íslands, skipaður fyrsti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn. Sveinn varð fyrsti og eini ríkisstjóri Íslands árið 1941 og var svo kjörinn fyrsti forseti Íslands af Alþingi á lýðveldishátiðinni á Þingvöllum, hinn 17. júní 1944. Hann sat á forsetastóli allt til dauðadags, 25. janúar 1952. Sveinn mótaði því skiljanlega öðrum fremur hið íslenska forsetaembætti.
1941 Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, kom til Reykjavíkur í eins dags heimsókn. Hann var þá að koma af fundi með Franklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, á herskipi undan ströndum Nýfundnalands. Heimsókn Churchill vakti mikla athygli. Þetta var eina skiptið sem hann kom hingað.
1963 Guðrún Bjarnadóttir, tvítug stelpa úr Njarðvík, kjörin ungfrú alheimur á Long Beach í Flórída.
1977 Bandaríski rokksöngvarinn Elvis Presley bráðkvaddur á heimili sínu í Memphis í Tennessee, 42 ára að aldri. Presley varð einn vinsælasti söngvarinn á 20. öld og markaði þáttaskil með einstökum söngtakti sínum. Áhrifamikil rokktónlist Presley hafði allmikil áhrif á tónlistarstefnu fjölda kynslóða.
1994 GSM-farsímakerfi Landssímans formlega tekið í notkun - í upphafi var símakerfið gert fyrir 4000 notendur en í árslok 2004 eru þeir orðnir 220.000. Nú eiga rúmlega 3/4 hlutar landsmanna farsíma.

Snjallyrðið
Þó flogin sé hún framhjá óskastundin,
og frelsið væri æðsta krafa mín,
er ennþá gott að gista helgilundinn,
og ganga þar í sporin þín.

Þá finn ég aftur fegurð þeirra daga,
sem fyrr en varði urðu stjörnukvöld,
og gagnstætt öllum greinum dóms og laga
slá gleymsku yfir hálfa öld.

Þá veröld ég í vitund minni geymi,
sem var mér kærust, bæði fyrr og nú,
og í þeim mikla, undraverða heimi
er engin kona - nema þú.

Svo máttug var hún, eina óskastundin,
að ennþá birtist draumaveröld mín,
er maður gistir helgilundinn
og gengur einn í sporin þín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Eftirmæli)